24.2.2012 | 10:00
Hvernig bakar maður bolluvönd?
"Bolluvöndur, hvað er það?" spyr vinkona mín. "Eru það svona bollur sem þú bakar nálægt hvor annarri svo þær festast saman?"
Það er svona að alast ekki upp á Íslandi sem barn. En mér finnst hugmyndin hennar ekki galin og aldrei að vita nema ég bjóði henni í bolluvönd við tækifæri. Bolluvendirnir eru sem sagt ekki svo alþjóðlegt fyrirbæri. Ég settist á sunnudagsmorgni og bjó til bolluvönd með dóttur minni, aðalega svo ég gæti sent hana að rassskella pabba sinn sem lá sofandi inn í rúmi.
Kannski ekki alveg ástæðan. Heldur finnst mér gaman að halda í gamlar hefðir sem maður sjálfur ólst upp við.
Nú er ég til dæmis alveg týnd í öskudeginum, nú eru engir öskupokar fyrir krakkana. Og ég er svo gömul að þá var ekki farið í búninga á þessum degi. Mín minning er frí í skólanum og svo fór maður í Melabúðina að hengja öskupoka sem maður hafði föndrað alla vikuna (og aðal sportið var að beygja títuprjónana) á viðskiptavini búðarinnar.
Ég var nú ekki að senda mína tveggja ára í leikskóla með öskupoka með títuprjónum, en kannski eftir nokkur ár væri gaman að setjast niður og kenna henni að sauma öskupoka.
Hér er uppskrift af vatnsdeigsbollunum sem ég gerði og þær heppnuðst mjög vel.
Vatnsdeigsbollur
- 125 g smjör
- 2.5 dl vatn
- 125 g hveiti
- 3 egg
- 1/4 tsk salt
- 1 tsk sykur
Sjóðið saman vatn og smjör (sykur og salt ef það er notað). Bætið við hveiti í pottinn og hræra því kekklaust saman við. Sumir hafa pottinn á hellunni á meðan þeir hræra í hveitið aðrir taka pott af hellunni á meðan. Ég hafði hann á hellunni.
Setjið deigið í hrærivél
Hrærið við eggjum, einu í einu.
Mótið bollur á smjörpappírsklædda ofnskúffu, um það bil 1 matskeið hver bolla með hæfilegu millibili.
Bakið við 200°c í 30 -40 mín. (35 mín hjá mér).
Þetta urðu um 20 bollur.
Og meir um vatnsdeigsbollur hér.
Flokkur: Matur og drykkur | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.