31.8.2009 | 10:52
Meinhollar pönnukökur
Ég er kannski ögn meir að spá í hollu matarræði þessa dagana en venjulega. En er samt á því að það er hollara að borða líka óhollt en að stressa sig yfir öllu sem maður lætur ofan í sig. Stressið fer örugglega verr með þig en einstaka pulsa með öllu, franskar kartöflur eða súkkulaðikaka.
Og það sem er hollt í dag er orðið óhollt á morgun hvort eð er.
Ég get nefnilega orðið algjörlega soðin í heilanum á að lesa um hvað sé hollt og hvað ekki, en róa mig við það að hafa horft á afa og ömmur sem öll urðu hundgömul og fremur heilsuhraust úða í sig hvítu hveiti, hvítum hrísgrjónum, smjörlíki, fiskbollum, kjötfarsi, nautahakki, en að sjálfsögðu helling af haframjöli, soðnum fiski og kartöflum með rammíslensku smjöri líka.
Allt er gott í hófi, er það ekki? (Jah, spurning með krakk, veit það ekki...)
En hér er uppskrift af meinhollum pönnukökum. Og fyrir minn smekk myndi ég fylla þær með osti, grænmeti og hrísgrjónum og sinnepssósu a la crepes. En sýróp og annað sætt virkar ekki síður vel með.
Meinhollar pönnukökur
- 1 bolli hveiti
- 1 bolli haframjöl
- 1 bolli hveitiklíð
- 3 egg
- 3 msk hveitikím
- 3 msk möluð sesamfræ
- 3 msk möluð sólblómafræ
- 1/2 tsk lyftiduft
- 1/2 tsk salt
- 2 msk hunang
- 4 msk matarolía (isio eða önnur)
- 2 bollar súrmjólk (eða ab mjólk)
- vatn
Þurrefnum blandað saman, bleytt í með ab mjólkinni. Blandið smá vatni við þar til deigið er orðið pönnukökuþunnt. (Ég notaði ekki nema 3-4 msk af vatni).
Þetta lítur svolítið út eins og lummudeig. Þannig að ég helti slatta á medium stóra teflon pönnu og dreifði úr því með skeið til að ná þeim fremur þunnum í crepes. En það má að sjálfsögðu líka hafa þær í þykkari kantinum.
26.8.2009 | 10:51
Heilsubitakökur
Mjög góðar, frekar einfalt að búa þær til.
Heilsubitakökur
- 240 g smjör
- 200 g púðursykur eða hrásykur (það má setja aðeins minna)
- 2 stór egg
- 140 g hnetusmjör
- 3/4 dl mjólk
- 100 g haframjöl
- 50 g hveitiklíð
- 1 poki salthnetublanda og rúsínur
- 1 poki af fræjum, sem kallast salatblanda minnir mig
- 200 g rúsínur
- 1/4 tsk engifer
- 1/2 - 1 msk kanill
- 3/4 tsk salt
- 1 tsk lyftiduft
- 150 g heilhveiti eða gróft spelti
NB, hvað fræ og hnetur varðar þá má setja hvað sem er, miðast sirka við 420 gr af hnetum og/eða fræjum.
Hitið ofn í 180°
Hrærið saman smjöri og sykur, bæta eggjum við. Hræra vel. Svo kemur hnetusmjör og mjólk. Að lokum þurrefni, ávextir, hnetur, fræ...
Mótið fremur stórar kökur með tveim matskeiðum á smjörpappír á ofnplötu. Hafið þær frekar jafnstórar svo þær bakist jafnt.
Bakið í 15-20 mín.
Þessar má frysta.
www.soffia.net
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 12:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.8.2009 | 17:31
Agúrkusalat með myntu og kóríander
Agúrkusalat með myntu og kóríander
- 1 agúrka
- Mynta
- Kóríander
- Rauðlaukur
- Sherry edik
- 1 tsk hrásykur
- Rifinn börkur af sítrónu
- Salt og pipar
Agúrkan skorin í 1-2 cm stóra teninga, öllu blandað saman í skál. Það er spurning hvort það mætti setja pinku pinku rauðan tjillí í þetta...