20.2.2013 | 18:27
Eggjasalat
Hvað er það besta sem þú hefur borðað á þessu ári? Ég var að velta þessu fyrir mér, nú eru að verða búnir 2 mánuðir af þessu nýja ári sem mér finnst hafa byrjað í gær. Ég var að reyna að rifja upp hvað ég hef verið að gera og ég held að kínversku dumplingarnir mínir séu það besta sem ég hef eldað á þessu ári.
Ég kem með uppskrift við fyrsta tækifæri.
Ég ætlaði að skera grænmeti sem álegg á brauð en ákvað svo að skera allt smátt og hræra þvi saman við eggjasalat. Það var mjög ferskt og bragðgott.
Eggjasalat
- 3 egg
- 1/2 paprika
- 1/4 agúrka
- 1-2 vorlaukar
- 3-5 msk heimagert mæjónes eða sýrður rjómi
- Salt og pipar
Skerið eggin með eggjaskera, langsum og þversum. (Hæfilega miðlungsbita). Skerið grænmetið smátt. Blandið öllu saman með heimagerðu mæjó eða sýrðum. Saltið og piprið eftir smekk eða um 1 tsk af salti og 1/2 af pipar. Magnið af mæjó fer líka eftir smekk, bætið við einni og einni matskeið þar til þið eruð sátt við áferðina.
Ég kryddaði mitt ekkert meir, en það gæti eflaust verið gott að setja karrí eða jafnvel smá sinnep. Þetta var mjög ferskt svona einfalt.
Það var ansi vetrarlegt í Kjósinni um daginn en hundarnir að Hálsi létu það ekkert á sig fá og hlupu um í snjónum, en það er sem betur fer aðeins hlýrra þessa dagana.
Flokkur: Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 19:03 | Facebook
Athugasemdir
Það er reyndar ekkert sem stendur upp úr á þessu ári
en í byrjun desember fór ég á himneskan stað í Brussel sem ég mæli eindregið með, fransk-belgískur matur to die for.
Sjö litlir réttir, hver öðrum betri og framsetningin einkar lekker. Við sátum og borðuðum í nærri fjóra tíma, millibilið milli rétta alltaf passlegt, engin pressa á gestina og í alla staði dásamleg matarupplifun. Staðurinn heitir Le Fourneau (ofninn)
og ég mæli eindregið með honum. Fyrir herlegheitin borguðum við
um 240 evrur (f. tvo) með góðum slatta af rauðvíni! Þetta var sem sé "set menu" á 99 evrur á haus... Dásamlegt í einu orði.
Nanna Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 21.2.2013 kl. 12:02
(Athugasemd með auglýsingatengli fjarlægð af umsjónarmönnum.)
Ásgeir (IP-tala skráð) 21.2.2013 kl. 13:14
Hljómar vel, fátt skemmtilegra en sitja vel og lengi og fá sér smárétti og rauðvín.
Soffía Gísladóttir, 25.2.2013 kl. 11:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.