27.11.2011 | 11:09
Einfalt brauð og blessuð börnin sem koma með jólaskapið
Fyrsti í aðventu, yndislega jólalegt úti og loksins get ég farið að setja upp jólaljósin, farið að taka jólabaksturinn alvarlega og yfir höfuð farið að sinna öll því sem við kemur jólum, ég ætla að vera extra jólaleg í ár og er búin að safna í föndur og allt.
Það er af sem áður var, því það má með sanni segja að það er önnur stemmning þegar maður er komin með barn. Nú er fátt skemmtilegra en að baka smákökur, jólaföndrað, horfa á jólalegar teiknimyndir, fá sér heitt kakó með rjóma eftir að hafa eytt deginum í að búa til snjókarl og fara á sleða (og fara í húsdýragarðinn....sem að öllu jöfnu hefði aldrei hvarflað að mér að gera).
Hér áður fyrr voru jólin svona:
Á 3ja glasi einhvertíma fyrir jólin var keyptur miði til Frakklands og tveim dögum síðar var maður lentur og farin að gæða sér á fois gras, dýrindis rauðvínum, dásamlegum pulsu og ostadiskum í 3 vikur yfir jól og áramót.
Gleðileg jól í Frakklandi
Eða þessum hátíðisdögum var eytt með vinum í Tékklandi þar sem gengið var um allar fallegu göturnar í Prag á milli þess sem maður fékk sér gin og tonic og tékkneskan bud ásamt því að heimsækja sjálfa verksmiðjuna til að gæða sér á þessum guðaveigum beint af kúnni.
Aðfangadegi var eitt sinn eitt í Kristjaníu með öllum þeim sem höfðu ekki efni á mat á jólum, áttu engan að eða bara vildu góðan mat og félagsskap voru velkomnir. Hápunkturinn var þegar Olsen bræður mættu á svið og tóku Fly on the wings of love....what not to love about that???
Spánn, Danmörk, Kanada, Tékkland, Frakkland, England....jólunum hefur verið eitt víða um heim og alltaf verið jólalegt og ótrúlega gaman. Já, það er af sem áður var en það alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt og í mínu tilfelli er það nýjung að fara í húsdýragarðinn, baka smákökur og skeppa á Austurvöll og horfa á jólatréð í allri sinni dýrð.
Jæja, það á að gefa börnum brauð.
Mér finnst brauð með allskonar kornum og fræjum svo gott. Þetta brauð er svolítið þétt í sér, en það er allt í lagi ef það er borið fram nýbakað þannig að smjörið bráðni á því.
Hér er ekkert ger og ég blandaði hráefninu létt saman í kitchen aid, það er samt ekkert mál að gera þetta í höndum, því það þarf alls ekki að hnoða mikið, bara rétt nóg til að blanda öllu vel saman.
Það stóð til að búa til súpu og bera fram brauðið með henni sm kvöldmat, en það var svo gott svona nýkomið úr ofninum að það kláraðist samstundis.
Kornbollur
- 1 dl hafrar
- 2 dl spelt (eða hveiti eða heilhveiti)
- 2 dl fræ (Ég notaði sólblómafræ, 5 kornablöndu og sesame fræ)
- 1tsk lyftiduft
- 3 msk sýróp
- 2 tsk salt
- 2 dl vatn (eða eftir þörfum)
Öllu hnoðað saman, gerið bollur eða mótið í hleif.
Ég gerði bollur, bakaði þær við 200°c í ca 20 mín.
Matur og drykkur | Breytt 5.12.2011 kl. 13:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.11.2011 | 18:00
Kjúklingabitar með cashew hnetum og indverskum kryddum
Ég á stundum kjúklingabita í frysti, leggir, læri og vængir. Margt gott hægt að gera við það. Að þessu sinni fór ég út í indverskt þema.
Ég var ekki með uppskrift heldur nýtti það sem til var og spilaði þetta jafnóðum. Ég átti Cashew hnetur sem mig langaði að nota. Þannig að það var grunnurinn.
Þetta var mjöööööög mjög bragðgóður réttur.
Indverskur kjúklingaréttur
- Kjúklingabitar
- 1 poki cashew hnetur
- 2-3 msk ólífuolía
- 1 dós tómatar
- 1/2 laukur
- 2 hvítlauksrif
- Salt
- Pipar
- 1 -2 tsk Durban krydd
- 3-4 msk sýrður rjómi (eða jógúrt sem ég hefði frekar notað ef það hefði verið til)
- 3-4 msk smjör
Saltið og piprið kjúklinginn og setjið í eldfast fat. Eldið í ofni við 200°c í klst eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Þetta geri ég því stundum vil ég ekki það sem lekur úr kjúklingnum í réttinn.
Allt nema kjúkling og smjör setti ég í matvinnsluvél og maukaði í sósu. Sósuna setti ég á pönnu og hitaði hana upp, setti kjúklinginn út í og lét malla á meðan ég gerði hrísgrjón og naan. Í lokin bætti ég við smjöri í sósuna og hrærði því saman þar til það bráðnaði.
Naan brauðið var afgangur af pizzadeigi, flatt út og steikt á pönnu. Annað meðlæti var hrísgrjón, mangó chutney og agúrkusalat, svo er alltaf gott að hafa Raita.
Þetta er kryddið sem ég notaði, fékk það í Nóatúni einhvertíma. Það má nota hvaða indverska krydd í þennan rétt. Bara það sem ykkur finnst gott.
12.11.2011 | 15:48
Piparkökur
Það er ekki seinna vænna en að fara að æfa piparkökubaksturinn. Það er orðið ansi langt síðan ég bakaði piparkökur og komst að því í gær að maður þarf að æfa sig.
Ég er með ágætis uppskrift. Gamla uppskrift frá tengdó og þar heita þær Sýrópskökur.
Það sem maður þarf að hafa í huga er bökunartíminn, fyrsti skammturinn hjá mér varð of dökkur þannig að ég endaði á að hafa þær inn í ofninum í aðeins 10 mín. Það var miðað við 200°c. Ég mætti kannski lækka hitann eitthvað aðeins. Þær virtust samt alveg bakaðar hjá mér eftir 10 mín enda í þynnri kantinum.
Ég gúgglaði líka heil ósköp af uppskriftum. Flestar amerískar uppskriftir eru eins og þær sem ég er með en þær íslensku bæta gjarnan við mjólk eða vatni.
Piparkökur
- 250 g hveiti
- 125 g sykur
- 75 g smjör
- 1/2 bolli sýróp (150 g)
- 1 tsk kanill
- 1 tsk negull
- 1 tsk engifer
- 1 tsk matarsódi
- 1 egg
Það var sérstaklega tekið fram að nota Golden sýrópið í grænu dósunum.
Blandið öllu saman í hrærivél. (Ég skellti öllu í skálina og hrærði vel saman í ca 1 mín, það gekk vel. Veit ekki hvort það sé eitthvað betra að byrja fyrst á að hræra saman sykri og smjöri og svo þurrefnum, eða hvort þetta komi út á það sama...deigið hjá mér varð a.m.k mjög fallegt).
Látið deigið standa í 1-2 klst í ísskáp eða jafnvel yfir nótt.
Takið deigið út úr ísskápnum, fletjið það út með kökukefli í þá þykkt sem þið viljið, mínar voru rétt undir 1/2 cm. Mig langar líka til að prófa að hafa þær aðeins þykkari næst, svona í bland.
Skerið út með piparkökumótum eða hvernig sem þið viljið gera það...
Í uppskriftinni minni er talað um að hafa ofninn á 200°c, kannski ég prófi næst 180°c. Ofnar eru misjafnir, og hér verður hver og einn að þreifa sig áfram og miða við þykkt piparkökunnar.
Ég ætlaði að setja á blástur og baka á 2 hæðum, það var ekki að gera sig. Ég er ekki nógu reyndur bakari til að gera svoleiðis töfrabrögð.
Ég fór ekki út í það að skreyta þær að þessu sinni því þetta var bara æfing. En ég sé alveg fyrir mér piparkökubakstur með tilheyrandi glassúrskreytingum, jólaöl og gömul góð jólalög á fyrsta í aðventu eða fljótlega í des.
Mér finnst alltaf svo margt skemmtilegt á pinterest.com og gaman að leita þar að hugmyndum og ef ykkur vantar piparkökuuhugmyndir þá er nóg af þeim hér.
9.11.2011 | 10:17
Viðbrenndir pottar verða sem nýjir - Uppþvottavéladuft og vatn
Ég átti tvo potta sem ég var hætt að nota því ég hafði brennt eitthvað við og þeir voru svartir í botninum og það gekk ekki að þrífa þá með sápuvatni.
Ég setti í þá botnfylli af vatni og matskeið af uppþvottavéladufti og lét það liggja í smá stund. Svo skolaði ég þá og þeir urðu glansandi fínir.
Fyrir - Eftir
3.11.2011 | 11:50
Basil pestó með möndlum - frábært á pizzuna með mossarella og tómötum.
Flestar basil pestó uppskriftir sem ég hef séð innihalda furuhnetur. Þær átti ég ekki til en ég átti möndlur og úr varð virkilega gott basil pestó.
Basil pestó
- Möndlur (ca 150 g)
- 4 stórar lúkur fersk basilíka
- 1-2 hvítlauksrif
- Ferskur rifinn parmesan ostur (1-2 dl)
- 1 tsk salt
- Ólífuolía (6 msk eða svo)
- 1 tómatur
Allt maukað í blender eða matvinnsluvél. Gott að byrja á möndlunum og olíu og mauka það saman, svo basil og rest.
Ég smurði pestóinu á pizza botn og setti ofan á það ferskan mossarella og tómata. Frábært kombó.
30.10.2011 | 19:15
Krækiberjasafi
Ég ætlaði nú að vera búin að skrifa um tilraunir mínar við að gera krækiberjasafa. Þar sem ég bý í götu sem kennd er við ber og landið þakið krækiberjum þá er ég dugleg við að tína þau með haustinu og enda með ansi mörg kíló af krækiberjum.
Ég vildi bara fá safann frá ferskum berjunum og ekki bæta neinu út í. Ég maukaði þau á þrjá vegu til að sjá hvað væri fljótlegast og besta nýtnin.
Fyrst prófaði ég djúser sem maður festir á Kitchen aid, mjög seinlegt, en virkar vel.
Svo setti ég þau í djúser, fékk næstum helmingi minna magn þannig.
Að lokum skellti ég lúku í blender með smá vatni og maukaði, bætti svo við enn fleiri berjum og maukaði. Fljótlegt og fékk helling af safa þannig. Ég sigtaði bara frá hýðið af berjunum.
Þannig að besta aðferðin var að skella þessu í blenderinn. Svo setti ég næsta skammt af berjum í blender með ausu af krækiberjadjúsinu sem ég gerði fyrst. Þannig að það fór bara smá vatn þegar ég maukaði fyrsta skammtinn.
Svo frysti ég þetta í litlum formum og klakaboxum og skelli 1-2 klökum í smoothie-inn minn á morgnana. Hollusta í hverjum sopa.
28.10.2011 | 14:10
Morgunverður morgundagsins? Huevos rancheros - besti morgunmatur í heimi og egg elduð í muffinsformi í ofni
Svartar baunir, egg, guacamole, maístortilla, tómatsalsa, ferskur mossarella. Næst þegar þið gerið brunch þá mæli ég með Huevos rancheros! Allavegana mitt uppáhald, og slatti af jalapeno og fersku kóríander.
Farið nú og finnið einhverja góða vini eða fjölskyldumeðlimi og bjóðið þeim í Huevos ranchers um helgina. :)
Ferskt, ferskt, ferskt! Svo þetta smakkist sem best þá verðið þið að nota ferskt kóríander, ferska heimagerða salsa, ferskt heimagert guacamole og heimagerðar nýsteiktar tortillur.
Huevos rancheros
- Svartar baunir, steiktar með góðgæti
- Tómat salsa
- Egg
- Mossarella, ferskur
- Guacamole eða bara avacado
- maís tortillur
- fullt af fersku kóríander
Ég geri lítið annað en að stappa avacado gróft og salta hann vel. Stundum set ég smá ferskt kóríander
Svartar baunir eru lykilatriði í Huevos rancheros.
- Svartar baunir, í dós eða soðnar
- græn paprika, smátt skorin
- Laukur, smátt skorinn
- Salt og pipar
- Ferskt kóríander
- Hvítlaukur, 2-3 rif pressuð
- Ferskur jalapeno, smátt skorinn
- Gott mexíkóskt krydd. Ég nota helst chilpotle í adobo sósu, og svo á ég líka þurrkað "smoked chilpotle" krydd. Það er líka hægt að nota taco eða burritos krydd.
Grænmetið skorið og allt steikt á pönnu í góðri olíu.
Ekki má gleyma eggjunum. Það er sniðugt að baka eggin í muffinsformi í ofni ef maður þarf að elda mörg egg í einu. Hafið ofninn á 190°c og fylgist vel með þeim, sérstaklega ef þið viljið ekki ofelda rauðuna.
Best, best, best BEST af öllu er tortillur úr masa harina hveiti, maíshveiti. Ég heyrði að hugsanlega er hægt að kaupa Masa harina í austurlensku búðinni á suðurlandsbrauð, en hef ekki tékkað á því sjálf.
En ef þið getið ekki nálgast masa harina þá getið þið bara gert venjulegar hveititortillur og þurrsteikt á pönnu eða steikt upp úr olíu. (Og þá má líka kaupa tortillur út í búð ef í hart fer :)
- Masa harina hveiti
- Volgt vatn
- Smá salt
Setjið eitthvað magn af hveiti í skál, t.d 2 dl og smá salt. Bætið við volgu vatni eftir þörfum, ca 1 dl og hrærir saman þar til þið erum komin með mjúkt deig, það má vera svolítið blautt. Búið til nokkrar kúlur á stærð við golfkúlu og fletjið þær út með því að leggja nestispoka sitthvorum megin við kúluna og þrýsta flötum diski eða skurðarbretti ofan á þær. Steikið á pönnu í mikilli olíu á báðum hliðum, ca 1 mín á hvorri hlið.
Ef maður er á annað borð að gera huevos rancheros þá er nauðsynlegt að gera heimalagaða salsasósu. Hún er svo miklu ferskari.
- Tómatar, smátt skornir
- Hvítur laukur, smátt skorinn
- Ólífuolía
- Ferskur eða niðursoðinn jalapeno, smátt skorinn
- Ferskt kóríander, smátt skorið
- Salt og pipar
Blandið öllu saman í skál. Það er hægt að sleppa jalapeno ef þið viljið hafa hana milda. Það er lykilatriði að vera með ferskt kóríander. Einnig væri hægt að merja smá hvítlauk út í.
Ég bið spænskumælandi lesendur afsökunar á að ég nenni ekki að finna rétta n-ið í jalapeno...þrátt fyrir að það meir að segja böggi mig doldið og taki enga stund laga þetta :)
26.10.2011 | 15:09
Egg soðin á pönnu
Vinur minn frá Nýja Sjálandi sagði mér að hann hefði yfirleitt gert hleypt egg á pönnu í grunnu vatni.
Þetta er ekki þessi dæmigerða aðferð því þau fletjast út og líta frekar út eins og steikt egg, en skemmtileg aðferð engu að síður, sérstaklega ef maður vill minnka við sig olíusteikingu.
Þá setur maður cm lag af vatni á pönnu og brýtur eggin út í, allt nákvæmlega eins og ef um olíu væri að ræða, nema bara með vatn í staðin fyrir olíu. Ef Þið hafið lok á pönnunni þá gufusjóða þau einnig og mynda húð yfir rauðuna. Ef þið viljið hafa rauðuna blauta passið ykkur þá að sjóða þau ekki of lengi
25.10.2011 | 10:51
Empañadas
Empañadas er mjög vinsælt í Suður Ameríku. Þar eru þeir með ýmsar fyllingar, meðal annars kartöflur, nautahakk, ost, grænmeti, ávexti og fleira.
Harðsoðið egg er líka mjög algengt í fyllinguna.
Ég ákvað að setja hálfgert chile con carne í mínar Empañadas, guggnaði á að setja harðsoðna eggið, prófa það síðar.
Á Wikipedia er góður fróðleikur um Empañadas.
Empañadas með nautahakki
Deig
- 4 bollar hveiti
- 2 tsk lyftiduft
- 2 tsk salt
- 1/2 bolli smjör, skorið í litla bita
- 1 bolli kalt vatn
- 1 egg, hrært með msk af vatni
Blandið öllu saman nema egginu. Hrærið vel í hrærivel. Rúllið deiginu út í litlar þunnar kökur, ca 10-12 cm í þvermál.
Hrærið eggið með vatni rétt áður en þið setjið Empañadas í ofninn, því þá penslið þið þau með egginu.
Fyllingin
- Nautahakk (ca 700 g)
- Vorlaukur
- Hvítlaukur, smátt skorin
- Paprika, smátt skorin
- Salt og pipar
- 1 dós Chili beans frá Eden
- Ferskt kóríander
Steikið hakk, papriku og lauk á pönnu, bætið við baunum og kryddi. Setjið 1-2 msk af hakki á hverja köku. Lokið henni og klemmið endanum saman með gaffli.
Hlutföll af grænmeti og kryddi er barasta eftir smekk. 1 paprika og 1 lítill laukur t.d.
Bakið í ofni við 200°c í korter eða þar til þær eru gullinbrúnar.
19.10.2011 | 14:45
Lífrænt smjör og afgangur af risotto og kjúklingnum
Það varð afgangur af kjúklingnum og risotto sem kom sér vel þegar við skelltum í lunch með nágrönnunum okkar á næsta bæ. Ekki smakkaðist þetta verra svona upphitað daginn eftir, þetta var dásamlega gott.
Rífið kjúklinginn og steikið á pönnu, bætið risottoinu við kjúklinginn og hitið. Berið fram með nýbökuðu brauði og bjóðið vinum yfir í léttan lunch.
Í Maður lifandi fæst svakalega gott smjör. Þetta er lífrænt smjör frá bændum hér í sveitinni.
Og ef þið viljið skella ykkur á opnun hjá mér á morgun milli 5-7 þá má lesa nánar um sýninguna hér.