Ostagerð er leikur einn

Ég gerði mossarella sem heppnaðist vel, kúlan leit út eins og þessi sem maður kaupir í vökva út í búð og smakkaðist þannig.
 
Það eru mikil fræði á bak við ostagerð.  Ég get seint sagt að ég sé sérfræðingur, en maður lærir heilmikið á að fikta og prufa sig áfram. 
 
Ostagerð getur verið misflókin.  Einfaldast eru ferskostarnir sem þurfa enga geymslu og eru því tilbúnir strax, jafnvel eftir hálftíma.  Einfaldasti osturinn sem ég hef gert er Ricotta.  Mossarella var einnig einfaldur í gerð og tilbúin á innan við klukkutíma.
 
Ég keypti ostagerðabókina og þar er góður fróðleikur og nokkrar uppskriftir.  Á netinu má einnig finna fullt af uppskriftum og þar fann ég nokkrar mossarellauppskriftir sem ég hafði til hliðsjónar þegar ég gerði minn mossarella.
 
Í ostagerðabókinni var manni bent á að halda dagbók þegar maður gerir osta til að fylgjast með vinnsluferli og útkomu því það er margt sem spilar inn í, til dæmis hitastigið á mjólkinni.
 
Ég var ekki með hitamælir þegar ég gerði mossarella í fyrsta sinn. Í einni uppskrift var talað um 30°c og hækka svo í 37°c.  Ég hitaði mjólkina aðeins of mikið en það virtist ekki koma að sök, a.m.k varð 
osturinn að kúlu og góður var hann.  Svo finnst mér líka hafa að segja hversu mikla mysu maður kreistir úr honum.
 
Ég notaði 3 dropa af ostahleypi í 1 L af mjólk og 2-3 msk sítrónusafa.

Fróðleiksmolar

10 L af mjólk gefa af sér 1 kg af osti

Það er hægt að gera mismunandi osta með sama hráefninu en eiginleikar osta breytast við mismunandi skilyrði t.d hitastigi á mjólkinni, hversu lengi hún er síuð og með geymsluaðferð.

Ostar þroskast mislengi.  Ferskostar eru tilbúnir strax.  Harðir ostar, t.d Gouda, eru geymdir í 3 mánuði.  Parmasen ostur þarf að geymast í a.m.k 2 ár.

Mysa
Eins og ég sagði þá gefa 10 L af mjólk 1 Kg af osti.  Þá sitjum við uppi með 9 L af mysu.
 
Mysan er holl og próteinrík og má nýta á marga vegu.  Til dæmis er hægt að nota hana í brauðgerð þar sem uppskrift kallar á mjólk eða vatn, setja í smoothie og svo þykir hún góð sem fóður fyrir skepnur og einhverstaðar las ég að hægt sé að vökva með henni plöntur.
 
Það má lesa sér til um nýtingu á mysu á netinu, á ensku nefnist mysa whey.

Ostahleypir
Það er búið að vera aðeins í umræðunni að í ostum er ostahleypir sem gerður er úr ensímum úr kálfamaga.
Það er ekki að henta grænmetisætum, sem margar hverjar vissu ekki af þessu. Svo má minnast á gelatín, sem er gert úr dýrabeinum og er í ýmsum mat.
Það er misjafnt hversu langt fólk gengur í að neyta ekki dýraafurða, og það er spurning hvort fólk sem borðar ekki osta með ostahleypi gangi í leðurskóm.  
 
 
ostur 

Mossarella
  • 1 Líter Nýmjólk 
  • 2 dropar ostahleypir (Það ætti að vera nóg að nota 1 dropa segja þeir)
  • 1-2 msk sítrónusafi
  • Smá salt
 ostagerð
 
Setjið mjólk og 1 msk af sítrónu í pott og hitið að 30°c.  Ég setti líka tsk af salti.  Hrærið reglulega í. 
Þegar mjólkin nær 30°c bætið þá við ostahleypi og hitið mjólkina að 37°c.  Hrærið varlega, bara smá á nokkura mínótna fresti til að brjóta ekki upp ostakornin.
(Hér setti ég aðeins meiri sítrónu út í pottinn, var hrædd um að ég hefði ekki sett nóg og væri að klúðra þessu). 
 
Slökkvið á hellunni og látið pottinn standa í 20 mín.
 
ostagerð 
 
Takið nú ostinn upp úr pottinum með sigti og sigtið frá mysuna.  
(Á þessum tímapunkti var osturinn minn "vel hlaupinn" í kúlu og barasta tilbúin).
 
ostagerð 
 
Í uppskriftinni sem ég fór eftir svona að einhverju leyti, þessari hér, átti svo að setja ostinn í örbylgju og teygja á honum og allskonar ævintýri en þegar ég setti ostinn í örbylgjuna fannst mér endalaust leka mysa úr honum og hann rýrna ansi mikið.  
 
Þannig að ég lét staðar numið.
 
Svo er stórt atriði að salta ostana.  Það má gera á ýmsan hátt, t.d með pækilsöltun eða þurrsöltun.
Ég stráði bara Maldon salti yfir ostinn sem smám saman leysist upp og fer inn í ostinn. 
 
Þessi ostur var borðaður daginn eftir þannig að ég hef ekki kynnt mér geymsluaðferðir enn sem komið er, hvort maður ætti að geyma hann í poka eða setja í vökva og í box.  Finn út úr því næst.
 
bruchetta
 
Til að láta reyna á nýju afurðina gerði ég tómat bruchetta.  Mér fannst góð teygja í ostinum og hann var ferskur og skemmtilegur undir tönn.
 
Ostagerð er semsagt eitthvað sem hægt er að leika sér með, gera tilraunir og prófa sig áfram aaaalveg óhræddur.  Það er með þetta eins og allt annað, þegar maður er komin í æfingu þá er þetta leikur einn.
 
Ég mæli með að þið lesið ykkur aðeins til áður en þið byrjið, það er nóg af fróðleik hér á netinu. Og látið svo bara vaða, í versta falli misheppnast þetta einu sinni eða tvisar áður en þið "masterið" ostagerð. 

 

Grillaðar paprikur

Ég keypti helling af íslenskum paprikum á svo góðu verði.  Þá þarf að passa sig þegar maður kaupir svona magn að það endi ekki í ruslinu því maður kemst ekki í að borða það.

Ég brá á það ráð að skella þeim undir grillið í ofninum og þá er komið frábært hráefni í svo marga rétti, og það væri líka hægt að frysta þær. 

Grillaðar paprikur eru svakalega góðar í súpur, pestó, salat, vefjur, samlokur og hummus svo eitthvað sé nefnt. 

Málið er að brenna af henni hýðið, það er gert með því að setja þær í ofninn á háan hita eða undir grill þar til hýðið verður svart.  Þá fá þær að kólna og hýðið fjarlægt.

Ef þið eruð með gashellur þá má setja paprikuna beint í logann og snúa henni með töng þegar hýðir verður svart. 

Grillaðar paprikur

Fyrst skolaði ég paprikurnar

paprika 

Því næst kjarnahreinasði ég þær og skar í tvennt.  (Ég hef heyrt að ef þær eru grillaðar heilar, sem er líka hægt, þá eru þær svo mjúkar og því erfiðara að kjarnahreinsa). Ég raðaði þeim á álpappír í ofnskúffu og setti í ofninn, sem var stilltur á grillið, mesta styrk.  Ég hellti smá ólífuolíu yfir þær

paprika 

 

Eftir 8-10 mínútur voru þær farnar að svertast vel, þá fylgdist ég með þeim á mínútu fresti þar til þær voru tilbúnar.  Þær brenna nefnilega ansi hratt í lokin og við viljum ekki kolamola.

paprika 

Til að auðveldara sé að fjarlægja brennda skinnið setjið þær í lokað ílát, t.d skál með plastfilmu.

paprika 

Þegar þær eru orðnar nógu kaldar til að meðhöndla þær þá fjarlægi ég brennda skinnið, eflaust bara best að taka það af með puttunum.

paprika 

Þá eruð þið komin með dásamlegt hráefni, því paprikurnar verða svo sætar og bragðgóðar við þessa eldun. 

 


Fersk grænmetissúpa

Ég var að hlusta á Matur fyrir öllu á Rás 1.  Stórfínir þættir ef þið hafið ekki enn hlustað og það er hægt að nálgast þá í Sarpinum á ruv.is.  

Ég heyrði hjá viðmælanda tala um það þegar menn komu heim úr vinnunni í hádegismat, lögðu sig svo með hádegisfréttunum og fóru svo aftur í vinnuna. Það eru eflaust fáir sem tileinka sér þennan sið í dag.  

En það eru víst aðrar forendur í dag og þar á meðal sú að það engin heima til að elda ofan í viðkomandi og svo er það fjarlægð til vinnu, það tæki marga eflaust þennan klukkutíma sem færi í matarhléð að koma sér til og frá vinnu.  En þetta er notaleg hugmynd um hvernig var.

 

grænmeti 

Ég náði mér í eins mikið íslenskt grænmeti og ég gat hjá Frú Laugu í þessa súpu og hún endaði á að vera ansi græn grænmetissúpa þrátt fyrir að vera rauð á litin.  Íslenska spínatið var mjög gott.

Ég versla allt mitt grænmeti hjá Frú Laugu, og alla ávexti sem þau bjóða upp á.  Svo eru þau með frábæra ólífuolíu sem ég fylli reglulega á hjá mér.  

Þessi súpa er ekki með neina stæla, þannig að svona eldamennska hentar svo vel þegar maður er í því að elda allt sjálfur.  Þetta er því frábær uppskrift fyrir þá sem vilja elda allt sjálfir frá grunni með lítilli fyrirhöfn.  

Ég nota aldrei súputeninga.  Ég sleppti því að krydda súpuna nema með salti og pipar því ég setti rósmarín í croutonið og svo er nóg bragð af hvítlauknum og ostinum, og ég tala nú ekki um öllu þessu ferska og fína hráefni.

grænmetissupa 

Grænmetissúpa

  • 1 dós Chrused tomatoes frá Eden 
  • 1 græn paprika (íslensk)
  • 1/2 kúrbítur (íslenskur)
  • Spínat, 2 góðar lúkur (íslenskt)
  • 1/2 laukur
  • 1-2 hvítlauksrif
  • Óífuolía
  • Salt og pipar
  • 3 dl vatn
  • Góð skvetta af rjóma
  • Croutons
  • Parmagiano Reggiano
Skerið grænmetið í bita. Svitið grænmetið upp úr smá ólífuolíu. Bætið við tómötum og vatni og látið malla í hálftíma.  Í lokin má hella út í smá rjóma og fá upp suðu og bera hana svo fram með croutons og parmagiano.
 
Ég setti helmingin af  súpunni í blender, örsnöggt.
 
Berið fram með heimagerðum croutons og ferskum Parmagiano Reggiano.
 
Ég hef áður gefið uppskrift af croutons.  Þeir klikka aldrei.  Það er svo einfalt að gera þá og þeir gefa ótrúlega gott bragð þegar maður er með einfaldar súpur.
 
Ekki því henda brauðinu sem er orðið of aðeins of gamalt, skerið það frekar í teninga og setjið í frysti, þá má skella teningunum á pönnu í 5 mín með góðri olíu og gera þannig heimsins bestu croutons.
 
croutons 
Croutons 
  • Nokkura daga gamalt brauð (heimabakað eða gott baguette)
  • Þó nokkrar msk góð ólífuolía, bætið við eftir því sem þarf miðað við hvað brauðið dregur í sig
  • Rósmarín
  • Maldon salt
Skerið brauðið í litla teninga. Ég var með heimagert brauð, svipað og þetta.
og þetta brauð myndi líka virka vel.
 
Veltið teningunum upp úr olíu, rósmarín og salti á meðalheitri pönnu svo að þeir brúnist smá. 
Það er líka hægt að rífa/kreista eitt hvítlauksrif út í á pönnuna.  
 
Pottagaldrar eru með ágætis ítalskar eða grískar kryddblöndur sem hægt væri að prófa að krydda með.


Rúgbrauð og vorlaukurinn endalausi

Ég er búin að vera að baka í alla í nótt....þannig séð.  Ég setti rúgbrauðið í ofninn um 9 leytið í gærkvöldi og tók það út kl 7 í morgun.

En viljiði fyrst sjá hvað vorlaukurinn hefur vaxið mikið á einni viku? Sá til vinstri var jafn lítll og þessi til hægri, og þessi til hægri var orðin jafn stór og sá til vinstri, ég var að klippa af honum til að nota...

vorlaukur 

 

rúgbrauð 

Rúgbrauð

  • 375 g rúgmjöl
  • 125 g heilhveiti
  • 2 tsk matarsódi
  • 2 tsk salt
  • 1/2 l AB mjólk
  • 325 ml síróp

 

Öllu hrært saman. Deigið var fremur blautt.  Ég setti það í Ikea pottinn mitt sem er úr steypujárni og glerhúðaður að innan.  

 rúgbrauð

Ég var ekki viss um hvort það myndi klessast við pottinn þannig að ég setti smá bökunarpappír inn í pottinn.

Bakaði í ofni við 100°c í 10 klst.   

Svo er auðvitað hægt að nota mjólkurfernur eða kökubox. 

 Brauðið heppnaðist mjög vel og smakkaðist eins og seytt rúgbrauð :)

rúgbrauð 

Ég er ekki mikið fyrir rúgbrauð í morgunmat, en þetta er frábært með léttum hádegis brunch. Mmmmm, rúgbrauð með kæfu og agúrku eða steiktu eggi.  Og best af öllu, með plokkfiski.

 


Flatkökur

Ég var að lesa á umbúðir á flatkökum sem fást út í búð en röð innihalds fer eftir magni og á öllum pökkum sem ég hef lesið er alltaf meir af einhverskonar hveiti en rúgmjöli. Ein innihaldslýsing var hveiti, haframjöl, rúgmjöl. Fjallagrasaflatkökur innihalda ekkert rúgmjöl.

Það er mjög mismunandi innihaldslýsingar á flatkökupökkum eftir framleiðanda þannig að endilega lesið á umbúðirnar til að vita hvað þið eruð að versla.

Allar uppskriftir að flatkökum sem ég hef lesið innihalda mest af rúgmjöli þannig að ég gerði bara ráð fyrir að mest væri af rúgmjöli í þessum út í búð, en það útskýrir hvers vegna flatkökurnar út í búð eru "mýkri". Ég fann það þegar ég var að laga hlutföllin hjá mér að þær urðu viðráðanlegri ef meira var af hveiti, ég nota heilhveiti.

Ég hef þróað mig áfram með hlutföll og þær eru mýkri ef maður notar annað hveiti með rúgmjölinu. Flatkökurnar mínar innihalda þó alltaf meir af rúgmjöli en öðru mjöli.

Eini gallinn við flatkökugerð er að það kemur svo mikill reykur hjá mér þegar ég byrja að baka þær.  Það verður því ljúft þegar það kemur gott veður næst að skella sér út á hlað með litla sumarbústaðarofninn og henda í nokkrar flatkökur. Það mætti líka setja þær á grillið.

Á Brauðbrunni má sjá frábært video sem sýnir flatkökugerð.  Ása Ketilsdóttir er greinilega búin að mastera flatkökugerð en hún notar eingöngu rúgmjöl en fletur það svo út með hveiti.  

Það væri gaman að prófa uppskriftina hennar Ásu og nota natrón, smá sykur og salt.   

flatkaka

Það er með flatkökur eins og margar aðrar uppskriftir, engar tvær eru eins.  Ég sagði ykkur frá uppskriftinni í bókinni Matarást ekki alls fyrir löngu og hún er ágæt,  en hún hljómar svona:

Flatkökur

  • 200 g rúgmjöl
  • 100 g heilhveiti
  • 2 1/2 dl sjóðandi vatn
  • 1/2 tsk lyftiduft

Blandið öllu vel saman, og vatninu smám saman þar til þið eruð komin með gott deig.  Kannski þarf aðeins meir af vatni. 

Skiptið því niður í kúlur sem þið rúllið út í flatar kökur.  Pikkið í þær með gaffli.

Eldið á heitri pönnu (t.d pönnukökupönnu) eða hreinni hellu.  Bakist í ca eina mín á hvorri hlið.

Setjið kökurnar ofan í skál með smá vatni í og svo í plastpoka eða geymið þær í blautu viskastykki, það er svo að þær þorni ekki.  Þegar þið hafið bakað þær allar geymast þær í plastpoka.


Vorlaukurinn endalausi

Nú þurfiði bara að kaupa vorlauk einu sinni og aldrei aftur...stórsparnaður í því :)

Þegar þið hafið notað vorlaukin sem þið keyptuð skiljið þá eftir hvíta partinn á endanum með rótunum og skellið þeim í vatn.  Svo klippið þið bara ofan af honum eftir þörfum.

vorlaukur 

Á nokkrum dögum verður laukurinn búinn að vaxa um góða 5 cm. Hann vex mjög hratt. Ég skipti út vatninu á lauknum reglulega, nánast daglega.  Það er lítil fyrirhöfn þar sem ég er í eldhúsinu oftar en ekki.

Sama er svo hægt að gera við hvítlauk og svo má stinga honum í mold.  Ég byrjaði á að setja eitt rif í staupglas og fljótlega var farið að vaxa hvítlauksgras sem gott er að klippa niður og krydda með mat.

hvitlaukur 

 

 


HVERNIG Á AÐ VERSLA Í STÓRMARKAÐI? - Eplakaka - 4 hráefni! AÐEINS FJÖGUR

Það var nokkuð gott sem Michael Pollan talaði um í einni bókinni sinni um hvernig stórmarkaðir eru byggðir upp.  Og sú lýsing smellpassar við stórmarkaðina hér á Íslandi.

Ég man ekki nákvæmlega hvernig hann orðaði þetta en málið er að versla "hringinn í kringum búðina", allt sem er meðfram útveggjum búðarinnar því þar staðsetja þeir ferskmetið, mat sem hefur ekki hillulíf upp á marga mánuði.

Ef ég skoða t.d hvernig Krónan er uppbyggð þá stemmir þetta.  Maður byrjar á fersku grænmeti og ávöxtum, færir sig svo í fiskinn og kjötið.  Því næst tekur við egg og mjólkurvörur. 

En þá er þetta líka komið.  Svo fer maður "inn í búðina" einstaka sinnum til að ná sér í hreinlætisvörur, hveiti og sykur og annað hráefni sem geymist í "búrinu" hjá manni. 

Annað sem er í hillurekkunum og frystikistum eru meir og minna unnar vöru, þessar fersku eru meðfram allri búðinni.  Og þar á maður að versla.

HEIMABAKAÐ ER BEZT 

Þessi kaka var of einföld til að prófa hana ekki.  Hún hvarf liggur við um leið og hún kom úr ofninum.

Það er hægt að bera hana fram með ís (munið bara að nota heimagerða ísinn...) eða rjóma, en hún svínvirkar líka svona ein og sér, og nei ég stráði engum kanil eða sykri ofan á hana.  Það var ekki í uppskriftinni.

Hveiti, sykur, egg, epli...kviss bamm búmm. Ég mæli algjörlega með þesari næst þegar ykkur vantar eitthvað maul með kaffinu.

Ég var að maula á því litla sem var eftir nú daginn eftir og hún var alveg jafn góð og í gær, mjúk og fín.  Þannig að það væri hægt að henda í hana að kvöldi til og koma svo með hana í vinnuna dagin eftir handa vinnufélögum næst þegar að þið eigið að sjá um bakkelsi.  

eplakaka 

Einföld eplakaka

  • 1 1/3 bolli hveiti 
  • 1 bolli sykur 
  • 3 egg
  • 3 epli

Afhýðið og skerið eplin í  bita.  

Þeytið saman eggjum og sykri með rafmagnsþeytara í ca 2 mín.

Bætið við hveitinu í skálina og hrærið með trésleif (eða plastsleif) Ég notaði sleif og það tók ekki meir en mínútu að blanda þessu vel saman. (Það á semsagt ekki að hræra hveitinu saman við með rafmagnsþeytara).

Setjið eplin í kökuform sem hefur verið smurt að innan og hellið deiginu yfir eplin.

Bakið í ofni við 200°c í 5 mín.  Lækkið þá hitann niður í 180°c og bakið í 30 mín, eða þar til kakan verður gullinbrún.

eplakaka

Það er búið að vera svo yndislegt að fylgjast með nátturunni vakna til lífsins í sveitinni.  Maður vaknaði sjálfur til lífisins nú þegar það fór að hlýna aðeins og maður gat verið úti að sinna vorverkunum.  Á heimimleið keyrðum við fram hjá einu túninu þar sem kálfarnir voru að taka sín fyrstu skref, á næsta túni voru það folöldin og síðsast en ekki síst voru litlu lömbin nýkomin í heiminn. 

lamb 

Má maður vera væmin í friði og nei ég ætla sko ekki að koma með uppskrift af Lambakássu núna :)


Heimalagaður ís án eggja með appelsínu og rommbragði - HEIMAGERT ER BEZT

Ég ákvað að gera ís án eggja.  Þetta er enn ein afurðin sem maður á að gera sjálfur frekar en kaupa tilbúið út í búð með allskonar aukaefnum.  Á meðan ég var að frysta hann og hræra aðeins í honum stalst ég í skeið og skeið og á meðan hann var enn dálítið linur smakkaðist hann nákvæmlega eins og sjeik út í ísbúð. 

Það er endalaust hægt að bragðbæta grunnuppskrift af vanilluís.  Ég notaði heimagerðu vanillurommdropana mína og kreisti safa úr ofboðslega góðri appelsínu sem ég keypti hjá Frú Laugu.  Usss usss usss...Þessi ís er bara á mörkum þess að vera hollur, hefði ég ekki notað í hann sykur, en það er víst sykurinn sem gerir hann að þessum dásamlega ís... 

is 

Ís með appelsínu og rommbragði

  • 1/2 L rjómi
  • 2,5 dl mjólk
  • 1,8 dl sykur eða hrásykur (mætti nota aðeins minna finnst mér)
  • 1 fersk vanillustöng
  • 1 tsk vanilludropar eða heimagerðir vanillu rommdropar

Bragðefni: 

  • Safi úr 1-2 appelsínum
  • 2 msk romm 
  • 100 g fínt rifinn súkkulaðispænir úr 70% almennilegu súkkulaði 

 

Það þarf ekki að nota romm og það er hægt að hafa þetta með hvaða bragði sem ykkur dettur í hug eða gera einfaldlega vanilluís án bragðefna, það er líka gott.

Hitið saman 2 dl rjóma og sykur á meðalhita þar til sykurinn bráðnar. Skrapið baunirnar úr vanillunni og setjið í pottinn ásamt vanillustönginni, sem þið veiðið svo upp úr áður en ísinn fer í frysti.

Takið pottinn af hitanum og bætið við restinni af rjómanum, mjólkinni og vanilludropum.

Kælið ísblönduna í 8 klst eða yfir nótt í formi sem þolir frysti.

Fjarlægið vanillustöngina og frystið, ef þið viljið búa til kristalla í ísinn þá er gott að hræra íhann upp öðru hvoru á meðan hann er að frjósa. Svo er hægt að nota ísvél fyrir þá sem það eiga.

Það tók mig innan við hálftíma að gera ísinn klárann í ísskápinn.  

Ég mun nota ögn minna af sykri næst, þetta varð frekar sætur ís.  En samt mjög góður ef þið viljið hafa hann sætan. 

 

HEIMAGERT ER BEZT 

Hráefnið í þessum ís er mjög ferskt.  Það má sleppa vanilludropum og rommi til að hafa þetta sem hreinast og bragðbæta með ferskum lífrænt ræktuðum ávöxtum eins og t.d appelsínum hjá Frú Laugu sem koma frá Sikiley. 

 


Hrökkbrauð - HEIMAGERT ER BEZT

HEIMAGERT ER BEZT

Næstu færslur verða svolítið litaðar af "Heimagert er bezt".  Ég er svolítið að hugsa upphátt í þessum færslum.  Ég er mikið búin að vera að elda eins og ég get frá grunni og pæla mikið í hráefnisnotkun og hvaðan hráefnið kemur.  Ég hef sniðgengið tilbúin mat í langan tíma, ég kaupi aldrei frosin tilbúin mat og nánast aldrei krukku eða pakkamat.   

Síðasta árið hef ég farið skrefinu lengra og gert meir og minna allt sem ég get sjálf, það bætist sífellt við listann hlutir sem ég geri sjálf.  Það er seint hægt að segja að það sé sparnaður í því.  Því miður er það oftast dýrara að gera hlutina sjálfur frá grunni, nema kannski það sem inniheldur bara hveiti, vatn og egg eins og ýmis brauð, núðlur og pasta.

En það er samt þess virði.  Maður gerir sér betur grein fyrir því sem maður lætur ofan í sig, maður er laus við MSG og önnur óæskileg efni.  Sykurmagninu stjórnar maður sjálfur!  Það er stór plús miðað við hvað allt er orðið dísætt.  Fyrir utan það að mér finnst gaman að elda og spá og spekúlera í hráefni.

Ég er þó ekki í einhverju sem í dag telst til heilsufæðis, því ég baka, nota hvítt hveiti og sykur. Þetta er bara venjulegur matur, en hann er heimagerður og þá er maður líka laus við mikinn óþverra, og fyrir vikið borða ég einfaldari mat og mikið af fersku grænmeti.

Stundum getur þetta verið tímafrekt, en ekki alltaf. Mér finnst þeim tíma vel varið sem ég eyði í eldhúsinu í að gera góðan mat fyrir fjölskylduna.  (Mér finnst skemmtileg hugmyndin um  ítölsku húsmóðurina í litlum falleg bæ sem er alltaf í eldhúsinu með fullt af fersku grænmeti frá markaðinum og nýtíndum sítrónum, svo ilmandi ferskum og tómatsósan hennar með kjötbollunum  sú besta í þorpinu. Þið sjáið hana kannski fyrir ykkur).

Hér er listi yfir nokkra hluti sem dettur í hug að svo stöddu sem auðvelt er að gera sjálfur og smakkast svo vel heimagert.

  • Pasta
  • Asískar núðlur
  • Brauð
  • Sultur
  • Ís
  • Kex
  • Thai sweet chili sósu
  • Tómatsósa
  • Granola bar 
  • Musli
  • Kjötfars
  • Fiskfars
  • Tortilla kökur
  • Kínverskar kökur
  • Vorrúllur (og deigið)
  • Osta
  • Smjör
  • Jógúrt
  • Kæfur

 

Ég er búin að lesa margar hrökkbrauðsuppskriftir, hlutföllin eru yfirleitt svipuð, sumir nota rúgmjöl, aðrir spelt eða hveiti, yfirleitt er notað haframjöl og svo nokkrir dl af fræjum.  Einhverjir nota dl af olíu, aðrir bara matskeið.  

Sumir baka í langan tíma við lágan hita, aðrir hærri hita í styttri tíma. 

Ég átti ekki rúgmjöl en átti spelt þannig að ég notaði það.  Næst ætla ég að nota rúgmjöl og minna af fræjum. 

hrökkbrauð 

Hrökkbrauð

  • 2 dl Spelthveiti (eða venjulegt, eða rúgmjöl)
  • 1 dl haframjöl
  • 2 dl fræ (5 korna blanda, graskersfræ og sólblómafræ)
  • 1 tsk Maldon salt
  • 4 msk matarolía
  • 1 dl vatn

 

Öllu hrært saman.  Smurt út á bökunarpappír á ofnplötu.  Ég flatti þetta bara út með bakinu á skeið en það er líka hægt að leggja bökunarpappír ofan á deigið og fletja út með kökukefli.  Potið í þær með gaffli, 

Ég hafði mínar frekar þunnar, en ekkert of.

Ég bakaði þær í 30 mín við 170°c.  Svo slökkti ég á ofninum en tók þær ekki út strax.  Þær voru þó alveg full bakaðar eftir þessar 30 mín.  

 

Uppskrift af sænsku hrökkbrauði  sem gaman væri að prófa er:

 

  • 1 1/3 bolli rúgmjöl
  • 3/4 tsk sykur
  • 1/4 tsk salt
  • 4 msk smjör
  • 1/3 bolli mjólk

 

(1 bolli er 2,4 d) Öllu blandað saman í matvinnsluvél, nema mjólk.  Svo bætið þið við mjólkinni og fáið gott deig, fletjið það út og skerið í ferninga, stingið á það göt og bakið í ofni  við ca 170 í 10 -15 mín. 


Myntu og melónusalat - Kona kærir Nutella, hélt að súkkulaðihnetusmjörið væri hollt

"Ég stóð mig að því um daginn að kaupa Svala af því að tveggja ára dóttir mín vildi fá appelsínu með augu og munn að spila á gítar. "

Það var kona í Bandaríkjunum, en ekki hvar, að lögsækja Nutella.  Hún var búin að vera að gefa fjögurra ára dóttur sinni Nutella súkkulaðihnetusmjörið í morgunmat haldandi það eftir að hafa séð auglýsingu frá þeim að þetta væri hollt.  Ætli hún fari ekki svo á MCdonalds til að gefa dóttur sinni kjöt með kartöflum og sósu í kvöldmat.

Í alvöru?  Og ekki bara það heldur vann hún málið.  Ég hef ekki kynnt mér lagalega hlið málsins en skil ekki hvernig henni tókst að vinna mál, þar sem það fer ekki milli mála á innihaldslýsingu krukkunnar að þetta er ekki hollt.  Fyrir utan það, síðan hvenær er unnin súkkulaðivara holl hvað þá vara framleidd af sælgætisfyrirtæki (Ferrero)?

Hér fann ég smá klausu um málið ásamt auglýsingunni, sem er með engu móti villandi.  Þarna talar móðirin um hvernig hún geti fengið börnin sín til að borða morgunmat, ekkert um að það sé hollur morgunmatur.

En þetta er víst svona í Ameríku.  Margt fólk tekur enga ábyrgð á sjálfu sér og lætur mata sig af endalausri markaðsetningu án þess að hugsa.

Þetta er kannski skárra hér á Íslandi en samt til staðar.  Ég stóð mig að því um daginn að kaupa Svala af því að tveggja ára dóttir mín vildi fá appelsínu með augu og munn að spila á gítar.  Hún hafði í sjálfu sér engan áhuga á innihaldinu en umbúðirnar heilluðu miklu meira en umbúðirnar á Trópí, sem er mun betri vara.  Þetta geri ég ekki aftur, að láta fyrirtæki sem selur bölvaða óhollustu í krakkavænum umbúðum stjórna mér, ....hvað þá að láta krakkann stjórna mér svona. :)

Hér er mynd sem útskýrir afhverju mér finnst Trópí betri en Svali, og fyrir utan sykurmagnið í Svala þá eru það öll gerviefnin, sýrur, bragðefni og ég tala nú ekki um aspartam.  

Svo eru örugglega einhverjir sem gefa börnunum sínum Skólajógúrt eða Engjaþykkni og halda að það sé hollt. 

En næg predikun um hvað sé hollt og hvað ekki.  Það verður hver og einn að vera í stíl við sjálfan sig.  Á mínu heimili er ekki drukkið gos og ekki keyptur svali eða aðrir gerfiefnadrykkir.  Ég kaupi Appelsínutrópí, og meir að segja þennan dýrari sem er framleiddur úr appelsínusafa en ekki þykkni. 

Að sjálfsögðu stefni ég að því að kreista minn eigin appelsínusafa úr appelsínunum hjá Frú Laugu, eingöngu... :) 

Ef ykkur langar í ferskt salat þá er þetta málið.  Það verður vart ferskara.  Þrátt fyrir óhefðbundin hráefni þá passar þetta svo vel með ýmsum mat.  Meir að segja pizzu.

melonusalat 

Myntu og vatnsmelónu salat

  • Vatnsmelóna
  • Mynta
  • Hreinn fetaostur
  • Góð ólífuolía
  • Salt eftir smekk

Skerið melónu í ferninga, svona litla munnbita, skerið fetaostinn í litla ferninga eða mjög litla bita, hálfgerða mylsnu, mér finnst það mjög gott.  Saxið myntuna fremur fínt.  Blandið öllu vel saman í skál og dreypið smá ólífuolíu yfir (en bara ef hún er bragðgóð og alvöru).  Saltið ef þið viljið og þá bara eftir smekk.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband