14.3.2011 | 20:44
Micro greens - dvergsalat...DAGUR 1
Ég ætla að leyfa ykkur að fylgjast með mér næstu 5 daga rækta annarsvegar brokkólífræ í mold og hinsvegar sólblómafræ í gosflösku. Ég setti sólblómafræ í mold um daginn, þau spruttu svo fallega á 5 dögum og smökkuðust mjög vel.
Ég veit nú ekki alveg hver þýðingin er á þessum smávöxnu salatspírum en á ensku heitir þetta micro greens.
Það er hægt að búa til svona úr allskonar fræjum, brokkólí, radísum, alfalfa, sinnepsfræjum, sólblómafræjum, linsum, mung og svo mætti lengi telja...
Það er hægt að kaupa fræ sem eru sérstaklega til að spíra í Garðheimum og Hagkaup t.d og svo má kaupa linsubaunir eða mung baunir í matvöruverslunum.
Þið hafið eflaust séð í matvöruverslunum í grænmetinu tilbúnar baunaspírur og alfalfa. Það er skemmtileg tilbreyting að bæta þeim út í salöt eða á samlokur.
Mér finnst skemmtilegra að rækta fræin sem micro greens frekar en að spíra þau. Um að gera að prófa báðar aðferðirnar.
Dagur 1. Brokkólífræ
Setjið mold í lítinn blómapott eða undirskál undir potta eins og ég nota hér. Stráið um 30-40 fræjum í moldina, setjið örþunnt lag af mold yfir fræin og vökvið vel.
Passið að hafa moldina alltaf raka.
Dagur 1. Sólblómafræ
Setjið Sólblómafræ í plastflösku og setjið vatn í hana til hálfs og látið standa í u.þ.b 8 klst. Ég geri lítið magn og nota hálfs lítra flösku, ef þið viljið gera meira þá er upplagt að nota tveggja lítra flösku.
Tæmið flöskuna af vatninu eftir 8 tíma og skolið fræin með að skola vatni í hana 2-3 sinnum. (Til að fræin fari ekki með vatninu hef ég notað þumalputtan til að stoppa þau af, einnig er hægt að nota sigti eða setja grisju fyrir lokið og festa hana með teygju.
Leggið flöskuna á hliðina (eftir að hafa tæmt hana af vatni) og látið liggja þannig í hálfan sólarhring. (En þá munum við skola fræin á ný). Ég miða við að skola þau kvölds og morgna.
(Það er algengast að nota krukku með neti til að spíra fræ, en me´r finnst plastflöskurnar virka vel einnig)
Flokkur: Matur og drykkur | Breytt 15.3.2011 kl. 16:19 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.