Jóladagatal Soffíu - 14 dagar til jóla

JÓLADAGATAL...14

Við fórum í dag út í skóg að höggva okkur tré.  Þar sem við búum í Kjós fannst okkur vel við hæfi að sækja okkur tré úr nánasta umhverfi.  Skógræktin við Fossá býður fólki að ná sér í tré á fínu verði og þannig grisjar maður aðeins í leiðinni.

Það var aldeilis úrval af trjám.  Veður var gott og virkilega gaman að rölta um skóginn með barnið á sleða í eftirdragi og velja sér tré.

jólatré

Fyrir valinu varð tveggja og hálfs metra grenitré.  Það var eitthvað við þetta tré sem varð til þess að við ákváðum að fella það frekar en eitthvað af öllum hinum trjánum sem á vegi okkar urðu.

Vinir okkar og nágrannar í Kjósinni fóru einnig að ná sér í jólatré.  Eftir að gripirnir voru felldir var haldið heim á leið þar sem við gæddum okkur á heitu súkkulaði og bakkelsi. 

Tréð þeirra fór strax í fótinn og það sem kom mér á óvart var að litlu stelpurnar okkar sem ekki hafa náð tveggja ára aldri og aldrei skreytt tré á ævinni áður tóku sér skraut í hönd og fóru að hengja það á tréð, eins og þær hefðu aldrei gert neitt annað. Hver kúlan, stjarnan og jólasveinninn á fætur öðrum fóru lipurlega á greinarnar með mikilli einbeitningu.  Þetta kom mér svo á óvart,  er þetta bara í genunum?

jólatré

Það hefur alltaf verið siður á mínum bæ þegar ég var ung að skreyta tréð á Þorláksmessu.  Maður er svo fastheldinn á siðina að ég veit ekki hvort ég geti sett upp tréð um næstu helgi eins og hvarflaði að mér eða hvort vaninn sé sterkari og ég dundi við það á Þorláksmessu, ég á von á því.

Ef þið eruð ekki komin með tré og færð verður góð um næstu helgi þá mæli ég með því að ná sér í tré í Fossá eða hjá öðrum sem upp á það bjóða.  Það er stemmning og frábært að fá tré úr næsta nágrenni.

jólatré

 Trén eru kannski ekki jafn "fullkomin" og mörg þeirra sem eru í búðunum.  En fegurðin er afstæð og hverjum þykir sinn fugl fallegastur, mér finnst tréð mitt fullkomið þó það líti út eins og það vanti á það aðra hliðina, sé langt í frá þétt í sér og jafnvel ræfilslegt myndi einhver segja.  Þetta er fallegasta tré sem ég hef séð, tré með karakter...au natural :)

trolladeig

Ef þið eruð í föndurstuði um helgina þá er alltaf gaman að búa til eitthvað fallegt úr trölladeigi.  Hugmyndir og uppskrift hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband