11.8.2012 | 18:12
Tvær mjög ólíkar blómkálssúpur og vanmetinn hálfmáni
Við nágranni minn ákváðum að elda saman en þó í sitthvoru lagi, sem við gerum ansi oft. Hún eldar heima hjá sér og ég heima hjá mér og svo hittumst við á öðru hvoru heimilinu með allan matinn og borðum saman. Við leggjum svona óljóst línurnar hvað við ætlum að elda og í hvert sinn verður allt fáránlega gott sem við gerum og smellpassar saman.
Meir að segja tókst vel til þegar hún kom með gulrótarsúpu og ég gerði hálfgerða pizzu með sýrðum rjóma og chile pipar. Á meðan við borðuðum súpu og chile pizzu var flannastór hálfmáni í ofninum, stútfullur af gæða salami, osti og fleiru góðu. Ég sá ekki fyrir mér að snert yrði á honum enda allir vel saddir eftir súpu og flatböku.
Ég tók hann nú samt úr ofninum og lét hann á borðið, skar eina sneið af honum til að smakka. Hann var étinn upp til agna á 10 mínútum.
Þetta var besti hálfmáni sem ég hef smakkað og minnti mig á að gera hálfmána oftar, en ég hef forðast það því mér finnst venjulegar pizzur svo góðar. Það verður fljótlega gerður hálfmáni aftur.
Í þetta sinn átti nágranni minn blómkál og ég einnig þannig að við ákváðum að fara í blómkálssúpukeppni. Við unnum báðar!
Það er magnað hvað hægt er að gera ólíkar súpur úr þessu ágæta hráefni.
Ég er ekki með nákvæma uppskriftir en það er bara ekki svo nojið hvernig þið gerið þetta, málið er að smakka sig bara til og segja það gott þegar maður er sáttur.
Blómkál og kartöflur eru góður grunnu að súpum. Ég nota aldrei súputeninga. Mér finnst hráefnið sem maður notar í súpur hverju sinni njóta sín vel. En það er líka lykilatriði að nota gott hráefni. Ég notaði enga mjólk né rjóma í mína súpu.
Blómkálssúpa með beikoni
- 1 blómkál
- 4-5 kartöflur
- 3-4 sneiðar af góðu beikoni (Fékk mitt hjá Kjötpól á laugarnesvegi)
- Valhnetukjarnar, lúka og smá vatn til að mauka með
- Smjörklípa
- Pipar
- Hvítlausrif
- Rjómi ef þið viljið (Ég átti engan rjóma)
- 2 epli
Sjóðið blómkál, kartöflur og epli í vatni.
Steikið beikon og bætið út í pottinn.
Maukið í töfrasprota valhnétukjarna með smá vatni svo úr verði mauk.
Bætið valhnetumauki, pipar, smjöri og pressuðu hvítlauksrifjum út í súpuna. Setjið súpuna í blender og maukið. Þið getið ráðið þykktinni með að taka eins mikið vatn úr pottinum með í blenderinn og þið viljið. Setjið súpuna aftur í pottinn með smá skvettu af rjóma og mallið saman.
Blómkálssúpa með grillaðri papriku
- 1 blómkál
- 5-6 kartöflur
- Grilluð paprika
- Hvítlauksrif
- Basilíka, fersk
- karrí
- Mjólk eða rjómi
Grillið papriku í ofni. Sjóðið allt saman í vatni, bætið við paprikunni og kryddi. Maukið í blender.
Flokkur: Matur og drykkur | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.