10.7.2011 | 13:16
Uxahalar og makkarónur
Ég eldaði uxahala um daginn, þeir voru bragðgóðir og svo meyrir, enda leyfir maður þeim að malla í 3-4 klukkutíma. Þeir eru yfirleitt notaðir í kássur eða súpur. Ég mæli með að þið prófið þetta kjöt ef þið rekist á það. Ég kaupi mitt kjöt hjá bóndanum á Hálsi, og þeirra halar eru súper.
Ein leið til að elda svona hala er að gera súpu að hætti Kóreubúa en hér eru linkar á nokkrar uppskriftir.
Svo væri hægt að gera súpu eins og þeir gera á Hawaii. Anís gæti verið spennandi krydd í uxahalasúpu.
Og hér eru þrjár girnilegar frá Bon Appetit
Nú er ég komin með valavíða, veit ekki hvaða uppskrift ég ætti að prófa næst, en ég læt ykkur vita hvernig þetta endar hjá mér næst þegar ég elda uxahala.
Ég prófaði að baka makkarónur um daginn, hafði ekki gert svoleiðis áður enda ekki bakað mikið um ævina fyrr en ég flutti í sveitina. Þær heppnuðust ágætlega og kremið sem ég bjó til passaði vel við. Ég átti eggjahvítur því ég bjó til ís um daginn. Það er ágætt kombó, makkarónur og ís til að nýta bæði hvítur og rauður.
Makkarónur
ATH, best er að skilja hvítur og rauður að daginn áður og geyma í kæli.
- 2 eggjahvítur
- 70 g möndlur
- 130 g flórsykur
- 2 msk sykur
- Matarlitur ef þið viljið hafa þetta skrautlegt
Hitið möndlurnar í ofni við 150°c í 10 mín. Leyfið þeim að kólna.
Þeytið eggjahvítur þar til þær eru aðeins farnar að stífna. Bætið sykrinum út í. Hrærið í 1-2 mín til viðbótar
Hrærið saman í matvinnsluvél möndlur og flórsykur þar til möndlurnar eru fínt malaðar.
Setjið matarlit í eggjahvíturnar og blandið þeim svo við flórsykursblönduna.
Setjið deig í sprautupoka og sprautið út deiginu í litlar hringlóttar kökur á smjörpappír sem er á bökunarplötu. Látið þær standa í klukkutíma eða þar til það hefur myndast utan á þeim skel.
Hitið í ofnu við 150°c í 12-15 mín. (Kannski ögn lengur).
Vanillu appelsínukrem
- 1 dós (250 g) rjómaostur
- 1 vanillustöng
- 2 msk appelsínusafi
- 2 msk flórsykur
Skafið vanilluna úr stönginni (einnig hægt að nota 1 tsk vanilludropa). Blandið öllu hráefni saman og hrærið því vel saman.
Takið tvær makkarónur og setjið kremið á milli. Geymið í kæli.
Hér er mjög fín síða um makkarónur og hvað gæti betur farið ef eitthvað fer úrskeiðis.
Flokkur: Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 13:28 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.