16.6.2008 | 13:58
Indverjinn eldar.
Vinur okkar frá Indlandi er staddur hér á landi í nokkra daga. Í staðin fyrir að fara á Austur Indíafjelagið þá tókum við þá skyndiákvörðun að fara út í búð að versla og svo heim að elda. Þetta var hans fyrsta heimsókn í íslenska matvöruverslun. Hann var ekki búin að ákveða hvað hann ætlaði að elda (enda ekki nema 5 mín. síðan hann vissi að hann ætti að elda)
Við gengum fram hjá Naan brauðunum í lofttæmdu pokunum, og hann svo aldeilis stoppaði mig í að kaupa það. Sagði að þetta væri bara drasl, og ég ætti aldrei að kaupa þetta... hann myndi búa til Roti. Gott mál, heimabakað Roti auðvitað snilld, og lítið mál að skella í degið. Ég eeeelska naan, en Roti sem hann gerði smakkaðist jafn vel og gott naanbrauð!
Við keyptum:
- Organic Days rauðar linsur
- ferska tómata
- laukur
- rauðlaukur (rokkar)
- Cape lífrænt ræktað chilifræ og pipar blanda
- Cape kúmen fræ
- Sharwood Mango Chutney
ATH. Mikilvægt er að nota Cumin fræ, ekki cumin powder
DAHL úr rauðum linsum borið fram með Roti, Raita og Mango chutney.
- Hann byrjaði á því að sjóða rauðu linsurnar.
- Þegar þær voru tilbúnar þá bætti hann útí pottinn hálfum poka af spínati.
- Því næst setti hann ca 2 msk af garam masala, 2 msk af paprikudufti og salt útí.
- Að lokum tók hann 4 tómata og skar þá gróft og setti í pottinn, ásamt einum grófskornum lauk.
- Í litlum potti hitaði hann um 1 dl af matarolíu. Við notuðum isio olíuna. Útí hana setti hann ca 3 hvítlauksrif, chiliflögur og ca 1 msk cumin fræ. (mælieiningar voru bara slump hjá honum)
- Þegar þetta var búið að malla í olíunni í kannski 3-4 min, þá setti hann þetta saman við linsubaunamallið. Þetta fékk svo að malla í kannski 10 mín í viðbót. Þetta var svolítið eins og þykk súpa.
Á meðan þessu öllu stóð þá henti hann í Roti, sem er indverskt flatbrauð. Það inniheldur hveiti og vatn, og smá salt.
Setjið 1 dl af hveiti og ca 1/2 af volgu vatni og hnoðið þar til þetta er farið að líta út eins og pizzadeig. Búið til litlar kúlur og fletjið út í þunnar kökur (svona eins og mexikóskar tortillur). Hitið pönnu vel (ég notaði pönnukökupönnuna mína) og setjið smá matarolíu á hana. Steikið kökurnar á hvorri hlið í ca 30 sek. á hlið. leggið síðan spaða eða bak á skeið og þrýstið á kökuna til að fá loft inn í hana.
Þetta myndband hér sýnir frábærlega vel hvernig þetta er gert. Þetta er svo einfalt að við hér á heimilinu höfum ekki borðað annað brauð eftir að við fluttum heim, því okkur ofbauð verðið á brauði :P
Hún notar í lokin Ghee, en það má bara nota venjulegt smjör.
Ég bjó til Raita.
- 2 dl AB mjólk
- hálf agúrka, gróft skorin
- hálfur rauðlaukur (rokkar) fínt skorinn
- 1 tsk garam masala
- ca 2-3 tsk Maldon salt
- Sett í kæli í svona hálftíma.
Linsurétturinn var algjör snilld, hann notaði heilan poka af linsum, þannig að ég er búin að vera að borða þennan rétt núna 3 daga í röð, og er ekki enn komin með leið á honum.
Meginflokkur: Matur og drykkur | Aukaflokkar: Bloggar, Lífstíll, Menning og listir | Breytt 17.6.2008 kl. 00:24 | Facebook
Athugasemdir
Frábær réttur. Hlakka til að prófa hann. Flott að vísa í leiðbeiningamyndbandið.
Inga Helgadóttir (IP-tala skráð) 16.6.2008 kl. 17:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.