Færsluflokkur: Matur og drykkur
17.10.2011 | 16:10
Eldað með Jamie - Ofnbakaður kjúklingur og risotto með pancetta og rósmarín
Í gær eldaði ég upp úr bókinni minni Kokkur án klæða.
Að þessu sinni valdi ég tvær uppskriftir, kjúkling og svo risotto sem ég taldi geta passað vel með kjúklingnum og viti menn... Þetta var ljómandi gott. Þetta er fullkomin máltíð á köldu vetrarkvöldi eða sem hádegismatur á stormasömum sunnudegi...til dæmis.
Ég fjárfesti í pancetta til að nota í risottoið. Þegar ég segi fjárfesti, þá meina ég sko fjárfesti því kg kostar 4000 kr. Þannig að ég keypti 150g. Pancetta er kallað ítalskt beikon, söltuð og krydduð svínasíða sem er svo þurrkuð. Mér finnst hún mjög bragðgóð, og alveg þess virði að prófa. Ég keypti hana í kjötborðinu í Hagkaup, Kringlunni. Það er líka hægt að nota beikon en það er aðeins önnur stemmning í því.
Ofnbakaður kjúklingur eða eins og Jamie orðar það:
Minn fullkomni steikti kjúklingur (bls 120)
- 1.5 kg kjúklingur
- Salt og pipar
- 3 lúkur af ferskum smátt söxuðum kryddjurtum. (Basil, steinselju og marjoram)
- 4 msk ólífuolía
- 1 sítróna, skorin til helminga
- 4 lárviðarlauf
- 2 greinar af fersku rósmarín
(Það var ekki til marjoram þannig að ég sleppti því væri jafnvel hægt að nota ferskt oregano. Svo er ég með fordóma fyrir lárviðarlaufi þannig að ég sleppti því).
Hitið ofn og ofnskúffu í 225°c.
Skolið kjúkling og þerrið með eldhúspappír.
Nuddið kviðarhol með salti.
Losið húðina við endann á bringunni frá kjötinu, gerið samt bara smá gat og troðið kryddjurtunum þar inn ásamt smá salti og olíu.
Setjið sítrónu og rósmarín í kviðarholið. Hér er hægt að binda kjúklinginn svo hann haldist betur saman. (ég gerði það reyndar ekki því ég var ekki með neitt band).
Skerið 3 skurði í sitthvort lærið og nuddið kryddjurtum þar inn í skurðina.
Nuddið húðina með ólífuolíu, salti og pipar.
Leggið kjúkling í ofnskúffu með bringuna niður í 5 mín, snúið svo á hina hliðina með bringu niður og bakið í 5 mín.
Setjið svo kjúkling á afturendann og eldið í klst, eða þar til fuglinn er eldaður í gegn.
Risotto með pancetta og rósmarín(bls 172)
- 1 líter kjúklingasoð eða grænmetis, ekki er það verra ef það er heimalagað
- 1 msk ólífuolía
- 2 smátt saxaðir shallot laukar
- 1/2 selleríhöfuð
- Salt og pipar
- 2 smátt söxuð hvítlauksrif
- 400 g risotto
- 100 ml þurrt hvítvín
- 70 g smjör
- 100 g ferskur rifinn parmesanostur
- 50 g pancetta
- 2 msk smátt saxað rósmarín
Jamie notar Borlotti baunir, þær voru ekki til þannig að ég notaði engar baunir.
FYLGIST VEL MEÐ RISOTTOINU ALLAN TÍMANN, EKKI LÍTA AF ÞVÍ!!
Hitið soðið.
Hitið olíu, steikið pancetta.
Hitið olíu í breiðum potti. Steikið við vægan hita lauk og sellerí, allt smátt skorið í 3 mín. Bætið við hvítlauk og steikið í aðrar 2 mín.
Hækkið hitann og lítið nú aldrei af pottinum.
Setjið hrísgrjónin út í pottinn. Ekki láta þau samt brúnast. Hrærið stöðugt í pottinum í 2 mín eða svo.
Bætið við pancetta og rósmarín
Hellið hvítvíninu út í. Sjóðið niður
Bætið nú einni ausu af soði út í og látið sjóða upp. Þetta gerið þið svo þar til allt soðið er búið, eina ausu í einu og láta gufa upp þar til næsta ausa er sett í pottinn. Þetta tekur um 20 mín.
Þegar soðið er búið og allt gufað upp og grjónin tilbúin bætið þá við rifna parmesanosti og smjörinu. Blandið vel saman.
Berist fram strax.
Þennan rétt má bera fram einan og sér eða eins og ég gerði með kjúkling. Einnig finnst mér alltaf gott að fá risotto með fiskmeti.
Ef þið notið borlotti baunir þá skuluð þið sjóða þær og blanda þeim saman við í lokin.
Hafið ferskan parmesanost á borðin svo hægt sé að rífa smá yfir diskinn sinn, nammi namm.
Svo getið þið leikið ykkur með meðlætið, nýbakað brauð, gott salat osfv. Mér finnst algjör óþarfi að nota sósu því það myndi taka bragðið frá risottoinu sem er alveg dúndur bragðmikið og gott.
Og hérna var svo smjörið sem ég var að leita að...
Eiga matreiðslubækur ekki annars að líta út fyrir að vera notaðar?
Matur og drykkur | Breytt 27.3.2013 kl. 15:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.10.2011 | 18:46
Krásir í Kjósinni
Ég fór á Krásir í kjósinni fyrir stuttu. Það var matarhátíð þar sem bændur úr sveitinni lögðu til hráefni, beint frá býli.
Það var fullt af smáréttum, lamb, naut og gæs í aðalrétti, nokkrir mismunandi eftirréttir, þ.á.m panna cotta, ábrystir og ostar. Í forrétt var súpa með krækling og grjótakrabba, sem einmitt finnst við strendurnar hér í hvalfirði.
Svona hljómaði matseðillinn nokkurn veginn:
Matseðill matarhátíðar Krásir í Kjósinni
Forréttir:
· Grjótkrabbasúpa
· Urriði og /eða ný bleikja með hundasúru -jógúrtsósu á Kjósarkökum
· Grafið naut og hangikjöt með salati og kryddjurtaolíu úr sveitinni og rifnum sveitaosti.
· Bjúgnaragú í rauðvínssósu
Aðalréttir:
· Naut og lamb með kúmengljáa
· Léttreykt gæs með appelsínu- og villibráðaberjum frá Hálsi og rabarbara-chutney
Öllum aðalréttum fylgja kartöflur og steikt rótargrænmeti.
Eftirréttir:
· Ostasinfonía úr sveitinni með berjum og sultum
· Aðalbláberja panna cotta (ítalskur rjómabúðingur)
· Skyr- og jógúrtterta með höfrum og berjum úr sveitinni
Þetta var vel heppnuð veisla, mikið af fólki, Ólöf Arnalds tók nokkur lög og góð vín ásamt vínkynningu. Ég læt myndirnar tala sínu máli.
Grjótakrabbi
Súpan
Forréttir
Aðalrétturinn
Og að lokum...
Ég geri nær undantekningalaust mína eigin borgara. En dæmigerður keyptur hamborgari úr Krónunni með brauðinu vafið í plastfilmu lenti í körfunni og hann var fínn, og brauðið, sem leit út fyrir að vera þurrt og óspennandi endaði á að vera lúngamjúkt eftir smá stund á grillpönnunni...
Ég vil meina það að eldunaraðferðin hafi átt sinn hlut í að gera þennan borgara svona góðan.
Það var hann Heston sem benti á þessa aðferð í þættinum sínum um besta hamborgara ever.
Málið er að snúa honum við á 30 sekúntna fresti þar til hann er steiktur að ykkar óskum.
Heimagerð bbq sósan sem ég penslaði borgarann með var góð, sósurnar á borgaranum góðar (uppskriftir hér að neðan) og meðlætið smellpassaði við þetta allt saman, ég held að það hafi gert gæfumuninn að hafa meðlætið ekki of mikið, en það var ruccola salatlauf, súrar gúrkur, þunnt skorinn bufflaukur og ostur.
Ég bjó til bbq sósu. Alveg heilan lítra og notaði örugglega ekki meira en 2 msk af sósunni til að pensla borgarann. Og svo gerði kærastinn rosalega góða sósu með hamborgaranum þar sem hann notaði alveg 2 aðrar skeiðar af þessum lítra sem við áttum af bbq sósu.
Hamborgarasósa
- 2 msk bbq sósa
- 2 msk mæjónes
- 1 tsk sinnepssósa
Öllu hrært saman.
Bbq sósa og mæjó er ótrúlega gott kombó .
Það er alveg sama hvað ég set í bbq sósuna, hún er alltaf góð, en það þarf að sjálfsögðu nokkur grundvallarhráefni, eins og tómata, dijon og púðursykur.
Einhverntíma hljóðaði hún svona hjá mér: Smjör, hvítlaukur, shalottlauk, púðursykur, tómatsósa, tómatar í dós, ananassafi, chilpotle krydd, salt og pipar, rauðvín og chilpotle pipar í adobo sósu.
Öðru sinni svona: Hvítlaukur, Laukur, Smjör, Matarolía, Jalapeno (í krukku), Tómatsósa, Thai sweet chile sauce, Ananas safi (notaði frá ananas í dós), taco krydd, Pipar og Salt,Sykur, Dijon sinnep, Sætt sinnep, Hvítvín, Safi frá Lime
Þetta fór í bbq sósuna að þessu sinni, smá af þessu og smá af hinu
- 1 dós tómatar
- Tómatsósa
- Dijon
- Sætt sinnep
- Niðursoðinn jalapeno
- Salt og pipar
- Shrirachi sósa
- Laukur
- Hvítlaukur
- Matarolía til að steikja laukinn
- Skvetta af rauðvíni
- Púðursykur
Soðið í potti og maukað í blender.
Sinnepssósa
- Mjones eða sýrður rjómi
- Sætt sinnep
- Smá Dijon sinnep
- Smá sýróp
- Salt
Ég var svo inspireruð af Jamie Oliver þegar kom að kvöldmat eftir að hafa eytt deginum í að horfa á þætti með honum. Þar var hann búin að þvælast um Ítalíu, Grikkland og Frakkland. Þannig að úr varð að ég hafði salat í matinn og hér kemur upptalning á hráefninu sem var í því.
- Ruccola salat
- Hráskinka
- Agúrka
- Paprika
- Rauðlaukur
- Svartar ólífur
- Feta
- Mossarella
Og svo punkturinn yfir I-ið...
- Croutons, heimagert brauð frá því í gær, skortið í teninga, og steiktir á pönnu upp úr góðri EVOO með mjög smátt skorinni hráskinku, hvítlauk, salti, pipar og oregano.
9.10.2011 | 14:58
Samansafn af brauðuppskriftum sem ég hef bloggað um
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 15:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.10.2011 | 16:04
Rauðrófu-tagliatelle með pestó, kræklingum og hvítvíni
Þessi uppskrift er í matreiðslubókinni hans Jamie Oliver, Nakti kokkurinn, sem ég er að elda allar uppskriftirnar upp úr.
Það er ekki flókið að gera sitt eigið pasta, en tekur smá tíma og maður þarf að nostra svolítið við þetta. En algjörlega þess virði. Alveg upplagt að eyða köldum og blautum haustdegi í pastagerð með allri fjölskyldunni, eða góðum vinum og smá vínsopa.
Það er mjög nice að blanda rauðrófum við pastadeig. Þið hafið kannski tekið eftir því að það er búið að vera svolítið mikið um bleikan mat hjá mér undanfarið. En ég keypti 2 rauðrófur sem ég ofnbakaði og þær hafa enst vel.
Rauðrófu-tagliatelle með pestó, kræklingum og hvítvíni
Rauðrófu-pasta(fyrir ca 4)
- 1/2 rauðrófa, vel maukuð, t.d með töfrasprota og smá skvettu af vatni til að auðvelda það að mauka hana
- 3 egg
- 400 g hveiti (og kannski aðeins meir, þar til þetta er orðið að mjúku klísturslausu deigi)
Hnoðið allt saman í höndum eða í hrærivél,ég nota Kitchen Aid).
Geymið pastadeigið í ísskáp í klst í skál undir plasti.
Rúllið út deigið, notið hveiti eins og þið þurfið svo það klístrist ekki við kökukeflið, eða rúllið þetta út í pastavél. Ég var ekki með pastavél þannig að ég notaði kökukefli, og rúllaði það svo upp eins og pönnuköku og skar það í strimla, þá var ég komin með tagliatelle.
Sjóðið í bullandi vatni í 3-4 mín, eða þar til það er tilbúið. Ferskt pasta þarf ekki langa suðu.
Þumalputtareglu í pastagerð er 1 egg á móti 100 g hveiti, en þar sem rauðrófurnar eru blautar þá þarf að auka hveitimagnið
Kræklingur
- 1/2 kg kræklingur
- 150 g hvítvín
- 1-2 hvítlauksrif, pressað í gegnum hvítlaukspressu eða skorið smátt.
- Ferskur svartur pipar
- Smjörklípa
Setjið kræklinginn í rúmgóðan pott, hellið botnfylli af hvítvíni í pottinn, athugið að setja ekki of mikið vín, því við viljum gufusjóða hann, en ekki sjóða. Þannig að það þarf ekki að hylja kræklinginn með vökva. Pressið hvítlauk út í pottinn og jafnvel smá pipar.
Gufusjóðið krækling í hvítvíni og hvítlauk þar til allur kræklingur hefur opnað sig, hendið þeim sem opnast ekki.. (það má líka sjóða hann í vatni)
Þegar kræklingur er tilbúinn hendið þá smjörklípu út í og ferskri steinselju. Ég átti hana ekki til þannig að ég sleppti henni.
Pestó
- 1/4 hvítlauksrif
- 3 lúkur fersk basil
- 1 lúka léttristaðar furuhnetur
- 1 lúka parmasenostur
- Extra virgin ólífuolía
- Salt og pipar
Maukiða allt saman í matvinnsluvél, en hellið olíunni hægt út í þar til þið hafið fengið þann þéttleika sem þið viljið á pestóið. Parmasenostur getur verið saltur, þannig að saltið og piprið eftir á. Jamie talar einnig um að setja smá sítrónusafa út í pestóið því hann magni upp ilminn af basil.
Setjið pasta á disk ásamt kræklingnum, smá skvettu af kræklingasoðinu og pestó. Berið fram með góðu brauði sem þið getið drekkt í soðinu.
Það er mikil matarveisla í Kjósinni í kvöld, ég er mjög spennt en þar verður eldaður matur, beint af býli, en ég segi ykkur allt um það næst.
Ég vona að þið eigið góðan dag og gott kvöld.
Alltaf gaman að eiga góða vini sem benda manni á skemmtilega þætti um mat. Þetta eru þættir með manni sem heitir Heston Blumenthal.
Meðal þess sem hann fjallar um í þáttunum er hvernig maður getur gert pizzu í venjulegu heimiliseldhúsi sem smakkast eins og pizzurnar í Napoli. Það má finna eitthvað af þessum þáttum á youtube.
Mér finnst snilld hvernig hann snýr pönnunni við eftir að hafa hitað hana á hellu og bakar pizzuna á pönnubotninum.
Ég vaaaarð að prófa þetta. Og viti menn....botninn bakaðist á örskots stundu. Ég var með pizzuna í ofninum í innan við 3 mínútur. Málið er að nota cast iron pönnu (pönnu úr steypujárni) því hún hitnar vel, en ég átti bara stálpönnu og notaði hana.
Svo gerði ég þetta aftur, í litlum "sumarbústaðarofni" og notaði pönnukökupönnu. Þetta er svo mikil snilldar aðferð að nú verður ekki aftur snúið. Og næsta mál á dagskrá er að versla cast iron pönnu.
Og þar sem þessi ofn hitnar ekki alveg jafn mikið og stærri ofnar þá varð pizzan að vera lengur í ofninum. EN, algjörlega miklu betri eldunaraðferð. Og nb skaptið á pönnunni kemst ekki inn í ofninn fyrir utan að vera úr plasti. Þannig að það skagar út og ofnhurðin er opin.
Svo er annar galdur, heeeld ég.... Og það er að rúlla ekki deigið með kökukefli heldur snúa því í hringi á meðan maður klípur það út með puttunum þar til maður er komin með nógu stóran hring. Þannig hefur maður ekkert flatt út endana þannig að þeirra verða flöffí og næs.
Pizza bökuð á pönnu - nokkrir punktar
- Ef þið viljið hafa þetta Napoli style þá þarf botninn að vera þunnur og áleggið tómatsósa, fersk basil og helst mossarella di buffola, en þar sem ég hef ekki séð svoleiðis í búðum hér heima þá má notast við mossarella.
- Það er best að gera starter daginn áður, blautt deig sem þið blandið svo saman við pizzadeigið.
- Ég mæli með því að taka skinnið af tómötunum og kjarnahreinsa þá eins og ég gerði við tómatana í þessari færslu áður en þið maukið þá í sósu. Og setjið hvítlauksbita í hvern tómat.
- Ferskur mossarella er lykilatriði, en ekki rifinn plastostur í poka!
- Svo er málið að notuð sé fersk basilika.
- Hafið ofninn eins heitann og þið getið, best er að baka pizzuna í stuttan tíma. Aðferð Hestons er að hita ofninn og setja hann svo á grill, pizzuna á funheita cast iron pönnu og eins ofarlega í ofninn og þið getið, svo pizzan sé mjög nálægt grill elementinu.
Ef þið viljið láta reyna á aðferðina hans Hestons þá er hér búið að útlista nokkuð nákvæmlega hvernig hann fór að í þessum þætti.
Og hér eru ýmsar hugmyndir til að gera góða pizzu betri.
Er ekki upplagt að baka í dag? Veðrið í gær fékk mig að minnsta kosti til þess að henda í þessar súper sætu uglukökur. Það er svo auðvelt að búa þessar til.
Ég notaði devil´s food cup cakeuppskrift frá Martha Stewart. Hún var allt í lagi. En mér finnst alltaf best svona pakkaduft frá t.d Betty eða frá Shoppersrite, Devil´s food kakan, hún var ótrúlega mjúk og flöffí.
Svo hef ég einhverntíman "bookmarkað" þessa uppskrift. Svipuð og hjá Mörtu, bara minna magn.
- Uppáhalds bollaköku uppskriftin ykkar
- Uppáhalds súkkulaðikremið (ég notaði smjörkrem, eða notið tilbúið Betty crocker krem)
- Orios kex
- 1 poki af m&m, notið appelsínugulu og brúnu m&m-in
Búið til bollakökur, setjið á kremið, mótið smá uglueyru úr kreminu, þarf ekki að vera mjög nákvæmt.
Takið Orios kexið í tvennt, ég skóf aðeins af hvíta kreminu ef það var brúnt kex á því til að fá það alveg hvítt. Þegar ég tók þær í sundur þá gerði ég það þannig að það var bara hvítt krem á öðrum helmingnum.
Leggið brúnt m&m á Orios kexið.
Setjið appelsínugult m&m á milli kexins, upp á brún, til að gera nefið.
Ef þið viljið gera þetta einfaldast þá er málið að kaupa kökuduft í pakka, tilbúið krem í dós og svo auðvitað m&m og Orios. Einfalt og flott!
30.9.2011 | 14:23
Bleikar pönnukökur
Pönnukökur verða fallega bleikar þegar smá rauðrófu er bætt út í deigið. Það er tilvalið að gleðja krakkana um helgina með bleikum pönnukökum. Ekki nóg með að þær eru fallegar á litinn þá eru þær líka svolítið hollar því rauðrófur eru meinhollar.
Svo mætti jafnvel búa til nokkrar barbapabbapönnukökur í leiðinni.
Bleikar pönnukökur
- Hálf rauðrófa, soðin eða ofnbökuð
- Ykkar uppáhalds pönnukökudeig
Ég ofnbakaði rauðrófuna í 2 klst við 200°c. Ekki taka skinnið af eða skera í hana eða bleyta hana áður en þið setjið hana í ofninn. Það er auðvelt að taka skinnið af þegar búið er að elda hana.
Ef ykkur vantar uppskrift af pönnukökum þá gerði ég þetta svona:
- U.þ.b 1 dl ab mjólk
- U.þ.b 1 dl hveiti
- 1 egg
- 1 tsk lyftiduft
- 1 tsk salt
- 1 msk matarolía
- Mjólk eftir þörfum
Maukið rauðrófu og ab mjólk í blender eða með töfrasprota. Blandið rest saman við og mjólk eftir þörfum, þar til pönnukökudeigið er nógu þykkt. (Ekki hafa það of þunnt svo kökurnar fá síður á sig brúna flekki).
Það má með sanni segja að maður læri ýmislegt á því að elda allar uppskriftir úr einni bók. Nú átti ég salvíu í ísskápnum sem ég þurfti að nota áður en hún eyðilegðist. Mér fannst græni liturinn í salvíunni smellpassa með þessum bleika svo ég prófaði að nota salvíu með þessum pönnukökum. Og viti menn, þeir voru jafn góðar og þær eru fallegar.
Bleikar pönnukökur með salvíu
- Pönnukökudeig með rauðrófu
- Smjör
- Fersk salvía
Bræðið smjör á pönnu. Steikið salvíu upp úr smjörinu í ca 1 mín á hvorri hlið. Leggið hana til hliðar á disk.
Gerið rauðrófupönnukökudeig.
Blandið salvíunni við pönnukökudeigið og bakið pönnukökur.
Ef þið eruð alls ekki fyrir rauðbeður þá má sleppa þeim hér og nota venjulegt pönnukökudeig, og blanda steiktri salvíu við það og elda úr því pönnukökur.
Ég ákvað að skera pönnukökurnar með hringskera svo þær fengju á sig sama form því þær voru ansi óreglulegar hjá mér, sem er svosem bara krúttlegt. En þá var ég með ræmur í afskurð og vildi nýta hann. Ég rúllaði honum upp þannig að hann leit út eins og rós. Rósina mætti svo sykra og bera þannig fram.
Rauðrófupönnukökur með salvíu er mjög mjög gott og hægt að bera þær fram á ýmsa vegu, t.d með hrísgrjónum, papriku og beikoni, eins og crepes. Svo væri hægt að skella smá sýrðum rjóma á litla rauðrófu-salvíu klatta.
Ég bar rauðbeðu-salvíu klattana fram með kjúklingi, beikonvafinn með sítrónusósu. Meir um það næst.
Endalausir möguleikar...
27.9.2011 | 22:14
Enn er eldað með Jamie Oliver - Vitið þið hvað börnin hans heita?
Ég vissi ekki að Jamie Oliver á 4 börn, síðast þegar ég vissi voru þau tvö, en svona líður tíminn. En hann er ansi frumlegur í nafnavali. Ég veit ekki hvað mannanafnanefndin hér á Íslandi myndi segja við þessu...
Elsta barnið heitir Poppy Honey, og svo eru það Daisy Boo, Petal Blossom og Buddy Bear.
Það byrjaði vel, að elda upp úr Kokkur án klæða með Jamie Oliver. Hörpudiskurinn smakkaðist mjög vel, virkilega vel heppnuð uppskrift. Ég ætla ekki að elda allar uppskriftirnar í bókinni á hverjum degi. Aðallega af því að mig langar að njóta matargerðarinnar en ekki gera þetta að kvöð.
Að þessu sinni varð Kjúklingabaunasúpa með blaðlauk fyrir valinu. Því ég átti bæði kjúklingabaunir og blaðlauk. (Ég miða hér miðað við 3 og breytti magni lítillega).
Þessi uppskrift var bæði bragðgóð og "easy peasy" eins og Jamie myndi segja.
- 1 dós kjúklingabaunir
- 4 meðalstórar soðnar skrællaðar kartöflur
- 1 stór blaðlaukur
- 1 msk ólífuolía
- Smjörklípa
- 2 hvítlauksrif
- Salt og pipar
- 1/2 L kjúklinga eða grænmetissoð (ég notaði einhvern organic grænmetistening)
- Rifinn parmasenostur
- Extra virgin ólífuolía
Fjarlægið ystu blöðin á blaðlauknum, skerið hann langsum og saxið smátt.
Hitið pönnu eða pott með msk af ólífuolíu og smá smjöri. Steikið lauk og hvítlauk sem þið saltið við vægan hita.
Látið renna af baununum, skolið þær aðeins undir köldu vatni. Bætið þeim við laukinn ásamt soðnum kartöflum og steikið í um 1 mín.
Bætið við 1/3 af soðinu og látið malla í 15 mín.
Maukið svo helminginn af súpunni (eða alla súpuna eða bara alls ekki..fer eftir því hvernig þið viljið hafa áferðina. Það var mælt með að mauka helming, svo að þið fáið bæði "smooth" áferð og "chunky" sem var mjög gott.
Bætið því sem þið maukuðuð aftur út í pottinn og restinni af soðinu og hitið upp.
Kryddið eftir smekk með salti, pipar og parmasenosti. Hellið smá extra virgin ólífuolíu út í súpuna eftir að hún er komin í skálina hjá ykkur ásamt aðeins meir af rifnum parmasenosti ef þið viljið.
Með þessu bar ég fram auðvelda brauðið sem ég gerði einnig með hörpudisknum.
Haustlitirnir eru fallegir. Það er ákveðin stemning sem fylgir haustinu, svona kósí time...
Matur og drykkur | Breytt 27.3.2013 kl. 15:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.9.2011 | 18:19
Íslenskur matur og íslenski kúrinn
Hvernig mynduð þið svara þessum spurningum?
- "What are the typical Icelandic foods?"
- "Does the Icelandic kitchen have some impacts from some foreign country?"
Í tilefni þess að Eistland fékk sjálfstæði fyrir 20 árum og að íslendingar voru fyrstir til að viðurkenna sjálfstæði þeirra var haft samband við mig hjá eistnesku matarvefriti og ég svaraði nokkrum spurningum um íslenskan mat.
Hér má lesa viðtalið en þeir sem kunna ekki eistnesku en vilja lesa þetta geta nýtt sér google translate :)
Ég gaf þeim uppskrift af rúgbrauði og plokkfisk. Þeim fannst það mjög áhugavert að hægt sé að baka rúgbrauð í heitum hverum.
Hér eru tvær uppskriftir af plokkfiski, ekki alveg þessi hefðbundna uppskrift. Ég mæli sérstaklega að prófa plokkfisk með byggmjöli, íslenskara verður það ekki.
Það er búið að vera mikið í umræðunni einhverskonar íslenskur kúr, þar sem einungis er borðað íslenskur matur. Ég hef ekki enn séð út á hvað sá kúr gengur og hversu nákvæmt farið er eftir því hvað sé íslenskt hráefni.
En þessi matarkúr er eflaust ágætur ef farið er fremur nákvæmt eftir honum því þá þarf að útiloka allt sælgæti, kex, gosdrykki, keypt brauð því hvítt hveiti er ekki íslenskt (Kornax flytur inn sitt mjöl) og ekki er ræktaður sykur hér á landi svo fátt eitt sé nefnt.
Eins getur maður ekki verslað sér skyndibita eða farið út að borða því eflaust er eitthvað ekki svo íslenskt þar á borðum, t.a.m flest grænmeti, hveiti, krydd osfv. Því mér finnst að ef maður er í "íslenska kúrnum" að þá geti maður ekki borðað papriku frá Hollandi, þótt svo hægt sé að rækta slíka hér.
Ég gerði einmitt tilraun síðasta janúar þar sem ég eldaði nánast eingöngu úr íslensku hráefni. Það var mjög fróðlegt og ég mæli með því að fólk prófi það. Eins og ég segi þá útilokar maður sykur og flest allt hveiti, nema byggið og heilhveitið frá Vallarási og Þorvaldseyri.
Ég nýtti mér byggið mjög mikið þegar ég stóð í þessari tilraun, sem og borðaði ég mikinn fisk og verslaði eingöngu íslenskt grænmeti.
Það sem er einnig skemmtilegt við þessa tilraun, að elda úr íslensku hráefni, er að eldamennskan er yfirleitt einföld. Ég hef sjaldan haft jafn oft einfaldlega FISK OG KARTÖFLUR á borðum og þennan janúarmánuð. Soðin fiskur, soðnar kartöflur og smjör! Eitthvað sem mér finnst ekki mest spennandi í heimi en samt lúmskt gott og nauðsynlegt öðru hvoru.
Það er t.d hægt að gera klatta úr íslensku hráefni og barasta sleppa sykri og lyftidufti. Byggmjöl, byggflögur, skyr, mjólk, smjör og egg.
Hér eru svo fleiri uppskriftir sem ég gerði þar sem ég nota eingöngu íslenskt hráefni:
Lasagna - eingöngu íslenskt hráefni
Byggklattar - mætti sleppa matarsóda
Steikt ýsa - ýkt steikt ýsa
Matur og drykkur | Breytt 28.9.2011 kl. 16:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)