Hamborgarasúkkulaðikaka

 www.soffia.net

Þessi hamborgari er í raun súkkulaðikaka.  Engin kokteilsósa á henni þessari. 

Ef það á að bjóða upp á þessa í eftirrétt þá er spurning hvort kjötbollur með kartöflumós og brúnni sósu, borið fram eins og það væri ískúlur með súkkulaðisósu væri ekki upplagður aðalréttur. 

Það má nota hvaða kökuuppskrift sem er í  borgarann og brauðið.  Fondantið virkaði ótrúlega vel í meðlætið.  Það leikur í höndunum á manni og hægt að móta úr því næstum hvað sem er.

Og hér kemur uppskriftin af fondantinu.


Sykurmassi (fondant)

  • 150 gr sykurpúðar
  • 300 gr flórsykur
  • 1-2 msk vatn
  • Isio matarolía
  • Matarlitir, gulur, grænn og rauður



Notið 3 skálar, eina fyrir hvern lit. Setjið 50 gr af sykurpúðum í hverja skál ásamt hálfri msk af vatni og setjið í örbylgjuofn á hæsta í 30 sek.  Bætið við annari 1/2 msk af vatni og inn í örbylgju í aðrar 30 sek ef þess þarf.

Takið frá örlítið af massanum sem þið ætlið að nota í ostinn og setjið til hliðar, það notaði ég svo til að gera sesamfræ


Setjið þann matarlit sem þið ætlið að nota í hverja skál fyrir sig,rauðan fyrir tómata, grænan fyrir kál og gulan í ostinn. Litirnir geta verið sterkir og því borgar sig að setja lítið í einu þar til réttur litur næst. Bætið við flórsykri og hrærið því saman við sykurpúðana með gafli eða sleif þar til þið fáið hæfilega þykkt deig. Makið þá hendur í matarolíu og hnoðið deigið þar til það er tilbúið til að fletja það út. 

Flórsykurinn breytið lítið litnum sem kominn er á sykrupúðamaukið.  Það getur verið að þið þurfið að nota meiri flórsykur en gefið er upp.

www.soffia.net

www.soffia.net

Ostur.  Fletjið deigið fremur þunnt út á smjörpappír sem búið er að bera svolitla matarolíu á.  Hafið flötinn ögn stærri en ljósu kökuna. Skerið það til og notið lítið hringlaga form til að skera út götin í ostinum hér og þar.

Tómatar.
  Fletjið deigið út, en ekki hafa það of þunnt.  Skerið út með hringlaga formi í tómatastærð. 

Kál.  Mótið með höndunum ójafnt þangað til það lítur út eins og kálblað.  Leggið til hliðar á smjörpappír sem búið er að bera á smá matarolíu.

Sesamfræ.
  Ég tók frá smá sykurmassa frá ostinum og blandaði saman gulum, grænum og rauðum matarlit þar til liturinn var ljósbrúnn.  Svo mótaði ég fræin með höndunum

Það er mjög gott að maka hendur vel í olíu þegar verið er að móta áleggið, þannig festist það síður við ykkur.

Geymið "grænmetið" og "ostinn" inn í ísskáp þar til þið notið hann.

Þið getið snyrt til botnana lítillega til að fá rétt lag á þá.  Berið ljóst krem hringinn í kringum neðsta botninn.  Berið dökkt krem hringinn í kringum dökka botninn sem er hamborgarinn. (Og ofan á hann ef þið eigið eftir smá krem til þess).  Leggið ostinn ofan á hamborgarann því næst kálið og að lokum tómatana. Smyrjið ljósa kreminu á efri botninn allan hringinn og ofan á og leggið ofan á "grænmetið". Sléttið úr kreminu með heitum hníf eða fingrunum. Dreifið "sesamfræjunum" ofan á. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ Soffía.

Æðisleg kaka! Vinkona mín var einmitt að segja mér frá því að hún hafi lesið um kökuna þína í Gestgjafanum. Hún gerði hana fyrir krakkan sína og hún (vinkona mín og kakan) sló þvílíkt í gegn :)

 Kveðja, Fríða

Fríða (IP-tala skráð) 22.11.2009 kl. 19:43

2 Smámynd: Soffía Gísladóttir

Takk :)  Vá hvað það er að gaman að heyra þetta! 

kv, Soffía

Soffía Gísladóttir, 28.11.2009 kl. 11:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband