13.6.2012 | 10:57
Nutella smákökur og aðrar úr hnetusmjöri. - 3 hráefni
Eins og ég er nú að gera allt frá grunni þá er ég ekki heilagari en svo að ég keypti Nutella heslihnetusmjör í annað sinn á jafn mörgum mánuðum. (Það er oftar en á allri minni ævi). Í fyrra skipti til að eiga handa ungum næturgestum og í seinna skiptið þá hef ég verið að skoða einfaldar smákökuuppskriftir með Nutella sem mig langaði að prófa.
Loks lét ég verða að því að prófa að baka með Nutella. Einhver uppskrift innihélt sykur og önnur ekki og ég ákvað að láta reyna að þessa sykurlausu þar sem Nutella er alveg nógu sætt fyrir, ca 60 g sykur í 100 grömmum. Það þarf ekkert að ræða það frekar! Svo sá ég uppskrift sem var einnig með smjöri en það eru 30 g fita í 100 g. Látum það duga!
Þá held ég að við séum búin að átta okkur á því að þetta er ekki það hollasta sem við látum ofan í okkur og getum hafði baksturinn.
Nutella smákökur
- 1 bolli nutella
- 1 bolli hveiti
- 1 egg
Öllu hrært saman. Svo notaði ég hendur til að rúlla í kúlur sem ég flatti út með gaffli á bökunarplötu klædda smjörpappír.
Ég er Snickers aðdáandi og þar sem ég átti salthnetur þá muldi ég þær út í part af deiginu.
Bakist í ofni í 10 mín við 180°c.
Og fyrst þetta var svona einfalt þá var lítið mál að flækja hlutina aðeins. Þar af leiðandi gerði ég svipaða uppskrift nema með hnetusmjöri. Nema nú notaði ég sykur og egg.
Hér getur maður bakað með betri samvisku, sérstaklega ef maður minnkar sykurmagn.
Uppskriftin hljóðaði svona
Hnetusmjörs smákökur
- 1 bolli hnetusmjör - Hreint hnetusmjör sem inniheldur bara hnetur!
- 1 bolli sykur
- 1 egg
Sama aðferð og með Nutella kökurnar. Bakist í ofni í 10 mín við 180°c.
Ég notaði þó mun minna af sykri. Og hér er örugglega gaman að leika sér með að minnka sykur til muna og bæta frekar við súkkulaðibitum, góðu 70%.
Og að sjálfsögðu þá lét ég ekki staðar numið í tilraunastarfsemi og gerði nokkrar þar sem ég blandaði báðum smákökudeigum saman svo úr varð Nutella- hnetusmjörs smákökur. Í nokkrar gerði ég holi og lét tsk af Nutella ofan í, hefði prófað súkkulaði hefði ég átt það.
Flokkur: Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 11:09 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.