Hversdagslífið tekið við og 45 krydda blandan

Ég vona að þið hafið fengið ykkur páskaegg með góðri samvisku þetta árið því það er svo hol(l)t að innan.  Er það bara ég eða spændust þessi egg upp eitthvað fyrr en í gamla daga.  Ég man þegar maður var lítill þá gat maður verið að maula á einu eggi alla páskana.  Nú setti ég brotið eggið á disk og það var horfið áður en ég gat lesið málsháttinn.  

Við vorum svo heppin að eyða páskadeginum með nágrönnum okkar hér í sveitinni. Fyrst var farið í brunch til bændanna.

Þar eru skemmtilegir siðir sem húsfrúin kom með sér frá Sviss, þaðan sem hún er. Fyrri siðurinn er að bjóða upp á freyðivín eða Mimosa, ekki slæmur siður það og hinn er einhverskonar eggjaleikur.

 paskahefdir

Hún litar eggin með náttúrulegum litum, sýður þau með t.d lúsum eða laufum og fær þannig á þau mjög fallega liti. Þessi egg eru ekki hol að innan heldur eru þau soðin í öllu sínu veldi og síðan borðuð. En leikurinn er sá að tveir skella saman eggjum sínum og ef eggið þitt brotnar ekki þá máttu ekki borða það fyrr en einhver annar er með egg til að skella saman við þitt egg þar til það brotnar.

Brunchinn var svo ekki af verri endanum.  Margt girnilegt í boði, enda miklir matgæðingar hér á ferð, professional matgæðingar sem reka nautabú og sælkeraverslunina Matarbúrið hér í Kjós.

nautatunga 

Það sem mér fannst sérstaklega spennandi var nautatungan.  Hún var svo meir og bragðgóð, alveg lungamjúk, eða ætti ég að segja tungumjúk?

Svo var farið heim og slakað á því ekki þurfti ég að sinna kvöldmat heldur.  Nágrannarnir hér við hliðina á okkur komu nefnilega í heimsókn kvöldið áður og tóku með sér lambalærið mitt þegar þeir fóru.

Þau lumuðu á allskyns marakóskum  kryddum og vildu bjóða okkur í páskamat. Þessir nágrannar eru einnig listakokkar (voðalega er ég heppin með nágranna, allir snillingar í eldhúsinu og hafa gaman að þvi).

 lambalæri

Úr varð að þau tóku lærið því fátt fer betur saman en marokkósk krydd og lamb.  Og ekki sé ég eftir því.  Lambið smakkaðist ótrúlega vel og meðlætið var brilliant og félagsskapurinn draumur einn, því fyrir utan nágrannana í næsta húsi komu líka bændahjónin sem buðu okkur í brönsinn.

Eins og góðum kokki víst sæmir þá var ekki farið eftir neinni sérstakri uppskrift og kryddin sem voru notuð fást ekki hér, en þar var m.a ilmandi cumin og kryddblanda sem nefnist 45 krydda blandan.

Í Marakkó er hver kryddsali með sína eigin "45 krydda blöndu" sem getur þó innihaldið allt að 100 krydd.   Þessi blanda nefnist Ras el hanout og er blandað saman af bestu kryddum salans.

Það er smá lesning um Ras el Hanout á wikipedia

 lambalæri

Einnig fór í pottinn sæt kartafla og laukur.  Meðlætið var svo kryddaðar sveskjur, lambasoðið, kartöflur og jógúrtsósa.  Ég sá um að gera sósuna og reyndi að hafa hana í marókóskum stíl.  Því miður átti ég ekki myntu, en myndi eflaust bæta henni við næst svona upp á stílinn.

Magnið í þessari uppskrift er ekki svo nojið. Ég mæli með að þið smakkið hana til.   

jógúrtsósa 

Jógúrtsósa 

  • Grísk jógúrt
  • Rifin agúrka 
  • Rifinn sítrónubörkur
  • Ferskur sítrónusafi
  • Fersk mynta
  • Hvítlaukur 
  • Salt
  • Smá pipar

Öllu blandað vel saman í skál.  Rífið agúrkuna með rifjárni.

Þetta voru með skemmtilegustu páskum sem ég man eftir.  

Heilaga þrenningin var til staðar, góður matur, góð vín

og góðir vinir.

Þið fáið svo uppskrift af brálæðislega góðum eftirrétt næst, ég er að meina það, BRJÁLÆÐISLEGA góður! : ) 


Bloggfærslur 12. apríl 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband