Heimagerð Thai sweet chili sósa

Alltaf minnka hjá mér innkaup á tilbúnum vörum.  Nýjasta afurðin er Thai sweet chili sósa sem mér finnst vera ómissanleg með núðluréttum og öðrum asískum mat.

Ég hélt að það væri fremur flókið að gera svoleiðis sósu þannig að hún líktist þessum sem ég er vön að kaupa.  En viti menn. Eftir 10 mínútna mall á örfáum hráefnum var komin dásamlega bragðgóð sæt chili sósa.

(Chili, chilli, chile...ég kalla þetta chile, það þykir voða fínt hjá"hard core" chile aðdáendum. En svo segi ég Thai sweet chili sauce því þannig er það yfirleitt á umbúðum sósunnar).

Fyrst er að smakka til rauðan chile.  Þeir geta verið mjög mis sterkir.  Í þessa sósu er gott að vera með fremur bragðsterkan chile. 

Ef þið eruð með mjög sterkan chile þá getið þið notað minna af fræunum eða skafið þau öll í burtu, en í þeim er mesti hitinn.

thai sweet chili sósa 

Thai sweet chili sauce

 

  • 3 hvítlauksrif, afhýdd
  • 2 rauðir chile piprar (með eða án fræja)
  • 1.2 dl sykur
  • 1.8 dl vatn
  • 0.6 dl borðedik
  • 1/2 msk salt

 

 

  • 1 msk kornsterkja eða kartöflusterkja
  • 2 msk vatn 

 

Setjið allt í blender nema kornsterkjuna og 2 msk af vatni.  Maukið vel.

Setjið maukið í pott og leyfið suðu koma upp. Lækkið hitann niður í meðalhita og látið malla þar til sósan byrjar örlítið að þykkna, um 3 mínútur.

Hrærið saman kornsterkju og vatni og bætið út í sósuna, hrærið í pottinum um leið og þið hellið sterkjunni út í og látið malla í 1 mínútu.

Kornsterkjan þykkir sósuna og gefur henni flotta áferð, annars væri þetta bara eins og þunn sósa með chile bitum fljótandi á yfirborðinu.

Kælið sósuna alveg og setjið í sótthreinsaða krukku og geymið í ísskáp.

Ef þið ætlið að gera svona sósu í einhverju magni til að geyma í lengri tíma þá er talað um að nota "Pre-gelatinized" sterkju.

Ég læt mér bara duga minna magn í einu, enda er þetta einföld og fljótleg uppskrift.  Tekur um hálftíma að skella í eina litla krukku.

thai sweet chili sósa 

Áferðin á sósunni var fullkomin, styrkleikurinn á chilebragðinu góður, fersk hvítlauks og chile lykt. Alveg frábært! 

Og best af öllu...nú er maður miklu nær því að vita hvað fer ofan í mann og sykurmagninu getur maður stjórnað sjálfur. 

Ég datt niður á blogg um tælenska matargerð shesimmers.com.  Það lítur út fyrir að vera margar skemmtilegar uppskriftir þarna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband