9.11.2010 | 20:49
Heilt lamb, en hauslaust - á teini
Við buðum nágrönnunum í mat, og þar sem við eigum svo góða granna þá sáu þeir um að koma með heilt lamb og heimasmíðað grill til að grilla það í. Svona leit dýrðin út.
Niðamyrkur, skítakuldi, snjókoma, góð vín, gott fólk og smá ylur frá grillinu, sem var að þreyta sína frumraun og því rákum við okkur á hvað betur mátti fara á meðan við grilluðum.
En það kom ekki að sök. Í sveitinni okkar er fólk sem segir að það séu ekki til vandamál heldur verkefni.
Það kom vel fram þegar í ljós kom að við vorum frekar að heitreykja lambið en að grilla það, en þá var nú bara náð í slípirokk og fleiri göt sett í botninn á grillinu ....á meðan lambið snérist á teininum.
Alltaf gott að hafa slípirokkinn við höndina þegar maður grillar
Og nokkrum klukkutímum síðar fengum við að smakka snilldina. Þetta var alvöru mjólkurlamb, bragðið var ljúft og kjötið meyrt.
"Ég bað um lamb á teini, hér er teinninn er hvar er lambið?" (Skaupið ´85 .....klassík!)
Meðlætið var klassískt, en grannarnir komu allir með eitthvað góðgæti. Einn sá um salat, annar bakaðar kartöflur, og svo voru þar heimabakaðar brauðbollur, köld sósa og epla og piparmyntuhlaup. Við gerðum einfalda marineringu til að leyfa kjötinu að njóta sín, sólblóma og ólífuolía, smá hvítlaukur, lamb islandia og ponsu pistasíublanda frá Yndisauka og aðalkryddið í þessu lambi var stemmningin við eldamennskuna og í veislunni sem gleymist seint.
Tilefnið var síðbúin haustgleði.
Flokkur: Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 23:48 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.