Húsið við sjóinn

Ég var að lesa grein um daginn í blaði, skrifuð af dálkahöfundi í Country Living.  Hún býr í sveit og allt er svo rómantískt sem hún skrifar um um sveitina sína, eina pöbbinn, hanagal, samheldnir nágrannar, maturinn beint af býli og svo framvegis.  Ég fór að öfunda hana og hugsaði með mér hvað það væri gaman að búa svona og sá þetta alveg fyrir mér.  Ég sá þetta eiginlega einum og vel fyrir mér.  Þá rann það upp fyrir mér, bíddu aðeins.  Ég bý svona. 

Húsið við sjóinn
 
 
soffia 

 
Ég heiti Soffía og hef verið að blogga um mat á mbl.is blogginu síðan 2008.  
Að mennt er ég myndlistarmaður, útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands 2001 með grafík sem sérsvið.  Eftir listnámið hef ég ferðast víða,  ásamt því að hafa búið á Spáni, í Kaupmannahöfn og Kamloops í Kanada.  Ég stundaði nám í margmiðlun þar sem var lögð áhersla á hreyfimyndagerð. Ég hef haldið þónokkrar einka og samsýningar bæði hér heima og erlendis. Ég hef búið á Íslandi síðan 2009 og síðustu tvö ár hefur tveggja ára dóttir mín átt hug minn allan.

matjurtagardurinn

Ég hef verið að byggja mér heimili við sjóinn í sveitinni.  Þar get ég sameinað mörg áhugamál, ræktað mitt eigið grænmeti, slakað á í fallegu umhverfi með fjölskyldunni, horft á hafið á meðan ég blaða í gegnum matreiðslu og híbýlablöð, innréttað heimilið mitt eftir mínu höfði og spáð og spekulerað endalaust í innanhúshönnun, húsgögnum, innréttingum, flísum og fleiru skemmtilegu. Og síðast en ekki síst tekið á móti gestum og eldað ofan í þá.

eldhus02

Eldhúsið er hjartað i heimilinu, það tekur sífelldum breytingum.  En það hefur alltaf verið hjartað, líka þegar ekkert var þar nema lítill sumarbústaðarofn á gólfinu og gamalt ikea skrifborð sem matarborð.  Alltaf var hægt að töfra fram eitthvað gott.

Í vor (2012) mun eldhúsið loks taka almenninlegum breytingum og fara að líkjast endanlegri útkomu.  Ég hef skoðað mikið af blöðum og verfsíðum til að fá hugmyndir.  Og ég held ég sé nokkurnvegin að detta niður á það sem ég vil.  Fyrir þá sem vilja þá er hægt að skoða “mood board” sem ég gerði um mitt draumaeldhús á pinterest vefnum hér.

sjorinn

 
Ég bý í húsi upp í sveit við sjóinn, landið í kringum húsið mitt er þakið krækiberjum á haustin.  Í þessu húsi bý ég með besta fólki í heimi.

hani

Ég vakna nú ekki við hanagalið hjá hænsnabóndunum fyrir neðan, en stundum heyrir maður mjóróma galið í honum.  Og þangað fer ég með alla matarafganga þannig að ég hef aldrei áhyggjur yfir að þurfa að henda mat og þar fæ ég egg, nýorpin, “free range” “organic” egg.  Og stundum fær maður sér rauðvínssopa með hænsnabændunum.

lamb

Ofar við veginn búa svo bændurnir, vinir okkar.  Þar reka þau nautabú og litla sælkeraverslun með dásamlegum heimagerðum afurðum.  Þarna fæ ég besta kjöt í heima, beint af býli.  Stundum eldum við saman og og fáum okkur rauðvínssopa.

Við hliðina á okkur búa svo okkar bestu vinir.  Æskufélagarnir, maðurinn minn og vinur hans hafa verið samtaka, fundu sér  dásamlegar, listmenntaðar kærustur sem kunna til verka í eldhúsinu, eignuðust stúlkubörn á nákvæmlega sama tíma og byggðu sér hús hlið við hlið….í sveitinni.  Góðir grannir og æskuvinir.  Og stundum bjóða þeir upp á rauðvínssopa.

Það er nú ekki langt að fara á sveitapöbbinn ef manni langar að lyfta sér upp og þar hittast sveitungar gjarnan við ýmis tækifæri.  Einnig eru sveitungarnir iðnir við að slá upp matarveislum fyrir alla þá sem vilja.  Ekki amalegt það fyrir matgæðina eins og mig.

kraeklingur

Í sjónum fyrir neðan er spriklandi ferskur kræklingur, ýsa og þorskur.  Berin allt um kring á haustin og matjurtagarðurinn blómstar á sumrin.

boat

Báturinn okkar stóð við bryggjuna, á honum fórum við í skemmtiferðir með vinum og veiddum okkur fisk í soðið á spegilsléttum firðinum.

strondin

Fátt er notalegra en að fara á ströndina og leggjast í heitan sandinn, en ströndin er heit af náttúrunnar hendi sem og lítil laug sem er staðsett í fjörunni.  Ófáum stundum höfum við eitt þar í miðnætursólinni á sumrin og við stjörnubjartan himinn að vetri til.

okanagan

Svo á ég yndislegt eldhús og nóg af plássi til að taka á móti öllum góðum vinum úr borginni sem koma í “bed & breakfast” og smá rauðvínssopa.  SKÁL!
 
 
Hér má finna uppskriftirnar mínar flokkaðar og með "TAG" og því auðveldara að finna þá uppskrift sem maður er að leita að :
 
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband