28.4.2010 | 12:04
Píta með heimagerðu kindabuffi
Jæja, ég er hætt að kaupa tilbúið hakk, þetta er svo miklu betra þegar maður laushakkar sjálfur. Kannski aaaðeins dýrara.... þannig að kannski EKKI alveg hætt að kaupa það tilbúið í einhverjum tilfellum.
Ég er með mjög aumingjalegan hakkara, en það þarf enga svaka græju í svona verk.
Nú var ég með kinda file sem ég hakkaði.
Píta með kindahakki og pítu-jógúrtsósu
Buffið
- 1 kinda file
- Lamb rub frá NOMU
- 1 hvítlauksrif
- Salt og svartur pipar
- 2 msk ólífuolía
Allt hakkað saman
Sósan
- Pítusósa
- Ab mjólk
- Nomu lamba rub
- Salt og pipar
Hlutföll af pítusósu og ab mjólk er ca 50/50 eða bara eftir smekk.
Meðlætið
- Agúrkur
- Tómatar
- Fetaostur
- Salat
- Rauðlaukur
- Pítubrauð eða tortillkökur
www.soffia.net
27.4.2010 | 12:55
Þetta var svo gott á bragðið, BBQ tortilla pizza með grillaðri papriku og grilluðum avacado
Ég mæli með að þið prófið þennan rétt ef ykkur finnst bbq bragð gott. Þetta var fremur einfalt þrátt fyrir smá maus eins og að grilla papriku í ofni og avacado á grillpönnu. En það er það sem gerði þennan rétt svo undursamlegan.
BBQ pizza tortilla, borin fram með grilluðum avacado og salati (fyrir tvo)
- 2 mexikóskar tortilla kökur
- 1 kjúklingabringa
- 1/2 rauðlaukur
- 1 paprika
- Hvítlaukur, nokkur rif
- Salt
- Pipar
- 5 msk Hunt´s Hickory and brown sugar bbq sauce
- 2 msk Sýrður rjómi
- Mossarella í kryddlegi, 1-2 kúlur
- Brauðostur (eða einhver góður ostur)
Skerið papriku í bita og grillið í ofn, hér má sjá hvernig ég geri það. Ég setti nokkur hvítlaukrif með í eldfasta fatið í þetta sinn.
Skerið kjúkling í munnbita. Steikið á pönnu með einu pressuðu hvítlauksrifi, salt, pipar og bbq sósunni, bætið svo nokkrum mín síðar við sýrðum rjóma og látið malla þar til kjúklingur er eldaður í gegn.
Dreifið úr kjúklingagumsinu á tortilla kökur, rífið yfir ost og mossarella í sneiðum. Skerið grillaða papriku í strimla og dreifið yfir ásamt smátt skornum rauðlauk.
Avacado salatið er svo hér í færslunni á undan.
26.4.2010 | 09:28
Grillaður avacado
Avacado salat
- Salatblanda, t.d Geysir frá Hveratúni
- Avacado
- Góð ólífuolía
- Maldon salt
- Pipar
Takið utan af avacado, skerið hann í ca hálfs cm þunnar sneiðar og grillið á grillpönnu eða útigrilli. Leggið ofan á ferskt salat og dreypið vel af góðri ólífuolíu og setjið góðan slatta af Maldon salti og svörtum pipar yfir.
www.soffia.net
25.4.2010 | 21:22
Cantina Zaccagnini gaf mér mojoið aftur
Þetta vín smakkaðist mjög vel. Cantina Zaccagnini, 2007 frá Ítalíu. Kostaði 2090 kr.
www.soffia.net
24.4.2010 | 10:58
Suðrænt sumarsalat
Ég bjó til ágætis salat, ferskt og upplagt á góðviðrisdögum í sumar.
Suðrænt salat
- Grænt salat, ég notaði salatblönduna Geysi frá Hveratúni
- Mangó
- Avacado
- tómatar
- Paprika
- Vorlaukur
- Mossarella í kryddlegi, skorin í munnbita
- Kjúklingabringa
- Mangó Jalapeno glaze
- Salt og pipar
Skerið kjúklingabringu í munnbita og steikið upp úr Mango Jalapeno glaze. Skerið grænmeti og ávexti niður og blandið öllu saman.
"Mango Jalapeno glaze" dressing
- 4 msk sýrður rjómi
- 1-2 msk Mango Jalapeno glaz, eða eftir smekk
- 1-2 hvítlauksrif
- 3-4 msk góð olía
- Salt og pipar
Öllu blandað saman og borið fram með salatinu, dreypið svo yfir salatið á disknum ykkar
www.soffia.net
Mér áskotnaðist gömul Gestgjafablöð. Það var gaman að rifja upp tíðarandann. Blöðin eru frá ca árunum 1980-1990. Það sem ég tók fyrst eftir, fyrir utan hina ódauðlegu ´80 tísku voru ljósmyndnar. Þær voru greinilega lítið fótósjoppaðar, fremur daufar og DOF ekki komið í tísku eins og er allsráðandi í matarblöðum í dag. (svona þar sem partur af myndinni er skýr og t.d bakgrunnur úr fókus)
Hvað uppskriftir varðar þá hefur svo sem ýmislegt breyst en það kom mér reyndar á óvart hvað matarúrvalið var þó fjölbreytt. M.a auglýsing með Rajah, indversku kryddin sem eru svo góð.
Þríhyrnt skorið ristað fransbrauð var mjög í tísku...klassík.
Í réttinum hér að neðan er hvítlaukurinn og vorlaukurinn sem bakast með kjúklingum afbragð.
Ofnbakaðar kjúklingabringur með grænpipar-sveppasósu og krydduðum kartöflubátum
Kjúklingur:
- Kjúklingabringur
- Vorlaukur, slatta!
- Hvítlaukur, slatta!
- Dijon sinnep
- Salt
- Pipar
Bringur klofnar til helminga (þannig að þær verða helmingi þynnri). Kryddaður með salti og pipar og smá smá pínu oggupons af dijon sinnepi. Settar í eldfast fat ásamt ólífuolíu, hvítlauksgeirum (afhýddum) og semi smátt skornum vorlauk. Eldað á 200°c þar til bringurnar eru eldaðar í gegn.
Sósa:
- Sveppir (ca 1 box)
- Shallot laukur , 2-3 stk
- Rjómaostur með svörtum pipar, 1 lítil dolla
- Græn piparkorn, 2-3 msk
- Smjör, 2-3 msk
- Vorlaukur, lúka eða svo
- Hvítlaukur, eftir smekk
- Mjólk, 1 dl ca
- Hálfur hænsna teningur
- Sósujafnari
Kartöflur:
- Kartöflur
- Salt
- Pipar
- Krydd (ég notaði gyros krydd frá Tiger)
- ólífuolía
Skerið kartöflur í báta, kryddið og dreypið olíu yfir. Bakið í ofni við 200°c þar til crispy gullinbrúnar og eldaðar í gegn. Rótið í þeim reglulega.
www.soffia.net
18.4.2010 | 12:08
Skemmtilegar matarvenjur og döðlukonfekt
Ég var að lesa grein þar sem sagt var frá nokkrum konum frá mismunandi löndum og hvað þær borðuðu yfir daginn. Matseðill konu frá Japan var sá sem skar sig úr hvað varðar morgunmat.
Á meðan hinar, konur frá t.d UK, USA, Brasilíu og Póllandi, fengu sér múslí, morgunkorn eða brauð og ávexti þá fékk sú japanska sér mísó súpu, hvít hrísgrjón og grillaðan lax, súrsaðar gúrkur, soyabaunir, egg, radísur og grænt te. Og svo var hún komin með góða lyst í hádeginu en þá fékk hún sér núðlurétt og fisk.
Ég bjó til rosa gott og hollt konfekt. Svipaða uppskrift og fleiri góðar er að finna hjá Himneskri hollustu.
www.soffia.net
Döðlukonfekt
- 2 dl kókosmjöl
- 2 dl steinalausar döðlur, smátt saxaðar
- 1 msk kakó
- 2 dl heslihnetur
- ca 100 g 70 % súkkulaði til að bræða og húða konfektið
Allt nema 70 % súkkulaðið sett í matvinnsluvél og maukað vel. Búið til litlar kúlur. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði og dýfið kúlunum ofan í. Svo væri t.d hægt að rúlla þeim upp úr kókósi eða smátt muldum heslihnetum.
Það má líka sleppa að dýfa þeim í súkkulaði, þá er þetta súper hollt. Þessar má geyma í frysti. Svo er um að gera að leika sér með svona uppskriftir, nota aðrar hnetur, svo má sleppa kókósmjölinu, eða prófa að mauka marsípan við þetta.
Þessar geymast í frysti.
16.4.2010 | 14:02
Kjúklingabollur með indversku ívafi
Góð krydd eru gulli betri, eða þau að minnsta kosti geta gert góðan mat betri. Ég á nokkrar virkilega góðar kryddblöndur sem ég hef sankað að mér. Sú nýjasta er frá NOMU og heitir Indian rub. Ég fékk hana í Mosfellsbakaríi.
Ég bjó til kjúklingabollur með þessu kryddi og þær heppnuðust mjög vel. Það er ágætt "bite" í þessu kryddi.
Kjúklingabollur með indversku ívafi (fyrir 2)
- 1 Kjúklingabringa
- 1 vorlaukur
- Hálf brauðsneið
- 2 msk ólífuolía
- Salt
- Pipar
- 1-2 msk Nomu Indian rub
- 1 hvítlauksrif, pressað
Öllu blandað saman í blender/matvinnsluvél. Búið til bollur eða klatta (auðveldara að steikja klattana). Steikið á pönnu.
Svo setti ég á pönnuna með kjúklingabollunum 2 shallott lauka, 1 hvítlauksrif, 1/3 dós tómata, salt, pipar og smá af Nomu kryddinu. Þetta bar ég fram með hrísgrjónum (setti salt og túrmerik útí hrísgrjónin) mango chutney og raitu.
15.4.2010 | 14:32
Alltof girnileg rif og kartöflubátar með pakkasúpu
Það er fátt skemmtilegra en að horfa á matreiðsluþætti. Þegar ég bjó í Kanada þá horfði ég mikið á Food Network, fátt yndislegra en að vera með heila sjónvarpsstöð eingöngu tileinkaðri mat. Og þar var mikið af skemmtilegum þáttum. Hér heima er það aðallega BBC Lifestyle sem sýnir nokkra ágæta þætti. Ég datt inn á þátt sem heitir Chuck´s day off. Þar eldaði hann eitthvað sem leit út fyrir að vera alltof girnileg rif. Síðuna með uppskriftinni má finna hér.
Ég á eftir að prófa þetta og það verður sko gert fljótlega.
Sem meðlæti mætti bera fram kartöflubáta með lauksúpu.
Kartöflubátar með lauksúpukryddi
- Kartöflur
- 1 pakki lauksúpa (duft)
- Olía
Skerið kartöflur í báta og setjið í eldfast fat, dreypið olíu yfir og sáldrið svo úr laukpakkanum og dreifið vel úr yfir allar kartöflurnar. Bakið í ofni við ca 200°c þar til kartöflurnar eru eldaðar í gegn. Svo má salta og pipra eftir smekk. (Spurning að prófa líka púrrulauksúpu)
12.4.2010 | 09:11
Te
Þar sem maður hefur minnkað rauðvínsdrykkjuna þá hefur tedrykkja komið sterk inn. Ég hef reyndar ekki drukkið koffín í neinu formi síðan ég hætti að drekka gos (þ.á.m kók) fyrir 10 árum eða svo. En nú fæ ég mér grænt te af og til. Það er ein tegund sem mér finnst bera af og það er Gupowder Green frá Numi.
En annars er ég aðallega að drekka ávaxta te. Ég datt á eitt meiriháttar gott með chili og kakóbaunum frá Yogi tea, Sweet chili - Mexican spice.
www.soffia.net
Matur og drykkur | Breytt 14.4.2010 kl. 11:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)