Quinoa salat með avacado

Quinoa er voða hollt segja þeir, en mér finnst það líka voða gott. Það má nýta það á ótal vegu. Ég fékk mér einfalt quinoa salat í hádeginu. Salatið var fremur einfalt. En oft er einfaldleikinn bestur þannig að hráefnið sem maður er að nota njóti sín, eins og í mínu tilfelli, avacadoinn...með fullt af salti..mmmm...

 

quinoa salat

 

Quinoa salat með avacado

  • 1 bolli quinoa, soðið
  • 1 dós mixed beans
  • 1 avacado
  • 1/2 dl vorlaukur
  • Smá fetaostur

 

 

rauðbeðudressing

 

Rauðbeðudressing

  • 1 rauðbeða, soðin
  • Hálf dós sýrður rjómi
  • 1-2 hvítlauksrif
  • Smá salt
  • Smá kreist úr hálfri lime
  • 2-3 tsk sýróp

 

Allt maukað saman í blender eða með töfrasprota, smakkið til með lime, sýrópi og salti.

 

quinoa í pitabrauði

Svo mætti setja setja salatið með dressingu í heimagert pítubrauð. 

 

pítubrauð

Pítabrauðið hér er pizzadeig sem ég flatti út og steikti á pönnu á hvorri hlið.

 

 


Andvarp

Ég fékk þessi fínu andaregg í Borgarnesi um daginn.  Þau eru mjög bragðgóð og heldur stærri en hænueggin.

egg

Ég fæ mér oftar en ekki byggklatta með eggi í morgunmat, nema að þessu sinni voru það bláberjaskyr-byggklattar með andareggi.

Það er óþarfi að bæta við sykri í þessa uppskrift þar sem skyrið er yfirleitt vel sykrað hjá "sykursamsölunni".

skyr

Ef þið eigið smá skyr eftir í stóru bláberjaskyrdollunni (eða öðru skyri) þá er upplagt að hræra það upp með vatni eða mjólk og bæta svo út í dolluna einu eggi, 1/2 tsk af matarsóda, 1/2 tsk salt og byggmjöl og hveiti eftir þörf.  (Fer eftir því hvort þið viljið gera þynnri pönnukökur eða þykkari klatta)

Þar sem ég hrærði þetta í dollunni og notaði puttana til að mæla salt og sóda þá var eina uppvaskið ein panna, gaffall og spaði.

bygg

bygg

Ég hef alltaf miklað pönnukökugerð fyrir mér.  Núorðið set ég eitthvað af vökva, eitt egg, smá salt og smá matarsóda eða lyftiduft og hræri það til með hveiti. Og vökvinn er ýmist súrmjólk, ab mjólk, mjólk eða skyr.  Hveitið er byggmjöl, byggflögur, heilhveiti, hveitikím, haframjöl eða bara venjulegt hveiti.  Og alltaf verður úr þessu dýrindis pönnukökur, klattar, lummur eða vöfflur.

 

 

 


Samloka samlokanna

Hér er lítil myndasaga af ótrúlega góðri samloku. Þetta er ein af þessum samlokum sem ég hef gert öðru hvoru í háa herrrans tíð en þetta var í fyrsta sinn sem ég gerði nokkurs konar ciabatta brauð sjálf, og það átti vel við innihald lokunnar.

Hér er sagan á bak við þessa samloku og uppskrift af nautahakki og sósunni: Focaccia samloka með nautahakki

Bakið Ciabatta eða annað gott brauð.

ciabatta

Skerið það til helminga eins og hér er sýnt.

ciabatta

Leggið þau með skurðinn upp.

ciabatta

 Setjið á þau steikt nautahakk, sinnepssósu og ost.

ciabatta

Leggið þau saman, með skurðinn að utanverðu.

ciabatta

Ef ykkur finnst jalapeno eða chile gott, þá mæli ég með svoleiðis, ferskum eða niðursoðnum.

ciabatta með nautahakki

 Grillið á panini grilli þar til osturinn bráðnar.  Ef þið eigið ekki panini grill þá má skella þessu í ofninn

ciabatta með nautahakki

ciabatta með nautahakki

Berið fram með rauðvíni, hvítvíni eða ísköldum bjór. 

ciabatta

Ciabatta brauð er ekki ósvipað pizzadegi en maður þarf að búa til starter, og svo hnoða það vel og vandlega en hafa deigið samt fremur blautt.

Ef þið nennið ekki að dudda of við þetta þá mæli ég með því að:

1. Þið gerið nákvæmlega eins og þegar þið eruð að gera pizzu.

2. Látið deig hefast í klst og skellið því svo á smjörpappír á bökunarplötu án þess að eiga of mikið við það, nema til þess að bæta við smá fræjum, t.d þriggjakorna blöndu eða sesame fræjum ef þið viljið. Ég mæli sko með því!

3. Mótið úr deiginu brauð sem er í laginu eins og ciabatta brauð ( þ.e eins og inniskór, en ciabatta þýðir inniskór (slipper) þar sem brauðið þykir í laginu eins og inniskór). 

4. Bakið í ofni í ca 20 mín við 200°c.

Hér er linkur á uppskrift og video um það hvernig gera má Ciabatta.

 


Rúgmjölsbrauð

Ég er með brauðbökunaræði, hef ekki keypt brauð í háa herrans tíð. Ég baka allt sjálf, rúgbrauðið, flatkökurnar, pizzunar, píturnar, tortillurnar, naanbrauðið, kornbrauðið,  beyglurnar, rúgmjölsbrauð...

 

 rúgmjölsbrauð

 

Rúgmjölsbrauð

 1 bolli er 2,4 dl.

 

  • 1 1/2 msk þurrger
  • 1/2 bolli volgt vatn
  • 1 msk sykur
  • 1/2 bolli púðursykur hrærður upp í 1/2 bolla af vatni
  • 1/2 bolli volgt vatn
  • 1 msk salt
  • 2 msk matarolía
  • 2 bolla rúgmjöl
  • 2-3 bolla hveiti
  • 1/2 bolli sólblómafræ

 

Svo getið þið bætt við hvaða fræjum sem er eða alveg sleppt þeim.

 

  1. Hitið ofn í 200°c.
  2. Látið gerið freyða í 1/2 bolla af volgu vatni ásamt sykri (tekur um 5 mín).
  3. Bætið við 1/2 bolla af volgu vatni út í gerblönduna ásamt púðursykri sem var leystur upp með vatni, salti, olíu og rúðmjöli.
  4. Hrærið vel saman.
  5. Bætið við hveiti smám saman þar til þið eruð komin með gott mjúkt deig og ekki klístrað.
  6. Leyfið deigi að hefast í skál undir rökum klút eða plasti í klst eða þar til það hefur tvöfaldast.
  7. Sláið deigið niður og hnoð'ið saman við það sólblómafræjum.
  8. Skiptið deiginu í tvennt og mótið úr því tvo brauðhleyfa.
  9. Leggið þá á smjörpappír á bökunarplötu undir rökum klút og leyfið því að hefast í hálftíma – klst.
  10. Bakið í 30 mín við 200°c. 

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband