jalapeño, vorlaukur, hvítlaukur og tortilla í frystinum

Ekki mikið til og þegar ég er svöng og langar í allt og veit ekkert hvað ég á að fá mér þá endar það oft á því að ég skelli því sem til er á tortillu sem ég á yfirleitt í frysti.  Bráðinn ostur og niðursoðinn jalapeño í dós er hin fullkomna samsetning.

Þegar þú átt...

...tortillu í frysti, taktu hana þá út úr frystinum

tortilla 

...ost, rífðu hann!

ostur

...jalapeño í krukku, skerðu hann smátt

jalapeno

...hvítlauk, saxaðu hann í sneiðar

hvítlaukur

...vorlauk, skerðu hann smátt

vorlaukur

...góð krydd, náðu þér í það sem þér þykir gott, í mínu tilfelli sótti ég mér oregano, salt og grænan pipar.  Úr verður dýrindis réttur sem að þessu sinni lét mér duga sem kvöldmat.

tortillu pizza

 

 


Pizzabotn úr blómkáli og fjörugur föstudagur

Já, þið lásuð rétt.  Pizzabotn úr blómkáli.  Ég veit ekki hvernig ég á að byrja þessa færslu til að sannfæra ykkur að pizzabotn úr blómkáli er góður. Það kemur ekkert í staðin fyrir þunnan hveitibotninn finnst mér en þetta er skemmtileg tilbreyting og frábært fyrir þá sem forðast hveiti.

Setjum á tónlistina, Postal service.

Uppskrift vikunnar er áður óbirt uppskrift af þessum magnaða blómkálspizzabotni:

blómkál

Galdurinn við þennan pizzabotn er að rífa blómkálið í matvinnsluvél, en ekki of lengi svo það verði ekki of blautt, heldur þannig að það verði svipað og hrísgrjón. 

Blómkálspizzabotn

  • 1 blómkál, rifið
  • 2 dl rifinn ostur, mossarella eða brauðostur
  • 1 egg, hrært
  • Krydd (2 hvítlauksrif, salt, pipar, oregano)

Takið rifið blómkálið og bætið við 1 eggi, rifnum osti og því kryddi sem þið viljið.  Ég notaði pressaðan hvítlauk, 2 rif, salt og pipar og smá oregano. Blandið saman með höndum eða sleif.

Pressið blómkálsblöndunni með fingrunum á smjörpappír.  Bakið í ofni við 200° í u.þ.b 20 mínútur.

blómkáls pizzabotn

ATH, bakið botninn áður en þið setjið áleggið á, svo setjið þið hann aftur í ofninn með álegginu í nokkrar mínútur.

Takið botninn úr ofninum og bætið ofan á hann því áleggi sem þið viljið, sósu og osti...

blómkáls pizzabotn

Ég google-aði blómkálsbotna og fann á flestum síðum að fólk setur rifið blómkálið í örbylgjuofn í 8 mínútur áður en það blandar því við annað innihald og bakar, en ég las líka að það væri óþarfi.  Ég sleppti því reyndar því ég prófaði að setja smá í skál og í örbylgjuna en það var eflaust aðeins of lengi því það hálf brann.  Maður þarf víst bara að þreifa sig áfram í þeim efnum.  En mér fannst koma mjög vel út þrátt fyrir að hafa ekki eldað kálið áður.

Vín vikunnarer J. Lohr seven oaks, Cabernet Sauvignon, 2006 frá Bandaríkjunum.  Ekki ódýrasta vínið í búðinni og mjög gott.

Vefsíða vikunnar er http://www.foodbuzz.com/, þetta er einhverskonar "myspace" mataráhugamannsins.  Fullt af matarbloggurum, uppskriftum og fleiru matartengdu...

Uppskrift valin af handahófi úr uppskriftarsafninu mínu að þessu sinni er rétturinn Gridexian, sambland af grískum, indverskum og mexíkönskum...góð blanda og réttur sem smakkaðist mjög vel.

Mynd vikunnarer mynd sem ég tók á síðasta ári af frægasta "Emo" hesti landsins...

emo hestur


Pizza með dijon sinnepi, fetaosti, ólífum og hvítlauk

Það er gaman í sveitinni. Sérstaklega þegar kemur að því að borða með nágrönnunum.

Þá þarf ekki að hafa mörg orð um hvað verður á boðstólnum, heldur töfrum við húsmæðurnar fram hverja stórmáltíðina á fætur annarri, þegjandi og hljóðalaust. Það sem til er í ísskápnum er notað og spunnið út frá því.

leggir 

Ef þið eigið kjúklingaleggi þá mæli ég með því að þið setjið þá í eldfast fat með döðlum, kapers, ólífum, balsamikediki og hunangi, smá hvítlauk, salti og pipar.

pizza 

Ef ykkur langar í öðruvísi pizzu þá sló þessi í gegn:

 

  • Pizzabotn, þunnt útflattur
  • Ólífur
  • Hvítlaukur, skorinn í skífur
  • Fetaostur í kryddolíu
  • Dijon sinnep
  • Salt og pipar

 

Smyrjið smá sinnepi á pizzabotninn, raðið álegginu á, saltið og piprið. Bakið í ofni þar til botninn er bakaður.

Ég hef sérstaklega gaman að ílöngum pizzum þessa dagana og skera þær í þunnar ræmur og renna þeim niður með rauðvínstári og nágrannaspjalli.

pizza

pizza 


Skemmtileg aðferð við að bera fram spaghetti og pulsur, mjög einfalt og fljótlegt

Þessi aðferð brýtur aðeins upp á hversdagsleikann þegar spaghetti er á boðstólnum. 

Ég er viss um að krakkarnir hefðu gaman að þessu.  Þetta er heimilislega útgáfan en það mætti færa þessa hugmynd í sparilegri búning með góðri pulsu og bera fram sem forrétt. Mun þreyfa mig áfram í þeim efnum síðar.

 

pulsu spagettí

Spaghetti með pulsu og tómatsósu

  • Spaghetti
  • Pulsur
  • Tómatsósa

 

Skerið pulsurnar í 4 jafna parta (skerið frá endana).

pulsu spagettí

Stingið ósoðnu spagettí í pulsurnar, 4-5 spaghetti í hverja pulsu.  Sjóðið þar til spaghettíið er soðið.  Berið fram með tómatsósu eða góðri spaghettisósu.

Holla útgáfan gæti verið heilhveiti spaghetti og fitulitlar kjúklingapulsur. 

spagettí

 spagettí


Föstudagsfjör á ansi stormasömum föstudegi

Föstudagur heima í firðinum góða, kenndan við Hval.  Nágrannar okkar í næsta húsi voru einnig heima í dag og því var slegið til veislu og borðaður saman síðbúinn hádegisverður með rauðvínstári.  Ég keypti tómata í gær, græna, gula og svarta.  Þannig að úr varð tómatapizza með mossarella.

tómatapizza

tómatapizza

Vindum okkur í fjörið.

Tónlistin:Ég kann alltaf vel við hana Feist, og þetta lag kemur mér alveg í gírinn.

Uppskrift vikunnar: Þær voru nú ekki margar þessa vikuna en ég get alveg mælt með konfektinu, með eða án marsípans.

Vínið: Beronia vínin hafa sjaldan svikið mig, ég mæli sérstaklega með gran reserva, en crianzan stendur líka alveg fyrir sínu.

Uppskriftin sem valin var að handahófi þessa vikuna er grísalund með mojo marineringu.  Það er ekki verra að bera hana fram með í samloku að hætti Kúbubúa


Vefsíðan þessa vikuna er epicurius.com. Ég tala nú ekki um appið sem þeir eru með fyrir Android síma.  Ég setti það í símann minn og nota það óspart, óteljandi uppskriftir til að fletta upp í.

Mynd vikunnar er af þessum fallegu tómötum, en það er ekki á hverjum degi sem maður dettur niður á jafn fjölbreytt úrval af tómötum.

tómatar


Ofurmæður sem elda, baka, sauma og föndra og allt hitt

Internetið er stútfullt af amerískum ofurmömmum.  Margar eiga það sameiginlegt að vera sannkristnar heimavinnandi húsmæður, yfirleitt með 3-5 börn og það mæðir ekki á biturleika hjá þessum konum, enda hvernig ættu þær að hafa tíma fyrir það miðað við allt sem þær dúlla sér við og blogga svo um. 
Það er ekki nóg með að þær elda dýrindis máltíðir, baka kökur sem orð fá ekki lýst, þá sauma þær svuntur og kjóla og föndra eins og vindurinn.  

Hér er ein og nú kvóta ég:
"In my downtime I also enjoy crafting, sewing, knitting, baking, cooking, decorating and even doing the laundry..."  Já, meir að segja hefur hún gaman að þvotti!   Ef þið viljið kynnast þessari betur þá er hún með ágætis síðu um saumaskap, föndur og uppskriftir
Ég lét reyna á mína ofur húsmæðratakta í kvöld, skipti á rúminu, henti í léttan dinner og fyrir matinn bjó ég til tvenns konar konfekt, annað fyrir litla munna og hitt aðeins sætara, en þar notaði ég marsípan.
Fyrst gerði ég þetta klassíska, döðlur, kókós og fleira maukað í spað í matvinnsluvél.  Svo tók ég frá part af því og bætti við marsípan út í það sem eftir var í matvinnsluvélinni.
konfekt
Konfekt
  • 2 dl döðlur
  • 2 dl kókós
  • 1 dl heslihnetur
  • 1/2 dl haframjöl
  • 2 tsk kakó
  • 2 tsk sýróp
  • 3 msk vatn ef þetta er ekki nógu blautt
--
Og í næsta skammt
  • Hálf uppskrift hér að ofan
  • 100 - 200 g marsípan eða bara eftir smekk og stemmningu

Ég bjó til kúlur úr massanum og  rúllaði ég svo konfektkúlunum annarsvegar upp úr kakódufti og hinsvegar upp úr kókós.

Það má mauka svo margt við þetta, alls konar þurrkaða ávexti, fræ og hnetur.


Föstudagsfjör

Tónlist vikunnar er að þessu sinni valin að hinum geðþekka tónlistarmanni og bónda í Hvalfirði Eberg. og vini hans honum Halla. Áður en þið hefjið lestur smellið þá á linkinn hér fyrir neðan og setjið þar með á tónlist vikunnar sem að þessu sinni er með hljómsveitinni Weezer.

Uppskrift vikunnar:  Avacado franskar, þarf ég nokkuð að hafa fleiri orð um það? Avacado er alltaf góður... ferskur, grillaður, ofnbakaður oooog djúpsteiktur!


Vefsíðan: Ég elska magasín um mat og vín og ekki er það verra þegar maður getur nálgast gæðablöð á netinu og það ókeypis. http://www.crushmagonline.com/

Vínið: Mér finnst rosalega gaman að smakka ný vín, sem er eflaust ástæðan fyrir því að þegar ég fer í ríkið þá hef ég smakkað meirihlutann af því sem er í hillunum, fyrir utan kannski þessa efstu, þar sem
flöskurnar kosta að meðaltali 6000 kr.
Ég smakkaði í vikunni HAYES RANCH, in the saddle, 2007 cab sauv frá Kaliforníu.

Random uppskrift frá matarblogginu mínu: Spínatpönnukökur

 

Mynd vikunnar: Þá fer maí að verða búinn og maður á eftir að setja niður kartöflurnar og fleiri vorverk.  Það breytti ýmsu að það snjóaði þessi lifandis býsn fyrstu helgina í maí.
Það er ekki fyrr en um síðustu helgi að vorið datt inn finnst mér.  Og fátt betra en stemmningin sem fylgir vorinu, fræin sem maður sáði eru farin að blómstra og kryddjurtir og matjurtir að verða tilbúnar að fara út í garðinn.

En þetta verður mynd vikunnar: Loksins, loksins, GLEÐILEGT SUMAR

snjokall


Avacado franskar - djúpsteiktur avacado

Ég prófaði að djúpsteikja avacado sem ég hafði velt upp úr brauðmylsnu og eggi.  Það kom ferlega vel út og smakkast rosalega vel með góðri sósu, t.d jalapeno-lime sósu.

avacado franskar

avacado franskar

Avacado franskar (fyrir 2)

  • Avacado, 2 stk.
  • Brauðmylsna, ca 1-2 dl
  • Byggflögur ef þið viljið, 1/2 dl eða svo
  • Salt
  • Lemon pepper
  • Og svo hvaða krydd sem ykkur dettur í hug og finnst gott ef þið viljið hafa þetta meira spicy...

avacado franskar

Skerið avacado í sneiðar, sem líta út svona eins og franskar í lögun.  Ég skar hann í tvennt, fjarlægði steininn og skar svo 3-4 rákir endilangt og skóf svo úr hýðinu.

avacado franskar

avacado franskar

Veltið honum upp úr eggi, brauðmylsnu og jafnvel aftur í egg og aftur brauðmylsnu ef þið viljið þykkari húð utan um hann.

Djúpsteikið í potti í 10 -15 sek, eða þar til hann lítur gullinbrúnn út, en þó ekki brunninn.

avacado franskar

 Jalapeno sósa

  • 2 msk sýrður rjómi
  • Smátt skorinn jalapeno, niðursoðinn (2-3 hringir)
  • 1-2 tsk lime safi
  • 1 tsk sýróp
  • Salt 

Öllu blandað vel saman.  Ég steytti í morteli jalapeno, lime og salti, bætti svo við sýrðum og sýrópi.

avacado


Sliders - hamborgarar fyrir fólk með valkvíða og heimagerð hamborgarabrauð

Ég elska hamborgara og stundum langar mig í hamborgara með sinnepi og gúrkum og á sömu stundu borgara með guacamole eða bbq með chilpote mæjónesi. 

Í gær var svoleiðis dagur þannig að ég bjó til sliders, litla hamborgara.  Ég bjó til hamborgabrauðið sjálf.  Með lítilli fyrirhöfn var ég komin með 16 lítil hamborgarabrauð sem smökkuðust mjög vel, en sama deig væri líka hægt að nota í pulsubrauð.

Hver hamborgari er um 40 grömm. Ég gerði grunnhakk og tók svo til hliðar part af því og bætti við það indverskum kryddum og bar þann borgara fram með "hamborgara-raitu"

Nokkra penslaði ég með bbq sósu og nokkrir voru þurrkryddaðir.

hamborgarabrauð

hamborgarabrauð

Hamborgarabrauð

  • 1 1/4 bolli mjólk
  • 6 msk Palmin
  • 3 bollar hveiti
  • 1/4 bolli sykur
  • 2 1/4 tsk þurrger
  • 1 msk salt

1 bolli = 2,4 dl

Hitið mjólkina, bætið Palmin út í svo það bráðnar.

Skellið öllu í hrærivél með krókinn á. Hrærið þar til deigið er farið að verða mjúkt og klísturslaus.  Um það bil 4 mínútur á meðalhraða.

Látið hefast undir rökum klút í klst.  Mótið 16 bollur úr deiginu, raðið á bökunarplötu og leyfið hefast aftur undir rökum klút í ca hálftíma.  Bakið í um 20 - 30 mín við 200 °c.

Ég penslaði sum brauðin í lokin með eggjahvítu og stráði sesam fræjum yfir  10 mín áður en ég tók þau út.

Nautahakk

  • Krydd eftir smekk

Mótið litla hamborgara og steikið.

Ég notaði shalottlauk, chilpotle krydd, salt, pipar, hvítlauk, byggflögur og egg.

hamborgari

Svo gerði ég bbq sósu í potti: Smjör, hvítlaukur, shalottlauk, púðursykur, tómatsósa, tómatar í dós, ananassafi, chilpotle krydd, salt og pipar, rauðvín og chilpotle pipar í adobo sósu.

hamborgari

Hamborgararaitan var ab mjólk, rauðlaukur, tómatar, paprika og agúrka, allt smátt skorið og blandað við ab mjólkina, kryddað með tikka masala kryddi og hvítlauk.

hamborgari

Svo gerði ég chilpotle sósu, skar hálfan chilpotle og hrærði við sýrðan rjóma.  Ef þið eruð erlendis þá mæli ég með að þið kíkjið eftir dós af chilpotle í adobo sósu, frábærlega gott!

 


Páskadagur, óvenjuleg eldamennska

Glaða sól, brjálað rok, haglél. Þetta veður þennan dag sem þetta var skrifað var með eindæmum. Það blæs og hvín og hafa fjölskyldumeðlimir sofið værum lúr í allan dag, enda svæfandi að heyra hvernig vindurinn leikur um húsið. Svona á þetta að vera í sveitinni.

Og á meðan laufin sváfu lá ég, spaðinn,  í matreiðslubókum og skrifum, og henti í einn rétt sem ég beið spennt eftir að geta klárað þegar fólkið mitt vaknaði.  (Hér var ég að vitna í snilldar frasa úr gömlu áramótarskaupi, á meðan laufin sofa liggja spaðarnir andvaka...)

Og svo fór að ganga á byrgðir. Engin ostur til né hvítlaukur og það er það sem ég helst tók eftir að mig langaði að grípa í.

hakk

Þetta er ekki kokteilsósa

Ég var með hrísgrjónapappír sem mig langaði að steikja en var ekki með nákvæma hugmynd um fyllingu, svona miðað við það sem til var, steikt nautahakk, paprika, agúrka... eitthvað svoleiðis... og svo var til svakalega góð sterk chili sósa.

Úr varð að ég tók steikta nautahakkið, setti það í pott með smjöri, myntu, fersku rifnu engifer og sveppum. Ég leyfði þessu malla við vægan hita í smá stund.

Þá tók ég hrísgrjónablöðin, bleytti þau, lét þau standa í eina mínútu á viskastykki og setti nautahakksfyllinguna á þau og rúllaði þeim upp svipað og vorrúllur.

Ég steikti rúllurnar í örfáar mínútur í olíu á pönnu.

Með þeim bar ég fram sýrðan rjóma sem ég hafði hrært við Sriracha chili sósu. Ég held að það sé hægt að fá hana þessa í austurlensku búðunum. Sósan leit út eins og kokteilsósa þegar ég hrærði chili sósunni saman við sýrða rjómann, og þegar kærastinn sá réttinn sagði hann, NEI! Kokteilsósa. Þannig að rétturinn ber nafnið “Þetta er ekki kokteilsósa”.

Svo skar ég niður agúrku og kreisti yfir hana lime, smátt skorna myntu og salt.

Og hvernig smakkaðist þetta svo....super duper ljómandi vel!


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband