10.5.2012 | 10:07
Heimalagaður ís án eggja með appelsínu og rommbragði - HEIMAGERT ER BEZT
Ég ákvað að gera ís án eggja. Þetta er enn ein afurðin sem maður á að gera sjálfur frekar en kaupa tilbúið út í búð með allskonar aukaefnum. Á meðan ég var að frysta hann og hræra aðeins í honum stalst ég í skeið og skeið og á meðan hann var enn dálítið linur smakkaðist hann nákvæmlega eins og sjeik út í ísbúð.
Það er endalaust hægt að bragðbæta grunnuppskrift af vanilluís. Ég notaði heimagerðu vanillurommdropana mína og kreisti safa úr ofboðslega góðri appelsínu sem ég keypti hjá Frú Laugu. Usss usss usss...Þessi ís er bara á mörkum þess að vera hollur, hefði ég ekki notað í hann sykur, en það er víst sykurinn sem gerir hann að þessum dásamlega ís...
Ís með appelsínu og rommbragði
- 1/2 L rjómi
- 2,5 dl mjólk
- 1,8 dl sykur eða hrásykur (mætti nota aðeins minna finnst mér)
- 1 fersk vanillustöng
- 1 tsk vanilludropar eða heimagerðir vanillu rommdropar
Bragðefni:
- Safi úr 1-2 appelsínum
- 2 msk romm
- 100 g fínt rifinn súkkulaðispænir úr 70% almennilegu súkkulaði
Það þarf ekki að nota romm og það er hægt að hafa þetta með hvaða bragði sem ykkur dettur í hug eða gera einfaldlega vanilluís án bragðefna, það er líka gott.
Hitið saman 2 dl rjóma og sykur á meðalhita þar til sykurinn bráðnar. Skrapið baunirnar úr vanillunni og setjið í pottinn ásamt vanillustönginni, sem þið veiðið svo upp úr áður en ísinn fer í frysti.
Takið pottinn af hitanum og bætið við restinni af rjómanum, mjólkinni og vanilludropum.
Kælið ísblönduna í 8 klst eða yfir nótt í formi sem þolir frysti.
Fjarlægið vanillustöngina og frystið, ef þið viljið búa til kristalla í ísinn þá er gott að hræra íhann upp öðru hvoru á meðan hann er að frjósa. Svo er hægt að nota ísvél fyrir þá sem það eiga.
Það tók mig innan við hálftíma að gera ísinn klárann í ísskápinn.
Ég mun nota ögn minna af sykri næst, þetta varð frekar sætur ís. En samt mjög góður ef þið viljið hafa hann sætan.
HEIMAGERT ER BEZT
Hráefnið í þessum ís er mjög ferskt. Það má sleppa vanilludropum og rommi til að hafa þetta sem hreinast og bragðbæta með ferskum lífrænt ræktuðum ávöxtum eins og t.d appelsínum hjá Frú Laugu sem koma frá Sikiley.
Flokkur: Matur og drykkur | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.