Rauðrófusósa/ídýfa

Rauðrófur eru ótrúlega góðar, lúmskt hráefni. Og þegar þær eru blandaðar saman við sýrðan rjóma þá verða þær svo fallegar á litinn. 

Ég hef áður sagt ykkur frá þessari ídýfu, og svo prófaði ég hana aftur um daginn, og mér finnst hún mjög góð.  Það má leika sér með þessa uppskrift og prófa hana með ýmsu.  Mér finnst hún góð með grilluðu pítubrauði eða bláa Doritos.

Mörgum finnst þetta kannski ekki hljóma vel, en þetta er mjög gott, sósa/ídýfa sem sómir sér vel á hlaðborði.  Ég á eftir að gera hana aftur og prófa jafnvel með fiski eða grænmetisrétti.

 rauðbeðuídýfa

Hún verður svo fallega bleik á litinn. 

Rauðbeðuídýfa

  • 1 rauðbeða
  • 3-4 msk sýrður rjómi
  • 1-2 hvítlauksrif
  • smá salt, eftir smekk

Sjóðið rauðbeðu(r) og afhýðið, eða kaupið þær forsoðnar. Setjið allt í matvinnsluvél og maukið vel.

Setjið í skál og berið fram sem sósu eða ídýfu.


Kaka úr sætum kartöflum og bara hollustu

Ég gerði mjög góða köku úr sætum kartöflum.  Vinkona mín gerði eina slíka fyrir nokkru sem var svo góð en hún mundi ekkert hvað hún hafði sett í deigið, en hún er lagin við að gluða saman
hollu hráefni í kökur og bökur, hún mundi eftir að hafa notað sætar kartöflur, kókós og hirsi.

Þannig að ég ákvað bara að taka hennar aðferð á þetta og setti sitt lítið af ýmsu í kitchen aid skálina, mallaði því saman og dreifði úr því í bökuform og bakaði við 180°c í 40 mínútur.

Ég var ekki að taka nákvæma mælingu, því það er engan vegið svo nojið.
Þessi er mjög góð með ýmsum réttum.  Ég bar hana t.d fram með þessum grænmetis tortilla rétti og það var brilliant. Þannig að það er bæði hægt að bera hana fram með mat og svo væri hún líka góð með rjóma og örugglega ís líka.
 
Þessi kaka var svo góð að ég náði ekki mynd fyrr en það var búið að narta vel í hana. 
 
kaka 
 
Kaka með sætum kartöflum 

  • 1 sæt kartafla, soðin
  • 1 banani
  • 1/2 dl kókós
  • 1-2 tsk agave sýróp
  • 4-5 msk hveiti
  • 1 tsk matarsódi
  • 1 tsk salt
  • Lúka af döðlum og 2-3 msk af vatninu sem þær suðu í
  • Lúka af heslihnetum
  • Lúka af möndlum
  • 1 msk smjörklípa 
Sjóðið sæta kartöflu í einum potti og döðlur í öðrum.  Ég sker sætu kartöfluna í bita og síð í um það bil hálftíma, döðlurnar sýð ég í um 10 mínútur.
Blandið saman  í matvinnsluvél hnetum og döðlunum ásamt 2-3 msk af vökvanum sem döðlurnar voru soðnar í og hakkið saman.  
Blandið þessu og öllu hráefninu í hrærivél.  Dreifið úr maukinu í bökuform og bakið við 180° C í 40 mínútur.

Konfekt, sykraður appelsínubörkur með 70% súkkulaði

Ég rakst á þessa uppskrift um daginn í gömlum Gestgjafa (16. tbl, 2008, bls 50) og stóðst ekki mátið þar sem einn sem ég þekki er appelsínukall.

appelsínubörkur

Svona fór ég að:

Konfekt, sykraður appelsínubörkur með 70% súkkulaði

  • 1 appelsína
  • 180 g sykur
  • 1 1/4 dl vatn
  • 100 g 70% síríus súkkulaði
appelsínubörkur

Rífið börkinn utan af appelsínunni, svo hann sé heillegur.  Skerið hann í ræmur.  Sjóðið hann 3 x í sjóðandi vatni með því að skipta um vatn í hvert sinn sem þið sjóðið hann.  (Sjóða í 10 mín, skipta um vatn, sjóða í 10 mín, skipta um vatn, sjóða í 10 mín.)

Með því að skipta um vatn nokkrum sinnum þá losnar maður við remmuna í berkinum.

Þerrið appelsínubörkinn á eldhúspappír.

Sjóðið saman vatn og sykur í 5 mínútur.  Setjið appelsínubörkinn út í sykurvatnið og sjóðið þar í 20 mínútur.

Kælið hann á grind.

Bræðið súkkulaðið og hjúpið börkinn.


Lasagna, eldað úr íslensku hráefni

Ég gerðist mjög metnaðarfull í eldamennsku minni þar sem ég nota eingöngu íslenskt hráefni og bjó til lasagna. Ég þurfti því að gera allt frá grunni, þ.á.m lasagna plöturnar og tómatsósuna. Og auðvitað þurftu lasagna plöturnar að vera úr íslensku byggmjöli og bechamel sósan einnig. Með þessu var borið fram hið óalíslenska rauðvín Marques de Casa Concha, Cabernet Sauvignon

Þetta var fróðleg eldamennska og útkoman ágæt. Allt smakkaðist vel, nema það vantaði púður í tómatsósuna, tómatarnir voru hálf óþroskaðir, þið vitið, bara svona eins og þeir eru í búðunum, fölir og ekki sérlega safaríkir.Þar sem ég átti allt eins von á bragðlausu lasagna þá setti ég Caprese salat ofan á lasagna-ið í lokin og bakaði það bara örstutt til viðbótar í ofninum, svona 2-3 mínútur.

Hér er uppskriftin af alíslensku lasagna.

lasagna

Lasagna úr íslensku hráefni

Lasagna plötur

  • 3 dl byggmjöl
  • 3 egg

Hnoðað saman og flatt út í pasta vél eða með kökukefli. Ég var ekki með pastavéĺina þannig að ég notaði kökukefli og það gengur ljómandi vel. Ef deigið vill festast við keflið þá gluða ég bara smá byggmjöli á deigið.

Bechamelsósa

  • 3 msk smjör
  • 3-4 msk byggmjöl
  • Mjólk eftir þörfum, eða þar til sósan er orðin hæfilega þykk.

Bræðið smjör, hrærið saman við það byggmjölinu og búið til bollu. Hellið saman við mjólkinni, smám saman og hrærið stanslaust þar til þið eruð komin með fallega þykkt á sósuna, svona hefðbundna sósuþykkt, ekki of þunna samt.

Tómatsósa

  • 6 tómatar
  • 6 plómutómatar
  • Fersk Basil
  • Ferskt oregano
  • 1 msk smjör

Skerið kross í tómatana ofan á þá og setjið í sjóðandi vatn í 1 mínútu, þá losnar skinnið af þeim. Takið þá upp úr vatninu og losið af hýðið.

Bræðið smjör í potti, bætið við tómötum og merjið þá.

Saxið kryddjurtirnar og bætið þeim við.

Leyfið þessu malla í smá stund.

Hakk

  • 500 g nautahakk
  • Sveppir, góð lúka
  • 4 sneiðar beikon
  • Hálf paprika, smátt skorin
  • Smjör til steikingar, væn klípa

Steikið hakk í smjöri og svo beikonið.  Bætið við sveppum og papriku. Þegar kjötið er ágætlega steikt bætið þá við tómatsósunni sem þið bjugguð til.

Leyfið þessu að malla í korter eða svo.  Raðið þessu í eldfast mót, kjötsósa, bechamelsósa, lasagnaplötur til skiptis. Bakið í ofni við 200° C í korter.

Rífið niður mossarella (ekki þennan ferska heldur þann sem er eins og brauðostur í útliti) og dreifið honum ofan á lasagna-ið og bakið í 10 mínútur til viðbótar.

Setjið þá ferskan mossarella, ferskar tómatsneiðar og ferska basil ofan á og setjið inn í ofn aftur í nokkrar mínútur.

lasagna

Þá er það komið. NB: Þar sem ég vil að allt sé ræktað hér heima þá nota ég kryddjurtir frá Engi, hinar sem eru í svona plastöskjum með íslenskri merkingu eru ræktaðar í Hollandi.

Hér er skemmtileg lesning frá heimasíðu Krúsku:


Aðeins meir um bankabygg

Ég er enn að elda eingöngu úr íslensku hráefni.  Það gengur vel og þetta er skemmtileg tilraun, sem meðal annars hefur orðið til þess að ég er farin að borða fisk 3-4 x i viku.  Og það fisk án stæla, eldamennskan er einfaldari hjá mér en nokkru sinni fyrr.  

Vinkona mín var í mat hjá okkur um daginn, þannig að ég sendi kærastann út eftir fisk.  Og ég fattaði það svo daginn eftir að þetta var tilgerðarlausasta "matarboð" sem ég hef haft.   Soðin saltfiskur, steiktur steinbítur og soðnar kartöflur, borið fram með smjöri.  Engar sósur og engar krúsídúllur...

fiskur og kartöflur

Matargesturinn borðaði af disknum með bestu lyst, hún elur manninn austan við læk og er sannur sveitungur sem kallar ekki allt ömmu sína.  Allt á disknum hennar var íslenskt, nema eins og hún orðaði sjálf, þá fékk hún sér smá af svarta kryddinu, sem við heimilisfólk gerðum ekki þar sem það er ekkert íslensk við svartan pipar.

Ég gerði klatta um daginn með byggmjöli og soðnu bankabyggi, mjög fínir klattar.

Ég sauð einn bolla af bankabyggi á móti þremur af vatni og fékk fullann pott sem ég er enn að reyna að koma út.  Svo gerði ég aftur byggmjölsklatta og í þetta sinn bætti ég við þá bankabyggi.  Hlutföllin voru nokkurnvegin svona (ekki svo nojið, bara að þykktin sé á við klattadeig).

  • 1.5 dl Byggmjöl
  • 1.5 dl Bankabygg (soðið)
  • 1.5 dl Ab mjólk
  • 1/2 tsk matarsódi
  • 1 egg
  • 1-2 msk bráðið smjör
  • Mjólk til að fá rétta þykkt, ég notaði um hálfan dl.

Blandað saman í skál með sleif og bakað á pönnu úr olíu eða smjöri eins og hefðbundna klatta (lummur).

Ljómandi gott með sykri eða sýrópi eða steiktu eggi....

 

Á ensku nefnist bankabygg Barley og hér er síða með fullt af uppskriftum.

Og þá er ég komin með nóg af bankabyggi í bili sem ég mun annars nota mikið í framtíðinni.

 

Í bók Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili, Íslenzkir þjóðhættir, er skemmtileg lesning um matarhætti íslendinga fyrr á öldum.


Steikt ýsa, heimilismatur eingöngu eldaður úr íslensku hráefni.

Um daginn settist ég niður með Mad og Bolig og smá rauðvínstár og datt niður á svo girnilegar greinar um mat og lífið í Andalúsíu og á Krít, mama mía hvað það er allt svo girnilegt og kósí, fólk situr í sólinni við langborð sem svignar undan kræsingum og góðu víni.  Svona vil ég hafa þetta, gott fólk, mat og vín og væri líka alveg til í sól og hlýjuna sem henni fylgir, en það er ekki á allt kosið. 

Þegar ég las þessar greinar og var um leið að pæla í íslensku hráefni og hvort hægt sé að borða eingöngu íslenskt þá var það fyrsta sem ég hugsaði að það er hægt en það er samt ekki það sem mig langar.  

Ég get ekki verið án ólífulíunnar, balsamico, parmagiano reggiano,  brauðhveitis, sólblómafræja, ávaxta, 70 % súkkulaði, rauðvíns, allra heimsins krydda og svo mætti lengi telja. 

En mér finnst búið að vera gaman að spá í íslensku hráefni og mun stúdera það í einn mánuð og reyna eingöngu að elda úr því.  Ég fattaði t.d að ég var alveg hætt að borða hreint skyr, eins og það er nú gott.  Svo fór ég að elda úr byggmjöli og bankabyggi.  Það kom margt skemmtilegt út úr því. 

Ég mæli eindregið með að þið prófið að bera fram soðið bankabygg með matnum í staðin fyrir hrísgrjón stundum.

Tæknin gerir okkur kleyft að fá innfluttan mat frá öllum heimshornum sem er alveg frábært.  En það er ekki vitlaust að spá aðeins í það sem fer ofan í innkaupakerruna.  Hvaðan kemur grænmetið og ávextirnir,  hversu ferskt er það? Er það "in season" í því landi sem það er frá og hvað með eitrið sem er notað.  Sama gildir með lífrænar vörur, geturðu treyst því að þetta sé lífrænt og öllum reglum fylgt varðandi það

Og svo er það þurrmatur, pakkamaturinn og allur dósamatur.  Þar er allskonar bragðefnum og rotavarnarefnum bætt við, msg, ofsaltað ogsv.

Ég hvorki kaupi pakkamat né tilbúnar vörur eins og súpur og pastasósur.  Það er svo auðvelt að gera allt frá grunni sjálfur.   En ég er nú ekkert að stressa mig á þessu samt, og borða þetta ef það er á boðstólnum.

 

Hér er svo áhugaverð lesning um erfðatækni.

 

Í gær hafði ég alíslenskan mat, steikta ýsu með kartöflum og bankabyggi og fleira góðu.

heimilismatur

Heimilismatur og stemmingin í Mad & Bolig, 3/2009

Steikt ýsa með tómötum og osti

  • Ýsa
  • Tómatar
  • Ostur
  • Smjör til steikingar
  • Egg
  • Byggmjöl
  • Bankabygg
  • Kartöflur

 

Bankabygg soðið, kartöflur soðnar. Fiskflakið (roðlaust) skorið niður í nokkra bita og velt upp úr eggi fyrst og svo byggmjöli, steikt á pönnu á báðum hliðum. Ostur og tómatsneið sett á hvern ýsubita.  Hafði þetta undir loki á pönnunni á mjög lágum hita þar til allt var komið á borð.

Bragðgott og heimilislegt og alíslenskt

 

 


Rauðvín og ristað brauð

Þá var það dagur eitt, í að stúdera íslenskt hráefni.  Það var nú ekki mikið til á heimilinu og þegar svengdin tók völd þá var nú brauðsneið sett í ristavélina, og svo var nú ekki hægt að láta löggina í rauðvínsflöskunni fara til spillis.  En svo var haldið áfram að spá og spekúlera.  Þeir hjá Vallanesi selja bygg í búðum, og eru einnig að framleiða sitt eigið hveiti.

Ég bjó til klatta  gerða úr byggmjöli og þeir komu ótrúlega vel út, það þarf ekkert annað hveiti í þá. Þá er bara að gera tilraunir með byggmjöl í pizzabotna.

Nánar um framleiðsluna á Vallanesi má lesa á heimasíðunni þeirra hér

bygg

Byggklattar

  • 1 bolli Byggmjöl
  • 1/2 tsk madarsódi
  • ca 1/2 bolli Ab mjólk
  • 1 egg
  • 1 msk af bræddu smjöri

Öllu hrært saman með sleif og klattar bakaðir eins og gerist og gengur í þeim málum...

Fyrir þá sem ekki eru að spá í að hráefnis sé íslenskt þá væri gott að bæta út í þetta einhverjum góðum fræjum, smá sykri og jafnvel pínku salti.

 

 

 

 

 

 

 


Sukk og SVÍNarí - Jólamatseðillinn 2010

Nú eru margir búnir að éta á sig gat.  Ég var heima hjá mér í faðmi fjölskyldunnar og rólegheita öll jólin.  Tveir fullorðnir og baby.

Við erum þekkt fyrir að bera fram tapasrétti á þessu heimili,  fleiri smærri réttir frekar en eina stóra máltíð.  Nema á aðfangadag ákváðum við að gera eitthvað hefðbundið og úr varð hamborgarahryggur sem ég keypti hjá Fjarðarkaupum, svaka góður, og ég meira að segja kunni mér hóf.  Ég borða mjög mjög sjaldan svínakjöt, en það er eitthvað mjög nautnafullt við hamborgarahrygg, og það er líka eitthvað sem ég borða mesta lagi einu sinni á ári.

Með hryggnum drukkum við svaðalega gott rauðvín, M. Chapoutier,  sem fór svo vel með hryggnum. 

Á aðfangadag var byrjað á morgunverði, reyktum lax, sem er orðið að hefð og svo kom hver rétturinn á fætur öðrum.

 SVÍNARÍ

24.desember

Brunch: Reyktur lax með  eggjahræru og avacado.

Síðdegissnakk: Hreindýrapaté á dönsku rúgbrauði. 

Grænpiparssalami, höfðingi, ólífuolía og balsamico.

Heitreykt gæs með hindberjavinegrette.

Kvöldmatur: Hamborgarahryggur með soðsósu og sykurbrúnuðum kartöflum.

 

25.desember

Brunch:  Reyktur lax á ristuðu baguette með poached egg.

Jóladinner - tapas style: Hreindýrapaté með sveppasósu, dönsku rúgbrauði og beikon.

 

26.desember

Brunch: Smjörsteikt samloka með hamborgarahrygg, osti og grilluðum ananas.

Kvöldmatur: Pizza með grænpiparsalami, önnur með hamborgarahrygg og ananas...

amarone

SUKK:

Vínlistinn var ekki af verri endanum þessi jólin og við deildum honum bróðurlega með vinum sem sóttu okkur heim yfir hátíðar.

Ég mæli sérstaklega með  M. Chapoutier með hamborgarahrygg, snilldarkombó. Amarone-Tommasi er klassík, klikkaði ekki með hreindýrapaté-inu.  Chateau  Michelle er mjög skemmtilegt vín.  Að öðru leiti voru öll þessi vín góð, og maturinn og góða stemmningin hefur eflaust sett sitt mark á þau öll.

Amarone-Tommasi, valpolicella classico, vintage 2007, Ítalía

Amarone, Sartori, Della Valpolicella, 2006, Ítalía

Aglianico del Vulture frá Ítalíu, 2006

M. Chapoutier, Cotes du rhone, syrah frá Frakklandi, 2008 dúndurgott með hamborgarahrygg

Beronia, Reserva frá Rioja, Spáni,2006

Pata Negra, Gran Reserva frá 2002, Valdepenas frá Spáni

Ebeia, Ribera del Duero frá Spáni, 2009

Hécula, Monastrell, 2008 frá Spáni

Red Rooster, pinot blanc frá 2007, Canada

Ibéricos, Crianza, 2007 frá Rioja, Spáni

Chateau Michelle, Cabernet Sauvignon frá U.S.A

Brolio, Barone Ricasoli, Chianti Classico, 2008 frá Ítalíu

 

Reyktur lax

Reyktur lax með eggjahræru
  • Reyktur lax
  • Ristað Fransbrauð, skorið í þríhyrninga
  • Graslaukur
---
  • 2 soðin egg (plús ein extra rauða)
  • Ólífuolía
  • Salt
  • 2-3 tsk ab mjólk

Öllu hrært vel saman með gaffli og borið fram með reyktum laxi, brauði og stöppuðum avacado bragðbættum með kóríander, salti og lime.

 

 

 


Er hægt að borða bara íslenskt hráefni?

Ég spyr: Er hægt að borða bara íslenskt hráefni? Ég var að velta þessu fyrir mér, og mig langar að láta reyna á það. 

En það er ekkert smá sem maður útilokar, og spurning hversu langt maður gengur.  Eins og t.d með hveiti og sykur.  Bara það að útiloka hveiti minnkar möguleikana.  Íslenska byggbrauðið er einnig með hveiti, þannig að ég er svona aðeins að hugsa upphátt um leið og ég velti fyrir mér hvort ég geti borðað  mat eingöngu unnin úr íslensku hráefni.

Þannig að morgunmaturinn á morgun verður eflaust þá barasta beikon og egg.... :)

Ég geri ráð fyrir að fyrsta vikan verði tilraunakennd, því ég ætla nú frekar að fá mér brauðsneið en verða svöng.

En annars er af nógu að taka, fiskur, kjöt, kartöflur, mjólkurafurðir, ýmislegt grænmeti...engir ávextir, nema bláberin sem ég á í frysti .......oooooooooog ekkert rauðvín.

Mér finnst maður svona einna helst finna fyrir hveitileysi, þarf að spá í hvað getur komið í staðin fyrir það, sem er ræktað á íslandi.

Þetta vekur mann til umhugsunar um það sem er ræktað í kringum mann, eins með árstíðabundnar vörur, því oft heyrir maður að maður eigi að borða "seasonal".  

Þetta verður fróðlegt.  Ef þið hafið eitthvað til málanna að leggja eða eruð með góðar hugmyndir hvað hægt sé að matreiða, endilega látið mig vita.

Gleðilegt ár! 

www.soffia.net

 


Hvað er hófdrykkja?

Ég get sagt ykkur allt um það.  Ég fór í heimsókn á heilsuhælið síðasta sumar og datt inn á bókasafnið.  Þar greip ég niður í bók um heilsusamlegt líferni og rakst á skilgreiningu á hófdrykkju, og hér kemur hún.

Mér finnst þetta stórskemmtileg skilgreining.  

Hófdrykkja:  Eitt glas á dag.  Ekki fleiri en sjö glös á viku, þó aldrei fleiri en þrjú á dag.

 

Ég splæsti á mjög flott vín í gær, Chateau Michelle frá Bandaríkjunum. Svínvirkaði með Manchego og öðrum góðum ostum.

italian meatballs

Italian meatballs in Spain (fyrir 2 sem smáréttur)

  • Nautakjöt  (innra læri)
  • 1 rif hvítlaukur
  • 1-2 msk haframjöl
  • 1 msk smjör
  • Salt og pipar

Smjörið brætt, hvítlaukur steiktur í smjörinu, haframjöli bætt við, setti í blender með hráu kjötinu.  Salt og pipar eftir smekk.

Búið til litlar kjötbollur og steikið.

Sósa:

  • 1 tómatur
  • 2 msk Pizza/pasta tomate sause úr dós frá Eden
  • Salt og pipar
  • 2 msk rjómi
  • Soðið af pönnunni
  • Maple sýróp, 1 tsk eða svo

Mallað í pottinum í augnablik. Blandið saman við kjötbollurnar.

Berið þær fram á snittubrauði sem er ristað í ofni með smá smjöri og hvítlauk og rífið smá parmasen ost yfir.

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband