9.5.2012 | 10:19
Hrökkbrauð - HEIMAGERT ER BEZT
HEIMAGERT ER BEZT
Næstu færslur verða svolítið litaðar af "Heimagert er bezt". Ég er svolítið að hugsa upphátt í þessum færslum. Ég er mikið búin að vera að elda eins og ég get frá grunni og pæla mikið í hráefnisnotkun og hvaðan hráefnið kemur. Ég hef sniðgengið tilbúin mat í langan tíma, ég kaupi aldrei frosin tilbúin mat og nánast aldrei krukku eða pakkamat.
Síðasta árið hef ég farið skrefinu lengra og gert meir og minna allt sem ég get sjálf, það bætist sífellt við listann hlutir sem ég geri sjálf. Það er seint hægt að segja að það sé sparnaður í því. Því miður er það oftast dýrara að gera hlutina sjálfur frá grunni, nema kannski það sem inniheldur bara hveiti, vatn og egg eins og ýmis brauð, núðlur og pasta.
En það er samt þess virði. Maður gerir sér betur grein fyrir því sem maður lætur ofan í sig, maður er laus við MSG og önnur óæskileg efni. Sykurmagninu stjórnar maður sjálfur! Það er stór plús miðað við hvað allt er orðið dísætt. Fyrir utan það að mér finnst gaman að elda og spá og spekúlera í hráefni.
Ég er þó ekki í einhverju sem í dag telst til heilsufæðis, því ég baka, nota hvítt hveiti og sykur. Þetta er bara venjulegur matur, en hann er heimagerður og þá er maður líka laus við mikinn óþverra, og fyrir vikið borða ég einfaldari mat og mikið af fersku grænmeti.
Stundum getur þetta verið tímafrekt, en ekki alltaf. Mér finnst þeim tíma vel varið sem ég eyði í eldhúsinu í að gera góðan mat fyrir fjölskylduna. (Mér finnst skemmtileg hugmyndin um ítölsku húsmóðurina í litlum falleg bæ sem er alltaf í eldhúsinu með fullt af fersku grænmeti frá markaðinum og nýtíndum sítrónum, svo ilmandi ferskum og tómatsósan hennar með kjötbollunum sú besta í þorpinu. Þið sjáið hana kannski fyrir ykkur).
Hér er listi yfir nokkra hluti sem dettur í hug að svo stöddu sem auðvelt er að gera sjálfur og smakkast svo vel heimagert.
- Pasta
- Asískar núðlur
- Brauð
- Sultur
- Ís
- Kex
- Thai sweet chili sósu
- Tómatsósa
- Granola bar
- Musli
- Kjötfars
- Fiskfars
- Tortilla kökur
- Kínverskar kökur
- Vorrúllur (og deigið)
- Osta
- Smjör
- Jógúrt
- Kæfur
Ég er búin að lesa margar hrökkbrauðsuppskriftir, hlutföllin eru yfirleitt svipuð, sumir nota rúgmjöl, aðrir spelt eða hveiti, yfirleitt er notað haframjöl og svo nokkrir dl af fræjum. Einhverjir nota dl af olíu, aðrir bara matskeið.
Sumir baka í langan tíma við lágan hita, aðrir hærri hita í styttri tíma.
Ég átti ekki rúgmjöl en átti spelt þannig að ég notaði það. Næst ætla ég að nota rúgmjöl og minna af fræjum.
Hrökkbrauð
- 2 dl Spelthveiti (eða venjulegt, eða rúgmjöl)
- 1 dl haframjöl
- 2 dl fræ (5 korna blanda, graskersfræ og sólblómafræ)
- 1 tsk Maldon salt
- 4 msk matarolía
- 1 dl vatn
Öllu hrært saman. Smurt út á bökunarpappír á ofnplötu. Ég flatti þetta bara út með bakinu á skeið en það er líka hægt að leggja bökunarpappír ofan á deigið og fletja út með kökukefli. Potið í þær með gaffli,
Ég hafði mínar frekar þunnar, en ekkert of.
Ég bakaði þær í 30 mín við 170°c. Svo slökkti ég á ofninum en tók þær ekki út strax. Þær voru þó alveg full bakaðar eftir þessar 30 mín.
Uppskrift af sænsku hrökkbrauði sem gaman væri að prófa er:
- 1 1/3 bolli rúgmjöl
- 3/4 tsk sykur
- 1/4 tsk salt
- 4 msk smjör
- 1/3 bolli mjólk
(1 bolli er 2,4 d) Öllu blandað saman í matvinnsluvél, nema mjólk. Svo bætið þið við mjólkinni og fáið gott deig, fletjið það út og skerið í ferninga, stingið á það göt og bakið í ofni við ca 170 í 10 -15 mín.
4.5.2012 | 10:27
Myntu og melónusalat - Kona kærir Nutella, hélt að súkkulaðihnetusmjörið væri hollt
"Ég stóð mig að því um daginn að kaupa Svala af því að tveggja ára dóttir mín vildi fá appelsínu með augu og munn að spila á gítar. "
Það var kona í Bandaríkjunum, en ekki hvar, að lögsækja Nutella. Hún var búin að vera að gefa fjögurra ára dóttur sinni Nutella súkkulaðihnetusmjörið í morgunmat haldandi það eftir að hafa séð auglýsingu frá þeim að þetta væri hollt. Ætli hún fari ekki svo á MCdonalds til að gefa dóttur sinni kjöt með kartöflum og sósu í kvöldmat.
Í alvöru? Og ekki bara það heldur vann hún málið. Ég hef ekki kynnt mér lagalega hlið málsins en skil ekki hvernig henni tókst að vinna mál, þar sem það fer ekki milli mála á innihaldslýsingu krukkunnar að þetta er ekki hollt. Fyrir utan það, síðan hvenær er unnin súkkulaðivara holl hvað þá vara framleidd af sælgætisfyrirtæki (Ferrero)?
Hér fann ég smá klausu um málið ásamt auglýsingunni, sem er með engu móti villandi. Þarna talar móðirin um hvernig hún geti fengið börnin sín til að borða morgunmat, ekkert um að það sé hollur morgunmatur.
En þetta er víst svona í Ameríku. Margt fólk tekur enga ábyrgð á sjálfu sér og lætur mata sig af endalausri markaðsetningu án þess að hugsa.
Þetta er kannski skárra hér á Íslandi en samt til staðar. Ég stóð mig að því um daginn að kaupa Svala af því að tveggja ára dóttir mín vildi fá appelsínu með augu og munn að spila á gítar. Hún hafði í sjálfu sér engan áhuga á innihaldinu en umbúðirnar heilluðu miklu meira en umbúðirnar á Trópí, sem er mun betri vara. Þetta geri ég ekki aftur, að láta fyrirtæki sem selur bölvaða óhollustu í krakkavænum umbúðum stjórna mér, ....hvað þá að láta krakkann stjórna mér svona. :)
Hér er mynd sem útskýrir afhverju mér finnst Trópí betri en Svali, og fyrir utan sykurmagnið í Svala þá eru það öll gerviefnin, sýrur, bragðefni og ég tala nú ekki um aspartam.
Svo eru örugglega einhverjir sem gefa börnunum sínum Skólajógúrt eða Engjaþykkni og halda að það sé hollt.
En næg predikun um hvað sé hollt og hvað ekki. Það verður hver og einn að vera í stíl við sjálfan sig. Á mínu heimili er ekki drukkið gos og ekki keyptur svali eða aðrir gerfiefnadrykkir. Ég kaupi Appelsínutrópí, og meir að segja þennan dýrari sem er framleiddur úr appelsínusafa en ekki þykkni.
Að sjálfsögðu stefni ég að því að kreista minn eigin appelsínusafa úr appelsínunum hjá Frú Laugu, eingöngu... :)
Ef ykkur langar í ferskt salat þá er þetta málið. Það verður vart ferskara. Þrátt fyrir óhefðbundin hráefni þá passar þetta svo vel með ýmsum mat. Meir að segja pizzu.
Myntu og vatnsmelónu salat
- Vatnsmelóna
- Mynta
- Hreinn fetaostur
- Góð ólífuolía
- Salt eftir smekk
Skerið melónu í ferninga, svona litla munnbita, skerið fetaostinn í litla ferninga eða mjög litla bita, hálfgerða mylsnu, mér finnst það mjög gott. Saxið myntuna fremur fínt. Blandið öllu vel saman í skál og dreypið smá ólífuolíu yfir (en bara ef hún er bragðgóð og alvöru). Saltið ef þið viljið og þá bara eftir smekk.
3.5.2012 | 09:49
Leyndardómar kókóskúlunnar
Ein af fáum uppskriftum sem ekki er hægt að nálgast svo auðveldlega eru kókóskúlur, svona eins og maður fær í bakaríinu. Einn sem ég þekki gaf mér upp hið leynilega hráefni kókóskúlunnar sem gera kúlunar að því sem þær eru. Og það útskýrði líka afhverju þetta er ekki á almanna rómi.
Vínabrauðsafgangar og snúðar og annar bakarísmatur er skafinn upp úr gólfinu og hent í degið sagði hann. Eins og ein orðaði það þá, " Kókóskúlur eru sem sagt pulsur bakarísins".
Það er kannski ofsögum sagt að hráefnið sé skafið upp úr gólfinu, ég held að mér hafi verið sagt þetta meira í gríni en hugmyndin var sú að mauka afganga eins og af gömlum vínarbrauðum og öðru sætabrauði sem selst ekki eða er afskurður og nota í kókóskúlur. Er það fjarri lagi? Gæti þetta verið hið leynilega hráefni?
Ég finn hvergi uppskrift sem gæti orðið eitthvað eins og bakarís kókóskúlur. Og forðið mér frá uppskriftinni sem maður notaði sem barn... flórsykur, haframjöl, kakó....
Ég bjó til kókóskúlur um helgina. Þær voru góðar, runnu út eins og kaldar kókóskúlur, ég rétt náði að mynda 3 síðustu.
En þær voru samt ekki eins og það sem mig langar að ná fram. Í alvöru, það vantaði tveggja daga gamla vínarbrauðið.
Góðar kókóskúlur, en ekki þessar einu sönnu...
- 2-3 msk smjör
- 2-3 msk mjólk
- 120 - 200 g 70% súkkulaði, suðusúkkulaði eða annað gott súkkulaði
- 1 msk kakó
- 1 tsk vanilludropar
- 2 msk romm
- 300 g marsípan
- 3-4 dl haframjöl
- 2-3 dl kókós
- 3-4 msk flórsykur
Hitið saman í potti smjör, mjólk, súkkulaði, kakó og vanilludropa þar til súkkulaðið er bráðnað.. Bætið útí í lokin smá rommi.
Setjið marsípan, haframjöl, kókós og flórsykur í matvinnsluvél. Hellið vökvanum saman við og mixið vel saman.
Ég setti aðeins of mikið af mjólk þannig að deigið mitt var mjöööög blautt. Ég vildi ómögulega setja meira haframjöl þannig að ég endaði á að nota deigið svona mjúkt og velti því upp úr kókósmjöli um leið og ég mótaði úr því kúlur. Það virkaði mjög vel.
ÞANNIG AÐ.... ef ykkur finnst deigið ykkar of mjúkt, örvæntið ekki, leyfið því vera þannig að notið kókósmjöl til að rúlla því í kúlur. Þegar þær fara svo í ísskáp þá harðna þær.
Eins og þið sjáið þá er uppskriftin ekki mjög nákvæm, ég gerði bara eitthvað, byrjaði á að velja hráefnið sem ég vildi nota og setti svo smá af þessu og smá af hinu og svo aðeins meir af þessu, þar til ég var komin með eitthvað sem smakkaðist ágætlega. Ég á eflaust eftir að leika mér með þessa uppskrift til að reyna að gera hana enn betri.
Ef einhver lumar á góðri "bakarís" kókóskúluuppskrift þá má hinn sami gjarnan deila henni með okkur hinum : )
Matur og drykkur | Breytt 4.8.2014 kl. 12:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.5.2012 | 10:55
Heimagerðir vanilludropar
Ég fann svo skemmtilega uppskrift að heimagerðum vanilludropum. Eins og svo margt sem maður getur gert sjálfur þá er þetta mjög einfalt. Næsta tækifærisgjöf jafnvel?
Það sem þarf er krukka, vanillustangir og dökkt romm.
Vanilludropar
- Krukka (hrein sultukrukka) sem rúmar 2.5 dl.
- 5 vanillustangir
- 2.5 dl romm
Sótthreinsið krukkurnar með sjóðandi vatni.
Kljúfið vanillustangirnar svo við sjáum vanillubaunirnar, en ekki skafa baunirnar úr. Skerið stangirnar til helminga eða í fernt
Setjið stangirnar í krukkuna. Fyllið krukkuna af rommi, passið að rommið nái upp fyrir vanillustangirnar.
Skrúfið svo lokið vel á.
Hristið krukkuna vel.
Merkið með dagsetningu. Geymist á köldum, dimmum stað í allt að 6 vikur.
Flóknara var það ekki. Þetta verður svo sterkara og því betra með tímanum. Passið að rommið nái ávalt upp fyrir vanillustangirnar (þess vegna jafnvel betra að skera í fernt.) Þegar stangirnar eru farnar að standa upp fyrir þá má fjarlægja þær. (Eða bæta við smá rommi ef þið notið þetta mikið).
Ég fann þessa uppskrift hér, en þetta er mjög skemmtilegt matarblogg með fullt af fínum uppskriftum.
1.5.2012 | 08:57
Það sem ég hef eldað úr bókinni hans Jamie Oliver, Kokkur án klæða
Hér hef ég safnað saman þeim uppskriftum sem ég hef eldað upp úr bókinni Nakti kokkurinn.
Það hef ég gert nú þegar, t.d þegar ég komst að því hvað salvía og beikon er gott kombó og rauðrófu-tagliatelli er virkilega gott. Ég get mælt með þessu öllu, sérstaklega hörpudisknum.
Hörpudiskur með salvíu, beikoni og puy baunum
Kjúklingabaunasúpa með blaðlauk
Rauðrófu-tagliatelle með pestó, kræklingum og hvítvíni
Minn fullkomni steikti kjúklingur
Risotto með pancetta og rósmarín
Daginn eftir gerði ég hádegismat úr afgöngum af Risotto og kjúklingnum og reif kjúklinginn niður og steikti á pönnu með risottóinu, það var svo ljúfengt, eiginlega betra en dinnerinn daginn áður.
Svo er ekki úr vegi að minnast á hvað maður var að gera fyrir ári síðan....
Gleðilegan 1. maí!
1.maí 2011
Matur og drykkur | Breytt 27.3.2013 kl. 15:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)