14.6.2011 | 22:54
Smokkfiskssamloka
Ég er ekki mikið fyrir smokkfisk, aðallega því mér finnst ég oft fá seiga bita og það er fátt leiðinlegra en að borða mat sem þarf að tyggja endalaust.
En kærastanum finnst smokkfiskur mjög góður og því ákvað ég í tilefni af afmælisdegi hans að elda eitthvað úr smokkfisk.
Ég rakst á uppskrift í blaði sem var tileinkað samlokum og þar á meðal var smokkfisks samloka sem hljómaði mjög spennandi. Ég hafði hana til hliðsjónar þegar ég bjó til þessa, sem var rosalega góð og ekkert ólseigt við smokkfiskinn að þessu sinni.
Galdurinn hér er ferskt fennel og slatti af fersku basil og kóríander ásamt alvöru mæjónesi, ég nota eiginlega aldrei mæjónes, en það var rosa gott hér og ég mæli með því.
Smokkfiskssamloka (fyrir 2)
- Gott baguette eða annað samlokubrauð (ciabatta t.d)
- 1/2 bolli mæjónes
- 1-2 msk Sriracha hot sauce
- 1 tsk mulinn þurrkaður chili
- 1 msk matarolía og slatta í viðbót til að djúpsteikja úr
- 2-3 rif hvítlaukur
- 1/2 græn paprika
- 2 smokkfiskar (1 pakki)
- Bjórdeig (1 dl hveiti og slatta af bjór)
- 1 góður vöndur af fersku basil
- Slatta af fersku kóríander
- Agúrka, skorin langsum í þunna strimla
- 1/4 fennel, skorið í þunnar sneiðar langsum
- 1 lime
- Salt og pipar
Dágóður hráefnislisti, en ekki svo flókin eldamennska.
Sósan:Hrærir saman mæjó, sriracha sósu og chiliflögunum. Setjið í kæli.
Hitið olíu á pönnu, 1 msk eða svo og mýkið papriku sem þið hafið skorið í þunna strimla og svitið hvítlauk. (Hér mætti setja út í 1 msk af fiskisósu, en ég gerði það reyndar ekki). Takið pönnuna af hellunni og setjið til hliðar.
Hitið olíu í potti til djúpsteikingar
Bjórdeig:Setjið dl af hveiti í skál og hellið saman við bjór þar til þið eruð komin með deig sem svipar til vöffludeigs. Skerið smokkfiskinn í sneiðar svo úr verða hringir. Dýfið honum í bjórdeigið og djúpsteikið. Það fer eftir hita olíunnar og svona hversu lengi þið þurfið að steikja fiskinn, en ég miðaði við þar til deigið var gullinbrúnt, eða um eina mínútu kannski ein og hálf.
Takið smokkfiskinn úr olíunni og setjið á disk með eldhúspappír.
Ég skellti mínu baguette í panini grillið. Svo smyr ég smá mæjósósu á báða helminga brauðsins, skelli þar ofan á paprikunni, fennel, agúrku, kóríander og basil. Toppa þetta með djúpsteikta smokkfisknum. Lime sker ég í þunna litla bita og dreifi þeim ofan á fiskinn. Restina af lime skar ég í báta og bar fram með samlokunni. Saltið og piprið eftir smekk.
Sriracha sósan er sterk chili sósa, ég veit ekki hvort hún fæst hér, en að væri á helst í asísku búðunum. Mér finnst nú samt eins og ég hafi séð hana einhversstaðar, þetta er svo vinsæl sósa. Í staðin fyrir þessa sósu væri hægt að nota einhverja chilisósu, en þó ekki súrsæta. Og jafnvel smá dropa af tabaskó ef þið eruð ekki með sterka chilisósu.
Flokkur: Matur og drykkur | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.