11.6.2012 | 18:50
Döðlukaka sem leynir á sér, borin fram með karamellusósu
Vinkona gaukaði þessari uppskrift að mér. Ég veit að hún er smekkmanneskja á mat þannig að fyrst að hún mælti með henni þá vissi ég að þetta væri uppskrift sem ég þyrfti að prófa.
Og viti menn, þessi kaka, sem ég hélt að væri kannski of hversdagsleg fyrir afmælisboð sómaði sér vel sem eina afmæliskaka dagsins.
Hversdags eða spari, fábær uppskrift.
Döðlukaka með karamellusósu
- 235 g döðlur
- 1 tsk matarsódi
- 120 g mjúkt smjör
- 5 msk sykur
- 2 egg
- 3 dl hveiti
- 1/2 tsk salt
- 1/2 tsk vanilludropar
- 1 1/2 tsk lyftiduft
Hitið ofn í 180°c
Setjið döðlur í pott og látið vatn fljóta yfir. Leyfið suðu koma upp, slökkvið á hellunni og látið döðlur bíða í pottinum í 3 mín.
Bætið matarsóda saman við döðlurnar í pottinum.
Þeytið saman smjör og sykur
Bætið við eggjum, einu í einu.
Blandið við hveiti, salti og vanilludropum.
Setjið lyftiduft út í og 1/4 af döðlunum (sem þið hafið sigtað upp úr vatninu) og hrærið varlega saman.
Blandið að lokum afganginum af döðlunum út í.
Smyrjið kökuform, tvö lítil eða eitt stórt.
Bakið við 180°c í 30-40 mín.
Karamellusósa
- 120 g smjör
- 115 g púðursykur
- 1/2 tsk vanilludropar
- 1/4 bolli rjómi
Setjið allt í pott og látið suðuna koma upp. Lækkið hitan og látið krauma í 3 mín. Hrærið í sósunni allan tímann.
Flokkur: Matur og drykkur | Breytt 13.6.2012 kl. 10:01 | Facebook
Athugasemdir
Þessi er líka beinlínis dásamleg; dásamleg, segi ég!
Ein vinkona mín kvartaði undan óskýrum fyrirmælum með bökunartíma, en ég baka hana í ca. 37 mín, ofninn minn er að vísu ekki með blæstri sem stendur, svo ég nota yfir/undirhita. Maður verður eiginlega bara að prófa sig áfram með tímann en hún er svooooo góð...
Döðluterta
Hráefni:
1 bolli döðlur, smátt skornar.
2 bolli valhnetur, smátt skornar (ég nota pekanhnetur, það má nota hvaða hnetublöndu sem er)
½ bolli suðusúkkulaði, smátt skorið (ég nota dropana frá Nóa-Síríus, annars 1 plötu)
¾ bolli hrásykkur
3 msk spelt
1 msk vanilludropar
3 msk kalt vatn
2 egg
1 tsk lyftiduft
Blanda öllu saman í skál og setja í smurt, meðalstórt tertuform, ég nota hvítt pajform sem er ca. 24-26 cm í þvermál, held ég.
Baka í 30-45 mín við 150 gráður, bera fram með þeyttum rjóma.
Svo er bara að njóta og hugga sig við að spelt er ögn skárra en hveiti, súkkulaði, hnetur og döðlur meinhollt!
Nanna Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 15.6.2012 kl. 14:50
slefið er farið að renna. Úfffff hvað þetta er girnilegt. Mun prófa, ekki spurning.
Soffía Gísladóttir, 18.6.2012 kl. 10:03
Nú er ég búin að prófa vorlauksbrelluna þína, hvítlauksbrelluna og setti kryddjurtir í kókflöskupotta í gær. Og ég hef prófað þennan bananaís, hann er ekki vitlaus með döðlutertunni hér að ofan...
Nanna Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 18.6.2012 kl. 10:45
Það er aldeilis hvað þú ert búin að vera dugleg. Kryddjurtirnar mínar eru að verða það stórar að ég þarf að fara að umpotta...spurning að finna eitthvern stærri sjálfvökvandi pott, hvað sem það gæti verið.
Jááh...Döðlur og bananar fara alltaf vel saman, brilliant hugmynd að bjóða upp á bananaísinn með döðlutertunni!
Soffía Gísladóttir, 24.6.2012 kl. 21:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.