19.11.2010 | 16:48
Plokkfiskur með vorlauk
Hafið þið einhvertíma spáð í hvernig aspas vex? Það hafði ég ekki gert fyrr en um daginn, og fannst krúttlegt að sjá myndir af aspasstönglum gægjast upp úr moldinni. Þið getið t.d séð myndir hér á þessari síðu.
Annars er hér einföld uppskrift af plokkfisk með vorlauk.
Mér finnst vorlaukurinn rosa góður í plokkfisk og mun nota hann aftur næst þegar ég geri plokkara.
- 500 g ýsa
- 1/2 dl soð af fiskinum
- 5-6 meðalstórar kartöflur
- 3 vorlaukar
- 25 g smjör
- 2-3 msk hveiti
- Mjólk eftir þörfum (u.þ.b 2,5 - 3 dl)
- 1 egg
- Salt
- Pipar (bæði svartur og ca 1 tsk hvítur)
Sjóðið fisk og kartöflur. Bræðið smá smjör og svitið laukinn, bætið við rest af smjöri og bræðið. Bætið við hveiti og búið til smjörbollu. Leysið hana upp með mjólkinni og fiskisoðinu. Skrælið kartöflur og skerið í hæfilega munnbita. Bætið fiski og kartöflum við hvítu sósuna ásamt því að brjóta eitt egg út í plokkfiskinn og hræra því vel við. Saltið og piprið vel. Látið malla í nokkrar mínútur.
Berið fram með rúgbrauði og smjöri og extra skammti af salti og pipar.