28.11.2009 | 11:24
Myndvinnslunámskeið á ljósmyndum og jarðaberja balsamic
Það er svo einfalt að taka venjulega heimilismynd og breyta henni í listaverk. Ég ætla að kenna hvernig það er gert á námskeiði sem hefst á mánudaginn. Og nú er eitt sæti laust!
Skráning: soffiagg@gmail.com
En hér er uppskrift af jarðaberja balsamic. Væri ekki flott jólagjöf að búa til jarðaberja balsamic til að gefa og búa til jólakortið sjálfur, en það mun ég kenna á námskeiðinu..sko að gera jólakort ekki balsamic..
Nánar um námskeiðið hér: http://soffia.net/namskeid.html
Jarðaberjabalsamic
- 500 g Jarðaber
- 250 g sykur
- 1 1/2 dl vatn
- 1 dl hvítt (eða dökkt) balsamic
Skerið berin gróft niður og sjóðið í vatni í 5 mín.
Setjið þau í blender og svo aftur í pott.
Komið upp suðu, bætið við sykri og eldið í 2 mín.
Bætið við balsamic og fáið upp suðuna aftur.
Hellið heitu jarðaberjabalsamic í heita, hreinar flöskur.
Þetta geymist óopnað í um eitt ár.
Svo má gera jarðaberja balsamic vinagrette í flýti til að bera fram strax
- 3 dl Jarðaber
- 0.7 dl ljóst balsamic
- 0,7 dl ólífuolía
- Salt og pipar
Og til að vega upp á móti balsamic þá má setja smá sykur
Allt sett í blender í nokkrar sek.
20.11.2009 | 12:46
Námskeið í myndvinnslu á ljósmyndum fyrir byrjendur
Ég verð með námskeið í myndvinnslu á ljósmyndum fyrir byrjendur í nóvember - desember.
Ég mun kenna á myndvinnsluforritið GIMP, sem er sambærilegt Photoshop, nema það er ókeypis.
Nánari upplýsingar eru á http://soffia.net/namskeid.html og á facebook: http://www.facebook.com/event.php?eid=190474807568
Soffía Gísladóttir myndlistarmaður býður upp á námskeið í myndvinnslu á ljósmyndum.
Markmið þessa námskeiðs er að fólk nái tökum á myndvinnsluforritinu til að geta aflað sér svo frekari þekkingar sjálfur.
Námskeiðið hentar hvort sem er þeim sem taka myndir á litlar snap shot (point and shoot) myndavélar eða SLR.
Kennt verður á myndvinnsluforritið GIMP, sem hægt er að nálgast ókeypis á netinu. GIMP virkar eins og Photoshop.
Nánar má lesa um námskeiðið á slóðinni: soffia.net/namskeid.html og vefsíða Soffíu er www.soffia.net
Fyrsta námskeiðið verður haldið 30.11 - 09.12, mánud og miðvikud frá kl 19.30 - 22.00.
Staður: Klapparstígur 28
Verð: 12.900
Kennslustundir: 10 klst
Einnig er í boði hálft námskeið, 30.nóv og 2.des á 7000 kr.
Takmarkaður fjöldi
Skráning: soffiagg@gmail.com
Nánari upplýsingar: www.soffia.net/namskeid
Frekari fyrirspurnir: soffiagg@gmail.com
Nemendur koma með sína eigin fartölvu.
19.11.2009 | 17:16
Sushi trefill og makizushi
Prjónaði þennan fína trefill, hann leynir á sér, virðist ósköp látlaus þar tiiiiil ég er búin að rúlla honum upp, þá er hann awesome. Alveg eins og sushi biti með tuna og avacado.
Er þá ekki við hæfi að henda inn uppskrift af Makizushi?
Það er fremur einfalt að búa til sushi. Og með bambus mottu er það leikur einn að rúlla upp nori örkinni með gúmelaðinu. Það er fullt af síðum á netinu sem sýna skref fyrir skref hvernig á að gera þetta, og einnig má finna video með leiðbeiningum á Youtube.
Makizushi
- Nori
- Sushi hrísgrjón
- Túnfisksteik
- Avacado
- Vorlaukur
- Mirim
- Súrsað engifer
- Wasabi
- Soya
Það er algjört must að þegar búið er að hreinsa og sjóða hrísgrjón samkvæmt leiðbeiningum að bæta við slatta af mirim!
Makið hrísgrjónum á nori örk, raðið svo á hráum túnfisk og avacado sem hefur verið skorið í strimla og vorlauk sem hefur verið klofin í tvennt eða þrennt. Sumir setja smá wasabi á hrísgrjónin inn í rúllunna.
Rúllið upp. Skerið í "sneiðar"
Berið fram með súrsuðu engifer, soya og wasabi.
12.11.2009 | 13:03
Hamborgarasúkkulaðikaka
Þessi hamborgari er í raun súkkulaðikaka. Engin kokteilsósa á henni þessari.
Ef það á að bjóða upp á þessa í eftirrétt þá er spurning hvort kjötbollur með kartöflumós og brúnni sósu, borið fram eins og það væri ískúlur með súkkulaðisósu væri ekki upplagður aðalréttur.
Það má nota hvaða kökuuppskrift sem er í borgarann og brauðið. Fondantið virkaði ótrúlega vel í meðlætið. Það leikur í höndunum á manni og hægt að móta úr því næstum hvað sem er.
Og hér kemur uppskriftin af fondantinu.
Sykurmassi (fondant)
- 150 gr sykurpúðar
- 300 gr flórsykur
- 1-2 msk vatn
- Isio matarolía
- Matarlitir, gulur, grænn og rauður
Notið 3 skálar, eina fyrir hvern lit. Setjið 50 gr af sykurpúðum í hverja skál ásamt hálfri msk af vatni og setjið í örbylgjuofn á hæsta í 30 sek. Bætið við annari 1/2 msk af vatni og inn í örbylgju í aðrar 30 sek ef þess þarf.
Takið frá örlítið af massanum sem þið ætlið að nota í ostinn og setjið til hliðar, það notaði ég svo til að gera sesamfræ
Setjið þann matarlit sem þið ætlið að nota í hverja skál fyrir sig,rauðan fyrir tómata, grænan fyrir kál og gulan í ostinn. Litirnir geta verið sterkir og því borgar sig að setja lítið í einu þar til réttur litur næst. Bætið við flórsykri og hrærið því saman við sykurpúðana með gafli eða sleif þar til þið fáið hæfilega þykkt deig. Makið þá hendur í matarolíu og hnoðið deigið þar til það er tilbúið til að fletja það út.
Flórsykurinn breytið lítið litnum sem kominn er á sykrupúðamaukið. Það getur verið að þið þurfið að nota meiri flórsykur en gefið er upp.
Ostur. Fletjið deigið fremur þunnt út á smjörpappír sem búið er að bera svolitla matarolíu á. Hafið flötinn ögn stærri en ljósu kökuna. Skerið það til og notið lítið hringlaga form til að skera út götin í ostinum hér og þar.
Tómatar. Fletjið deigið út, en ekki hafa það of þunnt. Skerið út með hringlaga formi í tómatastærð.
Kál. Mótið með höndunum ójafnt þangað til það lítur út eins og kálblað. Leggið til hliðar á smjörpappír sem búið er að bera á smá matarolíu.
Sesamfræ. Ég tók frá smá sykurmassa frá ostinum og blandaði saman gulum, grænum og rauðum matarlit þar til liturinn var ljósbrúnn. Svo mótaði ég fræin með höndunum
Það er mjög gott að maka hendur vel í olíu þegar verið er að móta áleggið, þannig festist það síður við ykkur.
Geymið "grænmetið" og "ostinn" inn í ísskáp þar til þið notið hann.
Þið getið snyrt til botnana lítillega til að fá rétt lag á þá. Berið ljóst krem hringinn í kringum neðsta botninn. Berið dökkt krem hringinn í kringum dökka botninn sem er hamborgarinn. (Og ofan á hann ef þið eigið eftir smá krem til þess). Leggið ostinn ofan á hamborgarann því næst kálið og að lokum tómatana. Smyrjið ljósa kreminu á efri botninn allan hringinn og ofan á og leggið ofan á "grænmetið". Sléttið úr kreminu með heitum hníf eða fingrunum. Dreifið "sesamfræjunum" ofan á.
5.11.2009 | 10:29
Steikarsamloka
Fór í mat um daginn og fékk steikarsamloku sem smakkaðist gríðarlega vel. Þetta er ekki flókin matreiðsla og hægt að gluða þessu saman á hálftíma og útkoman verður veisla.
Mæli með bjór eða góðu glasi af rauðvíni með þessari samloku. Mér fannst hún njóta sín best án meðlætis, frekar að leyfa samlokunni og víninu eða bjórnum að vinna saman
Steikarsamloka
- Ungnautafille
- Frosin baguette
- Bernaise sósa (úr pakka, eldað skv leiðbeiningum)
- Sveppir, nóg af sveppum!
- Laukur
- Rauðlaukur
- smjör
- Salt
- Pipar
Hitið baguette í ofninum.
Steikið lauk, rauðlauk (sem rokkar) og sveppi á pönnu upp úr slatta af smjöri. Saltið og piprið.
Hitið upp bernaise sósuna skv leiðbeiningum á bakka, þ.e hrærið hana upp með smjöri og mjólk. Við keyptum frá First price í Krónunni, ódýrast og smakkast fínt.
Piprið kjötið með góðri piparblöndu eða svörtum pipar. Steikið kjötið þar til það er fallega blu eða rare. Skerið þá steikina í þunnar sneiðar.
Raðið þessu öllu smekklega á baguette brauð. Ekki gleyma að "presentation is everything!"
www.soffia.net
3.11.2009 | 15:43
Heitt kakó eða kaffi með núggat rjóma
Þetta yljar manni í vetur. Núggat rjóminn gefur skemmtilega tilbreytingu.
- Gott kaffi eða heitt kakó
- 1 dl rjómi
- 50 g mjúkt núggat
Bræðið núggat í vatnsbaði. (skiljið smá núggat eftir til að skreyta með).
Þeytið rjóma og blandið honum við bráðið núggatið.
Hellið kaffi eða kakó í glas og setjið rjómann ofan á. Skreytið með núggat flögum.
Mig langar að minna á lamumba, drykkur sem klikkar ekki! Heitt kakó og koníak.
Mynd frá vinsælasta "chocolate con churros" stað í madrid, San Ginén.
2.11.2009 | 16:34
Gott pasta með hörpudisk og grillaðri papriku
Það er ótrúlegt hvað það getur gert mikið fyrir rétt að grilla papriku áður en henni er skellt í réttinn.
Það gerið þið með því að skera papriku gróft niður í báta, setjið í eldfast mót, dreypið yfir ólífuolíu, salti og pipar og setjið í ofninn á grill þar til skinnið á paprikunni verður pínku svart.
Þá setjið þið hana í skál og lokið fyrir t.d með plastfilmu, þannig verður auðveldara að taka skinnið af. En það viljið þið einmitt gera þegar hún kólnar.
ég er tagliatelle manneskja, en í þennan rétt er um að gera að nota það pasta sem ykkur finnst best.
Pasta með hörpudisk og grillaðri papriku
- 4 paprikur
- 1 heill hvítlaukur
- 1/2 kg hörpudiskur (scallops)
- 5 msk ólífuolía
- Salt
- Pipar
- Tagliatelle
- Fersk steinselja
- Safi úr sítrónu
Hitið ofninn á grilli, hæsta hita.
Setjið paprikur og heilan hvítlauk, eins og hann leggur sig, í eldfast fat . Dreypið yfir smá ólífuolíu, salti og pipar.
Takið skinnið af paprikum (eins og ég minnist á hér áðan)
Takið hvítlaukinn úr hýðinu.
Setjið papriku og hvítlauk í matvinnsluvél og maukið vel.
Penslið hörpudiskinn með olíu og pipar og grillið á grillpönnu. (eða venjulegri pönnu)
Bætið við skvettu af sítrónusafa
Setjið paprikumaukið á pönnuna ásamt hörpudisknum.
Bætið við soðnu pasta og blandið þessu vel saman. Rífið yfir ferskan parmagiano og ferska steinselju.
Saltið og piprið eftir smekk.
www.soffia.net