9.5.2012 | 10:19
Hrökkbrauð - HEIMAGERT ER BEZT
HEIMAGERT ER BEZT
Næstu færslur verða svolítið litaðar af "Heimagert er bezt". Ég er svolítið að hugsa upphátt í þessum færslum. Ég er mikið búin að vera að elda eins og ég get frá grunni og pæla mikið í hráefnisnotkun og hvaðan hráefnið kemur. Ég hef sniðgengið tilbúin mat í langan tíma, ég kaupi aldrei frosin tilbúin mat og nánast aldrei krukku eða pakkamat.
Síðasta árið hef ég farið skrefinu lengra og gert meir og minna allt sem ég get sjálf, það bætist sífellt við listann hlutir sem ég geri sjálf. Það er seint hægt að segja að það sé sparnaður í því. Því miður er það oftast dýrara að gera hlutina sjálfur frá grunni, nema kannski það sem inniheldur bara hveiti, vatn og egg eins og ýmis brauð, núðlur og pasta.
En það er samt þess virði. Maður gerir sér betur grein fyrir því sem maður lætur ofan í sig, maður er laus við MSG og önnur óæskileg efni. Sykurmagninu stjórnar maður sjálfur! Það er stór plús miðað við hvað allt er orðið dísætt. Fyrir utan það að mér finnst gaman að elda og spá og spekúlera í hráefni.
Ég er þó ekki í einhverju sem í dag telst til heilsufæðis, því ég baka, nota hvítt hveiti og sykur. Þetta er bara venjulegur matur, en hann er heimagerður og þá er maður líka laus við mikinn óþverra, og fyrir vikið borða ég einfaldari mat og mikið af fersku grænmeti.
Stundum getur þetta verið tímafrekt, en ekki alltaf. Mér finnst þeim tíma vel varið sem ég eyði í eldhúsinu í að gera góðan mat fyrir fjölskylduna. (Mér finnst skemmtileg hugmyndin um ítölsku húsmóðurina í litlum falleg bæ sem er alltaf í eldhúsinu með fullt af fersku grænmeti frá markaðinum og nýtíndum sítrónum, svo ilmandi ferskum og tómatsósan hennar með kjötbollunum sú besta í þorpinu. Þið sjáið hana kannski fyrir ykkur).
Hér er listi yfir nokkra hluti sem dettur í hug að svo stöddu sem auðvelt er að gera sjálfur og smakkast svo vel heimagert.
- Pasta
- Asískar núðlur
- Brauð
- Sultur
- Ís
- Kex
- Thai sweet chili sósu
- Tómatsósa
- Granola bar
- Musli
- Kjötfars
- Fiskfars
- Tortilla kökur
- Kínverskar kökur
- Vorrúllur (og deigið)
- Osta
- Smjör
- Jógúrt
- Kæfur
Ég er búin að lesa margar hrökkbrauðsuppskriftir, hlutföllin eru yfirleitt svipuð, sumir nota rúgmjöl, aðrir spelt eða hveiti, yfirleitt er notað haframjöl og svo nokkrir dl af fræjum. Einhverjir nota dl af olíu, aðrir bara matskeið.
Sumir baka í langan tíma við lágan hita, aðrir hærri hita í styttri tíma.
Ég átti ekki rúgmjöl en átti spelt þannig að ég notaði það. Næst ætla ég að nota rúgmjöl og minna af fræjum.
Hrökkbrauð
- 2 dl Spelthveiti (eða venjulegt, eða rúgmjöl)
- 1 dl haframjöl
- 2 dl fræ (5 korna blanda, graskersfræ og sólblómafræ)
- 1 tsk Maldon salt
- 4 msk matarolía
- 1 dl vatn
Öllu hrært saman. Smurt út á bökunarpappír á ofnplötu. Ég flatti þetta bara út með bakinu á skeið en það er líka hægt að leggja bökunarpappír ofan á deigið og fletja út með kökukefli. Potið í þær með gaffli,
Ég hafði mínar frekar þunnar, en ekkert of.
Ég bakaði þær í 30 mín við 170°c. Svo slökkti ég á ofninum en tók þær ekki út strax. Þær voru þó alveg full bakaðar eftir þessar 30 mín.
Uppskrift af sænsku hrökkbrauði sem gaman væri að prófa er:
- 1 1/3 bolli rúgmjöl
- 3/4 tsk sykur
- 1/4 tsk salt
- 4 msk smjör
- 1/3 bolli mjólk
(1 bolli er 2,4 d) Öllu blandað saman í matvinnsluvél, nema mjólk. Svo bætið þið við mjólkinni og fáið gott deig, fletjið það út og skerið í ferninga, stingið á það göt og bakið í ofni við ca 170 í 10 -15 mín.