11.2.2011 | 18:40
Heimagert límonaðe getur bjargað ekki besta rauðvíni í heimi
Ég var að drekka rauðvín með vinkonu minni úr belju sem okkur þótti ekki sérlega gott. Þannig að við brugðum á það ráð að blanda því saman við límónaðe úr nýkreistum sítrónum.
Þá lifnaði rauðvínið við og við sötruðum á yndislegum svaladrykk, sem er ekki ósvipaður sangríu eða Tinto de verano.
Límonaðe
- 2 dl sykur
- 2 dl vatn
- 2 dl sítrónusafi, kreistur úr ferskum sítrónum.
- 700 ml af vatni eða eftir smekk, til að blanda út í að lokum
- Gerið sýróp með því að hita sykur og vatn í potti þar til sykurinn er bráðnaður.
- Kreistið safa úr 4-6 sítrónum (u.þ.b 2 dl)
Setjið sítrónusafann í könnu og bætið sykurblöndunni (sýrópinu) saman við.
Hrærið þessu saman og bætið við vatni til að þynna þetta út, það fer eftir smekk, hversu bragðmikið þið viljið límonaðið, smakkið ykkur bara til.
Kælið í klukkustund.
Berið fram með klökum og sítrónusneiðum, og ef til vill góðri slettu af ekki besta rauðvíni í heimi.