Einstaka sinnum á ég poka af frosnum rækjum í frysti, mér dettur sjaldan nokkur í hug í hvað ég get notað þær nema þá í rækjusalat með mæjónesi. Þar til um daginn, þá var ég að ráfa um netið og satt niður á svo girnilegan rétt, en þar var reyndar notaðar einhverjar fínar hráar rækjur.
Ég ákvað því að heimfæra þennan rétt upp á gömlu góðu mæjónesrækjurnar og hann endaði á að smakkast dúndur vel.
Þessi réttur hljómar kannski undarlega en ég segi það og skrifa, þetta var ofboðslega gott.
Djúpsteikt rækjubrauð
- Brauðsneiðar án skorpu, franskbrauð t.d eða annað hvítt brauð
- 1/4 poki frosnar rækjur
- Vorlaukur, 1 eða 2
- 1 egg
- Salt og pipar
- Ferskt rifið engifer, 2-3 msk
- Sesamfræ
- Olía til steikingar
Skerið brauðið í þríhyrninga, eins marga og rækjumaukið dugar á. Ef þið eruð með formbrauð skerið skorpuna frá og brauðið í 4 ferhyrninga.
Blandið saman í blender eða matvinnsluvél rækjum, einu eggi, engifer, salti og pipar. Maukið. Setjið maukið í skál og blandið við það smátt skornum vorlauk.
Smyrjið þessu á þríhyrningana, um það bil 1 matskeið á hvern þríhyrning. Stráið yfir þá sesamfræjum, svörtum (ef þið eigið til) og ljósum.
Djúpsteikið í 1 mín með rækjuhliðina niður fyrst. Snúið sneiðunum við og steikið í 1/2 - 1 mín til viðbótar. Leggið á eldhúspappír til að þerra mestu olíuna.
Ég prófaði líka að setja maukið í hrísgrjónapappír og djúpsteikja, það var einnig mjög gott.
Nú er ég á fullu að undirbúa sýningu, en ég verð með opnun á fimmtudaginn milli 17.00-19.00 og allir eru velkmomnir.
Sýningin er í Skotinu hjá Ljósmyndasafni Reykjavíkur, Tryggvagötu 15, 6.hæð. (Sama hús og Borgarbókasafnið).
Flokkur: Matur og drykkur | Facebook
Athugasemdir
Geysilega girnilegt... Einu sinni fann ég hálfan svona rækjupoka í frysti, lét þiðna og reif í matvinnsluvél saman við fiskhakk, kryddaði með austurlensku kryddi, hvítlauk, kóríander, lime, engifer og setti egg og brauðrasp saman við og úr urðu dýrindis fiskbollur, litlar og nettar, sem hentuðu listavel í forrétt með einhverri dýfusósu sem ég man nú ekki í svipinn, mjög trúlega hefur hún nú verið með hvítlauk í... Það er ótrúlegt hvað maður getur nýtt svona hluti sem maður finnur hjá sér í skotum og kirnum...
Nanna Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 18.10.2011 kl. 13:43
Mmmm, hljómar vel, prófa það næst þegar ég geri fiskibollur.
Soffía Gísladóttir, 26.10.2011 kl. 21:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.