Færsluflokkur: Matur og drykkur
15.2.2012 | 20:19
Mig laaangar í eitthvað...
Stundum er maður bara ekki smurður. Ég á rauðrófur, epli og avacado. Og ég get ekki gert upp við mig hvort það sé eitthvað sem væri að dansa eða ekki.
Svo ég er að vandræðast með hvort ég eigi að elda eitthvað með þessum rauðbeðum í kvöld eða bara sleppa því.
Voðalega getur maður verið andlaus stundum. GEISP. Og núna langar mig bara allt í einu í pizzu, ekki að ég nenni að fara út á þá eldamennsku samt eitthvað frekar og ekki panta ég pizzu, hef ekki gert það í mörg ár.
Það verður fróðlegt að sjá hvar eldamennska kvöldsins endar. Ég ætla að standa upp og láta vaða á eitthvað. Ég er reyndar búin að opna ísskápinn svona fimm sinnum með það í huga að fara að elda eitthvað. Eitt GEISP áður og nú stend ég upp. Og nú er ég staðin upp...
To Be Continue...
Þetta var nú ekki svooo merkilegt sem ég endaði á að fá mér, enda seint hægt að segja að það hafi rokið úr rassinum á mér þegar ég stóð upp til að malla eitthvað.
Úr varð að ég setti beyglu í ofninn. Nýbakaða beyglu sem ég gerði fyrr í dag. Ég smurði hana með þeyttum rjómaostinum, reif yfir hana ost og lagði nokkra jalapenos sneiðar ofan á ostinn. Með þessu var vel sterk heimagerð salassósa. Mig svíður enn í varirnar. I LOVE IT.
Beygla með jalapeno og rjómaosti
- Beygla
- Rjómaostur (eða þeyttur rjómaostur)
- Rifinn ostur
- Jalapenosneiðar niðursoðinn i krukku
Smyrjið beyglu með rjómaosti. Dreifið vel úr rifnum osti yfir. Leggið jalapeno sneiðar ofan á ostinn. Ef þið viljið ekki hafa þetta os sterkt þá má skera um eina jalapeno sneið fyrir hverja beyglu smátt og blanda við rjómaostinn áður en honum er smurt á beygluna.
Setjið í ofn á grill þar til osturinn bráðnar.
"Þeyttur" rjómaostur en þó ekki þreyttur
- Rjómaostur, ein lítil askja
- 3 msk mjólk
Hrærið saman með töfrasprota.
Ég er líka að velta því fyrir mér að taka smá heimagerðan berjasorbet úr frysti og hræra við ostinn og bera það fram með amerískum pönnukökum.
Matur og drykkur | Breytt 17.2.2012 kl. 21:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.2.2012 | 10:33
Granóla bar - sem ekki þarf að baka
Ég er ein af þeim sem hafa hringsólað um netið í leit að góðri og einfaldri uppskrift að Granóla bar.
Ég datt niður á ágætis uppskrift um daginn, hún var einföld og grunnurinn góður þannig að þá er hægt að leika sér með hana með því að nota mismunandi hnetur, granóla og þurrkaða ávexti.
Aðalatriðið hjá mér var að finna eitthvað sem helt þessu saman. Þetta er svolítið sæt uppskrift og þess vegna mæli ég með því að þið passið ykkur á að nota granóla sem hefur ekki verið sættað með t.d hunangi.
Granóla bar
- 4 msk smjör
- 1/4 bolli púðursykur (ca 0,6 dl)
- 1/4 bolli hunang
- 2 bollar granóla
- 1 bolli hnetur, fræ og þurrkaðir ávextir
(Það er líka hægt að setja 1/2 bolla af fræjum og 1 bolla af Rice Krispies ef ofurhollustan er ekki í fyrirrúmi, þannig var það i uppskriftinni sem ég fann. Og margar uppskriftir innihalda súkkulaði bita)
Bræðið saman smjör og hunang, bætið við sykri og sjóðið í 2 mínútur.
Bætið granola og öllu öðru í pottinn. Hrærið vel saman með sleif.
Setjið smjörpappír á fat. Dreifið úr granóla blöndunni á fatið þannig að það sé um einn og hálfur cm á þykkt.
Kælið í smá stund eða þar til þetta helst vel saman.
Skerið í hæfilega bita eftir geðþótta ( ætli ég hafi ekki haft þá aðeins styttri en Snickers stykki) og pakkið þeim inn í smjörpappír eða plast og geymið í loftþéttum umbúðum.
Ekki mjög hollar Muffins með bláberjum
- 500 ml (2 bollar) hveiti
- 1/2 bolli sykur
- 1 msk lyftiduft
- 1/2 tsk salt
- 250 ml mjólk
- 1/4 bolli bráðið smjör
- 1 egg
- 2 lúkur bláber
Öllu hrært lauslega saman með sleif. Ekki ofhræra deigið, þá verða þær víst seigar. Mínar urðu mjög flöffí og fínar með því að hræra í því með gaffli. Bakað í ofni í 20 - 30 mín við 200°c.
Aðeins hollari muffins með bláberjum
- 250 g spelthveiti, fínt
- 1/4 tsk salt
- 1 tsk matarsódi
- 1/2 tsk lyftiduft
- 200 - 250 ml mjólk eða súrmjólk
- 1 egg
- 80 ml ólífuolía
- 80 ml hunang
- 150 g músli
- 2 lúkur bláber
Og sama aðferð:
Öllu hrært lauslega saman með sleif. Ekki ofhræra deigið, þá verða þær víst seigar. Bakað í ofni í 20 - 30 mín við 200°c.
8.2.2012 | 11:08
Heimagerð jarðaberjamjólk - jarðaberjasíróp
Eitt af því sem hefur dottið út af innkaupalistanum hjá mér er kókómjólk. En það er ekki þar með sagt að ég ætli að hætta að drekka kókómjólk, ég ætla bara að búa hana til sjálf.
Þegar ég var að googla "homemade chockolate milk" þá datt ég niður á jarðaberjasýróp til að gera jarðaberjamjólk.
Þar sem ég átti jarðaber í frysti og uppskriftin einföld réðst ég í verkið. Og hún sló í gegn.
Það er svo hægt að nota sýrópið í fleira en mjólk, og um að gera að nota jarðaberin sem eru sigtuð frá t.d ofan á ís, pönnukökur eða skyr eða það sem ykkur dettur í hug. Þau eru bara sælgæti.
Jarðaberjasíróp
- 1 bolli (2.4 dl) frosin jarðaber
- 1/2 bolli sykur
- 1/2 bolli vatn
- 1/4 tsk vanilla (má sleppa)
Sjóðið allt ofantalið í potti í 10 mínútur.
Sigtið jarðaberin frá.
Hellið sírópinu í lokað ílát ef þið viljið geyma það inn í ísskáp.
Jarðaberjamjólk
- Jarðaberjasíróp
- Mjólk
Það fer eftir smekk hversu sæta og bragðmikla þið viljið hafa mjólkina. Prófið ykkur áfram. Í eitt lítið glas notaði ég um 2-3 msk af sírópinu.
5.2.2012 | 17:23
Girnilegt gelatín
Mig langaði að bæta við í framhaldi af síðasta röfli þessu hér, en því fylgir mynd sem mig langar ekki að pósta með neinni uppskrift, gæti haft áhrif á matarlystina..
Það er sem sagt annað sem ég er hætt að kaupa og það er nammi, aðallega af því að ég hef ekki hugmynd um framleiðsluferlið, en ég sá þessa mynd í tengslum við gelatín og Haribo nammi hjá einni á facebook, en veit því miður ekki hvaða grein fylgir, þarf að komast að því.
Þetta finnst mér ekki girnilegt, og er ástæða þess að ég borða helst ekki unna matvöru því maður hefur ekki hugmynd um hvernig að henni er staðið. Bless bless nammi :) En það er svo sem alveg komin tími á það, nema kannski fair trade 70 % súkkulaði, það hlýtur að vera í lagi?
4.2.2012 | 12:13
Miðja alheimisins - opnun í dag
Á hverju ári síðan 2004 hef ég safnað saman öllum andlitum sem ég hef tekið mynd af það árið.
Þessum andlitum raða ég í kringum mynd af sjálfri mér eftir tengslum.
Þannig er verkið breytilegt frá ári til árs. Ný andlit bætast við og önnur hverfa allt eftir því hverja ég hef hitt og hverja ég hef myndað.
CENTRE OF THE UNIVERSE 2010
Miðja Alheimsins 2011 (Centre of the Universe) samanstendur af öllum þeim andlitum sem ég hef tekið mynd af árið 2011.
Þetta er eini sýningardagurinn.
Ég var að rekast á þessa grein þar sem spurning sé hvort Agave sýróp sé hollara en sykur.
Það er búið að vera sprenging í "hollustu" uppskriftum undanfarið og mér leið eins og ég væri að eitra fyrir fólki í síðasta barnaafmæli þegar ég var að baka því ég var ekki með sykurlausar döðlukökur og agavespeltmuffins.
Ég hef ekki enn farið þann veg að nota Agave sýróp, kókósolíu (sem ég sá á 1800 kr litla dollu í búð) eða vínsteinslyftiduft (ekki með glútenofnæmi). Ég er bara svo lítill næringarfræðingur en mig langar gjarnan að vita meira. Þangað til læt ég almenna skynsemi ráða sem og besta ráðið í hollustunni sem ég þekki:
Að borða góðan mat í góðum félagskap í rólegheitum og helst með einu rauðvínsglasi!
Ég nota smjör, rjóma og maple síróp. Eina sem ég nota mikið og veit að er ekki það hollasta er hvítt hveiti. Næringarsnauður, ofunninn andskt..fær sinn hvíta lit af bleikingarefnum. Á maður að segja bless bless við hvíta hveitið?
Ég nota mjög mikið af íslensku byggi og heilhveiti. Ég hef ekki almennilega kynnt mér hvort spelt sé eitthvað mikið hollara en annað og nota það ekki oft, en kemur fyrir því mér finnst það gott. Er t.d fínt spelt eitthvað unnið eða hvíttað?
Ég er alveg viss um að hnetur og fræ séu ekki af hinu illa (nema þú sést með hnetuofnæmi...) og ég nota það ósspart. Mér finnst mjög sniðugt að nýta sér hnetur í mat með því að mauka þær í "paste". Möndlumjólk er líka sniðug út í smoothie.
En nú er ég bara að röfla jafnóðum og ég skrifa, en ég jú hugsa mikið um það sem ofan í mig fer og versla ekki pakkamat, sjaldan unna vöru og aldrei frosið drasl.
Mér finnst pulsur ógirnilegar, en þegar ég fæ þær innbakaðar í brauð þá ræðst ég á þær eins og gráðugt svín.
En í allri umræðu um hollt og óhollt, hvítt hveiti og sykur þá bakaði ég þetta kanilsykurbrauð og það var svo mjúkt og gott. Þetta er í sjálfu sér kanilsnúðadeig en framsetningin sló í gegn.
Til að réttlæta þetta allt þá er kanill rosa hollur segja þeir.
Í staðin fyrir kanilsykur mætti t.d nota osta og krydd fyllingu.
"Pull a part" brauð með kanilsykri
- 2 3/4 bollar hveiti (plús eitthvað meira ef þess þarf)
- 1/4 bolli sykur
- 2 1/4 tsk þurrger
- 1/2 tsk salt
- 4 msk smjör
- 1/3 bolli mjólk
- 1/4 bolli vatn
- 1 tsk vanilludropar
- 2 stór egg
Fyllingin:
- 4 msk smjör
- 1 bolli sykur
- 2 msk kanill
Blandið saman hveiti, sykri, geri og salti í skál. Setjið mjólk og smjör í pott og hitið. Bætið vatninu út í mjólkina og öllu blandað við hveitið ásamt eggjum og vanillu. Ef mjólkurblandan er of heit, leyfið henni að kólna aðeins svo gerið drepist ekki.
Hrærið í hrærivél á lágum hraða þar til deigið er orðið flott.
Látið rísa í klst undir rökum klút.
Fylling:
Bræðið smjör í potti. Setjið til hliðar.
Blandið saman sykri og kanil. Hristið vel saman.
Rúllið út deiginu í ca ofnskúffustærð (30 x 50 cm ferning). Penslið það með brædda smjörinu og stráið kanilsykri yfir. Ykkur finnst þetta kannski mikill sykur, en þetta er jú sætabrauð. Ekki spara sykurinn en skiljið smá eftir til að strá yfir brauðið þegar það er komið í formið. Skerið það í 6 rendur.
Staflið þeim ofan á hvor aðra og skerið í aðra 6 jafna parta.
Raðið þeim í form, ég notaði álform sem ég klæddi að innan með smjörpappír. Stráið smá kanilsykri yfir brauðið í forminu.
Bakið við 180°c í 25-35 mín.
Leyfið brauðinu að kólna í 20 mín eða svo áður en þið ráðist á það.
31.1.2012 | 21:15
Rice Krispes kökur með mars og 70 % súkkulaði
Mér finnst þessar þessar Rice Krispies kökur mjög góðar, ekki það hollasta sem maður fær sér en allt er gott í hófi.
Þetta er einfalt og hægt að gera þær með fyrirvara og geyma í ísskáp þannig að þær eru upplagðar í barnaafmæli þegar margt annað þarf að gera samdægurs.
Rice Krispies kökur
- 6 Mars bar
- 150 g smjör
- 150 g rice Krispies
- 240 g 70 % súkkulaði eða mjólkursúkkulaði
Bræðið saman Mars stykkin og smjörið við lágan hita. Þetta tekur smá stund. Blandið Rice Krispies við, varlega svo það brotni ekki.
Leggið Rice Krispies blönduna í ofnskúffu eða fat. (Ætli þetta þeki ekki um 1/3 af ofnskúffu miðað við 2 cm þykkt)
Bræðið súkkulaði og hellið yfir Rice Krispies-ið.
Geymið í ísskáp í smá stund til að kæla kökuna.
Skerið í hæfilega bita.
Ef þetta er hugsað fyrir krakka þá er eflaust betra að hafa mjólkursúkkulaði en fyrir þá sem finnst 70% gott þá mæli ég með því.
Þessi kona sýnir vel hvernig hún gerir þetta með myndum.
26.1.2012 | 20:25
Barnaafmæli
Ég var að baka fyrir barnaafmæli, það var bara sykur og sukk í boði.
Á boðstólnum var meðal annars:
- Pig in a blanket
- Súkkulaðikaka
- Rice krispies bitar
Ég veit nú ekki hvort það sé til einhver sniðug íslensk þýðing á pig in a blanket en það er nú ekki flóknara en pulsubitar í pizzadeigi. Þetta er eitthvað sem slær alltaf í gegn. Úr einum 10 stk pulsupakka fást 40 stk. Ég gerði tvöfaldan skammt og það ást upp til agna.
Ég verð að finna afsökun til að gera þetta aftur fljótlega því ég steingleymdi að mynda dýrðina.
Pig in a blanket (40 stk)
- Pizzadeig
- 1 stór pulsupakki (10 stk)
Deig:
- 1/2 L volgt vatn
- 3 tsk þurrger
- 12-14 dl hveiti
- 1/2 dl olía
- 2 msk sykur
Blandið öllu saman í kitchen aid (bætið hveitinu við eftir þörfum) og hnoðið rosalega vel. Látið hefast í 1-2 klst. Sláið niður og skiptið deiginu í 40 bita. (Skiptið fyrst deiginu í 4 parta og svo hverjum af þeim í aðra 5).
Skerið pulsurnar í 4 parta, einfaldast er að taka allar pulsurnar í einu og skera þær allar í einu fyrst til helminga og svo þá parta aftur til helminga.
Stingið pulsubitunum inn í hvern deigbita. Raðið fremur þétt á ofnplötu. Þeir mega snertast þegar þeir eru búnir að hefast, það má svo rífa þá í sundur þegar þeir koma úr ofninum.
Leyfið hefast undir klút í hálftíma. Bakið í ofni í 10 - 15 mín.
Ég fann á netinu svo rosa flott skreytta köku sem er ótrúlega einföld. Kitkat og m&m.
Kaka
- Súkkulaðikaka á 3 hæðum eða þannig að hæðin sé aðeins minni ein lengd á kit kat.
- Krem
- Kitkat
- m&m
Ég var bara með tvo botna, hélt að þeir yrðu hærri þannig að ég varð að skera kitkatið til helminga, en mæli alveg með að gera stærri kökuna.
Hér er linkur á eina svona flotta.
Næst kem ég með uppskrift af awesome rice crispies bitum.
18.1.2012 | 20:34
Endalausar brauðtilraunir
Þetta brauð var gert miðað við það sem til var og að mig langaði að nota byggmjöl. Þetta var ágætis brauð, fín hlutföll. Þetta er eitt af þessum frekar þéttu brauðum þannig að það er best nýbakað og smakkaðist rosalega vel með heimagerðri lambakæfu eða fullt af smjöri.
Ég ákvað að nota 200 g hvítt hveiti en það er alveg hægt að skipta því út ýmislegt, t.d spelt eða haframjöl.
Brauð
- 200 g hvítt hveiti
- 100 g íslenskt byggmjöl
- 200 g íslenskt heilhveiti
- 1.5 tsk lyftiduft
- 1-2 tsk salt
- Ca 500 ml Ab mjólk, ég þynnti út ca 400 ml ab mjólk með 100 ml af vatni
- 2 tsk hunang
- 100 g sólblómafræ og fimmkorna blanda
Hrærið saman þurrefnum, nema fræjum. Blandið við þetta ab mjólk og hunangi og hrærið saman, en ekki of mikið, bara nóg þannig að allt hafi blandast vel saman. Blandið svo við fræjum.
Bakið í formi sem hefur verið klætt með smjörpappír í 40 mín við 190°. Takið þá brauðið úr forminu og bakið í aðrar 10 - 15 mín til að skorpan verði ekki blaut inn í forminu.