Kanadískt og japanskt fjúsíon = KanPan

Ég var hálf andlaus í eldhúsinu og gat ekki tekið ákvörðun um hvað mig langaði að elda.
Það var til spínat og nautahakk, það voru svona hráefni sem ég ætlaði að nota.
Ég bað kærastann um að nefna tvö lönd og svo myndi ég elda eitthvað út frá því í anda þessara tveggja landa og "fjúsíona" þeim saman í einn rétt.

Ég hélt að það myndi auðvelda mér lífið og var eiginlega búin að sjá fyrir mér að hann segði Ítalía og Grikkland eða eitthvað álíka.  En nei, hann valdi Kanada og Japan.

Þetta var ekki beint að auðvelda mér matreiðsluna, en þetta var skemmtileg áskorun og hugurinn fór á flug.

Í fyrsta lagi, KANADA, hver í ósköpunum er samnefnari kanadískrar eldamennsku. 
Reynslan sem ég hef er pöbbamatur, allt djúpsteikt, hamborgarar, beef dip samlokur sem er roastbeef samloka sem þú dýfir í einhverskonar soð.
Ég ætla að tileinka annarri færslu þeirri uppskrift fljótlega, það er alveg komin tími á Beef dip!


En ég er að miða við því sem ég kynntist þegar ég bjó í litlum indíána og kúreka bæ sem heitir Kamloops. Það eru allt aðrir straumar í t.d Vancouver og ég tala nú ekki um ef þú ferð til Halifax, Kanada er stórt land með mikið af fólki, og íbúarnir eiga ættir sínar að rekja til ýmissa landa, til dæmis víða frá Asíu, Úkraínu og Rússlandi, Íslandi auðvitað, Bretlandi og svo mætti lengi telja.

Maple sýróp er stór útflutningsvara Kanada.  Ég lumaði á flösku og það var ekki spurning að ég ætlaði að nota það í þennan rétt.

Svo má ekki gleyma indíánum, þeim sem hafa búið þarna hvað lengst. Þeirra matarmenning er áhugaverð. En ég ákvað að fara ekki út á þá stefnu að þessu sinni. Heldur tók ég pöbbamatinn á þetta með Vancouver yfirbragði.

JAPAN.  Fyrsta sem mörgum dettur i hug er sushi. Það var það sem ég hugsaði. Ég leit í hillur og skápa og skoðaði hvaða hráefni ég ætti sem tengdust japanskri matargerð.
Ég fann sesame fræ, engifer og soya sósu.

Og án þess að ofhugsa dæmið þá dembdi ég mér í matargerð

KanPan
KanPan ( 4 snittur)

100 g nautahakk
1-2 rif hvítlaukur
1-2 cm bútur engifer
1-2 tsk Soya sósa
Lúka af sesamfræjum
Baguette, 4 sneiðar (ég notaði ítalskt ólífu baguette frá Mosfellsbakarí)
Salt
Pipar
Spínat, 4 lauf
3-4 msk rifinn ostur (ég notaði brauðost því ekkert annað var til)

Sósan
Sýrður rjómi, 2 msk
Maple sýróp, 1 msk
Salt, ca 1-2 tsk

Blandið saman í skál nautahakki, sesamfræjum, soyasósu, rifnum hvítlauk og rifnum engifer.  Ég notaði grófari hliðina á rifjárninu til að rífa hvítlaukinn og engifer.
Saltið og piprið.  Mótið úr þessu 4 litla hamborgara, í stærð sem passar ofan á snittubrauð.

Steikið hamborgarana upp úr smá olíu.

Sósan:  Blandið saman sýrðum, sýrópi og salti, hrærið vel saman.

Hitið baguette sneiðarnar á pönnunni sem þið steiktuð hamborgarana. Setjið ostinn ofan á aðra hliðina
á brauðinu á meðan þið steikið hina til að hann bráðni aðeins.

Setjið spínatlauf ofan á brauðið og svo borgarann.  Dreifið úr smá sósu ofan á borgarann.  Borðið strax á meðan þetta er heitt og gott.

Mér hefði aldrei dottið í hug að setja soya í nautahakk, en það svínvirkar!  Þetta er það skemmtilega við svona áskoranir, maður prófar nýja hluti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband