Lambarifjur - frábær helgarmatur

Ég skil ekki hvernig mér tekst alltaf  að stökkva inn í matvöruverslun eftir EINUM hlut en koma út með jafnvel tvo fulla poka og eyða að minnsta kosti 7000 kalli.

lambarifjur

Mig var búið að dreyma lengi um lambarifjur.   Ég lét verða að því að elda þær um daginn, rosalega gott og svo er þetta sniðugt í matarboðið því þær líta svo grand og fallega út á diskunum.

Það góða við þetta kjöt að það passar við svo margt, kaldar jógúrtsósur, heitar bragðmiklar pipar eða rauðvínssósur, brúnaðar kartöflur eða bakaðar,stappaðar eða steiktar.

lambarifjur

Ég bar mitt fram með ofnbökuðum kartöflubátum og sveppasósu.  Næst myndi ég eflaust hafa kartöflumós með avacado bitum út í og kalda klettasalatssósu með slatta af hvítlauk.

Svo þarf að marinera kjötið, í þetta sinn var ég undir grískum áhrifum, með ólífuolíu og lamba rub frá NOMU, og bætti við nokkrum hvítlauksrifum sem ég setti í gegnum hvítlaukspressuna og ferskt rósmarín.

Ef þið eigið ekki Lamb rub frá NOMU þá má bæta við þetta smá Cumin (1/2 tsk eða svo, ekki of mikið því það er svolítið afgerandi) Oregano pg Thyme.  Endilega notið góða ólífuolíu.

Það er hægt, þó ég hafi ekki prófað það að blanda við þetta smá brauðmylsnu.

Kjötið er eldað í ofni á 180°c í 10 mín eða þar til þið eruð ánægð með það, sumir vilja meira eldað aðrir minna.

Svo er málið að bera fram með þessu góða rauðvín, ég mæli með Beronia, Rioja, Reserva, 2005.

 

Góða helgi og verið nú dugleg að borða matinn ykkar.


Þá fór hænan að verpa...

Þær eru ofdekraðar þessar hænur.  Ég veit að þeim finnst hrísgrjón góð , þannig að ég gaf þeim sushi um daginn.  Í staðin fyrir að  borða sjálf endana á sushi rúllunum mínum þá gaf ég hænunum sem borðuðu það með bestu lyst. 

Þegar ég spurði hænsnabóndann hvernig hænunum hafi þótt sushi-ið mitt þá sagðist hún hafa tínt það upp úr plastpokanum með hænsnamatnum og borðað það sjálf.  (Ég trúði henni eitt augnablik, þar til ég mundi eftir öllum hinum síður girnilegri matarafgöngunum sem voru í pokunum)

Gamla hænan fór að verpa.  Þannig að þá er hægt að búa til eggja sushi handa henni eins og ég bloggaði um hér um daginn.

egg

 

 egg

 

Og svo ég vaði nú úr einu í annað....

Eitt að því sem heillar mig einnig við te eru umbúðirnar, ég er umbúðasökker. Svo datt ég niður á vefsíðu sem selur te í svo ótrúlega fallegum umbúðum að mig langar svo ííííííííí. 

Ég er mikill aðdáandi japanskar myndlistar, sérstaklega gamlar tréristur.  Þannig að þessar umbúðir öskra á mig að kaupa sig.

www.postcardteas.com/
 


Quesadillas með baunum og hýðishrísgrjónum og fleiru góðu

Ég átti ferskt kóríander, nóg af því og langaði að gera eitthvað rosalega gott.  En þegar maður er með valavíða, veit eeeeeekkert hvað manni langar í og er svangur í ofanálag þá snýst maður í hringi við að taka ákvörðun. 

En á endanum ákvað ég að gera quesadillas, eldað miðað við það sem til var.  Þetta var svo akkúrat það sem mig langaði í.  Og ekki skemmdi fyrir að með þessu var drukkið 2005, Muga.

Ég veit að margir vínspekúlantar myndu ekki bera fram Muga með quesadillas, og ekki ég heldur í sjálfu sér en þetta var eina flaskan sem til var fyrir utan nokkra gullmola sem bíða betri tíma svo þetta var bara gott og gaman.

quesadillas

Quesadillas með baunum og hýðishrísgrjónum og fleiru góðu (fyrir 2)

  • 2 Tortilla kökur
  • 1 gulrót, fínt skorin í skífur
  • 1 paprika, gul, skorin í strimla
  • 1/2 rauðlaukur skorinn í skífur
  • Hvítlaukur, 2-3 rif
  • Chile pipar, magn eftir  styrk og smekk
  • Svartar baunir, 1 dós
  • Maís baunir, 1 lítil dós
  • 4-5 msk pizzasósa frá Ede(í dós)
  • Rifinn ostur ( t.d brauðostur eða mossarella)
  • Salt
  • Pipar
  • Olía og smá smjör til að steikja upp úr
  • Lúka af kóríander

Allt steikt á pönnu, baunum og pizzasósu blandað saman. Kóríander bætt út í í lokin.  Mallið smá og fyllið tortilla með gumsinu og rifnum osti og hitið í ofni í nokkrar mínútur.

Borið fram með heimalöguðu salsa:

Afgangur af pizzasósu dósinni er settur í blender með hálfum lauk, nokkrum skífum af niðursoðnum jalapeno, salti, pipar og fersku kóríander.

 sýrður rjómi

Sýrðum rjóma með jalapeno og lime:

Nokkrar jalapeno sneiðar smátt skornar og hrært saman við sýrðan rjóma, ásamt salti og 1-2 tsk af lime safa.

 avacado

Avacado:

Avacado (munið að velja mjúkan avacado, harður avacado er óþroskaður og ekki bragðgóður) stappaður með slatta af salti, smá lime safa og fersku kóríander. 

 

Hýðishrísgrjón: Elduð skv leiðbeiningum á umbúðum.

 


Bingó kúlur og trópí

haust

Það var svo fallegt haustið í Hvalfirðinum, algjör forréttindi að fá að búa þar.  Ég get ekki beðið eftir næsta vori.  Ég er að búa til dagbók yfir allt sem þarf að gera yfir árið, hvenær maður setur niður fræ og grænmeti, tínir jurtir í te, (það er mismundandi hvenær best er að tína t.d garðablóðbergið og birki osfv) hvenær maður fer í berjamó og út á sjó eftir ýsu, kræklingatíminn og haustuppskera.  Það er nóg að gera allt árið.  Og hver árstíð hefur sinn sjarma. 

Næst á dagskrá er að fara að ná sér í krækling.

 

Ég hef borðað svolítið af lambi undafarið og það er sama hvað það hefur verið, súpukjöt, rif eða læri, alltaf er það lungamjúkt og bragðgott. 

Lamb er eitt af því hollara sem maður getur borðað held ég, íslensku lömbin sem éta upp í fjalli eða niðrí fjöru.  Eitthvað svo hrein afurð, og með því betra sem ég fæ.

Lambalærið má elda og rífa svo niður í pítubrauð með grænmeti, fetaosti og grískri jógúrtsósu eða tzatziki.

Ég bjó til mjög góða lambapítu um daginn.  M.a ristaði möndlur, grillaði papriku í ofni og létt smjörsteikti vorlauk. Kryddaði lambið sjálft með karrý dukkah-inu frá Yndisauka.  Borið fram með Tzatziki.

Ég átti Jacob´s pita brauð sem eru ágæt ef maður tekur þau í sundur og dreypir á þau ólífuolíu og sjávarsalti og skellir þeim í panini grill.  Annars finnst mér best að gera sín eigin úr pizzadeigi eða Roti.

lambapíta

Og algjörlega í óspurðum fréttum þá er ég að komast að því að Bingó kúlur og Trópí  er ekki að gera sig saman.....


Finnish?

Þegar ég bjó í Kaupmannahöfn fyrir allmörgum árum þá skellti ég mér út að borða með manninum.  Eftir að hafa setið að snæðingi góða stund vatt sér að okkur þjóninn og spyr mig: "Are you Finnish?"

Finnsk, nei, hélt nú ekki og svara að bragði "No, I´m Icelandic.

Þjónninn bendir á tóman diskinn minn og spyr aftur með sínum danska hreim, " Are you finished?"

...vandræðalegt!

doglife

Þessa félaga hitti ég stundum á barnum mínum í köben.

 

Remúlaðe kemur í hugann þegar ég rifja upp dagana í köben, ekki það að ég hafi borðað mikið af því en það er ómissandi á smörrebrauðið.  Þetta sem maður kaupir út í búð er kannski ekki það hollasta í heimi og því er málið að gera sitt eigið.

Remoulade

  • 3 Gulrætur
  • 50 g súrar gúrkur
  • 1/2 búnt steinselja
  • 2 1/2 dl sýrður rjómi, 18 %
  • 2 msk majones
  • 1-2 tsk karrý
  • 1-2 msk kapers
  • salt og pipar eftir smekk

Blanserið (eða léttsjóðið) gulrætur til að mýkja þær aðeins. Kælið þær. Skerið gúrkurnar smátt, saxið kapers og steinselju.  Blandið svo öllum herlegheitunum saman.

Sumir setja smá Dijon sinnep saman við, jafnvel túrmerik eða estragon, svo má bæta við lauk, sleppa gulrótum, gera sitt eigið mayo, sleppa mayo...um að gera að þreyfa sig áfram, það er ekkert heilagt við þessa uppskrift heldur hanna hana eftir eigin smekk.  Ég hef ekki prófað þetta með ab mjólk eða grískri jógúrt, það gæti kannski virkað til að hafa þetta enn hollara...

 

Þetta væri svo rosa gott með heimalöguðu rúgbrauði og fiskbollum tiiiildæmis.

 

Fiskbollur

  • 500 g fiskur, t.d ýsa
  • 1 laukur
  • 3 msk hveiti
  • 1 egg
  • 1 1/2 dl léttmjólk
  • Salt og pipar eftir smekk

Öllu hrært saman í matvinnsluvél, bollur mótaðar og steiktar upp úr smjöri og olíu á pönnu.


Fiskisagan flýgur

Ég fór á gullfiskaveiðar í Malawi.  Mér hafði verið boðið í mat um kvöldið og að deginum til hitti ég gestgjafa kvöldsins þar sem hann var á leið út á vatn að ná sér í gullfiska, og spurði hvort við vinirnir vildum ekki koma með og hjálpa til við veiðarnar.  Það var ekki spurning.  Þegar á staðinn var kominn stöðvuðum við bátinn og hentum okkur út í vatnið til að hefja veiðar. 

Mikið var um fallega, litla litskrúðuga gullfiska.

Ég hafði fastlega gert ráð fyrir að við værum að fara að veiða í matinn fyrir veislu kvöldsins.  Og þegar ég fór að minnast á hvað þetta væru litlir fiskar, og velta fyrir mér hvernig hugsanlega væri hægt að matreiða þá, þá komst ég að því að við vorum nú bara að veiða í gullfiskabúrið....vandræðalegt!

Ekki fékk ég semsagt gullfisk að borða í matarboðinu,heldur var tekin heil geit og grilluð.  Aðeins fjarri því sem ég hafði átt von á.

Við hittum þessa hressa krakka á ströndinni eftir veiðarnar.

malawi

En talandi um fisk, ég hélt áfram að þróa kartöflukökurnar.  Ég gerði mjög góðar í kvöld þar sem ég bætti við kryddi sem ég keypti um daginn í Krónunni og einu eggi. Það sem ég er að styðjast við í þessari uppskrift er marokkóskur götumatur, kartöflukökur sem kallast Maakouda batata

Kryddið sem ég notaði heitir Durban curry og er frá Cape herbs eins og svo mörg krydd sem ég hef keypt nýlega og líkað vel.

durban curry

 

Nokkurskonar Maakouda batata

  • 500 g kartöflur
  • 2-3 hvítlauksrif
  • 1 vorlaukur
  • Fersk kóríander
  • 1 tsk turmeric
  • Ferskur chile (magn fer eftir styrk piparsins)
  • 1 egg
  • 1/2 - 1 tsk Durban curry frá Cape herbs


Steikti létt á pönnu vorlauk, chile, hvítlauk og turmeric. Setti það svo í skál ásamt soðnu kartöflunum og eggi og stappaði þessu saman ásamt kryddinu og ferskum kóríander. En stappaði fremur gróft því ég vildi hafa kartöflurnar "chunky"

Bjó til bollur sem ég svo steikti létt upp úr smjöri og olífuolíu.

Maakouda batata

 

Maakouda batata

 

Maakouda batata

 


Kartöflur, og nóg af þeim!

Hvaða rugl er það að vera að taka upp kartöflur um miðjan október í blíðskaparveðri og blankalogni, og með blíðskaparveðri þá er ég að tala um á stuttermabolnum í glaða sól.

kartöflubóndi

Uppskeran var góð.  Gullauga, Rauðar og Premium.   Mikið af stórum, en lítið af smælki, því er ég fegin að hafa hent niður restinni af útsæðinu í forláta hól sem er út í garði frekar en að henda því, því þar kom upp fullt af smælki en engir hlunkar.

Kartöflukökur eru næsta mál á dagskrá. Þegar nóg er til af kartöflum þá er um að gera að prófa ólíkar uppskriftir.  Þegar kemur að kartöfluuppskriftum þá er sko af nógu að taka.

Og ég mæli sérlega með að nota kartöflur í indverska grænmetisrétti, sbr þessum hér sem ég gerði um daginn.

En hér er uppskrift af kartöflukökum, og endilega verið dugleg að leika ykkur með krydd, hvort sem er fersk eða þurrkuð.  

 kartöflur

Kartöflukökur

  • 500 g kartöflur
  • 2-3 hvítlauksrif
  • 1/2 vorlaukur
  • Salt
  • Pipar
  • Fersk kóriander
  • 1 tsk turmerik
  • Ferskur chile

 

Sjóðið kartöflur og hvítlauk saman í potti.  Afhýðið svo kartöflurnar og laukinn og stappið saman.  Hrærið saman kóríander, kryddi og smátt skornum chile (munið að smakka styrkleikann á honum til að vita hversu mikið af honum þið viljið nota) .

Mótið í kökur (klatta) og steikið upp úr olíu á pönnu á báðum hliðum.


Sushi - en ekkert hrátt

Ég veit um marga sem borða ekki sushi því þeim finnst ógirnilegt að borða hráan mat, og óléttar konur fá sér ekki sushi því þær eiga ekki að borða hráan mat.  En það má gera sushi sem inniheldur engan hráan mat.  Í rúllurnar mætti nota t.d vorlauk, agúrku og avacado.

Og svo er hægt að gera eggjaköku á hrísgrjónabeði og fyrir þá sem finnst ógirnilegt að borða hráan mat þá má nota reyktan lax í staðin fyrir hráan sem mér finnst einnig mjög gott.

sushi

Eggja sushi

  • Ommiletta
  • Sushi hrísgrjón, soðin samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum
  • Vorlaukur

 

Ommeletta:

  • 4 egg
  • 1msk sykur
  • 1 msk Mirim
  • 1/2 tsk salt
  • 1/2 msk soya sósa

Setjið hráefnið í skál.  Hrærið öllu saman með gaffli þar til það verður létt, en án þess að það fari að freyða.

Hitið olíu á teflon pönnu, ekki mjög stórri pönnu, við viljum hafa ommilettuna 2 cm á þykkt, að minnsta kosti.

Setjið eggjablönduna á pönnu við meðalhita, eldið á báðum hliðum.

Skerið omilletuna í bita, kannski um 2 x 3 cm sneiðar. 

Eftir að hrísgrjónin eru soðin og hafa fengið að kólna, mótið þá úr þeim svipað stóra ferhyrninga og ommilettan er.  Leggið ommilettuna ofan á grjónabeðið og bindið saman með vorlauk sem þið hafið klippt í fremur þunna strimla.

Berið fram með súrsuðu engifer, wasabi og soya sósu.

Og eins og ég hef áður minnst á, þá er rosalega gott að setja mirim út í hrísgrjónin í lok suðu.

sushi

 

Ég nota mikið vorlauk í sushi gerð.  Það er fallegt að skreyta diskana með vorlauk, t.d að skera hann til þannig að hann lítur út eins og gras

vorlaukur

 

vorlaukur

 

Svo er bara að láta hugmyndaflugið leika lausum hala og koma með sitt persónulega "touch" í japanska matargerð.  Það er svo gaman.

Reyktur lax í skál

  • Reyktur lax
  • Vorlaukur
  • Ferskt, rifið engifer
  • Sesam fræ
  • Smátt skorin,kjarnahreinsuð agúrka

Skerið laxinn í smáa munnbita.  Saxið vorlaukin. Skerið niður agúrku Rífið engifer. Blandið saman í skál og stráið um 1 msk af sesamfræum yfir.  Berið fram með súrsuðu engifer, wasabi og soya sósu.

Þennan rétt má svo heimfæra á ýmsa vegu, ef þetta er t.d forréttur  þar sem eitthvað annað en sushi er í aðalrétt þá mætti setja sushi hrísgrjón út í réttinn, eða avacado.

vorlaukur

 

 


Lömb um haust

Þessu dásamlega hausti fylgir svo margt skemmtilegt.  Fyrir utan endalaus myndefni, fallega birtu og yndislegt veður þá fáum við haustuppskeruna, t.d berin, kartöflur og grænmeti og ég tala nú ekki um haustslátrun.

erika

Lítil vinkona var nú ekki alveg sátt við að hlutverk ærinnar væri að bera lömb á hverju ári sem síðar yrðu leidd til slátrunar þegar þau væru orðin stálpuð.   Æ, ég skil hana nú alveg. 

Þegar ég vann við sauðburð eitt vorið þá tengdist ég einu lambinu "vinarböndum" þar sem móðirin hafnaði því og í ofanálag var það með smá kryppu. Hann Kryppi litli var svo sætur. Ég er því ekki mikið að leiða hugann að því hvernig lærið eða framparturinn leit út áður en það fór í sláturhúsið.

 lamb

Hænsnabóndinn slátraði lambinu sínu um daginn og það vildi svo heppilega til að við áttum leið hjá þegar við fundum ilminn af grillinu.  Okkur var þar með boðið  í mat.  Ljúffengt var það!

Húsbóndinn kryddaði sneiðarnar með salti og hvítum pipar.  Ég hef ekki notað hvítan pipar í matargerð, nema í plokkfisk.  Spurning með að finna not fyrir hvítan pipar svolítið meira í matargerð.

 lambakjöt

 

Annars gerði ég rosalega gott lambalæri um daginn,kryddaði það með lamba rub blöndu frá NOMU og  eldaði í ofni um um það bil 1 1/2 klst, tók það út, vafði í þrefaldan álpappír og lopapeysu,keyrði með það í bæinn á um klukkutíma og þegar í hús var komið og lærið borið á borð var það lungamjúkt og fullkomið í alla staði.  Og meir að segja volgt og gott.   Lambið fór sem sagt aftur í ullina, sem sannarlega hélt á því hita.

 

 


Sítrónur og lime í frystinn

Mér finnst ég alltaf vera að henda mygluðum sítrónum úr ísskápnum.  Þannig að ég tók á það ráð að skera þær í sneiðar og setja í frysti, upplagt í svaladrykkinn.  Þetta má líka gera með lime.

sítrónur

www.soffia.net


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband