16.3.2011 | 10:20
Gerlaust naan brauð
Ég er að reyna að gera gott naan, svona eins og maður fær á virkilega góðum indverskum stöðum. En þar sem ég á ekki tandoori ofn veit ég nú ekki hvort mér eigi eftir að takast það.
Ég fylgdi uppskrift sem ég fann í eldgamalli indverskri matreiðslubók. Þar er ekki notað neitt ger. Hráefni er blandað saman og látið standa í 6-8 klst.
Naan
- 450 g hveiti
- 2 eggjahvítur
- 1 msk smjör
- 1 1/2 tsk sykur
- 5 dl ab mjólk eða jógúrt
- 1 tsk salt
- Vatn eftir þörf (1/2 dl eða jafnvel minna)
Blandið öllu saman í skál nema vatni og hnoðið (með höndum eða í hrærivél) Bætið við vatni ef þess þarf. (Mér finnst ab mjólkið svo blaut að ég notaði rétt 3-4 msk af vatni)
Hnoðið þar til deigið er mjúkt og fínt. Breiðið yfir skálina (filmu, plastpoka eða rakann klút) og látið standa í 6-8 tíma út á borði.
Skiptið svo deiginu í kúlur, ca á stærð við tennisbolta og fletjið út í ílanga hringi. (Ef deigið klístrast við hendurnar þá má strá örlitlu hveiti á það).
Bakið í vel heitum ofni í 5- 10 mínútur. Fylgist bara vel með brauðunum og takið út þegar þau eru tilbúin. Ég hafði brauðin í 250° heitum ofni í 4- 5 mín. Ekki hafa þau of lengi í ofninum svo þau verði ekki hörð.
Ég held að leirofninn hefði komið sterkur inn :P
Ég á eftir smá afgang af deiginu sem er búið að hvíla inn í ísskáp. Ég ætla að prófa að setja það á pönnuna á eftir.
Þetta smakkaðist ljómandi vel með Lamb Vindaloo. Ég notaði Lamb Vindaloo frá The Cape herb and spice company.
Uppskrift fylgir kryddinum á umbúðunum, Ásamt kryddunum fór í réttinn tómatar úr dós, ab mjólk og laukur, hvítlaukur og ferskt engifer. Einfalt og smakkaðist mjög ferskt. Þetta er frekar sterkur réttur.
Flokkur: Matur og drykkur | Facebook
Athugasemdir
Lúkkið á naan-inu er mjög girnilegt hjá þér. Besta naan-uppskrift sem ég hef fengið er í sænskri matreiðslubók sem ég á uppi á háalofti en þar sem letin kemur í veg fyrir að ég sæki hana (þar hefur hún verið síðan í júlí 2004 þegar ég flutti til útlanda í eitt ár og ekki verið tekin niður aftur) hef ég ekki bakað verulega gott naan-brauð í nærri sjö ár! Svona fer letin með fólk. Bókin heitir Indiska kokboken og í henni eru dásamlegar uppskriftir, ekki flóknar þótt manni virðist það kannski við fyrstu sýn en come on, þetta er indverskur matur! Ég man hins vegar að ég grillaði þetta alltaf í ofninum mínum við 275 gráður og fékk jafnvel enn dekkri bletti en þú virðist fá á þitt brauð, næstum svarta og eiginlega dálítið "authentic" indverska. Ef þú þekkir einhvern sem á leið til Svíþjóðar... Eða ef ég skyldi nenna að taka niður kassana með matreiðslubókunum þá skal ég senda þér uppskriftina...
Nanna Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 16.3.2011 kl. 11:07
Já! Svörtu blettirnir eru nefnilega must finnst mér. Ég prófaði að elda brauðið á pönnu og þá komu þeir, en best af öllu finnst mér að elda naan og roti á útigrilli. Þá púffast það flott út og það fær á sig þessa fínu bletti.
Prófa næst að setja ofninn á grill, það gæti virkað.
Kannast við letina...
Soffía Gísladóttir, 16.3.2011 kl. 13:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.