29.2.2012 | 11:10
Bláberjakaka með "crumble", sérlega góð með ís
Mér finnst epla eða bláberja crumble svo gott með ís. Ég bjó til þessa bláberjaköku um daginn og ofan á er crumble. Í staðin fyrir að nota haframjöl eða hveiti í "crumblið" þá notaði ég musli. Það var mjög gott.
Þetta er svolítið sæt uppskrift, ég mun eflaust minnka sykurmagnið næst, sérstaklega ef hún er borin fram með ís.
Bláberjakaka með crumble
- 60 g smjör
- 3/4 bolli sykur
- 1 egg
- 1/2 tsk vanilla
- 2 bollar hveiti
- 2 1/4 tsk lyftiduft
- 1/2 tsk salt
- 3/4 bolli mjólk
- 2 bollar bláber, fersk eða frosin
"Crumble"
- 80 g smjör
- 1/2 bolli sykur
- 1/2 tsk kanill
- 1/2 bolli ykkar uppáhalds musli (eða t.d 50/50 hafrar og hveiti)
- 1/4 tsk salt
1 bolli er 2,4 dl
Blandið saman smjöri og sykri, gott að vera með smjör við stofuhita eða skera það smátt.
Bætið við eggi og vanillu. Blandið saman hveiti, lyftidufti og salti og blandið því við smjörblönduna, hellið mjólkinni saman við og hrærið saman.
Blandið berjunum varlega við deigið.
Setjið það í smurt form. Mitt var um 20 x 30 cm.
Crumble:
Skerið smjörið í teninga. Setjið allt hráefnið í skál og klípið það saman með puttunum. Myljið það svo yfir bláberjadeigið í forminu.
Bakið í 40 - 50 mín við 180° c.
Mér finnst þessi svo góð með ís. Einnig hægt að bera hana fram með rjóma eða bara eina og sér.
Ef þið notið musli sem er búið að sæta, minnkið þá sykurmagnið í crumble kannski um helming eða svo, en það fer kannski líka svolítið eftir því hversu miklar "sætutennur" fólk er.
26.2.2012 | 11:11
Alíslenskt brauð, allt hráefnið framleitt hér á landi
Eitt af því sem ekki er hægt að kaupa ef maður er að borða íslenskan mat er alíslenskt brauð. Því varð ég að láta reyna á að búa til eitt slíkt og var ekki mjög bjartsýn á útkomuna. En viti menn, það var vel ætt.... :)
Íslenskt brauð
- 150 g íslenskt heilhveiti
- 150 g íslenskt byggmjöl
- 1 tsk íslenskt salt
- 2 tsk íslenskt hunang
- U.þ.b 300 g mjólk
Hrærið hunangi í mjólkina. Þurrefnum blandað saman, svo mjólkin út í. Öllu hrært lauslega saman með sleif.
Setjið í bökunarform með smjörpappír í botninn.
Bakað við 200°c í 50 - 60 mín.
24.2.2012 | 10:00
Hvernig bakar maður bolluvönd?
"Bolluvöndur, hvað er það?" spyr vinkona mín. "Eru það svona bollur sem þú bakar nálægt hvor annarri svo þær festast saman?"
Það er svona að alast ekki upp á Íslandi sem barn. En mér finnst hugmyndin hennar ekki galin og aldrei að vita nema ég bjóði henni í bolluvönd við tækifæri. Bolluvendirnir eru sem sagt ekki svo alþjóðlegt fyrirbæri. Ég settist á sunnudagsmorgni og bjó til bolluvönd með dóttur minni, aðalega svo ég gæti sent hana að rassskella pabba sinn sem lá sofandi inn í rúmi.
Kannski ekki alveg ástæðan. Heldur finnst mér gaman að halda í gamlar hefðir sem maður sjálfur ólst upp við.
Nú er ég til dæmis alveg týnd í öskudeginum, nú eru engir öskupokar fyrir krakkana. Og ég er svo gömul að þá var ekki farið í búninga á þessum degi. Mín minning er frí í skólanum og svo fór maður í Melabúðina að hengja öskupoka sem maður hafði föndrað alla vikuna (og aðal sportið var að beygja títuprjónana) á viðskiptavini búðarinnar.
Ég var nú ekki að senda mína tveggja ára í leikskóla með öskupoka með títuprjónum, en kannski eftir nokkur ár væri gaman að setjast niður og kenna henni að sauma öskupoka.
Hér er uppskrift af vatnsdeigsbollunum sem ég gerði og þær heppnuðst mjög vel.
Vatnsdeigsbollur
- 125 g smjör
- 2.5 dl vatn
- 125 g hveiti
- 3 egg
- 1/4 tsk salt
- 1 tsk sykur
Sjóðið saman vatn og smjör (sykur og salt ef það er notað). Bætið við hveiti í pottinn og hræra því kekklaust saman við. Sumir hafa pottinn á hellunni á meðan þeir hræra í hveitið aðrir taka pott af hellunni á meðan. Ég hafði hann á hellunni.
Setjið deigið í hrærivél
Hrærið við eggjum, einu í einu.
Mótið bollur á smjörpappírsklædda ofnskúffu, um það bil 1 matskeið hver bolla með hæfilegu millibili.
Bakið við 200°c í 30 -40 mín. (35 mín hjá mér).
Þetta urðu um 20 bollur.
Og meir um vatnsdeigsbollur hér.
23.2.2012 | 10:36
Heimagerð Thai sweet chili sósa
Alltaf minnka hjá mér innkaup á tilbúnum vörum. Nýjasta afurðin er Thai sweet chili sósa sem mér finnst vera ómissanleg með núðluréttum og öðrum asískum mat.
Ég hélt að það væri fremur flókið að gera svoleiðis sósu þannig að hún líktist þessum sem ég er vön að kaupa. En viti menn. Eftir 10 mínútna mall á örfáum hráefnum var komin dásamlega bragðgóð sæt chili sósa.
(Chili, chilli, chile...ég kalla þetta chile, það þykir voða fínt hjá"hard core" chile aðdáendum. En svo segi ég Thai sweet chili sauce því þannig er það yfirleitt á umbúðum sósunnar).
Fyrst er að smakka til rauðan chile. Þeir geta verið mjög mis sterkir. Í þessa sósu er gott að vera með fremur bragðsterkan chile.
Ef þið eruð með mjög sterkan chile þá getið þið notað minna af fræunum eða skafið þau öll í burtu, en í þeim er mesti hitinn.
Thai sweet chili sauce
- 3 hvítlauksrif, afhýdd
- 2 rauðir chile piprar (með eða án fræja)
- 1.2 dl sykur
- 1.8 dl vatn
- 0.6 dl borðedik
- 1/2 msk salt
- 1 msk kornsterkja eða kartöflusterkja
- 2 msk vatn
Setjið allt í blender nema kornsterkjuna og 2 msk af vatni. Maukið vel.
Setjið maukið í pott og leyfið suðu koma upp. Lækkið hitann niður í meðalhita og látið malla þar til sósan byrjar örlítið að þykkna, um 3 mínútur.
Hrærið saman kornsterkju og vatni og bætið út í sósuna, hrærið í pottinum um leið og þið hellið sterkjunni út í og látið malla í 1 mínútu.
Kornsterkjan þykkir sósuna og gefur henni flotta áferð, annars væri þetta bara eins og þunn sósa með chile bitum fljótandi á yfirborðinu.
Kælið sósuna alveg og setjið í sótthreinsaða krukku og geymið í ísskáp.
Ef þið ætlið að gera svona sósu í einhverju magni til að geyma í lengri tíma þá er talað um að nota "Pre-gelatinized" sterkju.
Ég læt mér bara duga minna magn í einu, enda er þetta einföld og fljótleg uppskrift. Tekur um hálftíma að skella í eina litla krukku.
Áferðin á sósunni var fullkomin, styrkleikurinn á chilebragðinu góður, fersk hvítlauks og chile lykt. Alveg frábært!
Og best af öllu...nú er maður miklu nær því að vita hvað fer ofan í mann og sykurmagninu getur maður stjórnað sjálfur.
Ég datt niður á blogg um tælenska matargerð shesimmers.com. Það lítur út fyrir að vera margar skemmtilegar uppskriftir þarna.
21.2.2012 | 09:22
Rauðrófusalat
Þið munið kannski, ég var að væflast með rauðrófur og epli hér um daginn. Svo varð úr að ég ákvað að henda saman rauðrófusalati þrátt fyrir að vera ekki sérlega spennt fyrir því. En viti menn, það var ferskt og gott og smellpassar með steiktu buffi. Rauðrófur og epli dansa saman.
Það sem gaf mér hugmyndina að þessu var uppskrift sem ég fékk frá vinkonu sem var m.a með súrum gúrkum og ég mun fylgja þeirri uppskrift nánar síðar. Næst þegar ég fæ súra gúrku þrá.
Rauðrófusalat I
- 3 forsoðnar rauðrófur (hægt að kaupa forsoðnar í búðum)
- 1-2 epli
- 2-3 msk sýrður rjómi
- Smá salt
- Sítrónasafi úr hálfri sítrónu
Skerið rauðrófur og epli í teninga. Setjið í skál og hrærið saman við það sýrðum rjóma, smá salti og sítrónusafa.
Flóknara var það ekki.
Rauðrófusalat II
- 400 g rauðrófur, ekki ferskar
- 150 g súrar gúrkur
- 2 epli (gul-rauð)
- 1 dl rjómi
- 2 msk mæjónes
- Salt og pipar
Svo er það hann Jamie Oliver, fyrst ég átti rauðrófur og alles og þar sem ég er að vinna mig í gegnum bókina hans. Rauðbeður og balsamik edik er ágætis kombó.
18.2.2012 | 14:01
Vatnsdeigsbollur - samanburður á nokkrum uppskriftum
Ég valdi af handahófi nokkrar vatnsdeigsbolluuppskriftir af netinu til að bera saman ásamt uppskriftum frá mömmu og tengdó sem hafa bakað sínar bollur í tööööttöguogfimm ár (eða kannski nær 45 árum). Uppskrift frá Cafe Sigrún fær að fljóta með því það eru svo margir í spelt - agave - kókósolíu pælingunni.
Leiðbeiningar við bakstur eru yfirleitt mjög svipaðar.
Sjóðið saman vatn og smjör (sykur og salt ef það er notað). Bætið við hveiti í pottinn og hræra því kekklaust saman við. Sumir hafa pottinn á hellunni á meðan þeir hræra í hveitið aðrir taka pott af hellunni á meðan.
Setjið deigið í hrærivél
Hrærið við eggjum, einu í einu.
Deigið á ekki að leka, heldur halda lögun.
Og svo þarf að muna:
- Það er alveg bannað að opna ofninn á meðan verið er að baka bollurnar
- Hafa gott bil á milli þeirra á plötunni
- Betra of lítið af eggi en of mikið, hálft egg of mikið getur eyðilagt uppskrift
Smellið á myndina til að sjá hana stærri:
UPPFÆRSLA FRÁ RITSTJÓRA:
Ég var að smakka bollurnar hennar mömmu, bakaðar skv. hennar uppskrift sem má sjá hér að ofan. þær heppnuðust vel og voru mjög bragðgóðar. Get mælt með þeirri uppskrift.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 17:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.2.2012 | 10:14
Frábærar Brownies, með smá "tjúí" áferð
Ég baka mjög sjaldan súkkulaðikökur eða Brownies, finnst þær oft verða þurrar og lítið spennandi hjá mér.
Annað hvort er ég að skána í bakstrinum eða hef dottið niður á góða uppskrift, ég held bæði. Þessar Brownies voru ótrúlega skemmtilegar, hvernig úskýrir maður chewy - þá er ég ekki að meina seigar heldur karamellu chewy stemmning.
Ég á eftir að gera þessar aftur.
Brownies
- 140 g smjör
- 280 g sykur
- 80 g kakó
- 1/4 tsk salt
- 1/2 tsk vanilludropar
- 2 egg (köld)
- 70 g hveiti
Hitið ofninn á 160°c
Setjið smjörpappír í eldfast mót eða notið það kökumót sem þið erum vön, mitt var um 20x30 cm. Og smjörpappírinn náði upp á sitthvora brún þannig að ég gat togað kökuna upp þegar hún var bökuð.
Bræðið saman smjör, sykur, kakó og salt.
Setjið smjörblönduna í þá skál sem þið ætlið að hræra þetta saman í (ég nota Kitchen Aid) þegar smjörið hefur kólnað aðeins. Bætið við vanilludropum. Bætið við eggjum, einu í einu.
Þegar þetta er orðið vel glansandi og vel blandað saman bætið þá við hveitinu og hrærið því vel saman við. (Það tekur ekki langan tíma í hrærivél, talað var um 40 strokur með sleif)
Dreifið úr deiginu í eldfasta formið.
Bakið í 25 - 30 mínútur, þannig að þið sjáið að hún er enn rök (moist) í miðju ef tannstöngli er stungið í hana.
Takið kökuna úr forminu og skerið í hæfilega bita og borðið hana helst volga og ekki er slæmt að fá sér rjómaklessu eða vanilluís með. Lítill hjálparkokkur var mjög hrifin af þessari köku bæði áður og eftir að hún fór í ofninn.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 21:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.2.2012 | 20:19
Mig laaangar í eitthvað...
Stundum er maður bara ekki smurður. Ég á rauðrófur, epli og avacado. Og ég get ekki gert upp við mig hvort það sé eitthvað sem væri að dansa eða ekki.
Svo ég er að vandræðast með hvort ég eigi að elda eitthvað með þessum rauðbeðum í kvöld eða bara sleppa því.
Voðalega getur maður verið andlaus stundum. GEISP. Og núna langar mig bara allt í einu í pizzu, ekki að ég nenni að fara út á þá eldamennsku samt eitthvað frekar og ekki panta ég pizzu, hef ekki gert það í mörg ár.
Það verður fróðlegt að sjá hvar eldamennska kvöldsins endar. Ég ætla að standa upp og láta vaða á eitthvað. Ég er reyndar búin að opna ísskápinn svona fimm sinnum með það í huga að fara að elda eitthvað. Eitt GEISP áður og nú stend ég upp. Og nú er ég staðin upp...
To Be Continue...
Þetta var nú ekki svooo merkilegt sem ég endaði á að fá mér, enda seint hægt að segja að það hafi rokið úr rassinum á mér þegar ég stóð upp til að malla eitthvað.
Úr varð að ég setti beyglu í ofninn. Nýbakaða beyglu sem ég gerði fyrr í dag. Ég smurði hana með þeyttum rjómaostinum, reif yfir hana ost og lagði nokkra jalapenos sneiðar ofan á ostinn. Með þessu var vel sterk heimagerð salassósa. Mig svíður enn í varirnar. I LOVE IT.
Beygla með jalapeno og rjómaosti
- Beygla
- Rjómaostur (eða þeyttur rjómaostur)
- Rifinn ostur
- Jalapenosneiðar niðursoðinn i krukku
Smyrjið beyglu með rjómaosti. Dreifið vel úr rifnum osti yfir. Leggið jalapeno sneiðar ofan á ostinn. Ef þið viljið ekki hafa þetta os sterkt þá má skera um eina jalapeno sneið fyrir hverja beyglu smátt og blanda við rjómaostinn áður en honum er smurt á beygluna.
Setjið í ofn á grill þar til osturinn bráðnar.
"Þeyttur" rjómaostur en þó ekki þreyttur
- Rjómaostur, ein lítil askja
- 3 msk mjólk
Hrærið saman með töfrasprota.
Ég er líka að velta því fyrir mér að taka smá heimagerðan berjasorbet úr frysti og hræra við ostinn og bera það fram með amerískum pönnukökum.
Matur og drykkur | Breytt 17.2.2012 kl. 21:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.2.2012 | 10:33
Granóla bar - sem ekki þarf að baka
Ég er ein af þeim sem hafa hringsólað um netið í leit að góðri og einfaldri uppskrift að Granóla bar.
Ég datt niður á ágætis uppskrift um daginn, hún var einföld og grunnurinn góður þannig að þá er hægt að leika sér með hana með því að nota mismunandi hnetur, granóla og þurrkaða ávexti.
Aðalatriðið hjá mér var að finna eitthvað sem helt þessu saman. Þetta er svolítið sæt uppskrift og þess vegna mæli ég með því að þið passið ykkur á að nota granóla sem hefur ekki verið sættað með t.d hunangi.
Granóla bar
- 4 msk smjör
- 1/4 bolli púðursykur (ca 0,6 dl)
- 1/4 bolli hunang
- 2 bollar granóla
- 1 bolli hnetur, fræ og þurrkaðir ávextir
(Það er líka hægt að setja 1/2 bolla af fræjum og 1 bolla af Rice Krispies ef ofurhollustan er ekki í fyrirrúmi, þannig var það i uppskriftinni sem ég fann. Og margar uppskriftir innihalda súkkulaði bita)
Bræðið saman smjör og hunang, bætið við sykri og sjóðið í 2 mínútur.
Bætið granola og öllu öðru í pottinn. Hrærið vel saman með sleif.
Setjið smjörpappír á fat. Dreifið úr granóla blöndunni á fatið þannig að það sé um einn og hálfur cm á þykkt.
Kælið í smá stund eða þar til þetta helst vel saman.
Skerið í hæfilega bita eftir geðþótta ( ætli ég hafi ekki haft þá aðeins styttri en Snickers stykki) og pakkið þeim inn í smjörpappír eða plast og geymið í loftþéttum umbúðum.
Ekki mjög hollar Muffins með bláberjum
- 500 ml (2 bollar) hveiti
- 1/2 bolli sykur
- 1 msk lyftiduft
- 1/2 tsk salt
- 250 ml mjólk
- 1/4 bolli bráðið smjör
- 1 egg
- 2 lúkur bláber
Öllu hrært lauslega saman með sleif. Ekki ofhræra deigið, þá verða þær víst seigar. Mínar urðu mjög flöffí og fínar með því að hræra í því með gaffli. Bakað í ofni í 20 - 30 mín við 200°c.
Aðeins hollari muffins með bláberjum
- 250 g spelthveiti, fínt
- 1/4 tsk salt
- 1 tsk matarsódi
- 1/2 tsk lyftiduft
- 200 - 250 ml mjólk eða súrmjólk
- 1 egg
- 80 ml ólífuolía
- 80 ml hunang
- 150 g músli
- 2 lúkur bláber
Og sama aðferð:
Öllu hrært lauslega saman með sleif. Ekki ofhræra deigið, þá verða þær víst seigar. Bakað í ofni í 20 - 30 mín við 200°c.