5.12.2011 | 21:51
Jóladagatal Soffíu - 19 dagar til jóla og myntu dressing
JÓLADAGATAL...19
Ef þið bakið amerískar pönnukökur í morgunmat fyrir krakkana þá má nota piparkökumót til að skera þær út. Ég skar þær út eins og jólatré og smá mætti nota hugmyndaflugið til að skreyta þær, t.d bláber eða önnur ber smátt skorin. (Afskurðurinn fór svo ofan í mig)
Svo má nota piparkökumótin til að skera út brauðsneiðar, melónur, eplasneiðar og ýmislegt fleira.
Ég veit ekki hvort það er út af því að það eru að koma jól eða hvort þetta er tilviljun en ég er farin að nota ansi mikið af jólalegu litasamsetningunni rauðu og grænu í matargerðina. Áðan var Rib eye steik í matinn. Ég ákvað að vera með nýjung og gera myntu dressingu til að setja ofan á steikina.
Það smakkaðist ágætlega. Ég er bara svo vanaföst þegar kemur að steik að ég vil helst ekkert nema pipar, og nóg af honum. En dressingin var fersk og mjög góð og væri alveg frábær með góðum fiski.
Myntudressing
- Ein lúka fersk mynta
- Ferskur rauður chile (magn fer eftir styrk piparsins, ég notaði hálfan)
- 2-3 geirar hvítlaukur
- Safi úr hálfri sítrónu
- 2 msk ólífuolía
- smá salt og pipar
Saxið myntuna smátt, skerið piparinn mjög smátt ásamt hvítlauk. Blandið öllu vel saman.
Fyrri færslur jóladagatalsins
4.12.2011 | 20:12
Jóladagatal Soffíu - 20 dagar til jóla
Heilræði við piparkökugerð:
Alveg dæmigert ég, skellti í piparkökudeig. Kældi það, flatti út, skar deigið svo fyllti þrjár plötur. Bakaði fyrstu plötuna til þess eins að komast að því að ég gleymdi að setja smjör í uppskriftina. Enda fannst mér hún einstaklega þurr svo ég þurfti að setja skvettu af mjólk í deigið.
Kökurnar urðu extra harðar og því miður óætar, þannig að... ekki gleyma smjörinu!
Enn er ég að telja niður í jólin með jólalegum færslum og í dag langar mig að koma með hugmyndir að innpökkun sem ég hefir rekist á á netinu.
Ég sá þennan tvinna á einhverri síðunni og fannst hann svo fallegur, væri eflaust fallegur utan um einhverja pakkana. Og viti menn, stuttu síðar rakst ég á hann í Barnabúðinni á Laugarveginum, ég gáði ekki að því hvað hann kostaði en mun gera það næst þegar ég á leið hjá og eflaust fjárfesta í honum ef mér blöskrar ekki verðið...
Og hér er heimasíðan þeirra.
Þetta eru sætir pakkar, með pasta slaufum, fyrir mataráhugafólk, nánar um þá hér.
Við gerðum indverska matarveislu í gær með vinarfólki okkar. Þau komu með alls konar krydd og fulla poka af mat. Úr varð að við elduðum lambarétt og kjúklingarétt. Ekki fórum við sérstaklega eftir uppskriftum heldur gerðum við bara "eitthvað" með hliðsjónsjón af fyrri reynslu í eldun á indverskum réttum.
Við vorum með það sem er mikilvægast í indverskri matargerð, góð krydd. Við byrjuðum á að fá fram bragðinu í kryddunum með því að hita þau í olíu á pönnu. Svo fór lambið á eina pönnu og kjúklingurinn á hina.
Og því næst tómatar, jógúrt og grænmeti með lambinu og maukaðar cashew hnetur, kúrbítur og tómatar með kjúklingnum.
Svo var fullt af fersku kóríander, hvítlauk, engifer og chile.
Í hrísgrjónin fór eitthvað af kryddi og svo goji ber, það var mjög gott.
Og að sjálfsögðu var heimalögðu raita og heimagert mango chutney.
Raita
- 2 dl AB mjólk
- hálf agúrka, gróft skorin
- hálfur rauðlaukur (rokkar) fínt skorinn
- 1 tsk garam masala
- ca 2-3 tsk Maldon salt
- Sett í kæli í svona hálftíma.
Naan brauðið heppnaðist einstaklega vel. Ég notaði pizzu grill aðferð Hestons sem ég bloggaði um hér þar sem ég set ofninn á grill og hef brauðin eins nálægt grill elementinu og ég get.
Og hér er naan brauðið
- 2 tsk ger
- 4 msk volg mjólk
- 2 tsk sykur
- 1 egg
- 1 tsk lyftiduft
- 1/2 kg hveiti
- 1 dl ab mjólk
- Vatn eftir þörfum
Ég byrjaði á að leysa gerið upp með volgri mjólk og sykri í kitchen aid skálinni minni. Bætti því næst hveitinu, eggi, lyftidufti, ab mjólk og setti hrærivélina í gang. Svo bætti ég við vatni þar til ég var komin með mjúkt og fallegt deig. (Ég reyndar blandaði saman ab mjólk með vel volgu vatni og hrærði það smá saman, byrjaði á að setja út helminginn af því og svo restina smám saman þar til ég var ánægð með áferðina. Ætli ég hafi ekki verið með um 1.5 dl af vatni út í ab mjólkinni. Og svo áttiég ekki mjólk, þannig að ég leysti gerið upp með smá ab mjólk og heitu vatni svo úr varð volg blanda)
Mér fannst koma vel út að setja egg í deigið.
Svo flatti ég þetta út, svona eins og naan lítur yfirleitt út. Við vorum með mjög góðan chile, ekki of sterkan en þó með góðu bite-i. Þannig að við skárum hann smátt og svo potaði ég því hér og þar í naanið. Svakalega gott. Og um leið og naan brauðið kemur úr ofninum, setið þá smjörklípu á það svo hún bráðni yfir brauðið.
3.12.2011 | 12:27
Jóladagatal Soffíu - 21 dagur til jóla
JÓLADAGATAL...21
Það er hægt að gera ýmislegt jólalegt í dag. Ég hef t.d lesið hér og þar að það eru ýmsir jólamarkaðir um allan bæ. Meðal annars er jólamarkaður hjá okkur hér í Kjósinni. Hann er frá 13.00 - 17.00 og ýmislegt á boðstólnum meðal annars afurðir beint frá býli.
Færðin inn í Hvalfjörð er ágæt ef maður er vel dekkjaður, en það borgar sig að keyra hægt og fara varlega.
Svo er örugglega jólalegt um að litast í húsdýra og grasagarðinum. Ég hitti þennan jólalega náunga þegar ég var þar um daginn
Þegar ég er að vafra um á pinterest.com þá rekst maður oft á krúttaralegt jólaskraut. Mér fannst þessir gaurar mjög sætir og það væri gaman að prófa að gera eitthvað svipað með krökkunum.
Það eru engar leiðbeiningar hvernig þetta er gert, en hér er síðan sem þetta kemur af. En það er hægt að hafa myndina til hliðsjónar og spila svo úr því föndurefni sem maður á eða getur nálgast.
Fyrir þá sem ætla að vera heima í dag og langar í eitthvað gott með kaffinu þá mæli ég með Letingjabrauði, og í því er kanill og negull þannig að það er meir að segja pínu jóló.
Letingjabrauð
- 300 gr sykur (en 200 er alveg nóg!!)
- 240 gr haframél
- 350 gr hveiti
- 4 tsk sódaduft
- 2 tsk kakó
- 2 tsk kanill
- 1 tsk negull
- 7 dl mjólk.
Öllu hrært sama, bleytt með mjólkinni. Sett í tvö form, og bakað við 200° í 45 mín - 1 klst. Þetta er best nýbakað með fullt af smjöri sem bráðnar á brauðsneiðinni.
Ég nota ekki meir en 200 gr sykur, og bý líka oft til bara hálfa uppskrift.
2.12.2011 | 15:56
Jóladagatal Soffíu - 22 dagar til jóla
JÓLADAGATAL...22
Það er ekki hægt annað en að kíkja á vefinn hennar Mörthu Stewart fyrir jólin, enda hafsjór af föndri og bakstri á þeim bæ.
Til að mynda þessar rosalega fínu snjóbolta-jólakúlur sem mig langar að prófa að gera.
Og hér eru leiðbeiningar um hvernig gera megi þessa snjóbolta
Og talandi um snjóbolta þá er ekki úr vegi að minnast á kökuna sem ég gerði um daginn, þetta var smá æfing fyrir næsta barnaafmæli og kom ágætlega út, nú veit ég hvað betur má fara og það er ekki spurning að ég geri þessa köku aftur.
Ís-kaka
Það er í sjálfu sér engin uppskrift af þessari köku, en hér eru punktar sem ég ætla að fara eftir næst þegar ég geri hana.
- Mér finnst Betty Crocker köku mix mjög gott, mér hefur ekki tekist að gera súkkulaðiköku sem er jafn flöffí. Þannig að eflaust nota ég Betty súkkulaðiköku mix, þessi kaka er á þremur hæðum.
- Vöffluísformið fékk ég út í ísbúð.
- "ísinn" á kökunni er Betty Crocker súkkulaðikrem en það krem sem lekur er heimagert ganache.
Ganache
- Rjómi
- 70 % suðusúkkulaði
Rjóminn hitaður í potti, súkkulaðið brætt út í. Kælið. Yfirleitt er Ganache kælt í ísskáp í góðan tíma, en ég vil hafa kremið blautt svo það renni vel niður hliðarnar, þannig að ég rétt leyfi því að standa smá.
Ég notaði ekki smjör í mitt Ganache, en hlutföll milli rjóma og súkkulaði er ca 1 peli af rjóma, 250 g súkkulaði. Annars skellti ég bara rjóma í pott og svo eins miklu súkkulaði og mér fannst koma vel út.
- Hvíta kremið er líka frá Betty. En það er hægt að nota heimagert smjörkrem.
- Í sjálfa kökuna, á milli laga, setti ég sama súkkulaðikrem og "ískúlan" er úr.
- Ég dreifði úr Hrískúlum yfir súkkulaðiísinn, ís með dýfu og hrís...
-Til að fá hvíta kremið á kökunni sem sléttast þá hitaði ég reglulega hnífinn undir mjög heitu vatni.
1.12.2011 | 11:21
Jóladagatal Soffíu - 23 dagar til jóla
JÓLADAGATAL....23
Þegar maður horfir út um gluggann getur maður ekki annað en farið í jólaskap, nú byrja ég formlega jólaundirbúning. Í dagatalinu í dag ætlum við að læra að búa til stjörnu.
Munið þið eftir þessum fallegu stjörnum, þær voru mjög vinsælar þegar ég var lítil. Það er frekar einfalt að fara eftir leiðbeiningunum til að búa þær til. Það þarf ekki alltaf að eyða formúgu í jólaskraut eða efni í föndur.
Hér er linkur með mjög góðum skýringamyndum hvernig á að búa þær.
Í Tiger og sösterne Grenes fást mjög fallegir pappírar með allskonar munstri, svona origami-legir. Það má klippa þá niður í strimla og gera stjörnur úr þeim. Svo eru hvítar stjörnur alltaf klassískar og myndu sóma sér vel sem skraut á jólapakkann. Svo er um að gera að leyfa hugmyndafluginu að njóta sín þegar kemur að pappírsvalinu.
Farin út að renna mér á snjóþotu, njótið dagsins!
Epla crumble
- Epli, 3-4 stk
- 1/2 - 1 msk kanill (eftir smekk)
- 1 msk sykur
- 1/2 dl smjör
- 1/2 dl púðursykur
- 1/2 dl hveiti
- 1/2 dl haframjöl
Skerið eplin í bita. Raðið þeim í eldfast mót sem hefur verið smurt. Dreifið kanilsykri yfir. Blandið saman smjöri, púðursykri, hveiti og haframjöl saman, gott að nota bara puttana þar til þetta er farið að haldast nokkuð vel saman. Dreifið úr þessu yfir eplin, svona eins og þið væruð að dreifa osti yfir pizzu.
Hlutföllin í "crumble" er 2 af hveiti á móti einum af smjöri og einum af sykri. Ég notaði bæði hveiti og haframjöl 50/50, en það má vera bara hveiti.
Bakið í ofni við 200°c í hálftíma.
Matur og drykkur | Breytt 2.12.2011 kl. 15:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)