Færsluflokkur: Matur og drykkur
16.12.2013 | 22:56
Húsið við sjóinn - Grissinistangir
Ég minni á að ég blogga hér, Húsið við sjóinn á wordpress. Síðast skrifaði ég um frábærar Grissini stangir.
1.12.2013 | 16:20
Jóladagatal fyrir börn og jólabörn
Ég ætla að telja niður dagana til jóla með börnunum á síðunni hennar Soffíu og félaga. Vonandi sjáið þið eitthvað sniðugt sem nýtist ykkur. Það er margt hægt að gera sem kostar ekki neitt og annað sem ekki þarf að kosta svo mikið, börnum til skemmtunar í desember.
Klisjan alkunna! Það er tíminn sem við gefum okkur með börnunum sem er dýrmætastur fyrir þau og meira virði en nokkuð fjöldaframleitt plastdrasl frá Kína eða ódýrt súkkulaði.
Fylgist með frá byrjun:
http://joladagatalsoffiu.wordpress.com/
13.11.2013 | 19:50
Sykurlaust snakk fyrir krakka og alla hina líka
17.9.2013 | 11:19
Soya sósa er ekki bara soya sósa og svo er sushi út um allt...fast food?
Ef þið kaupið soya sósur þá skuluð þið vera viss um að þið séuð að kaupa alvöru soya sósu. Alvöru soyasósa inniheldur soyabaunir en gervi soyasósa inniheldur soyabauna "extract" og litar og bragðefni. Þær fást í flestum matvöruverslunum hér á landi.
Kikkoman selur alvöru soya, þar sem innihald er vatn, soyabaunir, hveiti og salt. La Choy er gervi soya sósa, eða "Chemical soy sauce" með bragð og litarefnum.
Þeir á Serious Eats eru hér með góða samantekt um soya sósur.
Ég var að lesa bók sem heitir The fortune cookie chronicles og þar er ágætur kafli um soya sósur og skemmtileg lesning um kínverska veitingastaði í Ameríku, mæli alveg með þessari bók.
Sushi trefill sem ég prjónaði og prjónarnir með :)
Nú er komið sushi í flesta stórmarkaði
Þið hafði kannski tekið eftir því að það er viðvörunarmiði á sushi bökkum í stórmörkuðunum þar sem bent er á að bakkinn innihaldi efni sem geta haft áhrif á athygli og einbeitingu þannig að það virðist vera sem þeir séu með gerfi sósu í bökkunum, ekki mikill metnaður þar.
Ég hef ekkert kynnt mér þessa bakka eða þá sem framleiða þá, en ég vona að þeir séu metnaðarfullir með ferskan fisk og gott hráefni, því þótt svo að sushi sé ekki djúpsteikt eða löðrandi í majónesi þá er oft mikið af litar og bragðefnum, grænn í wasabi sem er gert úr piparrót því wasabi jurtin er dýr, bleiki liturinn í þangi og engifer, surimi er svona eitthvað eins og kjötfars kannski, bara með fiskafgöngum, Nori þangið getur verið mengað ef það er unnið úr þangi sem er í menguðum sjó eins og við stórborgir Kína, arsen er í hrísgrjónum og svo gervi soyasósan, brimsölt með litar og bragðefnum.
Surimi er í flestum þessum þessum bökkum, en surimi er undarlegasti matur og ég skil ekki að fólk kaupi það til að nota í sushi þegar við eigum allan þennan hreina og góða fisk og humar.
...kannski afþví að það er ódýrt ...og afhverju er það ódýrt...?
Hér er innihaldslýsing á surimi sem ég fann á þessari síðu:
Alaska Pollock, Water, Egg Whites, Wheat Starch, Sugar, Corn Starch, Sorbitol, Contains 2% or Less of the Following: King Crab Meat, Natural and Artificial Flavor, Extracts of Crab, Oyster, Scallop, Lobster and Fish (Salmon, Anchovy, Bonito, Cutlassfish), Refined Fish Oil (Adds a Trivial Amount of Fat) (Anchovy, Sardine), Rice Wine (Rice, Water, Koji, Yeast, Salt), Sea Salt, Modified Tapioca Starch, Carrageenan, Yam Flour,Hydrolyzed Soy, Corn, and Wheat Proteins, Potassium Chloride, Disodium Inosinate and Guanylate, Sodium Pyrophosphate, Carmine, Paprika.
Æ, þá held ég að ég fái mér frekar plokkfisk...
Ég vil ítreka að mæðrum er sterklega ráðlagt að gefa börnunum sínum 6 ára og yngri alls ekki barnamat sem inniheldur hrísgrjón, hrískökur eða hrísgrjónamjólk út af miklu magni af arsen sem finnst í þessum vörum . Barnamatur inniheldur mjög oft mat sem hefur verið maukað við grjón, lesið á umbúðir! Að lokum þá er meira arsen í brúnum grjónum en hvítum.
Jáhá!
Þetta voru hugleiðingar um soya sósu, sem fór úr soyasósunni í sushi í surimi í arsen, alltaf gaman að því þegar eitt leiðir svona að öðru en ég ætla að láta þetta gott heita.
Ooohh. Nú langar mig í sushi og kalt hvítvín, ég fékk svo gott sushi á Fiskmarkaðinum um daginn, það er frábært að fara þangað í sushi löns.
Í lokin ætla ég að láta fljóta með uppskrift af því sem ég geri alltaf þegar það er sushigerð í heimahúsi, ferskasta sushi-ið í bænum.
Ég er mikið fyrir sushi og þessi réttur hér klikkar aldrei. Hann er frábær sem forréttur og á sushi hlaðborðið.
LAX Í SKÁL
- Lax
- Avacado
- Vorlaukur
- Sesamfræ
- Rauð silungahrogn
- Ferskt engifer
Skerið ferskan laxinn (eða reyktan ef það hentar ykkur betur) frekar smátt, 1-2 cm ferninga, avocadoinn einnig sem og vorlaukinn. Blandið þessu saman i litla skál. (Ein skál á mann)
Í þetta fer svo um það bil teskeið af sesamfræum og teskeið af hrognum, teskeið af rifnum ferskum engifer. Blandið varlega saman.
(Ég nota svipað magn af lax og avacado, u.þ.b 1/4 avacado á mann)
Borið fram með "alvöru" Soya og gervi wasabi ;) og jafnvel súrsuðu engifer.
27.8.2013 | 15:32
Food revolution
Hafið þið séð Food revolution með Jamie Oliver? Þetta er flottir þættir, Jamie er að reyna að ná til hins dæmigerða kana sem lifir á skyndibita og hugsar ekki um afleiðingar þess að borða unninn skít.
Ef einhvernvegin væri hægt að ná til þessa fólks sem ekki hugar að matarræði og þar með heilsunni þá væri það eflaust í gegnum raunveruleikasjónvarp.
Það er áhugavert að sjá hann berjast við kerfið til að komast í mötuneyti skólanna.
Þróunin hér heima er að vera álíka, stórmarkaðir hérna fyllast af unnum matvörum, frosið, niðursoðið, þurrkað...
Ég hef áður talað um það og segi það aftur, farið í stórmarkað og verslið í útjaðri búðarinnar, ferskvörunni og látið unnar og tilbúnar matvörur eiga sig.
Ef manni langar í góðan og einfaldan mat , langar helst í pizzu en nennir ekki fyrirhöfninni þá er þetta málið!
Súrdeigsbrauð pizzastyle
- Ótrúlega gott súrdeigsbrauð úr bakaríi, loftkennt og létt!
- Tómat passata
- Ferskur mossarella
- Ofur gott salami úr kjötborði
- Ferskan og góðan lauk, ef þið eigið, bestur í Frú laugu!
- Oregano, salt og pipar
*hráefnið í réttinn hér að ofan fæst í Frú Laugu, þau eru yfirleitt með salami frá Kjötpól, sem er annars bara beint á móti Frú Laugu í Laugarnesi.
Dreyfið úr tómat passata á brauðsneið, leggið ostsneiðar, salami og lauk yfir. Bakið í ofni á grilli þar til osturinn byrjar að brúnast. Stráið oregano, salti og pipar yfir þegar brauðið kemur úr ofninum.
Ef þið eigið ferskt oregano (timian) þá er það frábært annars hefur mér fundist oregano kryddið frá Himneskt alveg ágætt.
Ef þið eigið börn þá minni ég á heimasíðuna mína www.soffia.net með allskonar skemmtilegu og lærdómsríku efni. ég var að setja inn nýjan leik um formin.
- Grænkál
- Svakalega góð Extra Virgin Ólífuolía
- Sjávarsalt
12.8.2013 | 19:30
Sweets for my sweet, og hugsað upphátt um græðgi
Spáið í þetta næst þegar þið þurfið "food stuff".
Hvað finnst ykkur? Eiga allir að hafa rétt á vatni eða á að einkavæða allt neysluvatn?
Endilega horfið á þessa áhugaverðu sýn hans hér á youtube.
Þetta er svona grunnt í árina tekið hjá mér, ég er bara að hugsa upphátt...
7.8.2013 | 12:13
Hin fullkomna pizza, þriðji hluti - áleggið
Regla númer eitt, ekki troða of miklu á pizzuna, þá verður botnin slepjuelgur. Ég veit það er stundum erfitt að hemja sig en less is more í þessu tilviki. Ég á það sérstaklega til að setja of mikið þegar kemur að burrito og öðru sem þarf að vefja, þá er það ómögulegt því ég er búin að troða helling af öllu.
Ég er þó alveg búin að læra að hemja mig þegar kemur að pizzugerð.
Það sem þarf að huga að þegar gera skal góða pizzu hvað varðar álegg er eftirfarandi:
- Less is more
- Nota gæða álegg
- Nota ferskan mozzarella og ferska basiliku
- Ekki vera hræddur við að prófa eitthvað nýtt
Það er ekki oft sem maður rekst á íslenskt rúgmjöl, (aldrei) en það gerðist þegar ég var á Flúðum um daginn. Við fórum á bændamarkaðinn þar í bæ og þar fjárfesti ég í poka af rúgmjöli frá Ískorni.
Það má lesa meir um Ískorn hér.
Ég notaði það til að baka flatkökur og það kom mjög vel út. Ég notaði 200 g af rúgmjöli á móti 100 g af steinmöluðu heilhveiti. Svo nota ég venjulegt hvítt hveiti til að rúlla þeim út.
Ég hef áður minnst á það að einhverntíma skoðaði ég innihaldslýsingar á flatkökum út í búð og þar var aldrei rúgmjöl notað í meirihluta. Oftast var heldur ekkert rúgmjöl í flatkökunum.
Ég hef verið að styðjast við uppskrift frá matarást, en hér er bloggfærsla sem ég gerði um flatkökur. Ég mæli eindregið með að þið látið vaða í flatkökugerð. Það jafnast ekkert á við nýbakaðar heimagerðar flatkökur.
Síðast var ég búin að fletja út svo margar og átti enn eftir deig þannig að ég gerði nokkrar kökur eins og ég væri að gera tortilla kökur. Svo fyllti ég þær með brakandi fersku grænmeti sem ég fékk á Flúðum ásamt svakalega góðum heimagerðum sósum.
Við vorum orðin ansi svöng eftir góðan dag á Flúðum þannig að við fundum stað til að setjast niður og fá okkur eitthvað að borða.
Á matseðlinum var Flúðaborgari með grænmeti frá bændunum í sveitinni. Það hljómaði vel en fannst mér lítið til hans koma og undraðist ég mjög á að fá þreyttan borgara með aumingjalegu iceberg og 2 sneiðum af fölum tómati í hjarta grænmetisræktunar á Íslandi.
Sjálf var ég með út í bíl fullan poka af ilmandi paprikum, agúrkum, sveppum salati og fleira góðu sem ég hafði verlsað af bændum þarna í grenndinni. Ég hefði betur nartað í það.
Rúgmjöls tortilla kökur eru fáránlega góðar!
Uppskrift af þessum svakalega góðu tortilla kökum má finna hér ásamt myndum sem ég tók þegar þokan læddist inn Hvalfjörðinn.
Og þá er komið haust?...
23.7.2013 | 08:06
Halloumi ostur, frábær forréttur ef þið ætlið út að grilla í dag
Ég er núna að lesa bók eftir Michael Pollan sem heitir Cooked. Ég mæli algjörlega með henni. Kaflinn um brauðgerð er sérlega áhugaverður!
Ég hef verið að reyna fyrir mér í súrdegisbrauðbakstri, það hefur gengið ágætlega. Síðasta brauð sem ég gerði kom mjög vel út fyrir utan það að ég gleymdi því í ofninum 45 mínútum of lengi þannig að skorpan brann almenninlega en ótrúlegt en satt þá var brauðið undir skorpunni ljúffengt.
Ég fór í ostabúð fyrir nokkkru og spurði um Halloumi ost og afgreiðslukonan vissi ekki hvað var sem mér fannst ansi undarlegt, miðað við að ég var í búð sem sérhæfði sig í ostum og Halloumi er nokkuð vinsætt erlendis.
Nema hvað, svo er loksins hægt að fá hann í Búrinu og meir að segja hefur hann fengist í Bónus undanfarið.
Það besta við Halloumi er hvað hann er saltur, mmmmm. Svo er hann þéttur í sér þannig að hann bráðnar ekki þegar maður skellir honum á panini grillið eða á grillpönnuna. Það er nefnilega möst að hita þennan ost til að hann njóti sín sem best.
Ég mæli með því að þið prófið þennan ost. HAnn er góður einn og sér eftir að hafa fengið 1-2 mínútur á grillinu. Svo er hann líka meiriháttar í salat, Halloumi salat þar sem hann er í aðalhlutverki.
Ef þið ætlið að grilla í dag þá er fullkomið að skella ostinum á útigrillið, ásamt pizzadeiginu til að gera "flat bread".
Ég var mikið að velta fyrir mér hvernig ég ætti að bera hann fram miðað við hvað til var og þetta var útkoman og hún var vægast sagt frábær, osturinn fékk svo sannarlega að njóta sín í þessari útfærslu. Rauðlaukurinn rokkaði með.
Grillaður Halloumio með ruccola og rauðlauk og grilluðu flatbrauði
- Halloumi
- Klettasalat (Ruccola)
- Rauðlaukur
- Pizzadeig
Skerið Halloumi ostinn í sneiðar, u.þ.b hálfan cm á þykkt. Leggið klettasalat á disk, stráið fínt skornum rauðlauk yfir. Leggið grilluðu ostsneiðarnar ofan á salatbeðið.
Berið fram með flatbrauði (flat bread).
Flatbrauðið gerði ég á eftirfarandi hátt.
Ég tók heimagert pizzadeig sem ég átti inn í ískáp, flatti það þunnt út í kökur á stærð við pítubrauð. Síðan skellti ég þeim í panini grillið eftir að hafa penslað það létt með ólífuolíu. Það tekur ekki nema nokkrar mínútur og elda pizzadeigið þannig. Svo skar ég það niður eins og ég væri að skera pizzu og bar það fram með ostinum.
Njótið veðurblíðunnar í dag, langþráð blíða, ég er farin út með ofninn góða að baka flatkökur.