30.10.2011 | 19:15
Krækiberjasafi
Ég ætlaði nú að vera búin að skrifa um tilraunir mínar við að gera krækiberjasafa. Þar sem ég bý í götu sem kennd er við ber og landið þakið krækiberjum þá er ég dugleg við að tína þau með haustinu og enda með ansi mörg kíló af krækiberjum.
Ég vildi bara fá safann frá ferskum berjunum og ekki bæta neinu út í. Ég maukaði þau á þrjá vegu til að sjá hvað væri fljótlegast og besta nýtnin.
Fyrst prófaði ég djúser sem maður festir á Kitchen aid, mjög seinlegt, en virkar vel.
Svo setti ég þau í djúser, fékk næstum helmingi minna magn þannig.
Að lokum skellti ég lúku í blender með smá vatni og maukaði, bætti svo við enn fleiri berjum og maukaði. Fljótlegt og fékk helling af safa þannig. Ég sigtaði bara frá hýðið af berjunum.
Þannig að besta aðferðin var að skella þessu í blenderinn. Svo setti ég næsta skammt af berjum í blender með ausu af krækiberjadjúsinu sem ég gerði fyrst. Þannig að það fór bara smá vatn þegar ég maukaði fyrsta skammtinn.
Svo frysti ég þetta í litlum formum og klakaboxum og skelli 1-2 klökum í smoothie-inn minn á morgnana. Hollusta í hverjum sopa.
28.10.2011 | 14:10
Morgunverður morgundagsins? Huevos rancheros - besti morgunmatur í heimi og egg elduð í muffinsformi í ofni
Svartar baunir, egg, guacamole, maístortilla, tómatsalsa, ferskur mossarella. Næst þegar þið gerið brunch þá mæli ég með Huevos rancheros! Allavegana mitt uppáhald, og slatti af jalapeno og fersku kóríander.
Farið nú og finnið einhverja góða vini eða fjölskyldumeðlimi og bjóðið þeim í Huevos ranchers um helgina. :)
Ferskt, ferskt, ferskt! Svo þetta smakkist sem best þá verðið þið að nota ferskt kóríander, ferska heimagerða salsa, ferskt heimagert guacamole og heimagerðar nýsteiktar tortillur.
Huevos rancheros
- Svartar baunir, steiktar með góðgæti
- Tómat salsa
- Egg
- Mossarella, ferskur
- Guacamole eða bara avacado
- maís tortillur
- fullt af fersku kóríander
Ég geri lítið annað en að stappa avacado gróft og salta hann vel. Stundum set ég smá ferskt kóríander
Svartar baunir eru lykilatriði í Huevos rancheros.
- Svartar baunir, í dós eða soðnar
- græn paprika, smátt skorin
- Laukur, smátt skorinn
- Salt og pipar
- Ferskt kóríander
- Hvítlaukur, 2-3 rif pressuð
- Ferskur jalapeno, smátt skorinn
- Gott mexíkóskt krydd. Ég nota helst chilpotle í adobo sósu, og svo á ég líka þurrkað "smoked chilpotle" krydd. Það er líka hægt að nota taco eða burritos krydd.
Grænmetið skorið og allt steikt á pönnu í góðri olíu.
Ekki má gleyma eggjunum. Það er sniðugt að baka eggin í muffinsformi í ofni ef maður þarf að elda mörg egg í einu. Hafið ofninn á 190°c og fylgist vel með þeim, sérstaklega ef þið viljið ekki ofelda rauðuna.
Best, best, best BEST af öllu er tortillur úr masa harina hveiti, maíshveiti. Ég heyrði að hugsanlega er hægt að kaupa Masa harina í austurlensku búðinni á suðurlandsbrauð, en hef ekki tékkað á því sjálf.
En ef þið getið ekki nálgast masa harina þá getið þið bara gert venjulegar hveititortillur og þurrsteikt á pönnu eða steikt upp úr olíu. (Og þá má líka kaupa tortillur út í búð ef í hart fer :)
- Masa harina hveiti
- Volgt vatn
- Smá salt
Setjið eitthvað magn af hveiti í skál, t.d 2 dl og smá salt. Bætið við volgu vatni eftir þörfum, ca 1 dl og hrærir saman þar til þið erum komin með mjúkt deig, það má vera svolítið blautt. Búið til nokkrar kúlur á stærð við golfkúlu og fletjið þær út með því að leggja nestispoka sitthvorum megin við kúluna og þrýsta flötum diski eða skurðarbretti ofan á þær. Steikið á pönnu í mikilli olíu á báðum hliðum, ca 1 mín á hvorri hlið.
Ef maður er á annað borð að gera huevos rancheros þá er nauðsynlegt að gera heimalagaða salsasósu. Hún er svo miklu ferskari.
- Tómatar, smátt skornir
- Hvítur laukur, smátt skorinn
- Ólífuolía
- Ferskur eða niðursoðinn jalapeno, smátt skorinn
- Ferskt kóríander, smátt skorið
- Salt og pipar
Blandið öllu saman í skál. Það er hægt að sleppa jalapeno ef þið viljið hafa hana milda. Það er lykilatriði að vera með ferskt kóríander. Einnig væri hægt að merja smá hvítlauk út í.
Ég bið spænskumælandi lesendur afsökunar á að ég nenni ekki að finna rétta n-ið í jalapeno...þrátt fyrir að það meir að segja böggi mig doldið og taki enga stund laga þetta :)
26.10.2011 | 15:09
Egg soðin á pönnu
Vinur minn frá Nýja Sjálandi sagði mér að hann hefði yfirleitt gert hleypt egg á pönnu í grunnu vatni.
Þetta er ekki þessi dæmigerða aðferð því þau fletjast út og líta frekar út eins og steikt egg, en skemmtileg aðferð engu að síður, sérstaklega ef maður vill minnka við sig olíusteikingu.
Þá setur maður cm lag af vatni á pönnu og brýtur eggin út í, allt nákvæmlega eins og ef um olíu væri að ræða, nema bara með vatn í staðin fyrir olíu. Ef Þið hafið lok á pönnunni þá gufusjóða þau einnig og mynda húð yfir rauðuna. Ef þið viljið hafa rauðuna blauta passið ykkur þá að sjóða þau ekki of lengi
25.10.2011 | 10:51
Empañadas
Empañadas er mjög vinsælt í Suður Ameríku. Þar eru þeir með ýmsar fyllingar, meðal annars kartöflur, nautahakk, ost, grænmeti, ávexti og fleira.
Harðsoðið egg er líka mjög algengt í fyllinguna.
Ég ákvað að setja hálfgert chile con carne í mínar Empañadas, guggnaði á að setja harðsoðna eggið, prófa það síðar.
Á Wikipedia er góður fróðleikur um Empañadas.
Empañadas með nautahakki
Deig
- 4 bollar hveiti
- 2 tsk lyftiduft
- 2 tsk salt
- 1/2 bolli smjör, skorið í litla bita
- 1 bolli kalt vatn
- 1 egg, hrært með msk af vatni
Blandið öllu saman nema egginu. Hrærið vel í hrærivel. Rúllið deiginu út í litlar þunnar kökur, ca 10-12 cm í þvermál.
Hrærið eggið með vatni rétt áður en þið setjið Empañadas í ofninn, því þá penslið þið þau með egginu.
Fyllingin
- Nautahakk (ca 700 g)
- Vorlaukur
- Hvítlaukur, smátt skorin
- Paprika, smátt skorin
- Salt og pipar
- 1 dós Chili beans frá Eden
- Ferskt kóríander
Steikið hakk, papriku og lauk á pönnu, bætið við baunum og kryddi. Setjið 1-2 msk af hakki á hverja köku. Lokið henni og klemmið endanum saman með gaffli.
Hlutföll af grænmeti og kryddi er barasta eftir smekk. 1 paprika og 1 lítill laukur t.d.
Bakið í ofni við 200°c í korter eða þar til þær eru gullinbrúnar.
19.10.2011 | 14:45
Lífrænt smjör og afgangur af risotto og kjúklingnum
Það varð afgangur af kjúklingnum og risotto sem kom sér vel þegar við skelltum í lunch með nágrönnunum okkar á næsta bæ. Ekki smakkaðist þetta verra svona upphitað daginn eftir, þetta var dásamlega gott.
Rífið kjúklinginn og steikið á pönnu, bætið risottoinu við kjúklinginn og hitið. Berið fram með nýbökuðu brauði og bjóðið vinum yfir í léttan lunch.
Í Maður lifandi fæst svakalega gott smjör. Þetta er lífrænt smjör frá bændum hér í sveitinni.
Og ef þið viljið skella ykkur á opnun hjá mér á morgun milli 5-7 þá má lesa nánar um sýninguna hér.
Einstaka sinnum á ég poka af frosnum rækjum í frysti, mér dettur sjaldan nokkur í hug í hvað ég get notað þær nema þá í rækjusalat með mæjónesi. Þar til um daginn, þá var ég að ráfa um netið og satt niður á svo girnilegan rétt, en þar var reyndar notaðar einhverjar fínar hráar rækjur.
Ég ákvað því að heimfæra þennan rétt upp á gömlu góðu mæjónesrækjurnar og hann endaði á að smakkast dúndur vel.
Þessi réttur hljómar kannski undarlega en ég segi það og skrifa, þetta var ofboðslega gott.
Djúpsteikt rækjubrauð
- Brauðsneiðar án skorpu, franskbrauð t.d eða annað hvítt brauð
- 1/4 poki frosnar rækjur
- Vorlaukur, 1 eða 2
- 1 egg
- Salt og pipar
- Ferskt rifið engifer, 2-3 msk
- Sesamfræ
- Olía til steikingar
Skerið brauðið í þríhyrninga, eins marga og rækjumaukið dugar á. Ef þið eruð með formbrauð skerið skorpuna frá og brauðið í 4 ferhyrninga.
Blandið saman í blender eða matvinnsluvél rækjum, einu eggi, engifer, salti og pipar. Maukið. Setjið maukið í skál og blandið við það smátt skornum vorlauk.
Smyrjið þessu á þríhyrningana, um það bil 1 matskeið á hvern þríhyrning. Stráið yfir þá sesamfræjum, svörtum (ef þið eigið til) og ljósum.
Djúpsteikið í 1 mín með rækjuhliðina niður fyrst. Snúið sneiðunum við og steikið í 1/2 - 1 mín til viðbótar. Leggið á eldhúspappír til að þerra mestu olíuna.
Ég prófaði líka að setja maukið í hrísgrjónapappír og djúpsteikja, það var einnig mjög gott.
Nú er ég á fullu að undirbúa sýningu, en ég verð með opnun á fimmtudaginn milli 17.00-19.00 og allir eru velkmomnir.
Sýningin er í Skotinu hjá Ljósmyndasafni Reykjavíkur, Tryggvagötu 15, 6.hæð. (Sama hús og Borgarbókasafnið).
17.10.2011 | 16:10
Eldað með Jamie - Ofnbakaður kjúklingur og risotto með pancetta og rósmarín
Í gær eldaði ég upp úr bókinni minni Kokkur án klæða.
Að þessu sinni valdi ég tvær uppskriftir, kjúkling og svo risotto sem ég taldi geta passað vel með kjúklingnum og viti menn... Þetta var ljómandi gott. Þetta er fullkomin máltíð á köldu vetrarkvöldi eða sem hádegismatur á stormasömum sunnudegi...til dæmis.
Ég fjárfesti í pancetta til að nota í risottoið. Þegar ég segi fjárfesti, þá meina ég sko fjárfesti því kg kostar 4000 kr. Þannig að ég keypti 150g. Pancetta er kallað ítalskt beikon, söltuð og krydduð svínasíða sem er svo þurrkuð. Mér finnst hún mjög bragðgóð, og alveg þess virði að prófa. Ég keypti hana í kjötborðinu í Hagkaup, Kringlunni. Það er líka hægt að nota beikon en það er aðeins önnur stemmning í því.
Ofnbakaður kjúklingur eða eins og Jamie orðar það:
Minn fullkomni steikti kjúklingur (bls 120)
- 1.5 kg kjúklingur
- Salt og pipar
- 3 lúkur af ferskum smátt söxuðum kryddjurtum. (Basil, steinselju og marjoram)
- 4 msk ólífuolía
- 1 sítróna, skorin til helminga
- 4 lárviðarlauf
- 2 greinar af fersku rósmarín
(Það var ekki til marjoram þannig að ég sleppti því væri jafnvel hægt að nota ferskt oregano. Svo er ég með fordóma fyrir lárviðarlaufi þannig að ég sleppti því).
Hitið ofn og ofnskúffu í 225°c.
Skolið kjúkling og þerrið með eldhúspappír.
Nuddið kviðarhol með salti.
Losið húðina við endann á bringunni frá kjötinu, gerið samt bara smá gat og troðið kryddjurtunum þar inn ásamt smá salti og olíu.
Setjið sítrónu og rósmarín í kviðarholið. Hér er hægt að binda kjúklinginn svo hann haldist betur saman. (ég gerði það reyndar ekki því ég var ekki með neitt band).
Skerið 3 skurði í sitthvort lærið og nuddið kryddjurtum þar inn í skurðina.
Nuddið húðina með ólífuolíu, salti og pipar.
Leggið kjúkling í ofnskúffu með bringuna niður í 5 mín, snúið svo á hina hliðina með bringu niður og bakið í 5 mín.
Setjið svo kjúkling á afturendann og eldið í klst, eða þar til fuglinn er eldaður í gegn.
Risotto með pancetta og rósmarín(bls 172)
- 1 líter kjúklingasoð eða grænmetis, ekki er það verra ef það er heimalagað
- 1 msk ólífuolía
- 2 smátt saxaðir shallot laukar
- 1/2 selleríhöfuð
- Salt og pipar
- 2 smátt söxuð hvítlauksrif
- 400 g risotto
- 100 ml þurrt hvítvín
- 70 g smjör
- 100 g ferskur rifinn parmesanostur
- 50 g pancetta
- 2 msk smátt saxað rósmarín
Jamie notar Borlotti baunir, þær voru ekki til þannig að ég notaði engar baunir.
FYLGIST VEL MEÐ RISOTTOINU ALLAN TÍMANN, EKKI LÍTA AF ÞVÍ!!
Hitið soðið.
Hitið olíu, steikið pancetta.
Hitið olíu í breiðum potti. Steikið við vægan hita lauk og sellerí, allt smátt skorið í 3 mín. Bætið við hvítlauk og steikið í aðrar 2 mín.
Hækkið hitann og lítið nú aldrei af pottinum.
Setjið hrísgrjónin út í pottinn. Ekki láta þau samt brúnast. Hrærið stöðugt í pottinum í 2 mín eða svo.
Bætið við pancetta og rósmarín
Hellið hvítvíninu út í. Sjóðið niður
Bætið nú einni ausu af soði út í og látið sjóða upp. Þetta gerið þið svo þar til allt soðið er búið, eina ausu í einu og láta gufa upp þar til næsta ausa er sett í pottinn. Þetta tekur um 20 mín.
Þegar soðið er búið og allt gufað upp og grjónin tilbúin bætið þá við rifna parmesanosti og smjörinu. Blandið vel saman.
Berist fram strax.
Þennan rétt má bera fram einan og sér eða eins og ég gerði með kjúkling. Einnig finnst mér alltaf gott að fá risotto með fiskmeti.
Ef þið notið borlotti baunir þá skuluð þið sjóða þær og blanda þeim saman við í lokin.
Hafið ferskan parmesanost á borðin svo hægt sé að rífa smá yfir diskinn sinn, nammi namm.
Svo getið þið leikið ykkur með meðlætið, nýbakað brauð, gott salat osfv. Mér finnst algjör óþarfi að nota sósu því það myndi taka bragðið frá risottoinu sem er alveg dúndur bragðmikið og gott.
Og hérna var svo smjörið sem ég var að leita að...
Eiga matreiðslubækur ekki annars að líta út fyrir að vera notaðar?
Matur og drykkur | Breytt 27.3.2013 kl. 15:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.10.2011 | 18:46
Krásir í Kjósinni
Ég fór á Krásir í kjósinni fyrir stuttu. Það var matarhátíð þar sem bændur úr sveitinni lögðu til hráefni, beint frá býli.
Það var fullt af smáréttum, lamb, naut og gæs í aðalrétti, nokkrir mismunandi eftirréttir, þ.á.m panna cotta, ábrystir og ostar. Í forrétt var súpa með krækling og grjótakrabba, sem einmitt finnst við strendurnar hér í hvalfirði.
Svona hljómaði matseðillinn nokkurn veginn:
Matseðill matarhátíðar Krásir í Kjósinni
Forréttir:
· Grjótkrabbasúpa
· Urriði og /eða ný bleikja með hundasúru -jógúrtsósu á Kjósarkökum
· Grafið naut og hangikjöt með salati og kryddjurtaolíu úr sveitinni og rifnum sveitaosti.
· Bjúgnaragú í rauðvínssósu
Aðalréttir:
· Naut og lamb með kúmengljáa
· Léttreykt gæs með appelsínu- og villibráðaberjum frá Hálsi og rabarbara-chutney
Öllum aðalréttum fylgja kartöflur og steikt rótargrænmeti.
Eftirréttir:
· Ostasinfonía úr sveitinni með berjum og sultum
· Aðalbláberja panna cotta (ítalskur rjómabúðingur)
· Skyr- og jógúrtterta með höfrum og berjum úr sveitinni
Þetta var vel heppnuð veisla, mikið af fólki, Ólöf Arnalds tók nokkur lög og góð vín ásamt vínkynningu. Ég læt myndirnar tala sínu máli.
Grjótakrabbi
Súpan
Forréttir
Aðalrétturinn
Og að lokum...
Ég geri nær undantekningalaust mína eigin borgara. En dæmigerður keyptur hamborgari úr Krónunni með brauðinu vafið í plastfilmu lenti í körfunni og hann var fínn, og brauðið, sem leit út fyrir að vera þurrt og óspennandi endaði á að vera lúngamjúkt eftir smá stund á grillpönnunni...
Ég vil meina það að eldunaraðferðin hafi átt sinn hlut í að gera þennan borgara svona góðan.
Það var hann Heston sem benti á þessa aðferð í þættinum sínum um besta hamborgara ever.
Málið er að snúa honum við á 30 sekúntna fresti þar til hann er steiktur að ykkar óskum.
Heimagerð bbq sósan sem ég penslaði borgarann með var góð, sósurnar á borgaranum góðar (uppskriftir hér að neðan) og meðlætið smellpassaði við þetta allt saman, ég held að það hafi gert gæfumuninn að hafa meðlætið ekki of mikið, en það var ruccola salatlauf, súrar gúrkur, þunnt skorinn bufflaukur og ostur.
Ég bjó til bbq sósu. Alveg heilan lítra og notaði örugglega ekki meira en 2 msk af sósunni til að pensla borgarann. Og svo gerði kærastinn rosalega góða sósu með hamborgaranum þar sem hann notaði alveg 2 aðrar skeiðar af þessum lítra sem við áttum af bbq sósu.
Hamborgarasósa
- 2 msk bbq sósa
- 2 msk mæjónes
- 1 tsk sinnepssósa
Öllu hrært saman.
Bbq sósa og mæjó er ótrúlega gott kombó .
Það er alveg sama hvað ég set í bbq sósuna, hún er alltaf góð, en það þarf að sjálfsögðu nokkur grundvallarhráefni, eins og tómata, dijon og púðursykur.
Einhverntíma hljóðaði hún svona hjá mér: Smjör, hvítlaukur, shalottlauk, púðursykur, tómatsósa, tómatar í dós, ananassafi, chilpotle krydd, salt og pipar, rauðvín og chilpotle pipar í adobo sósu.
Öðru sinni svona: Hvítlaukur, Laukur, Smjör, Matarolía, Jalapeno (í krukku), Tómatsósa, Thai sweet chile sauce, Ananas safi (notaði frá ananas í dós), taco krydd, Pipar og Salt,Sykur, Dijon sinnep, Sætt sinnep, Hvítvín, Safi frá Lime
Þetta fór í bbq sósuna að þessu sinni, smá af þessu og smá af hinu
- 1 dós tómatar
- Tómatsósa
- Dijon
- Sætt sinnep
- Niðursoðinn jalapeno
- Salt og pipar
- Shrirachi sósa
- Laukur
- Hvítlaukur
- Matarolía til að steikja laukinn
- Skvetta af rauðvíni
- Púðursykur
Soðið í potti og maukað í blender.
Sinnepssósa
- Mjones eða sýrður rjómi
- Sætt sinnep
- Smá Dijon sinnep
- Smá sýróp
- Salt
Ég var svo inspireruð af Jamie Oliver þegar kom að kvöldmat eftir að hafa eytt deginum í að horfa á þætti með honum. Þar var hann búin að þvælast um Ítalíu, Grikkland og Frakkland. Þannig að úr varð að ég hafði salat í matinn og hér kemur upptalning á hráefninu sem var í því.
- Ruccola salat
- Hráskinka
- Agúrka
- Paprika
- Rauðlaukur
- Svartar ólífur
- Feta
- Mossarella
Og svo punkturinn yfir I-ið...
- Croutons, heimagert brauð frá því í gær, skortið í teninga, og steiktir á pönnu upp úr góðri EVOO með mjög smátt skorinni hráskinku, hvítlauk, salti, pipar og oregano.
9.10.2011 | 14:58
Samansafn af brauðuppskriftum sem ég hef bloggað um
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 15:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)