8.8.2011 | 16:35
Andvarp
Ég fékk þessi fínu andaregg í Borgarnesi um daginn. Þau eru mjög bragðgóð og heldur stærri en hænueggin.
Ég fæ mér oftar en ekki byggklatta með eggi í morgunmat, nema að þessu sinni voru það bláberjaskyr-byggklattar með andareggi.
Það er óþarfi að bæta við sykri í þessa uppskrift þar sem skyrið er yfirleitt vel sykrað hjá "sykursamsölunni".
Ef þið eigið smá skyr eftir í stóru bláberjaskyrdollunni (eða öðru skyri) þá er upplagt að hræra það upp með vatni eða mjólk og bæta svo út í dolluna einu eggi, 1/2 tsk af matarsóda, 1/2 tsk salt og byggmjöl og hveiti eftir þörf. (Fer eftir því hvort þið viljið gera þynnri pönnukökur eða þykkari klatta)
Þar sem ég hrærði þetta í dollunni og notaði puttana til að mæla salt og sóda þá var eina uppvaskið ein panna, gaffall og spaði.
Ég hef alltaf miklað pönnukökugerð fyrir mér. Núorðið set ég eitthvað af vökva, eitt egg, smá salt og smá matarsóda eða lyftiduft og hræri það til með hveiti. Og vökvinn er ýmist súrmjólk, ab mjólk, mjólk eða skyr. Hveitið er byggmjöl, byggflögur, heilhveiti, hveitikím, haframjöl eða bara venjulegt hveiti. Og alltaf verður úr þessu dýrindis pönnukökur, klattar, lummur eða vöfflur.
Flokkur: Matur og drykkur | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.