Færsluflokkur: Matur og drykkur
19.12.2011 | 22:19
Jóladagatal Soffíu - 5 dagar til jóla
Jóladagatal...5
Ég var að horfa á Food network áðan þar sem fjallað var um Punjab og indverska matargerð. Ég er nú í óðaönn að leggja lokahönd á jólamatseðilinn og á þessari stundu langaði mér bara að hafa djúsí tandoori kjúkling og nýbakað chabati á aðfangadag. Þetta alveg ruglaði mig við innkaupalistann þannig að ég varð að taka pásu á að hugsa um jólamatinn.
En, svo fer maður aftur í raunveruleikann. Ætlunin er að halda í hefðir þessi jól. Ég fékk tvíreykt hangikjöt frá bónda í Kjósinni. Þannig að maður er svolítið local í ár, jólatréð frá Fossá og Kjötið frá bóndanum.
Þetta finnst mér mjög flott, fæst á etsy.
Ég fann þetta á þessari síðu, en þarna er fullt af sætu í svona letterpress stíl.
fa la la la la....
Fyrri færslur jóladagatalsins...
18.12.2011 | 19:27
Jóladagatal Soffíu - 6 dagar til jóla
Jóladagatal...6
Mér finnst ómissandi að baka Biscotti fyrir jólin. Þær eru ómótstæðilegar með te eða kaffibolla...eða hverju sem er og einar og sér. Þær að minnsta kosti hverfa stuttu eftir að ég baka þær. ÞEss vegna er best að baka þær þegar það er mjög stutt til jóla svo maður geti gætt sér á þeim á jólum.
Hér er ein af mínum uppáhalds Biscotti uppskriftum.
Biscotti með heslihnetum og möndlum
- 100 g heslihnetur (ég notaði muldar)
- 100 g möndlur (flögur eða heilar)
- 120 g 70% súkkulaði
- 210 g púðursykur
- 230 g hveiti
- 30 g Kókó
- 4 g Instant espresso duft (má sleppa)
- 1 tsk matarsódi
- 1/4 tsk salt
- 3 stór egg
- 1 1/2 tsk vanilludropar
Hitið ofn í 150 °c
Skerið niður súkkulaði og blandið því saman við púðursykur í mixer þar til súkkulaðið er orðið smátt (púðurkennt)
Sigtið saman hveiti, kókó, expressó dufti, matarsóda og salti
þeytið egg og vanilludropa í matvinnsluvél eða með handþeytara. Blandið því við hveiti og púðursykurs blönduna.
Bætið hnetunum við og blandið vel saman,
Stráið hveiti á flöt og búið til tvo pulsulaga drumba úr deiginu. (u.þ.b 25 cm langa og 5 cm í þvermál). Setjið þá á bökunarpappír á plötu og bakið í 35-40 mínútur.
Takið úr ofni og látið kólna í 10 mínútur. Skerið í 2 cm sneiðar (eins og þið væruð að skera brauðsneiðar) og leggið þær aftur á plötuna og bakið á sitthvorri hliðinni í 15 mín á hvorri hlið.
Kælið á grind
Fyrri færslur jóladagatalsins...
17.12.2011 | 21:44
Jóladagatal Soffíu - 7 dagar til jóla og kínverskar pönnukökur
...Vika!
Það er gaman að kíkja á mismunandi hefðir varðandi jólamat á milli landa. Á Wikipedia getur maður nálgast lista yfir hin ýmsu lönd og matarhefðir þeirra yfir hátíðar.
Það er skondið að sjá hefðina í Japan. En þar er KFC fried Chicken jólaréttur hjá þeim og þarna er talað um að það þurfi að leggja inn pöntun, hjá KFC, allt að tveim mánuðum fyrir jól. Merkilegt.
Þarna má meðal annars finna Ísland og þar stendur:
- Hamborgarhryggur, a smoked, cured pork roast.
- Ptarmigan, gamebird in the grouse family.
- Hangikjöt
- Oven-roasted turkey
- Möndlugrautur - a Christmas rice puddingwith an almond hidden inside (the same as the Swedish Julgröt)
- Caramelised potatoes, Icelandic. Brúnaðar kartöflur(same as in Danish cuisine).
- Pickled red cabbage
- Smákökur- small cookies of various sorts
Það gæti verið skemmtilegt í næsta matarboði yfir jólin að taka fyrir eitt land elda nokkra þjóðarrétti þeirra í anda jólanna. Eða hver og einn gestur kemur með einn frá landi að eigin vali. Nú eða vera með kökuboð og vera með sætabrauð frá ýmsum löndum...
Á þessum alþjóðlegu nótum verð ég að minnast á að ég eldaði kínverskt um daginn og bauð vinum í mat. Matseldin heppnaðist sérlega vel.
Ég var með Kjúkling með cashew hnetum, Anís kjúklingabita og kínverskar pönnukökur.
Kínverskar pönnukökur eru frábærar. Það er ekki mikið mál að gera þær sjálfur. Þar sem þær eru eldaðar á mjög lágum hita kemur engin reykbræla í eldhúsið.
Kínverskar pönnukökur
- 2 bollar hveiti
- 1 bolli sjóðandi vatn (kannski ögn meira)
- Sesame olía (eða matarolía) sem er notuð til að dýfa í, en ekki blandað við deigið!
Hrærið saman hveiti og vatni, hnoðið vel saman svo úr verði silkimjúkt deig. Ég geri þetta í höndunum, tekur ekki langa stund og deigið er fljótt að kólna, ég byrja á að hræra saman með gaffli.
Geymið deigið undir plasti í hálftíma.
Skiptið deiginu í um 16 kúlur. Þetta gerði ég með því að skipta einni kúlu í fjóra parta. Og svo hverjum parti í aðra fjóra.
Takið eina af þessum 16 kúlum og skiptið henni í tvennt og rúllið í tvær kúlur, dýfið annarri kúlunni í smá olíu og leggið hina kúluna ofan á og þrýstið saman. Rúllið þunnt út með kefli.
Eldið á pönnu við mjög lágan hita, svona 4-5. Það tekur um eina mín á hvorri hlið.
Þegar þið takið kökuna af pönnunni kljúfið hana þá í tvennt. Það er mjög auðvelt þar sem olían á milli heldur þeim í sundur.
Geymið þær kökur sem eru tilbúnar undir gleri, plasti eða rökum klút.
Ég horfi meðal annars á þetta myndbandtil að fá tilfinningu fyrir þessu. Annars er hægt að google-a mandarin pancakes til að fræðast betur um þessar pönnukökur.
Þessar pönnukökur eru mjög góðar með "Peking duck" eða þessum rétti hér.
16.12.2011 | 21:13
Jóladagatal Soffíu - 8 dagar til jóla
Jóladagatal...8
Ég hef alltaf verið veik fyrir svona litlum dúkkulegum jólaþorpum, þar sem að alltaf er dúnmjúkur snjór, litlir kórar að syngja jólalög, krakkar að leik, jólatré og snjókarlar. Þetta er eitthvað svo fullkomin lítill heimur þar sem allir eru alltaf í góðu skapi....jólaskapi
Martha lætur ekki sitt eftir liggja þegar kemur að því að búa til jólaþorp. Á síðunni hennar má finna skapalón að sætu þorpi.
Á síðunni hjá Country Living er einnig að finna skapalón að húsum og kirkju.
Fyrri færslur jóladagatalsins...
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 21:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.12.2011 | 21:34
Jóladagatal Soffíu - 9 dagar til jóla
Jóladagatal...9
Obb bobb bobb. Ekki lengur tveggja stafa tala til jóla. Mér finnst tíminn helmingi fljótari að líða þegar ég tel svona niður.
Hún Martha Stewart er svo fullkomin að mér finnst glitra extra fallega á glimmerið hennar, þetta sem ég sé auglýst í blaðinu hennar, Living. En kannski það sé Photoshop sem gerir það svona glansandi fínt. Mig langar að minnsta kosti alltaf í þetta glimmer þegar ég sé þessar auglýsingar.
Ég varð doldið heilluð af þessari hugmynd að nota skeljar á jólatréð, eftir að gera þær jólalegar með glimmeri, sérstaklega þar sem ég bý niður við sjó og það eru fullt af svona skeljum hér á ströndinni.
Fyrri færslur jóladagatalsins...
Matur og drykkur | Breytt 16.12.2011 kl. 21:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.12.2011 | 16:32
Jóladagatal Soffíu - 10 dagar til jóla
Jóladagatal...10
Hér er vefsíða með fullt fullt af hugmyndum að pakkaspjöldum (og þá meina ég heill hellingur) og ókeypis myndir sem hægt er að prenta út til að gera sín eigin jólakort og pakkaspjöld.
Að lokum langar mér að benda á vefinn braudbrunnur.wordpress.com, sem er ótrúlega skemmtilegur og nú fyrir jólin telja þeir niður með brauð og köku uppskriftum. Fullt af skemmtilegum fróðleik á þessari síðu.
Fyrri færslur jóladagatalsins...
14.12.2011 | 16:04
Jóladagatal Soffíu - 11 dagar til jóla
Jóladagatal...11
Það er fátt skemmtilegra en fallegir pakkar. Slaufur eru oftar en ekki rándýrar og yfirleitt finnst manni leitt að eyða meira í umbúðir en innihald. En það má gera ýmsar ódýrar lausnir en þó fallegar.
Brúnn umbúðarpappír er yfirleitt með þeim ódýrari og er fallegur grunnur að skreyttum pakka.
Það er hægt að tína köngla þegar maður gengur um bæinn, ég fann þó nokkra á leiðinni niðrí miðbæ um daginn. Og jafnvel er eitthvað í Öskjuhlíðinni.
Stjörnurnar sem ég sýndi ykkur hér um daginn eru flottar á pakkann.
Hér er síða sem kennir manni að klippa út úr pappír, kemur skemmtilega út. Þá er bara að viða að sér ódýrum pappír.
Á þessari síðu eru nokkrir fallegar pakkar.
Svo er um að gera að halda upp á alla fallega borða og skraut sem maður fær á pakkana sína í ár til að endurnýta á næsta ári. :)
Góð hugmynd að láta piparkökurnar standa svona upp á rönd. Þessar eru sko ansi sætar. Uppskriftir og fleiri hugmyndir eru hér.
Fyrri færslur jóladagatalsins...
12.12.2011 | 22:40
Jóladagatal Soffíu - 12 dagar til jóla
Jóladagatal...12
Í gær vorum við með jólaglögg fyrir sveitunganágranna. Það var gaman og góður matur og að sjálfsögðu gott glögg.
Á boðstólnum var meðal annars:
Hreindýrapate og meðlæti
- Hreindýrapate (fæst í flestum matvöruverslunum)
- Súrar gúrkur
- Steikt beikon
- Sveppasósa
- Rúgbrauð
Sveppasósan er sveppir, steiktir upp úr smjöri og hvítlauk. Slatti af rjóma og smá sósujafnara. Saltað og piprað.
Allt borið saman á borð, fáið ykkur rúgbrauð, setjið á það kæfuna, gúrku, beikon og sósu.
Sérrí sveskjur með beikoni
- Sérrí
- Sveskjur, þurrkaðar
- Beikon
- Valhnetur
- Múskat
Ég er ekki með nákvæma uppskrift af þessum rétti, en málið er að leggja þurrkaðar sveskjur í sérrí yfir nótt. Veltið valhnetubrotum upp úr múskati. Stingið einu broti í hverja sveskju. Vefjið utan um hana beikoni. steikið á pönnu. Það má einnig elda þetta í ofni. Jólalegur réttur og mjög bragðgóður.
Laxasamlokur
- Fransbrauð
- Reyktur lax
- Rjómaostur
- Graslaukur
- Steinselja
Smyrjið brauð með rjómaosti og setjið laxinn ofan á, dreifið yfir smátt skornum graslauk. Gerið samloku og skerið í þríhyrninga. Smyrjið rjómaosti á endann á hverjum þríhyrningi og þrýstið honum í steinselju sem þið skerið mjög smátt.
Panettone var á borðum, mjög gott ítalskt jólabrauð. Það væri gaman að gera svoleiðis við tækifæri. Ég á eftir að googla allt um Panettone.
Einnig var boðið upp á óheyrilega gott ris a la mande sem ég er ekki búin að fá uppskrift að, ætla að fá einkakennslu í gerð þess. Svo voru tartalettur með hangikjöti sem slóu í gegn.
Og svo svona til að minna mann á að einfaldleikinn svíkur engan þá kom einn gesturinn með rækjusalat og ritz kex sem gerði mikla lukku og var étið upp til agna.
Þessa fann ég netinu, svoldið sætt.
Fyrri færslur jóladagatalsins...
Matur og drykkur | Breytt 14.12.2011 kl. 16:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.12.2011 | 23:37
Jóladagatal Soffíu - 13 dagar til jóla
Jóladagatal...13
Jólaglögg í dag, sveitungarnir komu í heimsókn klifjaðir dásamlegum kræsingum.
mmmmm...uppskriftir og upptalning kemur á morgun.
Hér eru einfaldar jólakúlur sem gæti verið gaman að föndra. Allt um það hér.
10.12.2011 | 21:05
Jóladagatal Soffíu - 14 dagar til jóla
JÓLADAGATAL...14
Við fórum í dag út í skóg að höggva okkur tré. Þar sem við búum í Kjós fannst okkur vel við hæfi að sækja okkur tré úr nánasta umhverfi. Skógræktin við Fossá býður fólki að ná sér í tré á fínu verði og þannig grisjar maður aðeins í leiðinni.
Það var aldeilis úrval af trjám. Veður var gott og virkilega gaman að rölta um skóginn með barnið á sleða í eftirdragi og velja sér tré.
Fyrir valinu varð tveggja og hálfs metra grenitré. Það var eitthvað við þetta tré sem varð til þess að við ákváðum að fella það frekar en eitthvað af öllum hinum trjánum sem á vegi okkar urðu.
Vinir okkar og nágrannar í Kjósinni fóru einnig að ná sér í jólatré. Eftir að gripirnir voru felldir var haldið heim á leið þar sem við gæddum okkur á heitu súkkulaði og bakkelsi.
Tréð þeirra fór strax í fótinn og það sem kom mér á óvart var að litlu stelpurnar okkar sem ekki hafa náð tveggja ára aldri og aldrei skreytt tré á ævinni áður tóku sér skraut í hönd og fóru að hengja það á tréð, eins og þær hefðu aldrei gert neitt annað. Hver kúlan, stjarnan og jólasveinninn á fætur öðrum fóru lipurlega á greinarnar með mikilli einbeitningu. Þetta kom mér svo á óvart, er þetta bara í genunum?
Það hefur alltaf verið siður á mínum bæ þegar ég var ung að skreyta tréð á Þorláksmessu. Maður er svo fastheldinn á siðina að ég veit ekki hvort ég geti sett upp tréð um næstu helgi eins og hvarflaði að mér eða hvort vaninn sé sterkari og ég dundi við það á Þorláksmessu, ég á von á því.
Ef þið eruð ekki komin með tré og færð verður góð um næstu helgi þá mæli ég með því að ná sér í tré í Fossá eða hjá öðrum sem upp á það bjóða. Það er stemmning og frábært að fá tré úr næsta nágrenni.
Trén eru kannski ekki jafn "fullkomin" og mörg þeirra sem eru í búðunum. En fegurðin er afstæð og hverjum þykir sinn fugl fallegastur, mér finnst tréð mitt fullkomið þó það líti út eins og það vanti á það aðra hliðina, sé langt í frá þétt í sér og jafnvel ræfilslegt myndi einhver segja. Þetta er fallegasta tré sem ég hef séð, tré með karakter...au natural :)
Ef þið eruð í föndurstuði um helgina þá er alltaf gaman að búa til eitthvað fallegt úr trölladeigi. Hugmyndir og uppskrift hér.