Helgarbakstur með kaffinu - "Pull a part" brauð (kanilsnúðar með nýju sniði)

Ég var að rekast á þessa grein þar sem spurning sé hvort Agave sýróp sé hollara en sykur. 

Það er búið að vera sprenging í "hollustu" uppskriftum undanfarið og mér leið eins og ég væri að eitra fyrir fólki í síðasta barnaafmæli þegar ég var að baka því ég var ekki með sykurlausar döðlukökur og agavespeltmuffins.

Ég hef ekki enn farið þann veg að nota Agave sýróp, kókósolíu (sem ég sá á 1800 kr litla dollu í búð) eða vínsteinslyftiduft (ekki með glútenofnæmi).  Ég er bara svo lítill næringarfræðingur en mig langar gjarnan að vita meira.   Þangað til læt ég almenna skynsemi ráða sem og besta ráðið í hollustunni sem ég þekki:  

Að borða góðan mat í góðum félagskap í rólegheitum og helst með einu rauðvínsglasi!

Ég nota smjör, rjóma og maple síróp.  Eina sem ég nota mikið og veit að er ekki það hollasta er hvítt hveiti.  Næringarsnauður, ofunninn andskt..fær sinn hvíta lit af bleikingarefnum. Á maður að segja bless bless við hvíta hveitið?

Ég nota mjög mikið af íslensku byggi og heilhveiti.  Ég hef ekki almennilega kynnt mér hvort spelt sé eitthvað mikið hollara en annað og nota það ekki oft, en kemur fyrir því mér finnst það gott.  Er t.d fínt spelt eitthvað unnið eða hvíttað?

Ég er alveg viss um að hnetur og fræ séu ekki af hinu illa (nema þú sést með hnetuofnæmi...) og ég nota það ósspart.  Mér finnst mjög sniðugt að nýta sér hnetur í mat með því að mauka þær í "paste". Möndlumjólk er líka sniðug út í smoothie.

En nú er ég bara að röfla jafnóðum og ég skrifa, en ég jú hugsa mikið um það sem ofan í mig fer og versla ekki pakkamat, sjaldan unna vöru og aldrei frosið drasl.   

Mér finnst pulsur ógirnilegar, en þegar ég fæ þær innbakaðar í brauð þá ræðst ég á þær eins og gráðugt svín.

En í allri umræðu um hollt og óhollt, hvítt hveiti og sykur þá bakaði ég þetta kanilsykurbrauð og það var svo mjúkt og gott.  Þetta er í sjálfu sér kanilsnúðadeig en framsetningin sló í gegn.

Til að réttlæta þetta allt þá er kanill rosa hollur segja þeir.

Í staðin fyrir kanilsykur mætti t.d nota osta og krydd fyllingu.

pull a part brauð

"Pull a part" brauð með kanilsykri

  • 2 3/4 bollar hveiti (plús eitthvað meira ef þess þarf)
  • 1/4 bolli sykur
  • 2 1/4 tsk þurrger
  • 1/2 tsk salt
  • 4 msk smjör
  • 1/3 bolli mjólk
  • 1/4 bolli vatn
  • 1 tsk vanilludropar
  • 2 stór egg

Fyllingin:

  • 4 msk smjör
  • 1 bolli sykur
  • 2 msk kanill

 

Blandið saman hveiti, sykri, geri og salti í skál.  Setjið mjólk og smjör í pott og hitið.  Bætið vatninu út í mjólkina og öllu blandað við hveitið ásamt eggjum og vanillu.  Ef mjólkurblandan er of heit, leyfið henni að kólna aðeins svo gerið drepist ekki.

Hrærið í hrærivél á lágum hraða þar til deigið er orðið flott.

Látið rísa í klst undir rökum klút.

Fylling:  

Bræðið smjör í potti. Setjið til hliðar.

Blandið saman sykri og kanil.  Hristið vel saman.

pull a part brauð

Rúllið út deiginu í ca ofnskúffustærð (30 x 50 cm ferning).  Penslið það með brædda smjörinu og stráið kanilsykri yfir.  Ykkur finnst þetta kannski mikill sykur, en þetta er jú sætabrauð. Ekki spara sykurinn en skiljið smá eftir til að strá yfir brauðið þegar það er komið í formið.  Skerið það í 6 rendur.

pull a part brauð

Staflið þeim ofan á hvor aðra og skerið í aðra 6 jafna parta.

pull a part brauð

Raðið þeim í form, ég notaði álform sem ég klæddi að innan með smjörpappír. Stráið smá kanilsykri yfir brauðið í forminu. 

Bakið við 180°c í 25-35 mín.

Leyfið brauðinu að kólna í 20 mín eða svo áður en þið ráðist á það.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heyr, heyr. Bara borða minna af óhollustunni, einbeita sér að því að borða GÓÐAN MAT með góðu BRAGÐI, því lífið er of stutt til að borða vondan mat, og það er staðreynd! Hvíttað spelt (fínt) er ekkert hollara en hveiti, því það er búið að vinna það til andskotans, grófa speltið er skárra en lykilatriðið er: Borða bara minna brauð. Í því held ég liggi heildargaldurinn hjá flestum.

Ég hef mikinn, næstum sjúklegan áhuga fyrir matargerð og vil gjarnan borða hollt en stundum finnst mér þessi hollustuárátta líka vera farin að keyra um þverbak. Þótt maður fái sér súkkulaðibita við og við, rauðvínstár annað slagið og brauðsneið á dag er maður ekki á leið til helvítis. Vona ég. Nema það sé gott að borða þar...

Nanna Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 9.2.2012 kl. 14:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband