Roti með kjúklingabaunum og Dahl með grænum linsubaunum

Ég bauð hænsnabóndanum í mat.  Hún á samkynhneigðan hana sem er með fjaðurskreytta leggi og hann býr með þó nokkrum hænum. Það verður fróðlegt að sjá hvort það koma ekki einhver egg í vetur.

Það er alveg frábært að hafa hænur í næsta húsi, því allir matarafgangar fara í sér fötu og svo beint í hænurnar, því það er fátt leiðinlegra en að henda mat.  En þarna er honum vel varið.  Og svo dekrar maður þær stundum með að setja girnilega afganga í fötuna frekar en í frystinn.

hæna

Svona litu þessar elskur út fyrir nokkrum mánuðum, en í dag eru þetta stálpaðar hænur.

ungi

Eins og ég sagði ykkur frá síðast þá gerði ég mango chutney sem heppnaðist svo vel og einnig var ég búin að þurrka kjúklingabaunir úr dós til að setja saman við Roti þannig að ég ákvað að slá upp indverskri veislu handa nágranna mínum, hænsnabóndanum.

dahl

Ég hafði verið að lesa mér til um Gram hveiti sem er gert úr þurrum kjúklingabaunum.  En þar sem ég átti bara baunir í vökva í dós þá ákvað ég að gera tilraunir.  Ég þurrkaði þær í ofni við lágan hita (um 100°c ) og lét þær svo standa út á borði yfir nóttina.

Roti með kjúklingabaunum

  • Kjúklingabaunir í dós, þurrkaðar
  • 1 dl Hveiti
  • ca 1/2 dl vatn
  • 1 tsk salt

 

Maukið baunirnar í mixer, þær verða blautari við það þar sem þær hafa ekki þornað alveg í gegn.  En það er bara gott.  Það mætti líka setja baunirnar beint úr dósinni í deigið (sía vökvann þó frá)

Blandið saman 1 dl af hveiti, kjúklingabaununum og ca 1/2  af volgu vatni  og hnoðið þar til þetta er farið að líta út eins og pizzadeig.  Búið til litlar kúlur og fletjið út í þunnar kökur (svona eins og mexikóskar tortillur).  Hitið pönnu vel (ég notaði pönnukökupönnuna mína) og setjið smá matarolíu á hana.  Steikið kökurnar á hvorri hlið í ca 30 sek. á hlið.   leggið síðan spaða eða bak á skeið og þrýstið á kökuna til að fá loft inn í hana. 

Þetta myndband hér sýnir frábærlega vel hvernig Roti er gert.

Svo gerði ég Dalh úr því sem til var, ásamt  nýuppteknum kartöflum.

 dahl

Dahl með grænum linsubaunum og kartöflum

  • Grænar linsubaunir, 1 dós (eða sjóða þurrkaðar)
  • Spínat, 2-3 lúkur
  • Tómatar í dós, chrushed
  • 1/2 rauðlaukur, saxaður, en ekkert of smátt
  • 1/2 laukur, saxaður
  • 1-2 hvítlauksrif
  • Græn paprika
  • Nokkrar kartöflur, skornar í litla munnbita
  • Salt
  • Pipar
  • Olía
  • 2 msk smjör
  • Krydd frá Vindalookit-inu frá Cape herb and spice company sem fæst í Nóatúni


Grænmeti og krydd steikt lauslega upp úr olíu og smá smjöri, baunum og tómötum í dós ásamt spínatinu bætt við.  Látið malla þar til kartöflur eru soðnar í gegn.

Ég notaði smá af vindaloo kryddinu, EKKI ALLAR dósirnar, bara smáúr hverri dollu, 1/2 tsk eða svo.  Þetta er fremur sterkt krydd þannig að smakkið ykkur bara til. 

Dahl er hægt að krydda á svo marga vegu, túrmerik eða eitthvað karry, garam masala,  chili og hvítlaukur  gera mikið.

 

Þegar gesturinn mætti bauð ég upp á hummus.  Ég notaði organic curry rub út í, það var rosalega gott.

 hummus

 Hummus

  • 1 dós kjúklingabaunir, skola lítillega
  • 2-3 tsk organic curry rub
  • 1-2 tsk salt
  • 3-4 msk Ólífuolía
  • Ólífuolía til að dreypa yfir
  • Paprikuduft, 1 tsk eða svo

Öllu maukað saman í mixer Sett í skál og góðri ólífuolíu og smá paprikudufti stráð yfir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband