Það er ekki oft sem maður rekst á íslenskt rúgmjöl, (aldrei) en það gerðist þegar ég var á Flúðum um daginn. Við fórum á bændamarkaðinn þar í bæ og þar fjárfesti ég í poka af rúgmjöli frá Ískorni.
Það má lesa meir um Ískorn hér.
Ég notaði það til að baka flatkökur og það kom mjög vel út. Ég notaði 200 g af rúgmjöli á móti 100 g af steinmöluðu heilhveiti. Svo nota ég venjulegt hvítt hveiti til að rúlla þeim út.
Ég hef áður minnst á það að einhverntíma skoðaði ég innihaldslýsingar á flatkökum út í búð og þar var aldrei rúgmjöl notað í meirihluta. Oftast var heldur ekkert rúgmjöl í flatkökunum.
Ég hef verið að styðjast við uppskrift frá matarást, en hér er bloggfærsla sem ég gerði um flatkökur. Ég mæli eindregið með að þið látið vaða í flatkökugerð. Það jafnast ekkert á við nýbakaðar heimagerðar flatkökur.
Síðast var ég búin að fletja út svo margar og átti enn eftir deig þannig að ég gerði nokkrar kökur eins og ég væri að gera tortilla kökur. Svo fyllti ég þær með brakandi fersku grænmeti sem ég fékk á Flúðum ásamt svakalega góðum heimagerðum sósum.
Við vorum orðin ansi svöng eftir góðan dag á Flúðum þannig að við fundum stað til að setjast niður og fá okkur eitthvað að borða.
Á matseðlinum var Flúðaborgari með grænmeti frá bændunum í sveitinni. Það hljómaði vel en fannst mér lítið til hans koma og undraðist ég mjög á að fá þreyttan borgara með aumingjalegu iceberg og 2 sneiðum af fölum tómati í hjarta grænmetisræktunar á Íslandi.
Sjálf var ég með út í bíl fullan poka af ilmandi paprikum, agúrkum, sveppum salati og fleira góðu sem ég hafði verlsað af bændum þarna í grenndinni. Ég hefði betur nartað í það.
Rúgmjöls tortilla kökur eru fáránlega góðar!
Uppskrift af þessum svakalega góðu tortilla kökum má finna hér ásamt myndum sem ég tók þegar þokan læddist inn Hvalfjörðinn.
Og þá er komið haust?...
23.7.2013 | 08:06
Halloumi ostur, frábær forréttur ef þið ætlið út að grilla í dag
Ég er núna að lesa bók eftir Michael Pollan sem heitir Cooked. Ég mæli algjörlega með henni. Kaflinn um brauðgerð er sérlega áhugaverður!
Ég hef verið að reyna fyrir mér í súrdegisbrauðbakstri, það hefur gengið ágætlega. Síðasta brauð sem ég gerði kom mjög vel út fyrir utan það að ég gleymdi því í ofninum 45 mínútum of lengi þannig að skorpan brann almenninlega en ótrúlegt en satt þá var brauðið undir skorpunni ljúffengt.
Ég fór í ostabúð fyrir nokkkru og spurði um Halloumi ost og afgreiðslukonan vissi ekki hvað var sem mér fannst ansi undarlegt, miðað við að ég var í búð sem sérhæfði sig í ostum og Halloumi er nokkuð vinsætt erlendis.
Nema hvað, svo er loksins hægt að fá hann í Búrinu og meir að segja hefur hann fengist í Bónus undanfarið.
Það besta við Halloumi er hvað hann er saltur, mmmmm. Svo er hann þéttur í sér þannig að hann bráðnar ekki þegar maður skellir honum á panini grillið eða á grillpönnuna. Það er nefnilega möst að hita þennan ost til að hann njóti sín sem best.
Ég mæli með því að þið prófið þennan ost. HAnn er góður einn og sér eftir að hafa fengið 1-2 mínútur á grillinu. Svo er hann líka meiriháttar í salat, Halloumi salat þar sem hann er í aðalhlutverki.
Ef þið ætlið að grilla í dag þá er fullkomið að skella ostinum á útigrillið, ásamt pizzadeiginu til að gera "flat bread".
Ég var mikið að velta fyrir mér hvernig ég ætti að bera hann fram miðað við hvað til var og þetta var útkoman og hún var vægast sagt frábær, osturinn fékk svo sannarlega að njóta sín í þessari útfærslu. Rauðlaukurinn rokkaði með.
Grillaður Halloumio með ruccola og rauðlauk og grilluðu flatbrauði
- Halloumi
- Klettasalat (Ruccola)
- Rauðlaukur
- Pizzadeig
Skerið Halloumi ostinn í sneiðar, u.þ.b hálfan cm á þykkt. Leggið klettasalat á disk, stráið fínt skornum rauðlauk yfir. Leggið grilluðu ostsneiðarnar ofan á salatbeðið.
Berið fram með flatbrauði (flat bread).
Flatbrauðið gerði ég á eftirfarandi hátt.
Ég tók heimagert pizzadeig sem ég átti inn í ískáp, flatti það þunnt út í kökur á stærð við pítubrauð. Síðan skellti ég þeim í panini grillið eftir að hafa penslað það létt með ólífuolíu. Það tekur ekki nema nokkrar mínútur og elda pizzadeigið þannig. Svo skar ég það niður eins og ég væri að skera pizzu og bar það fram með ostinum.
Njótið veðurblíðunnar í dag, langþráð blíða, ég er farin út með ofninn góða að baka flatkökur.
Til hvers að gera stórinnkaup, ég er ekki fyrr komin úr búð en ég uppgötva að mig vantar eitthvað og þarf hvort eð er að fara aftur daginn eftir í búð :)
Ég nennti ekki stórmörkuðum lengur, ég fór þangað til að ná í mjólk, smjör og ost...sem sagt, mjólkurvörur og bleyjur. Annað verslaði ég hjá Frú Laugu og einstaka sinnum fór ég í Lifandi markaður.
Svo prófaði ég í einn mánuð að versla bara í Frú Laugu, og þann mánuð var því bara borðað það sem þar fékkst og það var sko alveg hellingur af frábærum mat. Og þannig er það í dag, nema öðru hvoru fer ég í Lifandi markað og svo skýst ég stundum í Melabúðina eftir mjólk, en það er líka ágætt fyrir heimavinnandi húsmóður að rölta með barnavagninn í búð öðru hvoru til að fá tækifæri og "tala" við fullorðið fólk..
Það sem meira er, þetta er ekkert dýrara en að versla í stórmarkaði.
Ég versla gæðamat, einfalt og fáar vörur. Ég versla ekki pakkamat, tilbúnar vörur og aðrar unnar vörur hvort eð er og næstum allt sem ég kaupi er ferskt og geymist ekki það lengi.
Svo gæti ég farið út í aðra langa færslu um þá sem segjast ekki hafa efni á að kaupa hreinan og góðan mat. Ég held að það sé vel hægt að versla mjög hreinan og góðan mat frekar en tilbúðið pakkadrasl. Málið er bara að maður verður að nenna að elda. Ætla ekki að fara nánar út í þessa umræðu hér. (Fyrir utan það að það skuli ekki vera hægt að fá FISKINN OKKAR ódýran, það ættu að vera mannréttindi á íslandi að allir geti keypt sér ódýran fisk 3-4 sinnum í viku, ég fæ útflutta íslenska fiskinn ódýrari hjá fisksala á Spáni.
Svo fór ég að velta fyrir mér afhverju ég væri með svona mikið af dósum, ekki er ég með neðanjarðarbyrgi og það er ekki eins og það sé óraleið í næstu búð og eins og ég sagði áður, maður er hvort eð er ekki fyrr komin úr búð en að manni vantar eitthvað, þannig að ég það er engin tilgangur fyrir að safna mat í skápa. Ekki hér í borginni að minnsta kosti. Og ég tala nú ekki um BPA sem er í dósum þannig að ég versla í gleri núna og eina sem ég kaupi er tómat passata....BESTA PIZZASÓSAN.
Búrið í sveitinni er líka einfalt, m.a:
- Góð risotto grjón. (Fást m.a í Frú Laugu)
- Bankabygg, íslenskt
- Byggmjöl, íslenskt
- Byggflögur, íslenskt
- Cannellini baunir (og aðrar góðar baunir, í pokum)
- Passata tómatsósa
- Hveiti (steinmalað frá Frú Laugu)
- Sykur
- Gott pasta (sem ég fæ í Frú Laugu, mér finnst það meiriháttar gott)
Ég hef verið að sjá uppskriftir af "Puffy pancakes" á netinu og alltaf verið á leiðinni að prófa. Ég lét loksins verða að því að prófa.
Þetta er meiriháttar einfalt og alveg frábært ef von er á fólki í brunch eða til að hafa í morgunmat í sumarbústaðnum.
- 2 egg
- 1/2 bolli mjólk, kannski aðeins meira
- 1/2 bolli hveiti
- 1 tsk vanilla (má sleppa, ég gerði það)
- 1 tsk salt
- 4-5 msk smjör
- Hrærið í pönnukökudeig, tekur 3 mín.
- Bræðið smjörið í eldfasta mótinu inn í ofni á 200°c.
- Takið út mótið með bráðna smjörinu (PASSIÐ YKKUR, ÞAÐ ER HEITT).
- Setjið degið í eldfast mót og inn í ofn í 17 mín á 200°c. TILBÚIÐ!