30.9.2011 | 14:23
Bleikar pönnukökur
Pönnukökur verða fallega bleikar þegar smá rauðrófu er bætt út í deigið. Það er tilvalið að gleðja krakkana um helgina með bleikum pönnukökum. Ekki nóg með að þær eru fallegar á litinn þá eru þær líka svolítið hollar því rauðrófur eru meinhollar.
Svo mætti jafnvel búa til nokkrar barbapabbapönnukökur í leiðinni.
Bleikar pönnukökur
- Hálf rauðrófa, soðin eða ofnbökuð
- Ykkar uppáhalds pönnukökudeig
Ég ofnbakaði rauðrófuna í 2 klst við 200°c. Ekki taka skinnið af eða skera í hana eða bleyta hana áður en þið setjið hana í ofninn. Það er auðvelt að taka skinnið af þegar búið er að elda hana.
Ef ykkur vantar uppskrift af pönnukökum þá gerði ég þetta svona:
- U.þ.b 1 dl ab mjólk
- U.þ.b 1 dl hveiti
- 1 egg
- 1 tsk lyftiduft
- 1 tsk salt
- 1 msk matarolía
- Mjólk eftir þörfum
Maukið rauðrófu og ab mjólk í blender eða með töfrasprota. Blandið rest saman við og mjólk eftir þörfum, þar til pönnukökudeigið er nógu þykkt. (Ekki hafa það of þunnt svo kökurnar fá síður á sig brúna flekki).
Það má með sanni segja að maður læri ýmislegt á því að elda allar uppskriftir úr einni bók. Nú átti ég salvíu í ísskápnum sem ég þurfti að nota áður en hún eyðilegðist. Mér fannst græni liturinn í salvíunni smellpassa með þessum bleika svo ég prófaði að nota salvíu með þessum pönnukökum. Og viti menn, þeir voru jafn góðar og þær eru fallegar.
Bleikar pönnukökur með salvíu
- Pönnukökudeig með rauðrófu
- Smjör
- Fersk salvía
Bræðið smjör á pönnu. Steikið salvíu upp úr smjörinu í ca 1 mín á hvorri hlið. Leggið hana til hliðar á disk.
Gerið rauðrófupönnukökudeig.
Blandið salvíunni við pönnukökudeigið og bakið pönnukökur.
Ef þið eruð alls ekki fyrir rauðbeður þá má sleppa þeim hér og nota venjulegt pönnukökudeig, og blanda steiktri salvíu við það og elda úr því pönnukökur.
Ég ákvað að skera pönnukökurnar með hringskera svo þær fengju á sig sama form því þær voru ansi óreglulegar hjá mér, sem er svosem bara krúttlegt. En þá var ég með ræmur í afskurð og vildi nýta hann. Ég rúllaði honum upp þannig að hann leit út eins og rós. Rósina mætti svo sykra og bera þannig fram.
Rauðrófupönnukökur með salvíu er mjög mjög gott og hægt að bera þær fram á ýmsa vegu, t.d með hrísgrjónum, papriku og beikoni, eins og crepes. Svo væri hægt að skella smá sýrðum rjóma á litla rauðrófu-salvíu klatta.
Ég bar rauðbeðu-salvíu klattana fram með kjúklingi, beikonvafinn með sítrónusósu. Meir um það næst.
Endalausir möguleikar...
27.9.2011 | 22:14
Enn er eldað með Jamie Oliver - Vitið þið hvað börnin hans heita?
Ég vissi ekki að Jamie Oliver á 4 börn, síðast þegar ég vissi voru þau tvö, en svona líður tíminn. En hann er ansi frumlegur í nafnavali. Ég veit ekki hvað mannanafnanefndin hér á Íslandi myndi segja við þessu...
Elsta barnið heitir Poppy Honey, og svo eru það Daisy Boo, Petal Blossom og Buddy Bear.
Það byrjaði vel, að elda upp úr Kokkur án klæða með Jamie Oliver. Hörpudiskurinn smakkaðist mjög vel, virkilega vel heppnuð uppskrift. Ég ætla ekki að elda allar uppskriftirnar í bókinni á hverjum degi. Aðallega af því að mig langar að njóta matargerðarinnar en ekki gera þetta að kvöð.
Að þessu sinni varð Kjúklingabaunasúpa með blaðlauk fyrir valinu. Því ég átti bæði kjúklingabaunir og blaðlauk. (Ég miða hér miðað við 3 og breytti magni lítillega).
Þessi uppskrift var bæði bragðgóð og "easy peasy" eins og Jamie myndi segja.
- 1 dós kjúklingabaunir
- 4 meðalstórar soðnar skrællaðar kartöflur
- 1 stór blaðlaukur
- 1 msk ólífuolía
- Smjörklípa
- 2 hvítlauksrif
- Salt og pipar
- 1/2 L kjúklinga eða grænmetissoð (ég notaði einhvern organic grænmetistening)
- Rifinn parmasenostur
- Extra virgin ólífuolía
Fjarlægið ystu blöðin á blaðlauknum, skerið hann langsum og saxið smátt.
Hitið pönnu eða pott með msk af ólífuolíu og smá smjöri. Steikið lauk og hvítlauk sem þið saltið við vægan hita.
Látið renna af baununum, skolið þær aðeins undir köldu vatni. Bætið þeim við laukinn ásamt soðnum kartöflum og steikið í um 1 mín.
Bætið við 1/3 af soðinu og látið malla í 15 mín.
Maukið svo helminginn af súpunni (eða alla súpuna eða bara alls ekki..fer eftir því hvernig þið viljið hafa áferðina. Það var mælt með að mauka helming, svo að þið fáið bæði "smooth" áferð og "chunky" sem var mjög gott.
Bætið því sem þið maukuðuð aftur út í pottinn og restinni af soðinu og hitið upp.
Kryddið eftir smekk með salti, pipar og parmasenosti. Hellið smá extra virgin ólífuolíu út í súpuna eftir að hún er komin í skálina hjá ykkur ásamt aðeins meir af rifnum parmasenosti ef þið viljið.
Með þessu bar ég fram auðvelda brauðið sem ég gerði einnig með hörpudisknum.
Haustlitirnir eru fallegir. Það er ákveðin stemning sem fylgir haustinu, svona kósí time...
Matur og drykkur | Breytt 27.3.2013 kl. 15:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.9.2011 | 18:19
Íslenskur matur og íslenski kúrinn
Hvernig mynduð þið svara þessum spurningum?
- "What are the typical Icelandic foods?"
- "Does the Icelandic kitchen have some impacts from some foreign country?"
Í tilefni þess að Eistland fékk sjálfstæði fyrir 20 árum og að íslendingar voru fyrstir til að viðurkenna sjálfstæði þeirra var haft samband við mig hjá eistnesku matarvefriti og ég svaraði nokkrum spurningum um íslenskan mat.
Hér má lesa viðtalið en þeir sem kunna ekki eistnesku en vilja lesa þetta geta nýtt sér google translate :)
Ég gaf þeim uppskrift af rúgbrauði og plokkfisk. Þeim fannst það mjög áhugavert að hægt sé að baka rúgbrauð í heitum hverum.
Hér eru tvær uppskriftir af plokkfiski, ekki alveg þessi hefðbundna uppskrift. Ég mæli sérstaklega að prófa plokkfisk með byggmjöli, íslenskara verður það ekki.
Það er búið að vera mikið í umræðunni einhverskonar íslenskur kúr, þar sem einungis er borðað íslenskur matur. Ég hef ekki enn séð út á hvað sá kúr gengur og hversu nákvæmt farið er eftir því hvað sé íslenskt hráefni.
En þessi matarkúr er eflaust ágætur ef farið er fremur nákvæmt eftir honum því þá þarf að útiloka allt sælgæti, kex, gosdrykki, keypt brauð því hvítt hveiti er ekki íslenskt (Kornax flytur inn sitt mjöl) og ekki er ræktaður sykur hér á landi svo fátt eitt sé nefnt.
Eins getur maður ekki verslað sér skyndibita eða farið út að borða því eflaust er eitthvað ekki svo íslenskt þar á borðum, t.a.m flest grænmeti, hveiti, krydd osfv. Því mér finnst að ef maður er í "íslenska kúrnum" að þá geti maður ekki borðað papriku frá Hollandi, þótt svo hægt sé að rækta slíka hér.
Ég gerði einmitt tilraun síðasta janúar þar sem ég eldaði nánast eingöngu úr íslensku hráefni. Það var mjög fróðlegt og ég mæli með því að fólk prófi það. Eins og ég segi þá útilokar maður sykur og flest allt hveiti, nema byggið og heilhveitið frá Vallarási og Þorvaldseyri.
Ég nýtti mér byggið mjög mikið þegar ég stóð í þessari tilraun, sem og borðaði ég mikinn fisk og verslaði eingöngu íslenskt grænmeti.
Það sem er einnig skemmtilegt við þessa tilraun, að elda úr íslensku hráefni, er að eldamennskan er yfirleitt einföld. Ég hef sjaldan haft jafn oft einfaldlega FISK OG KARTÖFLUR á borðum og þennan janúarmánuð. Soðin fiskur, soðnar kartöflur og smjör! Eitthvað sem mér finnst ekki mest spennandi í heimi en samt lúmskt gott og nauðsynlegt öðru hvoru.
Það er t.d hægt að gera klatta úr íslensku hráefni og barasta sleppa sykri og lyftidufti. Byggmjöl, byggflögur, skyr, mjólk, smjör og egg.
Hér eru svo fleiri uppskriftir sem ég gerði þar sem ég nota eingöngu íslenskt hráefni:
Lasagna - eingöngu íslenskt hráefni
Byggklattar - mætti sleppa matarsóda
Steikt ýsa - ýkt steikt ýsa
Matur og drykkur | Breytt 28.9.2011 kl. 16:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.9.2011 | 20:58
Að elda allar uppskriftir upp úr einni matreiðslubók.
- 6 beikonsneiðar
- 6 hörpudiskar
- 1 msk ólífuolía
- 8 fersk salvíublöð
- Salt og pipar
- Safi úr hálfri sítrónu
- 4 msk linsubaunir, gufusoðnar með hvítlauk og rósmarín í kjúklingasoði *
- 2 lúkur af salati (það sem þið eigið eða ykkur finnst gott)
- Salat olía (sjá uppskrift hér fyrir neðan
- 1 msk sítrónusafi
- 2 msk ólífuolía
- Salt og pipar
- 2 tsk ger
- 1 tsk sykur
- 1/2 glas volgt vatn
- (láta freyða)
- Bæta við 1 glasi af hveiti og hálfu vatnsglasi til viðbótar
- Strá út í fræjunum. Hræra þessu saman með gaffli. Bæta við hveiti eftir þörfum.
Matur og drykkur | Breytt 27.3.2013 kl. 15:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.9.2011 | 17:31
Stromboli, alveg jafn gott og það er gaman að segja stromboli
Stromboli er pizzadeig, flatt út ferkantað og fyllt með kjöti og osti og svo er því rúllað upp og bakað í ofni. Það er engin sósa inn í rúllunni heldur er hún borin fram með þessu í skál "on the side" Rúllan er skorin í sneiðar og sneiðinni svo dýft í sósuna.
Það sem mér finnst best við mitt stromboli er 5 kornablandan sem ég strái ofan á rúlluna. Hér kemur hugmynd að Stromboli eins og ég gerði það síðast og það smakkaðist rosalega vel.
Stromboli
- Pizzadeig
- Grænpipars-salami (fæst í ostabúðinni) eða annað gott pepperoni
- Steikt nautahakk (steikt með hvítlauk, smátt skornum lauk og pizzakryddi)
- Skinka
- Ferskur mossarella
- Einhver góður brauðostur
- Brie
Álegginu er raðað á pizzadeigið eins og sýnt er á myndinni hér fyrir neðan.
Svo er því rúllað upp, skerið rendur í rúlluna og penslið hana með eggjahvítu. Ef þið viljið stráið þá smá fimmkornablöndu eða sesamfræjum ofan á rúlluna.
Bakið í ofni við 200°c þar til það er fullbakað, um 20 mínútur.
Sósan:
- Hakkaðir tómatar í dós eða tómatsósa í dós
- Laukur
- Hvítlaukur
- Oregano
- Salt og pipar
- Smá sýróp
- pínku balsamik edik
Laukur og hvítlaukur svitaður í olíu. Restin sett í pottinn. Allt soðið saman.
20.9.2011 | 16:05
pho
Þessi stórskemmtilega súpa er ættuð frá Vietnam og kallast Pho. Ef ykkur vantar hugmynd fyrir næsta matarboð þá mæli ég alveg með þessari súpu.
Pho er núðlusúpa, gerð úr uxahalasoði. Þunnt skorið kjötið er svo sett út í
súpuna þegar hún er komin á borðið og eldast þar í heitu soðinu.
Ef þið viljið vita meir um Pho þá er hægt að lesa ítarlega um þessa súpu á wikipedia.
Lykilatriðið er að vera með ferskt kóriander, hrísgrjónanúðlur og gott nautakjöt.
Ég byrjaði á soðinu:
- 1 uxahali
- 4 anis stjörnur
- 1 kanelstöng
- 1 msk fennelfræ
- 6 negulnaglar
- Nokkur kóríander fræ (1 -2 tsk)
Ég byrjaði á að sjóða uxahala í 4 tíma eða svo ásamt fersku engifer, 4 anis stjörnur
1 kanelstöng, 1 msk fennelfræ, 6 negulnaglar og nokkru kóríanderfræ.
Fleytti af fitu og sigtaði svo soðið.
Þetta er svo meðlætið sem þið hafið á borðinu og látið matargesti um að setja sjálfir meðlætið í sinn súpdisk.
- 1 poki af hrísgrjónanúðlum
- Nautakjöt, skorið þunnt. Ég notaði klumpsteik. sirloin myndi virka vel.
- 2 lime, skorið í báta
- 2 chili piprar
- 2 lúkur af baunaspírum
- Vorlaukur, skorinn í strimla
- Ferskt kóríander
- Scriracha sósa
Sjóðið núðlur
Skerið nautið mjög þunnt (svipað og carpacio)
Skerið lime í báta
Saxið niður kóríander
Skerið chili mjög smátt
Skerið vorlauk í strimla
Setjið nautakjöt á bakka, ásamt lime bátum, kóríander, baunum og chili.
Hafið Scriracha sósu á borðinu.
Setjið núðlur í skál og hellið heitu soði yfir. Berið strax fram og bjóðið gestum að setja sitt eigið kjöt og meðlæti í súpuna.
Þar sem hráa kjötið eldast í súpunni er mikilvægt að bera hana fram mjög heita.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 16:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.9.2011 | 08:27
Bruschetta þar sem nostrað er við tómatana.
Til að fá sem besta bragð út úr tómötunum þá er um að gera að taka af þeim hýðið og kjarnahreinsa þá.
Ég gerði baguette með tómötum um daginn með þessari aðferð og það bragðaðist einstaklega vel.
Bruschetta með kirsuberjatómötum og mossarella
- Sneitt baguette
- Kirsuberjatómatar
- Ferskur mossarella
- Ólífuolía
- Smátt sneitt hvítlauksrif
- Salt og pipar
Svona er auðveldast að ná hýðinu af: Skerið kross í tómatana að ofanverðu (þar sem stilkurinn var). Setjið í sjóðandi vatn í 20 sek eða svo. Skellið þeim í ískalt vatn til að stöðva suðuna. Fjarlægið hýðið.
Skerið þá til helminga og kjarnahreinsið en passið að þeir haldi forminu.
Setjið flís af hvítlauk í hvern helming, dreypið yfir með ólífuolíu og bakið í ofni á 100°c í 2 klst.
Hækkið þá ofnhitann í 200°c og takið tómatana út.
Setjið niðurskorið snittubrauð á grind, dreypið yfir það ólífuolíu og inn í ofn í nokkrar mín.
Setjið sneið af ferskum mossarella í hvern tómathelming.
Setjið 1 -2 tómathelminga á hverja baguett snittu og smátt skorna ferska basil.
Saltið og piprið.
Hitið í ofni þar til osturinn bráðnar.
Tómatar, mossarella og basil er svo yndislega góð samsetning!
12.9.2011 | 15:19
Fiskur, samtíningur úr ísskápnum en herramannsmatur engu að síður
Nú var tekið til í ísskápnum og það nýtt sem til var.
Ýsan tekin úr frysti, skellt á bökunarpappír í ofnskúffuna.
Hráefni í fiskrétt
- 4 frosin ýsuflök
- 4 msk Roasted red peppers pestó
- 1/4 gróft baguette
- Nokkur lauf af ferskri basil
- Salt og pipar
Afgangurinn af grófu baguette sem ég keypti í gær var skellt í matvinnsluvél ásamt rest af ferskri basil, salti og pipar. Ég smurði um það bil matskeið af Roasted red peppers pestó á hvert flak og brauðmylsnunni var svo dreift ofan á þessi 4 stk af ýsuflökum.
Það gæti verið gott að rífa smá ferskan parmasen ost og blanda við brauðmylsnuna.
Inn í ofn á 200°c í ca 20 mín.
- Soðnar kartöflur, skornar í fernt ef þær eru mjög stórar
- Nokkrar matskeiðar af feta osti í kryddolíu
Soðnar kartöflur fóru einnig inn í ofn, setti þær í eldfast fat með nokkrum msk af fetaosti í kryddolíu, ásamt slatta af olíunni.
Hráefni í sósu
- 1/4 dós Roasted red peppers pestó
- 1 dl chopped tomatoes í dós
- Smá rjómi, dl eða svo...
Enn var smá eftir af Roasted red peppers pestó, það fór í pott ásamt afgangi af chopped tomatoes úr dós.
Deselíter af rjóma fann ég í ísskápnum og setti með. Hitað upp í potti og þar var komin sósan.
Einfalt og mjög bragðgott.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 16:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.9.2011 | 10:26
Heimildamyndir og bíómyndir um mat
Hér er listi yfir nokkrar heimildamyndir um mat. Þetta eru áhugaverðar myndir, mér finnst ágætt að minna mig á öðru hvoru hvað það er sem ég vil láta ofan í mig og hverju ég vil sleppa.
- Food Inc, mæli með henni.
- Fresh, er á svipuðum nótum og Food Inc.
- A Delicate Balance
- Processed People
- Fast Food nation
- Food stamped
- Super size me
- Dirt! The movie
Ég get sagt ykkur það að Denny´s klikkar ekki.
ENDALAUST AF FRÖNSKUM fyrir 6 dollara...
- Þessi er ekki um mat, en áhugavert málefni: The marketing of madness.
- Hér eru nokkrar bíómyndir movies for food lovers:
- Og svo er það NYC food film festival, fullt af myndum til kynna sér þar.
- Það er hægt að týna sér á þessari síðu: http://foodcurated.com
- Hér er fullt af allskonar huffingtonpost.com
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 10:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.9.2011 | 11:46
Kúrbítsblóm í einhverskonar pönnukökudeigi
Ég var í B.C, Kanada, nú um daginn þar sem uppskeran er í fullum blóma. Það er svo gaman að keyra um sveitina og koma við á sveitamörkuðunum sem eru stútfullir af brakandi fersku grænmeti.
Mér finnst svo gaman að versla mat, sérstaklega svona fallegan mat...
Það er mikið um kúrbít í B.C. Kúrbítsblómin eru einnig mjög góð í eldamennskuna. Það er virkilega gott að velta þeim upp úr pönnukökudeigi og steikja á pönnu.
Ég keypti mér kúrbítsfræ í vor og setti í nægilega stórann pott. Ekki lét neinn kúrbítur sjá sig en blómin dafna vel. Pottinn er ég með út í glugga þar sem hann fær næga sól. Ég mæli alveg með því að prófa kúrbítsfræin til þess eins að fá blómin.
Kúrbítsblóm í einhverskonar pönnukökudeigi
Deigið þarf ekki að vera svo nákvæmt, bara að þykktin sé svipuð og pönnukökudeig.
- 1 egg
- 1 tsk salt
- 1 dl mjólk
- Hveiti eftir þörfum
- 1/2 tsk lyftiduft
- 1 msk matarolía eða smá smjör
Veltið blómunum upp úr deiginu og steikið á pönnu þar til deigið er fulleldað. (eins og pönnukökur)
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 11:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)