Föstudagsfjör - Kúrbítspönnukökur

Nú er verið að plata mig, er í alvöru kominn föstudagur og vika síðan ég setti inn síðustu færslu, föstudagsgrín...
Nú jæja, ég hef gert fullt af færslum í höfðinu, en ekki gefist tími til að setjast niður og skrifa þær niður.

Tónlistin: Vinkona mín, Janie Price, gaf út skemmtilega plötu fyrir þó nokkru þar sem hún notar eingöngu selló og rödd.  Maður hefði þó haldið að á bak við hana væri heil hljómsveit.  Kíkið á þetta og segið mér, hefði ykkur dottið í hug að þetta væri spilað eingöngu með sellói?

Uppskrift af handahófi:  Pasta með hörpudisk og grillaðri papriku

Vín vikunnar: Ég var að smakka eitt af ódýrasta víninu í ríkinu, Solar de carrion og það smakkaðist rosalega vel, létt og ávaxtaríkt. Ég ætla að láta reyna á þetta vín aftur. 

Ég gerði mjög góðar pönnukökur um daginn.  Ég ætlaði að gera kúrbítsklatta en ákvað svo að gera einhverskonar pönnukökur og nota þær eins og crepes.
Þannig að ég fyllti þær með hrísgrjónum og grænmeti.

kúrbítur

 

Kúrbítsklattar

  • 1 kúrbítur, rifinn með grófari hliðinni á rifjárninu
  • 2 dl hveiti
  • 1 tsk matarsódi
  • 1 tsk salt
  • 1 egg
  • 1-2 dl mjólk
  • 2 msk matarolía


Rífið kúrbítinn, leggið hann í sigti og þerrið hann aðeins með viskastykki eða eldhúspappír. Saltið hann.  Hrærið saman mjólk, hveiti, egg og matarsóda. Bætið kúrbít við. Blandið vel saman.
Eldið á pönnu eins og þið gerið pönnukökur.  Ég nota teflonhúðaða pönnu.
Fyllið svo með einhverju góðu, eins og t.d hrísgrjónum, osti, papriku, vorlauk og sinnepssósu.
Sinnepssósa: Dijon sinnep, smá sætt sinnep og sýróp.  Öllu hrært vel saman.

Svo rúllaði ég upp kökunum, dreifði smá af osti, papriku og vorlauk ofan á og setti í ofninn í nokkrar mín.
Það er mjög gott að blanda einhverju grænmeti við pönnukökudeig. 

Mynd vikunnar:  Ég hef undanfarið skellt mér í göngutúra um hverfið á morgnana, það er alveg frábært.  Ég er ein af þeim sem fer aaaaldrei í göngutúra, og þá síst af öll eldsnemma á morgnana, þar til núna.  Fátt betra en að vakna snemma og fara út í hálftíma göngutúr hér í sveitinni áður en maður byrjar á verkefnum dagsins.

Í gær mætti ég risastórum krumma.

krummi


Föstudagsfjör

Tónlist vikunnar er lag með boxaranum knáa,Oscar de la Hoya, svona í tilefni 17. júní.  Myndbandið er ekki síðra en lagið, if you get what I mean...en ég verð nú að segja að mér finnst skemmtilegra að horfa á hann í hringnum, þó svo að ég elski þessa á hlið á honum líka, hvernig er það ekki hægt!
 
Uppskrift vikunnar er uppskrift síðustu færslu, eða smokkfisksamloka. Og þá líka sósan sem er á henni.  Ég gerði hana aftur um daginn og bar hana þá fram með lambaborgara, ekki var það verra.
 
Vefsíða vikunnar er koolandkreativ.  Það er íslensk kona sem heldur úti þessari síðu og hver einasta færsla er eftir mínu höfði, þannig að hún er sem sagt mjöööög smekkleg :)
 
Vín vikunnar er Celeste, Crianza, Torres, 2007 frá Spáni.
 
Uppskrift af handahófi: Það skemmtilega við uppskriftir af handahófi er að stundum dett ég niður á uppskriftir sem ég hef skrifað fyrir margt löngu og það er gaman að rifja upp það sem ég hef verið að röfla hér áður fyrr. En Svartbaunasúpa varð fyrir valinu að þessu sinni.  Ég er sjúk í svartar baunir og borða þær yfirleitt í morgunmat með over easy eggi. 
 
Mynd vikunnar er af þessum rosalega flotta hundi sem varð á vegi mínum í Salamanca á Spáni.
 
Dog walks into a bar...
 
doggy
 
Gleðilega hátíð!

Smokkfiskssamloka

Ég er ekki mikið fyrir smokkfisk, aðallega því mér finnst ég oft fá seiga bita og það er fátt leiðinlegra en að borða mat sem þarf að tyggja endalaust.

En kærastanum finnst smokkfiskur mjög góður og því ákvað ég í tilefni af afmælisdegi hans að elda eitthvað úr smokkfisk. 

Ég rakst á uppskrift í blaði sem var tileinkað samlokum og þar á meðal var smokkfisks samloka sem hljómaði mjög spennandi.  Ég hafði hana til hliðsjónar þegar ég bjó til þessa, sem var rosalega góð og ekkert ólseigt við smokkfiskinn að þessu sinni.

fennel

Galdurinn hér er ferskt fennel og slatti af fersku basil og kóríander ásamt alvöru mæjónesi, ég nota eiginlega aldrei mæjónes, en það var rosa gott hér og ég mæli með því.

smokkfiskur

Smokkfiskssamloka (fyrir 2)

  • Gott baguette eða annað samlokubrauð (ciabatta t.d)
  • 1/2 bolli mæjónes
  • 1-2 msk Sriracha hot sauce
  • 1 tsk mulinn þurrkaður chili
  • 1 msk matarolía og slatta í viðbót til að djúpsteikja úr
  • 2-3 rif hvítlaukur
  • 1/2 græn paprika
  • 2 smokkfiskar (1 pakki)
  • Bjórdeig (1 dl hveiti og slatta af bjór)
  • 1 góður vöndur af  fersku basil
  • Slatta af fersku kóríander
  • Agúrka, skorin langsum í þunna strimla
  • 1/4 fennel, skorið í þunnar sneiðar langsum
  • 1 lime
  • Salt og pipar

Dágóður hráefnislisti, en ekki svo flókin eldamennska.

sriracha sósa

Sósan:Hrærir saman mæjó, sriracha sósu og chiliflögunum.  Setjið í kæli.

Hitið olíu á pönnu, 1 msk eða svo og mýkið papriku sem þið hafið skorið í þunna strimla og svitið hvítlauk. (Hér mætti setja út í 1 msk af fiskisósu, en ég gerði það reyndar ekki).  Takið pönnuna af hellunni og setjið til hliðar.

Hitið olíu í potti til djúpsteikingar

smokkfiskur

Bjórdeig:Setjið dl af hveiti í skál og hellið saman við bjór þar til þið eruð komin með deig sem svipar til vöffludeigs.  Skerið smokkfiskinn í sneiðar svo úr verða hringir.  Dýfið honum í bjórdeigið og djúpsteikið. Það fer eftir hita olíunnar og svona hversu lengi þið þurfið að steikja fiskinn, en ég miðaði við þar til deigið var gullinbrúnt, eða um eina mínútu kannski ein og hálf.

Takið smokkfiskinn úr olíunni og setjið á disk með eldhúspappír.

grænt

Ég skellti mínu baguette í panini grillið.  Svo smyr ég smá mæjósósu á báða helminga brauðsins, skelli þar ofan á paprikunni, fennel, agúrku, kóríander og basil. Toppa þetta með djúpsteikta smokkfisknum. Lime sker ég í þunna litla bita og dreifi þeim ofan á fiskinn. Restina af lime skar ég í báta og bar fram með samlokunni.  Saltið og piprið eftir smekk.

sriracha sósa

Sriracha sósan er sterk chili sósa, ég veit ekki hvort hún fæst hér, en að væri á helst í asísku búðunum. Mér finnst nú samt eins og ég hafi séð hana einhversstaðar, þetta er svo vinsæl sósa.  Í staðin fyrir þessa sósu væri hægt að nota einhverja chilisósu, en þó ekki súrsæta.  Og jafnvel smá dropa af tabaskó ef þið eruð ekki með sterka chilisósu.

 

 


Morgunverðarbollur

Kostir og gallar þess að búa í sveit.  Þegar manni langar í rauðvín og beljan sem maður keypti smakkast skemmd þá er lítið annað en að gera en að fá sér te eða...

Það væri reyndar hægt að fara yfir á næsta bæ í kurteisisheimsókn, t.d með nýbakað brauð og vonast til að heimilisfólkið bjóði manni upp á eitt glas.  Ég held ég geri það og á meðan getið þið lesið uppskriftina af þessum auðveldu og bragðgóðu morgunverðarbollum.

bollur
Morgunverðarbollur

Fátt betra en nýbakaðar bollur í morgunsárið, jah eða um hádegisbil...

Þessi uppskrift býr til um 16 bollur

 

  • 2/3 bollar volgt vatn
  • 2 bollar mjólk
  • 5-6 msk smjör
  • 2 tsk salt
  • 1/2 bolli sykur
  • 9 bollar hveiti 
  • 5 msk þurrger
  • 1 msk sykur í gerið og 1/2 bolli í mjólkina
  • 3 egg

1 bolli er 2,4 dl

hefing
Lét gerið freyða með volgu vatninu og sykri.  Það tekur um 10 mínútur. Það er mikilvægt að gerið freyði vel.  Þess vegna setjum við sykur út í en alls ekki salt.


Hitaði í potti mjólk, smjör, sykur og salt þar til smjörið bráðnaði.  Kælið þar til blandan verður volg (svo hún drepi ekki gerið).
Setjið mjólkurblöndu og 3 bolla af hveiti í hrærivél og hrærið í 30 sek.  Blandið gerinu saman við.  Svo 3 pískuðum eggjum og að lokum restina af hveitinu, eins mikið og þið þurfið til að úr verið gott brauðdeig, eða um 5-6 bollar.  Hnoðið vel.

Setjið rakan klút yfir skálina og látið hefast í klst.

Hitið ofninn í um 190°c

Hnoðið deigið niður, mótið úr þessu bollur sem þið raðið í eldfast mót.  Leggið rakan klút yfir og leyfið bollunum að hefast í hálftíma.  Bakið í ofni í 15-20 mín.  Mínar bollur lágu þétt saman þannig að þær mynduðu brauð, en þó var auðvelt að slíta þær í sundur.

brauð

Ef ykkur langar í pizzu með brauðkenndum botni, takið þá frá part af deiginu, fletjið út og bakið með vel völdu áleggi þar sem ofninn er heitur og bollurnar að hefast. 


Mexíkósk maíssnitta

Vinkona mín sagði um daginn: " Afhverju eru íslendingar alltaf að bíða eftir sumrinu?" Ég er ein af þessum sem er alltaf að bíða eftir sumrinu og ALLTAF jafn hissa að sjá hagl í júní, ár eftir ár.

En þetta árið, nú er ég hætt að bíða eftir sumrinu, jah, eða frekar hætt að bíða eftir vorinu og undra mig ekkert á því að hafa séð eitthvað sem líkist snjókornum út um gluggann rétt áðan og hafi lent í brjáluðu hagli í gær.
Fyrir utan það að það er að nálgast miður júní og ég er ekki enn búin að setja niður kartöflur.

En á meðan kalt er í veðri iljar maður sér bara í eldhúsinu.

Nágrannarnir færðu mér sneið af ótrúlega góðri og hollri köku. Og fyrst þeir færðu okkur köku þá hljóp ég yfir síðar þann daginn með maís tortillu  því hún var svo rosalega góð.


tortilla
 

Chile con carne á "homemade" maís tortillu með sýrðri sósu og spínati, öðru nafni:

Ekki gleyma "zestinu"

Byrjið á að búa til tortillu, helst með maís hveiti, sem ég hef því miður ekki séð hér heima. Þannig að hveiti virkar í staðinn fyrir maís hveitið.

Tortillur úr maís hveiti

  • Maíshveiti
  • vatn
  • salt

Blandið saman hráefnum og hnoðið þar til degið helst saman, mótið úr því litlar kúlur á við golfbolta, fletjið kúlurnar út með því að setja þær á milli tveggja smjörpappírsblaða og þrýsta ofan á þær með t.d litlu skurðbretti.  Steikið upp úr olíu á pönnu á báðum hliðum.

Þetta er ekki mjög nákvæm uppskrift en ég set yfirleitt bara það magn af hveiti sem ég ætla að nota í skál með salti og bæti við vatni þar til þetta er orðið að deigi sem ég er ánægð með.

Búið til gott Chile con carne eða sin (con þýðir með en sin þýðir án, s.s chile með kjöti eða chile án kjöts sem er líka gott, hafa þá bara góðar baunir. 

 sýrður

Sýrður með zesti

  • Sýrður rjómi
  • Nokkrar sneiðar af niðursoðnum jalapeno
  • Svartar ólífur, sneiddar
  • Lime, safi og rifinn börkur
  • Salt

  • Setjið nokkrar msk af sýrðum rjóma í skál.  Bætið við fínt söxuðum jalapeno sneiðum, ólífum, salti
    lime safa og rífið með fínu rifjárni börk af lime og blandið við.

Leggið spínat blöð ofan á tortilla kökuna, setjið skeið af chile con carne og ofan á það skeið af sýrða rjómanum.  Skreytið með graslauk.


Kanadískt og japanskt fjúsíon = KanPan

Ég var hálf andlaus í eldhúsinu og gat ekki tekið ákvörðun um hvað mig langaði að elda.
Það var til spínat og nautahakk, það voru svona hráefni sem ég ætlaði að nota.
Ég bað kærastann um að nefna tvö lönd og svo myndi ég elda eitthvað út frá því í anda þessara tveggja landa og "fjúsíona" þeim saman í einn rétt.

Ég hélt að það myndi auðvelda mér lífið og var eiginlega búin að sjá fyrir mér að hann segði Ítalía og Grikkland eða eitthvað álíka.  En nei, hann valdi Kanada og Japan.

Þetta var ekki beint að auðvelda mér matreiðsluna, en þetta var skemmtileg áskorun og hugurinn fór á flug.

Í fyrsta lagi, KANADA, hver í ósköpunum er samnefnari kanadískrar eldamennsku. 
Reynslan sem ég hef er pöbbamatur, allt djúpsteikt, hamborgarar, beef dip samlokur sem er roastbeef samloka sem þú dýfir í einhverskonar soð.
Ég ætla að tileinka annarri færslu þeirri uppskrift fljótlega, það er alveg komin tími á Beef dip!


En ég er að miða við því sem ég kynntist þegar ég bjó í litlum indíána og kúreka bæ sem heitir Kamloops. Það eru allt aðrir straumar í t.d Vancouver og ég tala nú ekki um ef þú ferð til Halifax, Kanada er stórt land með mikið af fólki, og íbúarnir eiga ættir sínar að rekja til ýmissa landa, til dæmis víða frá Asíu, Úkraínu og Rússlandi, Íslandi auðvitað, Bretlandi og svo mætti lengi telja.

Maple sýróp er stór útflutningsvara Kanada.  Ég lumaði á flösku og það var ekki spurning að ég ætlaði að nota það í þennan rétt.

Svo má ekki gleyma indíánum, þeim sem hafa búið þarna hvað lengst. Þeirra matarmenning er áhugaverð. En ég ákvað að fara ekki út á þá stefnu að þessu sinni. Heldur tók ég pöbbamatinn á þetta með Vancouver yfirbragði.

JAPAN.  Fyrsta sem mörgum dettur i hug er sushi. Það var það sem ég hugsaði. Ég leit í hillur og skápa og skoðaði hvaða hráefni ég ætti sem tengdust japanskri matargerð.
Ég fann sesame fræ, engifer og soya sósu.

Og án þess að ofhugsa dæmið þá dembdi ég mér í matargerð

KanPan
KanPan ( 4 snittur)

100 g nautahakk
1-2 rif hvítlaukur
1-2 cm bútur engifer
1-2 tsk Soya sósa
Lúka af sesamfræjum
Baguette, 4 sneiðar (ég notaði ítalskt ólífu baguette frá Mosfellsbakarí)
Salt
Pipar
Spínat, 4 lauf
3-4 msk rifinn ostur (ég notaði brauðost því ekkert annað var til)

Sósan
Sýrður rjómi, 2 msk
Maple sýróp, 1 msk
Salt, ca 1-2 tsk

Blandið saman í skál nautahakki, sesamfræjum, soyasósu, rifnum hvítlauk og rifnum engifer.  Ég notaði grófari hliðina á rifjárninu til að rífa hvítlaukinn og engifer.
Saltið og piprið.  Mótið úr þessu 4 litla hamborgara, í stærð sem passar ofan á snittubrauð.

Steikið hamborgarana upp úr smá olíu.

Sósan:  Blandið saman sýrðum, sýrópi og salti, hrærið vel saman.

Hitið baguette sneiðarnar á pönnunni sem þið steiktuð hamborgarana. Setjið ostinn ofan á aðra hliðina
á brauðinu á meðan þið steikið hina til að hann bráðni aðeins.

Setjið spínatlauf ofan á brauðið og svo borgarann.  Dreifið úr smá sósu ofan á borgarann.  Borðið strax á meðan þetta er heitt og gott.

Mér hefði aldrei dottið í hug að setja soya í nautahakk, en það svínvirkar!  Þetta er það skemmtilega við svona áskoranir, maður prófar nýja hluti.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband