Grísasnitta

Ég bjó til kúbubrauðið aftur, það heppnaðist ágætlega.  Mig langar að minna ykkur á þetta dásamlega kombó sem einkennir samloku kennda við Kúbu.

 brauð

Ég skar eitt brauðið í sneiðar og bar fram með skinku, osti, sinnepssósu, grísalundinni og súrum gúrkum, en súrar gúrkur fara einstaklega vel með þessu kombói.

grísasnitta 

Ef þið eigið ekki grísalund þá er um að gera að prófa snittu með sinnepssósu, skinku, góðum osti og súrum gúrkum.  Og setja hana undir grillið í ofninum og bræða ostinn.  En grísalundin er þó galdur í þessari snittu.  Svo væri hægt að skella öðru snittubrauði ofan á og gera þannig úr þessu samloka og setja í panini grillið eða í samlokugrill.  Lykilatriðið er að bræða ostinn, nammi namm.

Ég marinera grísalundina einhvernvegin svona eins og ég hef áður sagt frá:

Grísalund með Mojo marineríngu

Grísalund ca 1/2 kg

Marinering:
10 - 20 hvítlauksrif
2 tsk salt
1 1/2 bolli appelsínusafi
Safi úr einni sítrónu og einu lime
1 bolli hakkaður laukur
1 msk oregano
1 1/2 bolli góð ólífuolía


Merjið hvítlauk með hvítlaukspressu og hakkið laukinn og setjið svo allt nema ólífuolíu í mixer. Hitið olíu á pönnu og setjið allt mixið í olíuna og látið malla.  Hrærið vel í.

Stingið fullt af götum með hníf eða gaffli í lundina og hellið svo marineríngunni yfir og látið marinerast í 2-3 tíma eða yfir nótt.  (mætti því gera marinerínguna þegar þið gerið "drulluna" og láta standa yfir nótt)

Eldið svo lundina í ofni í um hálftíma á 180°c

Og svo mæli ég með þessu á pizzu.

 


Glettilega góð fiskisúpa

Mér finnst fiskur rosalega góður og hægt að elda hann á svo marga vegu en samt dett ég of oft í nautahakks pakkann og eitthvað allt annað en fisk. 

Veit ekki hvað það er, hann er kannski ekki nógu djúsí, svona þegar maður er svangur að versla í matinn....sem maður á víst ekki að gera, að fara svangur að versla. 

En undanfarið hef ég borðað mjög mikið af fiski og í gær gerði fiskisúpu úr því sem til var.  Ég var að glugga í bókina Betri kostur - fiskréttir og þar er uppskrift af fiskisúpu. Ég ákvað að styðjast við þá uppskrift.

Svona varð mín útgáfa

fiskisúpa

Glettilega góð fiskisúpa

  • 1/2 kg ýsa
  • Smá lax (átti um 2-300 g)
  • Rækjur, um 1 dl
  • Laukur eftir smekk
  • Hvítlaukur eftir smekk
  • 2-3 saxaðir tómatar
  • Tómatsósa í dós eða tómat paste
  • Kartöflur, ég notaði um 5 stk
  • 1 tsk cumin
  • Lúka af grænum baunum
  • 1 tsk fiskikrydd frá Prima, rann út fyrir 3 árum..
  • Safi úr 1/2 sítrónu, mætti líka rífa smá af berkinum út í
  • 2-3 msk matarolía
  • Lúka af steinselju
  • Smá ferskur parmasen ostur

Svitið lauk og hvítlauk í olíunni. 

Bætið við kartöflum, vatni, salti og pipar, sjóðið í 10 mín.

Bætið við tómötum, tómatsósu eða tómatpaste, cumin, smá sítrónu, grænum baunum og fiskinum sem þið notið og rækjum.  Sjóðið í 10 mín. Bætið við steinselju og parmasen osti. 

Berið fram með góðu baguette og glasi af shiraz.  Hafið smá steinselju á borðinu og parmasen ost

til að rífa út í súpuskálina.

fiskisúpa

NB: Ef þið eigið einhver góð fiskikrydd endilega prófið þau í þessa súpu.  Grænu baunirnar (sem ég átti í frysti) voru súper góðar í þessa súpu.

 

 

 


Hindberjavinegrette, öllu skellt í blender og tilbúið á "no time" og micro greens DAGUR 5 og 6

Ég var stödd upp í sveit, fjarri öllum gourmet búðum og okkur vantaði smá hindberjavinegrette með gröfnu gæsinni.  Þannig að við tókum það sem til var og gerðum okkar eigin.

gæs með hindberjavinegrette

Við höfum áður gert svipað vinegrette og þá bjuggum við til uppskriftina upp úr okkur og vorum að miða áferðina við ljómandi fínt hindberjavinegrette sem fæst í ostabúðinni.

Í fyrra skiptið settum við smá hvítvín og sódavatn út í (til að fá kampavínselementið.... maður reddar sér þegar ekki er til kampavínið...)

Í seinna skiptið var ekki hvítvín þannig að út í fór bjór og sódavatn.

Í bæði skiptin heppnaðist þetta mjög vel, þannig að ég get sagt ykkur það að bæði hvítvín og bjór svínvirkar.

Og svo settum við smá mjólk til að fá fallegan ljósbleikan lit á sósuna.

Ég er ekki með nákvæmt mál í þessari uppskrift, en er með viðmiðunarhugmynd. Þetta er frekar til að gefa ykkur hugmynd um innihald, og það er ekki svo nojið hvað fer mikið af hverju, málið er að smakka þetta til þar til maður er sáttur, og fær jafnvægi á balsamik og sætuna.

hindberjavinegrette

Hindberjavinegrette

  • Hindber, frosin eða fersk (2 dl)
  • Balsamic edik (3-4 msk)
  • Sódavatn (1/2 dl)
  • Hvítvín eða bjór (1/2 dl)
  • Salt (2 tsk)
  • Sýróp (2-3 msk eða jafnvel aðeins meira)
  • Mjólk (innan við 1/2 dl)

Setjið allt ofan talið í blender og maukið.  Bætið við því sem upp á vantar með því að smakka þetta til.

brokkólífræ

Micro greens - DAGUR 5 & 6

Þá eru spírurnar og fræin tilbúin. 

spírur

Tæmið flöskuna af spírunum. Fjarlægið hýðið af fræjunum. Spírur má geyma í poka inn í ísskáp.

brokkólífræ

Klippið brokkólífræin og geymið í ísskáp.


Hafragrautskrönsí kökur og DAGUR 4

Ég hef ekki verið mikið fyrir hafragraut ...þar til ég dreifði úr honum örþunnt á smjörpappír, stráði yfir hann pistasíu dukkah og maldon salti og bakaði í ofni.  Þá var ég komin með dúndurgott
krispí krönsí kex.

Hægt er að nota haframjöl en ég prófaði byggflögur, sem mér finnst rosa gott.

hafrakröns

Hafragrautskrönsí kökur

Ég bjó til graut

  • 1 dl byggflögur
  • 2 dl vatn
  • 2 tsk salt

Sauð saman í potti. Dreifði úr grautum fremur þunnt  á smjörpappír sem ég hafði lagt í ofnskúffu. 

  • 2 msk Pistasíu dukkah
  • 1 msk Maldon salt

Stráði Pistasíu dukkah og maldon salti yfir grautinn og bakaði í ofni í ca korter við 220°c .  Skófa hann svo varlega af pappírnum og snéri honum við og bakaði á þeirri hlið í u.þ.b 10 mín. (Þar til hann var orðinn vel krönsí)

Braut grautarklessuna niður í nokkra parta.

Svo má bera þetta fram með hverju sem er, t.d rauðrófusósu, hummus, einhverjum skemmtilegum sósukenndum mat... eða bara narta í eitt og sér með salti.

Það er um að gera að prófa sig áfram í kryddunum.  Hafragrautur er svo hlutlaus á bragðið að hann þolir ýmislegt.

MICRO GREENS - DAGUR 4

micro greens

 Það er eitthvað að gægjast undnn moldinni, og spírurnar dafna, sólblómafræin eru farin að losna frá spírunum.  Það er bara að halda við raka í moldinni og hreinsa spírurnar með köldu vatni kvölds og morgna.

 

 


Micro green ræktun, DAGUR 3

Dagur 3

Spírurnar alveg blómstra hjá mér. Það þarf bara að skola af þeim kvölds og morgna og sjá til þess að moldin hjá brokkólífræunum sé rök.

spíra

Ef maður gægist undir moldina sér maður að fræin eru byrjuð að opna sig, og sólblómafræin eru flott.

fræ

Síðan hef ég verið að setja niður ýmisleg fræ og þar er allt að gerast í jalapeno, chilli og tómatplöntunum.  Ég nota eggjabakka þegar ég er að koma þeim til og færi litlu skinnin yfir í blómapotta þegar þau eru komin á legg. 

Ég ætti eiginlega að fleygja niður paprikufræjum.  Ég hef tekið fræ úr paprikum sem ég kaupi út í búð og sett fyrst í vatn og svo mold.  Það virkar vel.

 

 


Gerlaust naan brauð

Ég er að reyna að gera gott naan, svona eins og maður fær á virkilega góðum indverskum stöðum. En þar sem ég á ekki tandoori ofn veit ég nú ekki hvort mér eigi eftir að takast það.

Ég fylgdi uppskrift sem ég fann í eldgamalli indverskri matreiðslubók. Þar er ekki notað neitt ger. Hráefni er blandað saman og látið standa í 6-8 klst.

naan

Naan

  • 450 g hveiti
  • 2 eggjahvítur
  • 1 msk smjör
  • 1 1/2 tsk sykur
  • 5 dl ab mjólk eða jógúrt
  • 1 tsk salt
  • Vatn eftir þörf (1/2 dl eða jafnvel minna)

Blandið öllu saman í skál nema vatni og hnoðið (með höndum eða í hrærivél) Bætið við vatni ef þess þarf. (Mér finnst ab mjólkið svo blaut að ég notaði rétt 3-4 msk af vatni)

Hnoðið þar til deigið er mjúkt og fínt. Breiðið yfir skálina (filmu, plastpoka eða rakann klút) og látið standa í 6-8 tíma út á borði.

Skiptið svo deiginu í kúlur, ca á stærð við tennisbolta og fletjið út í ílanga hringi. (Ef deigið klístrast við hendurnar þá má strá örlitlu hveiti á það).

Bakið í vel heitum ofni í 5- 10 mínútur. Fylgist bara vel með brauðunum og takið út þegar þau eru tilbúin. Ég hafði brauðin í 250° heitum ofni í 4- 5 mín.  Ekki hafa þau of lengi í ofninum svo þau verði ekki hörð.

Ég held að leirofninn hefði komið sterkur inn :P 

Ég á eftir smá afgang af deiginu sem er búið að hvíla inn í ísskáp.  Ég ætla að prófa að setja það á pönnuna á eftir. 

lamb vindaloo

Þetta smakkaðist ljómandi vel  með Lamb Vindaloo.  Ég notaði Lamb Vindaloo frá The Cape herb and spice company.

Uppskrift fylgir kryddinum á umbúðunum, Ásamt kryddunum fór í réttinn tómatar úr dós, ab mjólk og laukur, hvítlaukur og ferskt engifer.  Einfalt og smakkaðist mjög ferskt. Þetta er frekar sterkur réttur.

vindaloo


Micro green ræktun, DAGUR 2 ...og kartöflubrauðið

Þá er það dagur tvö í ræktuninni, þar sem við fáum spírur og salat á met tíma, eða 5-6 dögum.  Sólblómafræin eru farin að spíra en minna er að gerast undir moldinni hjá brokkólífræunum.

brokkólífræ

Dagur 2, Brokkólífræ

Vökvið aðeins yfir fræin til að halda þeim rökum.  Annars ekkert sem þarf að gera fyrir þau.

 

sólblómafræ

Dagur tvö, Sólblómafræ

Skolið fræin með því að hella vatni í flöskuna og látið allt vatn leka úr flöskunni.  Hristið fræin aðeins til svo þau liggi vel í flöskunni sem þið svo látið liggja á hliðinni.

 sólblómafræ

Og þau eru strax byrjuð að spíra.

 

 

kartöflubrauð

Og á öðrum nótum:  Ég gerði kartöflubrauðið aftur, í þetta sinn setti ég kartöflurnar í hrærivélina með öllu öðru svo þær urðu að þéttari massa, frekar en að setja þær í bitum út í og hræra varlega svo þær haldi lögun.  Þetta var mjög gott, en ég mun eflaust næst gera brauðið eins og ég gerði fyrst, að setja kartöflurnar varlega út í deigið svo þær fari ekki í algjört mauk.

Kartöflurnar gera brauðið "moist" þannig að ég held að það sé erfitt að klúðra þessari uppskrift. En brauðin mín eiga það til að verða of þétt í sér svo manni langar ekki að borða þau, frekar nota þau fyrir hamar.

Hér er uppskriftin af kartöflubrauðinu

 


Micro greens - dvergsalat...DAGUR 1

Ég ætla að leyfa ykkur að fylgjast með mér næstu 5 daga rækta annarsvegar brokkólífræ í mold og hinsvegar sólblómafræ í gosflösku.  Ég setti sólblómafræ í mold um daginn, þau spruttu svo fallega á 5 dögum og smökkuðust mjög vel. 

Ég veit nú ekki alveg hver þýðingin er á þessum smávöxnu salatspírum en á ensku heitir þetta micro greens.

Það er hægt að búa til svona úr allskonar fræjum, brokkólí, radísum, alfalfa, sinnepsfræjum, sólblómafræjum, linsum, mung og svo mætti lengi telja...

Það er hægt að kaupa fræ sem eru sérstaklega til að spíra  í Garðheimum og Hagkaup t.d og svo má kaupa linsubaunir eða mung baunir í matvöruverslunum. 

Þið hafið eflaust séð í matvöruverslunum í grænmetinu tilbúnar baunaspírur og alfalfa.  Það er skemmtileg tilbreyting að bæta þeim út í salöt eða á samlokur. 

Mér finnst skemmtilegra að rækta fræin sem micro greens frekar en að spíra þau.  Um að gera að prófa báðar aðferðirnar.

brokkolífræ

Dagur 1.  Brokkólífræ

Setjið mold í lítinn blómapott eða undirskál undir potta eins og ég nota hér.  Stráið um 30-40 fræjum í moldina, setjið örþunnt lag af mold yfir fræin og vökvið vel.

Passið að hafa moldina alltaf raka.

 

 

sólblómafræ

Dagur 1.  Sólblómafræ

Setjið Sólblómafræ í plastflösku og setjið vatn í hana til hálfs og látið standa í u.þ.b 8 klst. Ég geri lítið magn og nota hálfs lítra flösku, ef þið viljið gera meira þá er upplagt að nota tveggja lítra flösku.

Tæmið flöskuna af vatninu eftir 8 tíma og skolið fræin með að skola vatni í hana 2-3 sinnum. (Til að fræin fari ekki með vatninu hef ég notað þumalputtan til að stoppa þau af, einnig er hægt að nota sigti eða setja grisju fyrir lokið og festa hana með teygju.

Leggið flöskuna á hliðina (eftir að hafa tæmt hana af vatni) og látið liggja þannig í hálfan sólarhring. (En þá munum við skola fræin á ný).  Ég miða við að skola þau kvölds og morgna.

(Það er algengast að nota krukku með neti til að spíra fræ, en me´r finnst plastflöskurnar virka vel einnig) 

 


Vín og grín með Top gear gaurnum

Ég fann skemmtilega þætti á youtube þar sem breskur vínsnobbari og James frá Top gear sem er andstæðan við vínsnobbarann keyra um Frakkland og smakka vín.

vín

Þetta eru ágætir þættir, vín og grín.

Þættina má sjá hér.


Túnfisk tataki, Cava og Beaujolais

Þriðji rétturinn í matarboðinu var Túnfisk tataki. Með því bar ég fram Cava og Beaujoulais. Bæði vínin voru að dansa með soya sósunni.

 cava

Cava er dásamlegt með sushi, ég mæli með að þið fáið ykkur Cava næst þegar þið fáið ykkur sushi. Ef þið eldið sushi heima prófið að bera fram með því Cava og Beaujolais, skemmtileg tilbreyting og skemmtun fyrir bragðlaukana.

túnfisk tataki 

Túnfisk tataki

 

  • Ferskur túnfiskur
  • Sesame fræ, svört og ljós
  • Salt
  • Pipar

 

Hitið þurra viðloðunarfría pönnu. Saltið og piprið fiskinn. Lokið fiskinum á öllum hliðum með því að steikja hann í 10 - 20 sekúndur á hverri hlið.

Skellið því svo í skál í hálfa mínútu sem hefur verið fyllt með ísköldu vatni og kannski nokkrum klökum.

Þerrið fiskinn, makið á hann sesame fræjunum og setjið í álpappír. Það mætti salta og pipra kjötið aftur á þessu stigi ef þið viljið áður en þið pakkið því inn í álpappír.

Geymið í kæli eða frysti í nokkra klukkutíma. Skerið í þunnar sneiðar. Berið fram með soya, fersku engifer, vorlauk og wasabi.  Í soyasósuna setti ég svo eina radísuspíru, for presentation...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband