Gaman að segja frá því og talandi um kjötbollur. Eftir að ég skrifaði þessa færslu fór ég að elda kvöldmat og endaði á að gera bestu kjötbollur sem ég hef gert! Hvorki meira né minna og það er fyndið því þessi færsla fjallar um góðar kjötbollur. Og til að hafa þessa færslu ekki of langa þá kem ég með uppskriftina af kjötbollum kvöldsins á morgun sem er næstum því hinar fullkomnu kjötbollur.
Og þá hefst lesturinn:
Það gerir gæfumun að hægelda tómata, setja þá í ofninn á lágan hita í nokkra klukkutíma.
Það er rosalega gott með kjötbollum. Ég er alltaf að leita að hinum fullkomnu ítölsku kjötbollum. Ég hef ekki enn fundið þær og enn hefur mér ekki tekist að búa þær til sjálf.
Ég datt niður á rosalega heimilislegan ítalskan stað í New York, þetta var eins og að vera komin í eldhúsið hjá ama de la casa, ítölsku ömmu gömlu. Maður labbaði inn langan gang þar til maður kom inn í eldhús með nokkrum stólum og borðum. Þar fékk ég mjög góðar bollur og þær voru svo mjúkar, mér finnst mínar oft verða eitthvað svo steiktar...
Og þetta var svona kjötbollur í sub, lungamjúku brauði.
Ég bjó til kjötbollur fyrir 5 rétta matarboðið, þær voru góðar, en ekki fullkomnar. Ég held að eldunartími sé stórt atriði í að fá þær mjúkar og góðar. Eins hef ég heyrt að gott sé að blanda saman kjöti, ég prófaði það, var með svínahakk, kálfalundir og nautahakk. Svo er málið að vera með góða fitu prósentu, gott krydd og bindiefni svo þær verði ekki lausar í sér.
Gamla góða uppskriftin með ritz kexi og púrrulaukssúpu er klassík, en ekki alveg þessi hefðbundna ítalska eins og ég er að leita að.
Hér er uppskriftin eins og gerði fyrir boðið góða. Ég held að málið sé að steikja þær ekki um of heldur leyfa þeim að eldast í tómatsósunni.
Ítalskar kjötbollur með hægelduðum kirsuberjatómötum og baguette með hvítlauksmauki
- 150 g svínahakk
- 100 g kálfalundir
- 150 g nautahakk
- 1 egg + extra eggjarauða
- 1 dl rifinn parmasnostur
- 1/2 dl steinselja
- Salt
- Pipar
- 1 dl brauðrasp (bleytið aðeins í því)
- Hvítlaukur
Hakkið kjötið og blandið öllu vel saman í skál, mótið úr þessu bollur, aðeins minni en golfkúlur. Létt steikið þær við vægan hita upp úr olíu. Klárið að elda þær í tómatsósunni...
...sem gæti hljóðað svona...
- Tómatar í dós
- hvítlaukur
- Agave sýróp
- Balsamic edik
Allt látið malla.
Hægeldaðir tómatar
- Tómatar (ég notaði kirsuberjatómata)
- Salt
- Pipar
- Hvítlaukur
- Ólífuolía
Skerið tómatana til helminga, raðið þeim á bökunarplötu á bökunarpappír. Dreypið yfir ólífuolíu, saltið og piprið. Skellið nokkrum hvítlaukum með í ofninn, án þess að taka þá úr hýðinu.
Eldið í 120°heitum ofni í 3 klst.
Hvítlaukinn tók ég síðan úr hýðinu og maukaði og smurði það á baguette.
Svo þegar þið eruð búin að elda tómatana þá mætti bræða saman í potti ólífuolíu og sykur og pensla tómatana með því.
Sykurgljái
- 1 msk sykur
- 4 msk ólífuolía
- krydd, t.d 4 msk ferskt oregano
Bræðið sykur í ólífuolíu í potti, bætið við kryddi. Penslið tómata með blöndunni.
Flokkur: Matur og drykkur | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.