17.6.2008 | 17:54
Gallo Pinto
Mér finnst fátt betra en Gallo pinto í morgunmat, uppistaðan er hrísgrjón og svartar baunir. Þessum rétti kynntist ég þegar ég var við nám í Costa Rica. Ég fékk þetta á næstum hverjum degi og var komin með nett ógeð á tímabili, fyrir utan það að vera ekki vön að borða hrísgrjón í morgunmat. Núna er þetta eitt af þvi besta sem ég fæ, og fæ mér það oftar en ekki í morgunmat. Og svo er þetta svo gott fyrir hægðirnar.
Nauðsynlegt er að bera þetta fram með Tortillas (helst maís tortillas) og eggi (over easy eða sunny side up)
Gallo Pinto.
- 3 dl hrísgrjón (soðin og kæld)
- 2 dl svartar baunir (eða alla dósina)
- 1/3 rauður eða grænn chile, eða eftir smekk
- 1 hvítlauksrif
- Hálfur laukur
- 2-3 gulrætur
- 1 rauð paprikka
- Ferskt kóríander
- Matarolía
- Salt
Á pönnu svitið lauk, paprikku, hvítlauk, chile og gulrætur í olíu. Bætið svo við hrísgrjónum og svörtum baunum. Því næst saxið kóríander og bætið við, og saltið svo. Látið malla saman í svotla stund, eða þar til gulræturnar eru orðnar meirar.
Ekki flókið, ef ég geri stóra uppskrift þá frysti ég það sem ekki er borðað.
Maís tortillas
- 2 bollar Masa Harina (það fékkst í mexíkóskri gjafavöruverslun sem var á laugarveginum, veit ekki ef hún er til í dag)
- 1 og 1/4 bolli vatn
- smá salt
Hnoða vel saman og gera u.þ.b 8 kúlur og fletja út. Ég nota tortilla pressu, en líka hægt að nota kökukefli, og setja flatta kúluna á milli plastfilmu og rúlla út þannig. Flatt út í þunnar kökur, og bakað á þurri pönnu í ca 20-30 sek á hvorri hlið, og svo aftur á fyrstu hliðinni i aðrar 20 sek.
Þetta video sýnir ágætlega hvernig þetta er gert Svo er líka hægt að nota bara venjulegt hveiti, þá er þetta bara eins og í Roti uppskriftinni hér í færslunni á undan.
Svo er að steikja 1-2 egg á mann, ég hef rauðuna svoldið lina til að fá smá "sósu" fíling og VOILÁ! þá er morgunmaturinn tilbúinn.
Borið fram með ísköldu fersku hvítvíni, Mimósu, nú eða Bloody Mary á fögrum laugardagsmorgni.
Sx
p.s... þetta er einn af þessum réttum sem er alltaf jafngóður eða betri við næstu upphitun...
Meginflokkur: Matur og drykkur | Aukaflokkar: Bloggar, Lífstíll, Menning og listir | Breytt 10.9.2008 kl. 19:22 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.