Færsluflokkur: Matur og drykkur

Að fá sér súpu...spennandi? Ég get að minnsta kosti mælt með þessari.

Kannist þið ekki við það að elda sjaldan súpu því það er ekki nógu djúsí og spennandi.  En svo loksins þegar maður fær sér súpu þá hugsar maður, vá hvað þetta er gott, afhverju geri ég þetta ekki oftar.

Það er einmitt það sem ég lenti í um daginn.  Ég hafði hugsað mér að gera tómatsúpu því ég átti stóra dós af niðursoðum Roma tómötum sem var opin og þurfti að nota.  Ég var alltaf að reyna að finna eitthvað meira spennandi en tómatsúpu til að nýta þessa tómata í.  En það var eitthvað sem togaði í mig að gera tómatsúpu.

Og á á endanum fór ég á netið og fann hinar og þessar uppskriftir, tók út það sem mér fannst hljóma vel og setti saman þessa uppskrift miðað við það sem til var og það sem ég hafði lesið mig til um.

Ein af þeim uppskriftum sem ég datt niður á var tómatsúpa sem innihélt ofnbakaðar paprikur.  Það err lykilatriðið í þessari ótrúlega góðu og einföldu uppskrift.

Tómatsúpa

  • 1 stór dós tómatar í dós, eða tvær litlar.  Mér finnst tómatar í dós frá Eden mjög góðir
  • 1 laukur
  • 3 hvítlauksrif
  • 1 paprika
  • Rjómi, ætli ég hafi ekki notað um 2-3 dl
  • Ólífuolía
  • Salt
  • Pipar

Skerið papriku í tvennt, setjið hana í eldfast mót með skurðinn niður og skinnið upp og dreypið yfir hana ólífuolíu og salti og pipar.  Bakið í ofni við 220°c í hálftíma, síðustu 3- 4 mínúturnar setti ég ofninn á grill til að fá vel svart hýðið, en fylgist vel með þeim því þær brenna fljótt á grilli. 

paprikur

Setjið paprikur í skál og plast yfir og látið standa.  Þetta er gert til að hýðið losni auðveldlega af. Fjarlægið brennt hýðið af paprikunum.

Svitið lauk og hvítlauk sem hefur verið skorinn í bita. Bætið við tómötum og papriku og látið malla í korter eða svo.  Setjið þetta í matvinnsluvél og maukið vel.  Setjið tómatsúpuna aftur í pottinn og bætið við rjómanum, bara eftir smekk, og hitið upp.

Svo er annað, sem að gerir þessa súpu enn meira spennandi og það croutons.  Ég hafði súpuna milda og einfalda að ásettu ráði því ég ætlaði að krydda hana upp með croutons.

croutons

Croutons

  • Brauð sem er dagsgamalt eða meira, baguette eða eitthvað gott brauð
  • Ítalsk pastakrydd eða einhverskonar blanda af t.d rósmarín, oregano og basil
  • Salt
  • Ferskur svartur pipar
  • Olía, 3-4 msk

Skerið brauðið í smáa ferninga.  Ég notaði brauð sem ég bakaði sjálf úr heimagerðu pizzadeigi.

Steikið þá upp úr ólífu olíu með góðu kryddi. 

Berið fram með súpunni.

Til að fá enn meira bragð þá mætti rífa ferskan parmasen ost yfir súpudiskinn.

 

 


Íslenskur matur ...nei, ekki "íslenski kúrinn"

Við höfum tekið okkur til öðru hvoru hér á heimilinu og borðað eingöngu íslenskan mat, mánuð í senn. Já,ég hef talað um það áður, og nú er komið að því aftur. Það er mjög fróðlegt.  OG NEI! KEX FRÁ FRÓN ER EKKI ÍSLENSKUR MATUR.  Því það er hvorki ræktað og malað hvítt hveiti né ræktaður sykur hér á landi til að nefna fátt eitt sem kex inniheldur.

Fyrir mér er grænmeti sem er ræktað á Íslandi íslenskt, og kóríander frá Engi er nógu íslenskt fyrir mér.  Þótt svo að fræ paprikurnar hafi einhverntíma verið flutt til landsins þá er grænmetið sjálft ræktað hér heima og það er það sem ég sækist eftir.  Og það er kostur að borða mat sem hefur ekki ferðast um hálfan heiminn og maður veit lítið sem ekkert um hvað varðar framleiðsluferli og geymslu.

Það er nefnilega mjög fróðlegt að taka svona verkefni fyrir, að borða bara íslenskt.  Það sem ég er að læra núna er að finna íslenska sæta elementið.  Það er ekki mikið um það.  Enn sem komið er hef ég einungis fundið hunang sem ætti að teljast alíslenskt. 

Ég væri til í að kynna mér nánar framleiðsluferli hunangs, eru býflugurnar kannski bara nærðar á DANSUKKER?

hunang

Hunangið sem ég keypti í Frú Laugu, og á því stóð frumraun...

Þannig að þegar uppi er staðið þá sleppir maður algjörlega hvítu hveiti og sykri ef maður borðar íslenskan mat og að sjálfsögðu allri unnri vöru og skyndibita.  (Ég myndi gera undantekningu ef ég væri að fara fínt út að borða samt :)

Sem betur fer er farið að framleiða heilhveiti og bygg.  Ég finn að ég er fremur háð því þegar kemur að matargerð.  En ég hef gert pizzur og pasta og bechamelsósu og margt fleira með bygghveitinu og það var mjög gott.

gulrætur

Vel lyktandi íslenskar gulrætur, sérvaldar...

Íslenskur matur

  • Mjólk og hreinar mjólkurvörur
  • Smjör
  • Ostur
  • Hreint skyr (NB HREINT, ekki eitthvað sykursull)
  • Egg
  • Tómatar
  • Sveppir
  • Agúrka
  • Paprika
  • Bygg
  • Heilhveiti
  • Hunang
  • Bláber
  • Fiskur
  • Kræklingur
  • Lambakjöt
  • Nautakjöt
  • Svínakjöt
  • Kjúklingur
  • Kartöflur
  • Fjallagrös
  • Rófur
  • Gulrætur
  • Kryddjurtir (ræktaðar t.d hjá Engi)
  • Salat

....svo fátt eitt sé nefnt.  Eins og þið sjáið þá er af nógu að taka og þetta er allt hollt og ferskt!

Það sem ég hef ekki íslenskt er til dæmis baunir, hrísgrjón, laukur, hvítlaukur, engifer, ávextir og ýmislegt grænmeti eins og eggaldin og fleira. Svo má ekki gleyma áfengi, ekkert íslenskt við rauðvín...

Fyrir ári síðan fjallaði ég um matargerð úr íslensku hráefni þar sem ég var að tala um þetta sama ef þið viljið kíkja á það.  Og svo talaði ég eitthvað meir um þetta hér

Ég læri eitt og annað um íslenska framleiðslu á matvælum þegar ég stússast í þessu, það er rosalega gaman.  Alla vega,ég mæli með þessu.  Þetta fær mann til að hugsa um það sem ofan í mann fer.

Ég minni enn og aftur á bókina hanns Michael Pollan, Mataræði, handbók um hollustu, auðveld og fljótleg lesning og margt áhugavert sem stendur þar og góð áminning um marga hluti.

Nú eru jólin búin, þetta var góður tími í skammdeginu. Enn og aftur, gleðilegt ár og munið að huga vel að mataræðinu.  Smá kaffi og smá rauðvín, hitt og þetta af og til og sitt lítið af öllu og eins og Michael Pollan sagði, mest af grænmeti! 

hús

Og þá er komin tími á að taka niður jólatréð,ætli ég leyfi jólaseríunni

ekki að loga aðeins lengur í svartasta myrkrinu...

 

 


Hófsemin og hollustan

Þið munið, ég hef sagt ykkur frá skilgreiningunni á að drekka áfengi í hófi. 

Hófdrykkja:  Eitt glas á dag.  Ekki fleiri en sjö glös á viku, þó aldrei fleiri en þrjú á dag.

Ég fór að velta þessari skilgreiningu fyrir mér nú þegar allir ætla að byrja nýtt ár með nýjum heitum.  Ég velti því fyrir mér hvort það væri þá ekki hægt að heimfæra þessa skilgreiningu á aðra siði (eða ósiði).  Til dæmis gosdrykkju, kaffidrykkju og reykingar.  Því eins og máltækið segir víst þá er allt gott í hófi...hvað sem svo er satt eða logið í því.

Svo er það spurning með skyndibitann.  Einn Mcdonalds á dag.  Ekki fleiri en sjö Mcdonalds á viku, þó aldrei fleiri en þrír Mcdonalds á dag.

 

döðlu og abrikósukaka

Döðlu og apríkósu "kaka"

Þessi kaka (eða massi) er hugsuð með ostum og kexi eða góðu baguette.  Hún var á stærð við meðal undirskál hjá mér, ca 15 cm í þvermál.

  • 1 poki möndlur (um 200 g)
  • 1 poki heslihnetur
  • 250 g döðlur
  • 200 g apríkósur
  • 3-5  msk appelsínusafi
  • Smá slurkur koníak eða vatni (ég notaði reyndar vodka) til að hræra saman möndlur í marsípan.

Setjið möndlur og koníak eða annan vökva í matvinnsluvél og hrærið þar til úr verður marsípan klumpur.  Takið hann frá og setjið döðlur og apríkósur ásamt appelsínusafa  í matvinnsluvélina sem og marsípan, en bara smám saman þar til það maukast vel.  Svo koma hneturnar og allt maukað mjög vel. 

Mótið þetta í hálfkúlu, setjið á smjörpappír og inn í ofn á 150° c í hálftíma.

 


Gleðilegt ár - Fyrsta uppskrift ársins er einfalt brauð

Og að henda í þetta brauð er farið að verða að vikulegum viðburði hjá mér. 

Áður en við vindum okkur í brauðgerð þá langar mér að óska ykkur gleðilegs árs og þakka fyrir það liðna. Ég vona að áramótin hafi verið ánægjuleg hjá ykkur.  Áramótin í sveitinni voru ljúf.  Það var setið að snæðingi með nágrönnunum og vini og farið á brennu í blíðskaparveðri, sem samanstóð að þremur fjölskyldum hér í sveitinni, vinalegt var það.

áramót

Ég á vinkonu sem lét mig hafa uppskrift að brauði sem er eldað í potti, sem fer inn í ofn.  Hér eru linkarnir sem hún sendi mér en ég breytti uppskriftinni aðeins núna síðast með að bæta við tsk að sykri og það líka kom vel út. 

Þetta eru tveir linkar að sömu uppskrift.

http://www.nytimes.com/2006/11/08/dining/081mrex.html

http://www.amateurgourmet.com/2008/12/the_noknead_bre.html

Galdurinn hér er að leyfa deiginu að hefast við allt að 18 klst. En ég held að galdurinn sé líka að hnoða það ekki mjög mikið.

BRAUÐ

Einfalt brauð

  • 3 bollar hveiti (plús aðeins meira til að það klístrist ekki þegar þið hnoðið)
  • 1/4 tsk ger (instant yeast)
  • 1 1/4 tsk salt
  • 1.5 bolli volgt vatn

(1 bolli er 2,4 dl)

Hrærið öllu að ofantöldu saman. Þetta verður klístrað deig og blautt.  Leyfið því standa við stofuhita yfir nótt eða í 12-18 klst, lokið skálinni með plastfilmu.

brauð

Setjið hveiti á borðið og takið deigið úr skálinni, notið eins lítið hveiti og þið getið til að hnoða deiginu saman í kúlu.  Leyfið því að hefast í rökum klút í 2 tíma.  Hér á deigið að hefast um helming.

Hitið Cast iron, enamel eða keramik pott í ofninum við 230°c í hálftíma.  Veltið deiginu í pottinn, MUNIÐ AÐ POTTURINN ER HEITUR og bakið með lokið á í 30 mín og svo án loksins í 15 mín.  Ég fékk minn pott að gjöf og hann fæst í IKEA og hefur reynst mér vel. (Svona blár þungur pottur með loki).

brauð

Það eru mjög nákvæmar leiðbeiningar sem fylgja linkunum hér að ofan og ég mæli með að þið kíkið á þá báða.

Svo má bæta fræjum eða ólífum eða því sem ykkur dettur í hug í þetta deig.

Þegar brauðið er tilbúið takið það upp úr pottinum svo það komi ekki raki í botninn á brauðinu.

Mig langar að þakka henni vinkonu minni fyrir þessa uppskrift, það er frábært að baka brauð í potti.

brauð


Eldað á einni hellu - jólin 2011

Ég er með forláta ofn, svona lítinn sumarbústaðarofn.  Eini gallinn er sá að ef ég kveiki á hellu þá get ég ekki kveikt á ofninum líka eða öfugt og bara haft eina hellu í einu. Þetta stelur allt orku hvort frá öðru. Svo þannig eldaði ég allar jólamáltíðirnar.  Á einni hellu, eða með ofninn á.  Allt til skiptis.  Með góðu skipulagi gekk þetta stórvel og maturinn var betri en nokkru sinni fyrr.

Ég ætlaði að vera búin að tengja nýju gashellurnar mínar, en það er ekki á allt kosið þegar framtaksleysið tekur völdin...

hangikjöt

En það var matreitt tvíreykt hangikjöt frá bónda hér í sveitinni með öllu tilheyrandi og svo var það hamborgarahryggur fyrir tvo á jóladag, bara til að geta gert þessar rosalega góðu samlokur daginn eftir.

hamborgarahryggur

Það sem þarf er gott brauð sem hentar vel í panini grill, ost og Dijon sinnep, já og auðvitað sneiðar af hamborgarahryggnum, skornar eins þunnt eða þykkt og ykkur hentar.  Flóknara þarf það ekki að vera frekar en þið viljið. 

samloka með hamborgarahrygg

Samloka með hamborgarahrygg

  • Hamborgarahryggur
  • Ostur
  • Dijon Sinnep
  • Gott brauð

Skerið brauðið í sneiðar, smyrjið þær með Dijon sinnepi.  Setjið á milli þær sneiðar af hrygg og ostsneiðar.  Ég notaði Gouda brauðost og 3 mm kjötsneiðar.

Ef þið eigið ananassneiðar frá kvöldinu áður þá mætti henda þeim á, eða tómatsneiðum til að ferska þetta upp. Endalausir möguleikar en ég ákvað í þetta sinn að hafa þetta einfalt og það klikkaði ekki.

Einnig mætti nota afgang af hryggnum til að gera Kúbu samloku.

Ég kem með brauðuppskriftina sem ég notaði hér á morgun.  Það tekur næstum sólarhring að gera þetta brauð en það er biðarinnar virði.  Ef þið viljið gott brauð sem líkist Ciabatta þá er héreinföld uppskrift, sem er bara pizzadeig formað í brauð og ekki hnoðað með of miklu hveiti. 

Góða skemmtun á þessum síðasta degi ársins. 

GLEÐILEGT ÁR

...

fireworks

 


Gleðileg jól

Jólagjöfin mín í ár er app sem ég bjó til fyrir Android síma, íslenska stafrófið með myndum. Ég mun bjóða upp á þetta app ókeypis í óákveðin tíma.

stafir

Ég bjó það til fyrir dóttur mína sem fer að verða tveggja ára. 

Þetta app hentar börnum sem eru að læra stafrófið sem og smábörnum sem þarf að hafa ofan fyrir.  Börn allt að niður í níu mánaða gætu haft gaman að þessu.  Þau læra þá ýmisleg orð um leið og stafrófið dettur inn í undirmeðvitundina.

Einnig hentar þetta öllum þeim sem ekki kunna íslensku og langar til að læra íslenska stafrófið.

Ástæðan fyrir því að ég bjó þetta til er sú að ég hef ekki rekist á neitt þessu líkt fyrir síma nema þá á ensku.  Og þegar dóttir mín var farin að syngja ei, bí, cí, dí þá var komin tími til að taka málið í sínar hendur.

Það stendur til að setja þetta forrit inn á vefsíðu, þá gagnast það líka þeim sem ekki eiga Android síma.

Það má nálgast Stafrófið á Android market eða skanna það inn með QR kóðanum hér fyrir neðan. Það er líka hægt að fara inn á Android Market á símanum sínum og slá inn "Stafrófið" í leitarglugganum.

stafrofid_qr

Ef einhverjir fá Android síma í jólagjöf þá er hægt að ná sér í QR skanna hér.

 

jól

GLEÐILEG JÓL

 

 


Jóladagatal Soffíu - 1 dagur til jóla

Jæja, einn dagur til jóla.  Sit hér í sveitinni og hlusta á vindinn og rás 2 þar sem Erla Ragg færir mér miðbæjarstemmninguna beint í æð.  Húsið er (alveg nógu) hreint og tréð skreytt.  Það er frekar napurt hérna í sveitinni og því mjög kósí inn í hlýjunni.  Úti er niðamyrkur enda engir ljósastaurar og bara örfá hús sem gefa frá sér smá ljóstýru. 

Njótið Þorláksmessu.  Mér finnst alltaf skemmtileg stemmning á þessum degi.

Nú er ég líka pakksödd og sæl en grænpiparssalami-ið frá Ostabúðinni á skólavörðustíg fór á pizzu áðan með ferskum mossarella.  Ég segi það og skrifa, það er fátt sem slær þessu salami út. Pizzan verður stórfengleg :)

pizza

Ég er með ágætis uppskrift sem ég notaði í pizzabotninn.  Ég var einmitt að henda í annað deig áðan, en það verður notað til að gera brauð á morgun.  Trixið er nefnilega að láta það standa við stofuhita í 12 - 18 tíma. Ég skal koma með uppskriftina að því mjög fljótlega.

En nú ætla ég að koma með uppskrift að flatkökum.  Flatkökur eru ómissandi með afganginum af  hangikjötinu daginn eftir.  Í Brauðbrunninum er skemmtileg uppskrift af flatkökum og góð saga með, en þar notar amman eingöngu rúgmjöl og vatn. 

Ég hef notað heilhveiti með rúgmjölinu, það gerir baksturinn aðeins auðveldari held ég.  En það væri gaman að æfa sig að gera flatkökur eingöngu úr rúgmjöli, það þarf bara að vera með góð hlutföll.

Í uppskriftinni í Brauðbrunninum lætur amman deigið hvílast yfir nótt.  Það gæti verið betra, hef ekki prófað það.

Hlutföllin hér fékk ég úr bókinni Matarást.  Þar er ágætis klausa um flatkökur.

Flatkökur

  • 200 g rúgmjöl
  • 100 g heilhveiti
  • 2 1/2 dl sjóðandi vatn
  • 1/2 tsk lyftiduft

Blandið öllu vel saman, og vatninu smám saman þar til þið eruð komin með gott deig.  Kannski þarf aðeins meir af vatni.  Ég veit ekki með að sleppa lyftiduftinu, það mætti eflaust sleppa því. 

Skiptið því niður í kúlur sem þið rúllið út í flatar kökur.  Pikkið í þær með gaffli.

Eldið á heitri pönnu (t.d pönnukökupönnu) eða hreinni hellu.  Bakist í ca eina mín á hvorri hlið.

Setjið kökurnar ofan í skál með smá vatni í og svo í viskastykki eða geymið þær í blautu viskastykki, það er svo að þær þorni ekki.  Þegar þið hafið bakað þær allar geymast þær í plastpoka.

 

 

 

 


Jóladagatal Soffíu - 2 dagar til jóla

Jóladagatal...2

Þá er maður komin í góðan gír. Það góða við að búa í sveitinni er að nú er búið að versla allt, fullur ísskápur af mat, hellingur af pökkum og maður fer ekkert í borgina fyrr en eftir helgi.  Og ef eitthvað vantar, þá vantar það! 

Í grófum dráttum verður í morgunmat næstu daga Huevos rancheros, Egg benedicts, reyktur lax og sitthvað gott.  Nóg verður af afgöngum fyrir síðbúin hádegismat, þannig að á annan í jólum ætla ég að baka flatkökur með hangikjöts afgöngum og afbrigði af Kúbu samloku með hamborgarahryggnum á jóladag. 

Jólavínið með hamborgarahryggnum verður það sama og í fyrra, M. Chapoutier, Cotes du rhone, syrah frá Frakklandi.  Læt svo vita hvort það verður jafn gott í ár. 

Svo það sem ég hlakka mikið til að borða, pizza! Ég keypti grænpipars salami í Ostahúsinu á Skólavörðustíg.  Það er svo ótrúlega gott.  Ætli það verði ekki bara á morgun.

Þetta er að minnsta kosti einhver hugmynd að því sem koma skal.

Ef þið eruð ekki komin með jólatré þá má redda sér svona...

jólatré

Þessi færsla verður nú ekki jólalegri að þessu sinni því ég sit ég upp í rúmi og mín bíður stafli af matarblöðum til að blaða í fyrir svefninn.

 


Jóladagatal Soffíu - 3 dagar til jóla

Jóladagatal...3

Ef þið erum með smárétti um jólin þá má flikka upp á hlaðborðið með því að setja réttina í jólabúning.  Grænn, hvítur og rauður eru litir jóla og einnig litirnir í caprese salati og það væri hægt að bera það jólalega fram, til dæmis í formi jólatrés, kannski eitthvað svipað og sýnt er á þessari mynd.

jolamatartre

 


Jóladagatal Soffíu - 4 dagar til jóla

Jóladagatal...4

Ef maður mylur brjóstsykur og setur hann inn í ofn þá bráðnar hann og verður eins og litað gler.  Það kemur mjög vel út sem skraut í smákökum.  Ég fann flotta mynd á netinu, ein hugmynd hvernig nýta má þessa aðferð.

smákökur

Kínverski cashew kjúklingurinn sem ég var með um daginn í kínverska boðinu var mjög góður og hér er uppskriftin að honum.

Kínverskur cashew kjúklingur

Kínverskur Cashew kjúklingur

  • Kjúklingabringur
  • Vorlaukur
  • Paprika
  • 1 poki cashew hnetur
  • 1 msk  Soya sósa
  • 1 msk hvítlaukur, rifinn
  • 1 msk ferskt engifer, rifið
  • 1 rauður chile (eða magn fer eftir styrkleika hans)
  • 2-3 msk sesamfræ
  • 3 tsk sykur (eða hunang)
  • 3 tsk soya sósa
  • 1 eggjahvíta
  • Smá hveiti
  • Salt og pipar

Hrærið eggjahvítu með gaffli þar til hún byrjar að freyða, tekur enga stund.  Bætið við soya sósu og hrærið henni við.

Skerið grænmeti og rífið hvítlauk og engifer

Skerið kjúklinginn í bita og veltið þeim upp úr eggjahvítunni og svo upp úr smá hveiti. Saltið og piprið. Steikið á pönnu.

Bætið við grænmeti, hvítlauk og engifer.  Og að lokum hrærið saman soya sósu og sykri (eða hunangi) og bætið því við á pönnuna.  Setjið cashew hneturnar út í. Látið malla í smá stund. 

Setjið á fat og stráið sesamfræjum yfir.

Berið fram með hrísgrjónum.

Í kínverskum uppskriftum er gjarnan notuð kornsterkja á kjúklinginn áður en hann er steiktur.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband