Jóladagatal Soffíu - 1 dagur til jóla

Jæja, einn dagur til jóla.  Sit hér í sveitinni og hlusta á vindinn og rás 2 þar sem Erla Ragg færir mér miðbæjarstemmninguna beint í æð.  Húsið er (alveg nógu) hreint og tréð skreytt.  Það er frekar napurt hérna í sveitinni og því mjög kósí inn í hlýjunni.  Úti er niðamyrkur enda engir ljósastaurar og bara örfá hús sem gefa frá sér smá ljóstýru. 

Njótið Þorláksmessu.  Mér finnst alltaf skemmtileg stemmning á þessum degi.

Nú er ég líka pakksödd og sæl en grænpiparssalami-ið frá Ostabúðinni á skólavörðustíg fór á pizzu áðan með ferskum mossarella.  Ég segi það og skrifa, það er fátt sem slær þessu salami út. Pizzan verður stórfengleg :)

pizza

Ég er með ágætis uppskrift sem ég notaði í pizzabotninn.  Ég var einmitt að henda í annað deig áðan, en það verður notað til að gera brauð á morgun.  Trixið er nefnilega að láta það standa við stofuhita í 12 - 18 tíma. Ég skal koma með uppskriftina að því mjög fljótlega.

En nú ætla ég að koma með uppskrift að flatkökum.  Flatkökur eru ómissandi með afganginum af  hangikjötinu daginn eftir.  Í Brauðbrunninum er skemmtileg uppskrift af flatkökum og góð saga með, en þar notar amman eingöngu rúgmjöl og vatn. 

Ég hef notað heilhveiti með rúgmjölinu, það gerir baksturinn aðeins auðveldari held ég.  En það væri gaman að æfa sig að gera flatkökur eingöngu úr rúgmjöli, það þarf bara að vera með góð hlutföll.

Í uppskriftinni í Brauðbrunninum lætur amman deigið hvílast yfir nótt.  Það gæti verið betra, hef ekki prófað það.

Hlutföllin hér fékk ég úr bókinni Matarást.  Þar er ágætis klausa um flatkökur.

Flatkökur

  • 200 g rúgmjöl
  • 100 g heilhveiti
  • 2 1/2 dl sjóðandi vatn
  • 1/2 tsk lyftiduft

Blandið öllu vel saman, og vatninu smám saman þar til þið eruð komin með gott deig.  Kannski þarf aðeins meir af vatni.  Ég veit ekki með að sleppa lyftiduftinu, það mætti eflaust sleppa því. 

Skiptið því niður í kúlur sem þið rúllið út í flatar kökur.  Pikkið í þær með gaffli.

Eldið á heitri pönnu (t.d pönnukökupönnu) eða hreinni hellu.  Bakist í ca eina mín á hvorri hlið.

Setjið kökurnar ofan í skál með smá vatni í og svo í viskastykki eða geymið þær í blautu viskastykki, það er svo að þær þorni ekki.  Þegar þið hafið bakað þær allar geymast þær í plastpoka.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband